Dómkirkjan

 

Hugvekja á tímum Covid. Í meira en ár hefur líf okkar flestra snúist um kófið sem herjar á alla heimsbyggðina. Fréttatímar hafa verið undirlagðir af ýmiss konar fréttum tengdum pestinni, líf okkar hefur farið verulega úr skorðum og við höfum þurft að tileinka okkur nýjar venjur og aðferðir til að takast á við hversdagslífið. Mörg okkar hafa unnið heima, önnur hafa orðið að mæta til vinnu með stórauknum sóttvörnum og svo eru öll hin sem hafa misst atvinnu sína. Fyrir þau hafa umliðnir mánuðir verið „erfiðir tímar og atvinnuþref“. Þessi pest er svo sannarlega prófraun á þrautseigju þessarar kynslóðar. Ef litið er um öxl til sögu þjóðarinnar má margt af henni læra. Ég hygg að við þekkjum flest sögur úr okkar eigin fjölskyldu sem fjalla um seiglu og aðlögunarhæfileika genginna kynslóða. Sennilega skiljum við betur nú en áður hvað það merkir að „þreyja“ og „þrauka“ , sýna „æðruleysi“ og „yfirvegun“. Í kristnum trúararfi er líka að finna djúpa visku sem byggir á reynslu kynslóðanna. Þegar á móti blæs er gagnlegt að lesa Davíðssálma og spádómsbók Jesaja sem og guðspjöllin, því þar er að finna tjáningu á margs konar tilfinningum og heilnæman vonarboðskap og það er einmitt það sem við þurfum á að halda um þessar mundir. Von sem styður okkur í því að takast á við dagana, einn í einu. Hjá Jesaja segir: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ (Jes. 41.10) Þegar ég gekk Tjarnargötuna á leið til vinnu á dögunum rak ég augun í krókusa sem hafði tekist að þrýsta sér upp úr moldinni og knúparnir áttu ekki langt í það að opnast! Þessir fjólubláu vorboðar glöddu mig og mér fannst þetta táknrænt fyrirheiti um það að þetta væri nú allt að koma og dagarnir yrðu sífellt bjartari, fólkið glaðara og fleiri fengju bólusetningu. Sannleikurinn er sá að við höfum til svo margs að hlakka! Gleðilega páska. Séra Elínborg Sturludóttir, dómkirkjuprestur.

IMG_9421

Laufey Böðvarsdóttir, 3/4 2021 kl. 11.10

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS