Dómkirkjan

 

Hugvekja séra Elínborgar Sturludóttur, dómkirkjuprests.

„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.

Að fæðast hefur sinn tíma
og að deyja hefur sinn tíma.

Að gráta hefur sinn tíma
og að hlæja hefur sinn tíma.

Að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma.

Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“

(Préd. 3:1nn.)

Hver á ekki bernskuminningar um langa og leiðinlega daga þegar ekkert gerðist og ekkert virtist hægt að gera?
Kannski var veðrið skelfilegt og ekki hundi út sigandi.
Kannski var enginn vinur til staðar sem vildi „vera memm“.
Ef til vill voru þetta helgidagar þegar ekki þótti viðeigandi að fara í önnur hús og maður vældi í foreldrum sínum: „Mér leiðist! “

Ég átti ömmu sem var afskaplega barngóð og góður uppalandi og stundum dvaldi hún hjá okkur í nokkurn tíma. Hún vorkenndi aldrei börnum sem leiddist heldur sagði bara við þau: „Finndu þér þá eitthvað skemmtilegt að gera!“

Og það var nú ekki alltaf stutt leið að því í þá daga þegar barnaefni var aðeins í sjónvarpinu á sunnudögum og ekkert Netflix sem hægt var að liggja yfir. Það voru heldur ekki snjallsímar, tölvur eða internet.

Þegar manni leiddist, neyddist maður nefnilega til að finna upp á einhverju skemmtilegu sjálfur.

Og sannleikurinn er sá að það var oft einmitt í mestu leiðindunum sem bestu hugmyndirnar að frábærum ævintýrum kviknuðu.

Það er nefnilega sennilega soldið hollt og gott að láta sér leiðast, a.m.k stundum!

Mér hefur verið hugsað til þessara æskudaga að undanförnu þegar leiðinn yfir hversdagslífinu í Covid hefur sótt að mér.

Í nútímanum er nefnilega svo auðvelt að hafa ofan af fyrir sjálfum sér. Fara frá einni afþreyingunni til annarrar. Staldra aldrei við. Hugsa ekki neitt. Vera með dagskrána svo stífa að hversdagslífið er endalaus hlaup frá einum stað til annars og þegar vinnudeginum lýkur þá taka skyldur heimilislífsins við og tómstundirnar sem eru svo stór hluti af lífsgæðum nútímamannsins. Enda þykir það sjálfsögð krafa millistéttarfólks nú á dögum, í okkar heimshluta, að eiga sér innihaldsríkar tómstundir sem veita okkur jákvæðar upplifanir.

„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma“ segir hjá Prédikaranum.

Sá lífstaktur sem er orðinn okkur flestum tamur, að hafa meira fyrir stafni en dagbókin okkar rúmar og dagurinn leyfir, er kannski ekki svo ýkja hollur þegar grannt er skoðað. Margir hafa þjáðst af kulnun og sífellt fleiri hafa þurft að fara í veikindaleyfi til að læra nýjar aðferðir til að lifa.

Aðstæður þessa árs með heimsfaraldri, hefur neytt okkur öll til að taka lífshætti okkar til gagngerrar endurskoðunar. Fæstum okkar finnst það auðvelt. En við höfum fengið tækifæri til að máta okkur við nýjan lífstakt þar sem meginþorrinn hefur meira tóm til hægara lífs, meiri ígrundunar og minni asa.

Mér hefur leiðst töluvert að undanförnu. En þá hef ég hugsað til ömmu minnar sem sagði mér að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera. En ég hef ekki einungis gert það; ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna ég hafi svona takmarkaða þolinmæði fyrir þessum tilbreytingarlausu dögum.

Ég er að minnsta kosti ákveðin í því að treysta því að, alveg eins og í barnæsku minni, fái ég nú frábærar hugmyndir að skemmtilegum ævintýrum.
Í öllum þessum leiðindum hefur a.m.k. skapast tóm til að ígrunda lífið og tilveruna, tilgang og merkingu sem asi nútímalífsins (fyrir Covid) leyfir okkur svo sjaldan. Og ég hef nú þegar komist að því í þessu kófi að það mikilvægasta af öllu, sem ég á, eru tengslin við þau sem ég elska.

Og af því dreg ég aðeins eina ályktun: Voru þessi leiðindi þá ekki þess virði fyrst ég komst að svo viturlegri niðurstöðu?

Laufey Böðvarsdóttir, 28/10 2020

Hugvekja sr. Sveins Valgeirssonar sunnudaginn 25. október

Í guðspjalli dagsins segir Jesús frá konungi er bauð til brúðkaups sonar síns, og vildi eðlilega gera þá veislu sem veglegasta. Hér fór það samt svo að enginn vildi koma, og sumir gengu jafnvel svo langt að drepa þá er færðu þeim boðskortin. Það er aldeilis gaman að halda veislu fyrir svona lýð.

Merking þessarar dæmisögu þarf ekki að vera svo mjög hulin skilningi okkar. Konungurinn er vitaskuld Guð og sonur hans er Kristur, sem í frumkristni, og reyndar einnig á seinni tímum, hefur verið kallaður Brúðgumi kirkjunnar

Hægur vandi er að líta svo á að þeir sem boðið var, eigi að tákna hina útvöldu gyðingaþjóðin, eða a.m.k. þann hluti hennar er ekki tók við Jesú Kristi sem syni Guðs. Því fari þjónarnir út fyrir þennan hring og safni öðrum, þ.e.a.s. á meðal heiðnu þjóðanna svokölluðu, sem áður voru ekki taldir verðugir, til að koma í veisluna.

Af hverju bregðast boðsgestirnir við eins og þeir gera? Ef við gefum okkur að hinir upphaflegu boðsgestir eigi að tákna lýð þann, er Guð hafði útvalið, Ísraelsþjóðina, þá má sjá í sögu þeirra ýmis konar átök milli þeirra innbyrðis, og oft fór það nú svo að þeir grýttu spámenn sína, og smánuðu.

En þrátt fyrir allar þrætur þeirra og stælur, nú eða þá skammsýni, þá liggur annar þáttur að baki því að boðsgestirnir höfnuðu veisluboðinu og er langt í frá bundinn við sögu Ísraelsþjóðarinnar. Það sem einkennir viðbrögðin er vanþakklætið. Vanþakklæti yfir þeirri gjöf sem lífið er, vanþakklæti sem gengur svo langt að telja sig yfir það hafinn að þiggja náð Guðs.

Við höfum þegið lífið að gjöf frá skaparanum, með öllum þeim gæðum sem því fylgir, og auk þess styrk hans í þrenginum og fyrirheitum um eilífa dýrð að þessu jarðlífi loknu. Hver erum við að forsmá þessar gjafir? Hver erum við að telja okkur vera yfir þær hafnar og þurfa ekkert á Guði að halda? Í raun ætti það að vera svo sjálfsagt að kannast við skapara sinn og þakka honum, að maður ætti eiginlega ekki að taka eftir því, frekar en maður fylgist með andardrættinum, eða hjartaslögum í brjóstinu. Hugsanlega teljum við að þannig sé það einmitt með þátttöku okkar í daglegu lífi, að maður upplifi þakklætið til skaparans í því að viðhalda hans góðu sköpun og starfa meðan dagur er? Hver veit. En hins vegar er það hluti af eðli mannsins að hann er hæfur til andsvars því maðurinn er skapaður til samfélags við Guð, og getur tjáð sig við hann umfram aðra sköpun. Þetta er blessun mannsins, en leggur honum um leið ákveðna ábyrgð á herðar.
Maðurinn þarf að taka ábyrgð á því sem hann velur, að svo miklu leyti sem hann frjáls að þessu vali og er á hans valdi. Boðsgestirnir í brúðkaupsveislunni höfðu val og þeir völdu að hafna Guði, jafnvel þó þeir teldu sig kannski vera að velja hann, svo undarlega sem það nú hljómar.

Kófið; rétt eins og svo margt í lífinu, snýst um val, og það val lýtur að samkennd; að við veljum orðum okkar og athöfnun farveg sem verða náunga okkar og samfélagi til uppþyggingar, þjónustu og farsældar en miðist ekki fyrst og fremst við að hámarka eigin ánægju og eftirlæti.
Zoon politikon – félagsvera – var einkunnin sem Aristóteles gaf mannskepnunni. Minnug þess er gott að miða gerðir sínar við það að samfélag manna sé betra, vegna þess að við hvert og eitt erum hluti af því, en ekki verra; að við dældum ekki samfélag okkar með ábyrgðarlausri hegðun. Það annað sem ekki er á okkar valdi, felum við Guði allsvaldanda og biðjum að hann muni vel fyrir sjá.
Mynd frá Dómkirkjan.

Laufey Böðvarsdóttir, 26/10 2020

Hugvekja sr. Sveins Valgeirssonar sóknarprests Dómkirkjunnar.

„Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verð ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum lofsöngvum og andlegum ljóðum…

Dagarnir eru vondir.

Það skrifar Páll postuli úr fangelsinu til safnaðarins í Efesus en hann bendir áheyrendum sínum að dvelja ekki fyrst og fremst við það, heldur hvernig eigi að bregðast við því.

Að sumu leyti gæti hann verið að skrifa inn í samtíma okkar; hefur veruskömmin ekki einmitt neytt okkur til að gefa vandlegan gaum að því hvernig við breytum? Mér liggur við að segja að ráðleggingar Páls séu á líku róli og þríeykisins góða; farið varlega. Sýnið aðgát. Vertu klár, ekki kjáni.
Er ekki einmitt tíminn til að sýna varkárni og skynsamlegt hyggjuvit, þegar tímarnir eru krefjandi og erfiðir? Tímar sem krefjast þolgæðis en til að blífa í því er svo mikilvægt að rækta með sér viðhorf og hugarfar sem rífur ekki niður heldur byggir upp og styrkir; hugarfar vonarinnar og æðruleysisins, – og samstöðu.

Laugardaginn 24. október, fyrsta vetrardag, verður Dómkirkjan lýst með bláu ljósi til að fagna því að 75 ár eru liðin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Vegna ástandsins í Kófinu verður lítið um opinber hátíðahöld en sú leið valin að vekja athygli á SÞ með þessum hætti. Fjöldamörgum opinberum byggingum öðrum hér á landi verður líkt varið, sem og í Evrópu allri, að þær baðast bláu ljósi. Hugsjón Sameinuðu þjóðanna hverfist um samstöðu og frið og á sannarlega samleið með kirkjunni í þeim efnum; Ástand heimsins nú undirstrikar sem aldrei fyrr mikilvægi þessarar hugsjónar.

Eru dagarnir eru vondir?

Já, vafalítið, en misvondir, eftir því hvern þú spyrð: En sem betur fer höfum við tækin og tólin til að gera dagana betri. Það skulum við líka gera.

Guð gefi okkur öllum þolgæði, æðruleysi og von.

Laufey Böðvarsdóttir, 25/10 2020

Hugleiðing frá séra Elínborgu Sturludóttur, dómkirkjupresti.

Verið þakklát.Látið orð Krists búa með ykkur í allri sinni auðlegð og speki. Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum.“ (Kol. 3:15 ff.)

Þeir hafa verið fallegir dagarnir að undanförnu. Sólskin og blíða og falleg fjallasýn. Það er svo undursamlegt hvað fallegt veður getur glatt mann og hvað sólskin getur lífgað mann upp.

Um þessar mundir þakka ég fyrir hvern þann dag sem ég og fólkið mitt erum heil heilsu.

Ég hygg að margir séu í sömu sporum; að finna fyrir djúpu þakklæti fyrir líf og heilsu og fallega daga.

Nú færist vetur nær og í gær þurftu margir hér á höfuðborgarsvæðinu að skafa af bílrúðunum þegar þeir fóru út í morgunsárið. Það minnir okkur á að nú fer skammdegið í hönd og það krefur okkur um enn meiri bjartsýni, jákvæðni og þolgæði.
Sjálf hef ég í hyggju að fara í þann leik við kvöldmatarborðið með fjölskyldunni minni næstu vikurnar, að telja upp eitthvað jákvætt sem mætti mér þann daginn og leggja mig fram um að koma auga á þakkarefni í hversdagslífi okkar.

Ég hygg að við þráum það flest að fá meiri rútínu í líf okkar, að við öðlumst á ný meira frelsi til athafna og aukið samfélag við vini og vandamenn.

Ég hlakka til þess að fara aftur í leikfimi á morgnana, hitta vinkonur í saumó og fara út úr bænum til að heimsækja vini og vandamenn á landsbyggðinni.
Nú ætla ég að leyfa mér að hlakka til þess, þegar allt þetta má aftur og þá ætla ég að vera enn þakklátari fyrir það að njóta svo hversdagslegs munaðar.

Ég verð að viðurkenna að ég hafði aldrei leitt hugann að því fyrr, hvað hið einfalda og hversdagslega á stóran hlut í lífsgleði minni.
Og ég sé að það er gott!

Laufey Böðvarsdóttir, 21/10 2020

Amen.is býður þér að taka þátt í og upplifa fjölbreytt kristið bænahald. Hvort sem þú vilt hvíla í náð og kyrrð, vera með í tíðasöng eða biðja með börnunum þínum eða barnabörnum, þá getur Amen.is hjálpað.

Laufey Böðvarsdóttir, 10/10 2020

Kæru vinir. Á meðan Kófið er hvað þykkast höldum við að okkur höndunum hvað varðar hefðbundið safnaðarstarf og er það í samræmi við tilmæli kirkjustjórnarinnar. Að sjálfsögðu leggjum við okkar af mörkum til að koma veirunni fyrir kattarnef. Opinbert helgihald fellur niður í október í Dómkirkjunni en við munum senda frá okkur hugleiðingar og helgistundir á netinu líkt og í fyrsta-kófi. Við munum heldir ekki láta af fyrirbænum og taka prestar og kirkjuvörður við fyrirbænarefnum. Varðandi sálgæsluna minnum á síma prestanna: Sveinn 862-5467, sveinn@domkirkjan.is og Elínborg: 847-1475, elinborg@domkirkjan.is. Dómkirkjan verður opin alla virka daga frá 10-14 og og á messutíma á sunndögum, þótt ekki verði um skiplagt helgihald að ræða þá. Þetta ástand reynir auðvitað á og skiptir miklu að við sameinumst í því að styðja hvert annað til að komast í gegnum þetta saman. Viðhorfið skiptir máli; þrátt fyrir þrengingarnar, þá borgar sig að ergja sig ekki yfir því sem við ráðum ekki við heldur þakka fyrir það sem við þó getum gert. Þakklæti fer betur með mann en gremja. Höfum í huga orð postulans í Rómverjabréfinu: „Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði, þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki.” Hittumst heil þegar kófinu léttir.

Laufey Böðvarsdóttir, 9/10 2020

Kæru vinir, bæna og kyrrðarstundin verður í hádeginu á morgun, þriðjudag. Gætum vel að sóttvörnum!

Laufey Böðvarsdóttir, 5/10 2020

Guðþjónusta sunnudaginn 4. október klukkan 11.00. Prestur séra Sveinn Valgeirsson, Kári Þormar dómorganisti og Dómkórinn. Pétur Nói Stefánsson leikur for-og eftirspil á orgelið.

Laufey Böðvarsdóttir, 29/9 2020

Bæna-og kyrrðarstund í hádeginu, þriðjudag.

Laufey Böðvarsdóttir, 29/9 2020

Sunnudaginn 27. september klukkan 11.00. Prestsvígsla. Biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir vígir, Kári Þormar dómorganisti og Dómkórinn. Mag. theol. Guðrún Eggerts Þórudóttir mun vígjast til þjónustu í Ólafsfjarðarprestakalli. Vígsluvottar: Séra Elínborg Sturludóttir, sem þjónar fyrir altari séra Sigurður Grétar Helgason ,séra Guðrún Karls Helgudóttir, séra Arnfríður Guðmundsdóttir.

Laufey Böðvarsdóttir, 23/9 2020

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Skráning í fermingarfræðslu

Mánudagur

Annan mánudag í mánuði kl. 18.00, samvera hjá Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar yfir vetrartímann

Dagskrá ...