Dómkirkjan

 

Guðþjónusta kl. 11.00 og æðruleysismessa kl. 20.00 sunnudaginn 18. apríl

Á sunnudaginn kl. 20:00-21:00 munum við koma saman í Dómkirkjunni og eiga saman góða kyrrðarstund. Við fáum til okkar félaga sem deilir reynslu sinni styrk og von, sr. Fritz Már mun leiða stundina, sr. Elínborg mun leiða okkur í bæn og sr. Díana Ósk mun flytja hugleiðingu og Kristján Hrannar mun sjá um tónlistina og leiða okkur í söng.
Við minnum á sóttvarnir, fjarlægðarmörk og grímu.

Laufey Böðvarsdóttir, 16/4 2021

Guðþjónusta sunnudaginn 18. apríl, klukkan 11.00. Séra Elínborg Sturludóttir prédikar, félagar úr Dómkórnum og Kári Þormar. Virðum sóttvarnarreglur í hvívetna.

Laufey Böðvarsdóttir, 15/4 2021

Örpílagrímaganga í dag, 14. apríl klukkan 18.00. Á morgun, fimmtudag er tíðasöngur klukkan 17.30.

Laufey Böðvarsdóttir, 14/4 2021

Páskapredikun biskups frá Dómkirkjunni Prédikun flutt í Dómkirkjunni páskadag 4. apríl 2021. 2. Mós. 15:2-3, 20-21; 1. Kor. 15:19-28; Jóh. 20:1-0. Það er kominn nýr dagur, fyrsti dagur nýrrar viku. Dagurinn sem markar tímamót í sögu mannkyns og hverrar manneskju sem reynir kraft upprisunnar í eigin lífi. Já, atburðir bænadaga og páska eins og þeim er lýst í guðspjöllunum eru ekki aðeins lýsing á því sem eitt sinn gerðist heldur snerta þeir hvern þann sem trúir á Krist krossfestan og upprisinn á þann einstæða hátt að viðkomandi reynir þá á eigin skinni. Það er svo gott að treysta því að í öllum aðstæðum lífsins er von. „Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér“ segir í Davíðssálminum þekkta sem sunginn er við hinar ýmsu athafnir. Hún María frá Magdölum sem guðspjall dagsins greinir frá hafði átt samleið með Jesú eins og lærisveinarnir tólf. Hún hafði reynt mátt Jesú til að lækna, heyrt sögurnar hans, séð hann vinna kraftaverk, orðið vitni að rökræðum hans við fræðimennina. Hún hafði staðið við krossinn hans, séð hann deyja og nú var hún komin að gröfinni til að smyrja líkið ilmjurtum og smyrslum ásamt fleiri konum eins og siður var í landi þeirra. Það er merkilegt að sagan hennar Maríu skuli enn vera sögð en það er vegna þess að reynsla Maríu er reynsla margra. Karlar og konur hafa reynt og sagt frá og enn í dag brenna margir af þrá eftir því að fá að miðla reynslu sinni af samskiptum við hinn upprisna Jesú og biðja þess að aðrir fái notið þeirrar blessunar að trúa. María kom til grafarinnar. Hún var sorgmædd og vonsvikin vegna atburða síðastliðinna daga. Vonir hennar og draumar voru að engu orðin. Hún hafði séð fyrir sé nýja hreyfingu sem leidd væri af meistaranum frá Nasaret. Þar sem hinir síðustu yrðu fyrstir, þar sem réttlæti og miskunnsemi væru í hávegum höfð, þar sem hungraðir yrðu mettir. Frelsið sem felst í trúnni á Jesú Krist var orðið að engu. Hún var sorgmædd og kom ekki auga á að gleðin gæti aftur tekið völd. Þannig leið henni þegar hún kom með vinkonum sínum til grafarinnar þennan fyrsta dag vikunnar. En sagan hennar endar ekki þar. Við gröfina gerðist hið óvænta. Mesta áhyggjuefni hennar var hvernig hún færi að því að taka frá steininn þunga sem lokaði gröfinni svo hún gæti farið inn í hana og smurt lík vinar síns. Þegar þangað var komið var það ekki viðfangsefnið. Steinninn hafði verið tekinn frá gröfinni en þá blasti við annað áhyggjuefni. Gröfin var tóm, hann lá ekki þar. Hún trúði ekki sínum eigin augum. Gat það verið að einhver hafi gerst sekur um grafarstuld? Í örvæntingu sinni hljóp hún til lærisveina sem komu og staðfestu að lík Jesú lá þar ekki. Sá sem fyrr gekk inn í gröfina sá og trúði eins og stendur í guðspjallinu. „Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum“ segir í guðspjallstextanum. Fátt er dýrmætara en fjölskylda og vinir. Líf Maríu frá Magdölum og lærisveinanna breyttist þegar þeir kynntust Jesú frá Nasaret og þannig er það einnig í lífi okkar allra sem höfum fengið að kynnast þeim mikla meistara. Breytingar eru hluti af lífinu. Sumar eru miklar, gerast jafnvel án undanfara á meðan aðrar eru hluti af ferli sem við tökum jafnvel ekki eftir fyrr en við lítum yfir farinn veg og veltum fyrir okkur af hverju, hvernig og hvar þær áttu sér stað. Þegar við stöndum frammi fyrir verkefnum lífsins eigum við val. Við höfum val um það hvernig við vinnum með þau og úr þeim. Hvort við látum erfiðleikana buga okkur eða efla. Hvort við gleðjumst án ótta á góðu stundunum eða óttumst að gleðjast vegna þess að gleðin vari ekki að eilífu. Það er ekkert líf án breytinga. Milli lífs og dauða gerist margt, því lífið er ófyrirsjáanlegt og allskonar. Myndir minna á það sem var og það sem við viljum geyma í minni okkar. Það er engin mynd til af atburðum páskanna nema frásögur guðspjallanna af viðbrögðum fólks við upprisunni. Upprisunni sjálfri er hvergi lýst, en það er sagt frá því sem gerðist áður og því sem gerðist á eftir þegar vinir Jesú vitjuðu grafarinnar. Ein þeirra mynda er dregin upp í frásögu Jóhannesar sem lesin var hér áðan. Sú mynd segir ekki alla söguna heldur aðeins fyrstu viðbrögð sorgmæddrar vonsvikinnar vinkonu sem fékk að reyna gleði upprisunnar og hlýju páskasólarinnar, þar sem myrkrið hopaði fyrir ljósinu, óttinn fyrir hugrekkinu. Þar sem örvæntingin breyttist í von og dauðinn í líf. Það var mikil breyting og það er mikil breyting að ganga í átt að ljósinu sem gefur okkur tækifæri til að breyta okkur og breyta heiminum. Dauðinn dó, en lífið lifir. Inn í veröldina kemur ný vídd, vídd eilífðarinnar sem hér eftir verður hluti af því lífi sem lifað er í trú á hinn upprisna Jesú. Fyrir einu ári vorum við saman komin hér í Dómkirkjunni í Reykjavík, örfá vegna samkomutakmarkana. Á þessu eina ári höfum við lært heilmikið. Fólk á þessari jörð hefur tekist á við ógnina sem heimsfaraldrinum fylgir. Hér á landi hefur faraldurinn verið viðráðanlegur hvað heilbrigðiskerfið varðar en svo er því miður ekki víða um lönd. Í sumum löndum hafa heilbrigðisstarfsfólk ekki getað sinnt öllum sökum plássleysis og mannfæðar. Nú hyllir undir að við séum að sleppa fyrir horn. Við þurfum að sýna þolinmæði og þrautseigju enn um sinn. Hugsa um hag heildarinnar um leið og við hugum að eigin sóttvörnum. Margir hafa gengið í gegnum sorg og missi. Í athyglisverðu viðtali við Björn Hjálmarsson segir hann að sorgin sé líkamlegur og sálrænn sársauki sem stafar af missi. Hann talar um að félagslegt sársaukaskyn verji samheldni í mannlegum samfélögum. Viðtalið í heild var gefandi og innihaldsríkt þar sem hinn syrgjandi faðir og læknir orðaði úrvinnslu sorgar sinnar í ljósi reynslunnar og fræðanna. Lífsreynslan er harður skóli oft á tíðum og sennilega er mesti lærdómurinn af því að reyna og sjá. Að reyna á eigin skinni bæði gott og slæmt, mótar viðhorf og breytir því. Þess vegna er það sennilega sem einn fær ei annan skilið nema reyna sjálfur. Reynsla Maríu frá Magdölum barst út um heiminn. Það var ekki sagt frá henni í fjölmiðlum en samt varð hún heimsfrétt. Hún barst frá kynslóð til kynslóðar með krafti og friði. Hún breytti viðhorfi og kom með nýja vídd inn í mannheiminn, þar sem kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi eru í hávegum höfð. María sagði frá reynslu sinni, sagði frá upprisunni, sagði frá tómu gröfinni og samtali sínu við hinn upprisna Drottinn. Sagði frá þeim einstaka kærleika Guðs sem birtist í upprisu Krists frá dauðum. Kærleika sem aldrei bregst, hvorki í lífi né í dauða. Þessi kærleikskraftur upprisunnar gerir alla hluti nýja. Hann er þess megnugur að gefa okkur samfélag við skapara okkar, sjálf okkur og aðra. Upprisukrafturinn heyr stríð við synd og dauða og allt sem ógnar lífinu. Við höfum val um það að vera snortin af þessum krafti og láta hann vísa okkur veg á lífsins leið. María Magdalena getur orðið okkur fyrirmynd því hún kennir okkur með reynslu sinni og viðbrögðum að hinn upprisni frelsari er með okkur þegar við göngum í gegnum dimman dal, þegar við grátum í sársauka okkar. Hann er með okkur í þessum brotna heimi sem við reynum að skilja og stjórna. Við komum ekki alltaf auga á það og finnst við vera ein og yfirgefin. Með augum trúarinnar sjáum við og með eyrum trúarinnar heyrum við það sem okkur annars gæti yfirsést. Þannig er hægt að koma auga á birtu páskasólarinnar og gleðjast eins og þau sem lifa og starfa milli hárra fjalla þegar sólin sést á ný eftir skammdegismyrkrið. Það er sérstök gleðitilfinning sem þá grípur sem enginn skilur nema reyna. Það er hlutverk kristins fólks að miðla trú sinni til samferðafólksins. Trúin er fjársjóður sem mölur og ryð fá ekki grandað. Upprisan er fjársjóður, ekki til að halda aðeins fyrir okkur hvert og eitt heldur gjöf fyrir heiminn allan. Upprisa Krists er von heimsins alls. „Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna“ segir Páll postuli í pistli dagsins. Og í lexíu dagsins segir: „Drottinn er styrkur minn og lofsöngur hann kom mér til hjálpar.“ Á páskum fögnum við lífinu því Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Gleðilega hátíð lífs og ljóss. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Laufey Böðvarsdóttir, 7/4 2021

Örpílagrímaganga í dag, 7. apríl klukkan 18.00. Á morgun er tíðasöngur kl. 17.30. Engin guðþjónusta verður á sunnudaginn vegna sóttvarnareglna.

Laufey Böðvarsdóttir, 7/4 2021

https://www.ruv.is/sjonvarp/dagskra/ruv2/2021-04-04/5173675

Laufey Böðvarsdóttir, 4/4 2021

Kæru vinir. Í samræmi við reglugerð sóttvarnaryfirvalda um takmörkun á samkomum, sem tók gildi 25. mars 2021 og gildir til og með 15. apríl 2021, liggur allt helgihald í Dómkirkjunni niðri á meðan. Á páskadag verður hátíðamessu klukkan 11.00 útvarpað, en því miður verður kirkjan lokuð kirkjugestum.

Laufey Böðvarsdóttir, 3/4 2021

Hugvekja á tímum Covid. Í meira en ár hefur líf okkar flestra snúist um kófið sem herjar á alla heimsbyggðina. Fréttatímar hafa verið undirlagðir af ýmiss konar fréttum tengdum pestinni, líf okkar hefur farið verulega úr skorðum og við höfum þurft að tileinka okkur nýjar venjur og aðferðir til að takast á við hversdagslífið. Mörg okkar hafa unnið heima, önnur hafa orðið að mæta til vinnu með stórauknum sóttvörnum og svo eru öll hin sem hafa misst atvinnu sína. Fyrir þau hafa umliðnir mánuðir verið „erfiðir tímar og atvinnuþref“. Þessi pest er svo sannarlega prófraun á þrautseigju þessarar kynslóðar. Ef litið er um öxl til sögu þjóðarinnar má margt af henni læra. Ég hygg að við þekkjum flest sögur úr okkar eigin fjölskyldu sem fjalla um seiglu og aðlögunarhæfileika genginna kynslóða. Sennilega skiljum við betur nú en áður hvað það merkir að „þreyja“ og „þrauka“ , sýna „æðruleysi“ og „yfirvegun“. Í kristnum trúararfi er líka að finna djúpa visku sem byggir á reynslu kynslóðanna. Þegar á móti blæs er gagnlegt að lesa Davíðssálma og spádómsbók Jesaja sem og guðspjöllin, því þar er að finna tjáningu á margs konar tilfinningum og heilnæman vonarboðskap og það er einmitt það sem við þurfum á að halda um þessar mundir. Von sem styður okkur í því að takast á við dagana, einn í einu. Hjá Jesaja segir: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ (Jes. 41.10) Þegar ég gekk Tjarnargötuna á leið til vinnu á dögunum rak ég augun í krókusa sem hafði tekist að þrýsta sér upp úr moldinni og knúparnir áttu ekki langt í það að opnast! Þessir fjólubláu vorboðar glöddu mig og mér fannst þetta táknrænt fyrirheiti um það að þetta væri nú allt að koma og dagarnir yrðu sífellt bjartari, fólkið glaðara og fleiri fengju bólusetningu. Sannleikurinn er sá að við höfum til svo margs að hlakka! Gleðilega páska. Séra Elínborg Sturludóttir, dómkirkjuprestur.

IMG_9421

Laufey Böðvarsdóttir, 3/4 2021

Nafnið Dymbilvika mun dregið af trékólfinum sem settur var í klukkurnar til að hljómur þeirra verði mattur og dimmur. Skírdagur og föstudagurinn langi kallast Bænadagarnir. Á skírdag er þess minnst að Jesús stofnaði heilaga kvöldmáltíð. Föstudagurinn langi er dagurinn er Jesús var krossfestur. Sá dagur er ólíkur öllum dögum í kristninni, sorgardagur og djúprar kyrrðar. Í helgihaldi dymbilviku og páska fáum við tækifæri að ganga inn á sögusvið guðspjallanna. En það er ekki bara innlifun í liðna atburði. Á páskum í Jerúsalem árið 33 urðu atburðir sem valda vatnaskilum í gjörvallri sögu manns og heims, vatnaskil í sögu tímans. Í helgri iðkun kirkjunnar verða þessir atburðir samtíð. Í helgihaldinu er minning þeirra gjörð, við verðum þátttakendur í þeim í trú. Við rifjum upp þessa atburði í birtu páskasólar, upprisutrúar. Páskar, upprisuhátíð frelsarans, er elst og mest allra kristinna hátíða, því upprisan er kjarni kristinnar trúar. Hinn krossfesti reis af gröf og lifir. Hann mun hafa síðasta orðið, hann hefur sigrað dauðann.

Laufey Böðvarsdóttir, 31/3 2021

Það viðrar vel til örpílagrímagöngu í dag, 31.mars. Sjáumst klukkan 18.00 í Dómkirkjunni. Séra Elínborg Sturludóttir leiðir gönguna.

Laufey Böðvarsdóttir, 31/3 2021

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Skráning í fermingarfræðslu

Sunnudagur

- 11.00 Messa

-

Dagskrá ...