Dómkirkjan

 

Gleðilega aðventu kæru vinir!

Kæru vinir!
Inn á fésbókarsíðu Dómkirkjunnar er slóð á aðventuhátíð í Dómkirkjunni
Aðventustund í Dómkirkjunni Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands flytur hugvekju. Félagar úr Dómkórnum syngja, Kári Þormar dómorganisti, dómkirkjuprestarnir séra Sveinn Valgeirsson og séra Elínborg Sturludóttir.
Njótið góðra orða, hugleiðingar, bæna og undurfallegar tónlistar, óskum ykkur öllum gleðiríkrar aðventu.

Laufey Böðvarsdóttir, 29/11 2020

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. „Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina” er frasi sem margri vannvitsbrekkunni er kenndur; stundum í hálfgerðu háði en engu að síður er sannleikskorn í þessu. Hvernig búum við okkur undir það sem framundan er? Vissulega má sjá vísbendingar um framvindu atburða en svo er það alltaf þessi óvissi faktor sem enginn sér fyrir. Hið óvænta. Ég held að eins leiðin til að vera undirbúinn fyrir hinn stundum óútreiknanlega morgundag hljóti að felast í því að vera í góðu formi í dag. Það merkir ekkert endilega að vera með allt á hreinu; líkast til er það aldrei svo. En að sú reynsla sem við höfum aflað okkur og tileinkað nýtist til góðs og það allt leiði til þess að að maður geti tekið bestu mögulegu ákvörðun þegar á reynir. Að maður hafi vit og kjark til að breyta því sem maður getur breytt. Allt umfram það er í hendi Guðs. Hver er olían á lampanum mínum? Hvað er það sem drífur mig framúr á morgnana og hvað gefur mér orku til þess að halda á? Fyrir hinn trúaða er það fullvissan um kærleiksríkan Guð sem láti sér annt um okkur. Þar er orkan sem hjálpar okkar að starfa að því sem við brennum fyrir að gera.

Laufey Böðvarsdóttir, 16/11 2020

@

google-site-verification=DBvZB-PtiihXQd5Kjw6vPCx7ExT6THEhDdwS5hlUj8Y

Laufey Böðvarsdóttir, 15/11 2020

í gær var upptaka á guðþjónustunni sem verður útvarpað á sunnudaginn. Það verður gott að hlusta á sunnudaginn klukkan 11.00. Hátíðarguðþjónusta í tilefni af kirkjudegi Dómkirkjunnar og til minningar um Albert Thorvaldsen myndhöggvara, en 19. nóvember eru 250 ár eru síðan hann fæddist. Í Dómkirkjunni er varðveittur skírnarfontur sá, er Thorvaldsen gaf „ættjörð sinni í ræktar skyni. ” Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta-og menningarmálaráðherra flytur hugvekju Séra Elínborg Sturludóttir prédikar og séra Sveinn Valgeirsson þjónar. Thor Aspelund les ritningarlestrana. Kári Þormar dómorganisti leikur á orgelið og Kammerkór Dómkirkjunnar syngur undir stjórn Kára Þormar

124769336_10158894579250396_2053217734032716600_n-1

Laufey Böðvarsdóttir, 13/11 2020

En nú segir Drottinn svo sá sem skóp þig, Jakob, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. (Jes. 43.) Mig minnir að Linus, frekar en Snoopy segi við Kalla Bjarna: “Hugsaðu þér að einn daginn deyjum við.” Kalli svarar: “Já, en hugsaðu; alla hina dagana deyjum við ekki.” Það er svo háð viðhorfi okkar hvernig við komumst í gegnum erfiðleikana. Vissulega er það svo að í skugga pestar og einangrunar er enginn vandi að fyllast svartsýni og bölmóði. Það að standa frammi fyrir ógnvænlegum aðstæðum fær mann til að líta svo á tilveran sé brothætt og fallvölt. En við höfum líka val um að einbeita okkur að því sem byggir upp og gleður; og þiggja lífsþróttinn úr hendi hans sem hefur jú skapað okkur og myndað. Lífið verður fyrst raunverulegt þegar það hættir að vera sjálfsagt. Lífið er gjöf. Frá Guði, og ber að skoðast í því ljósi. Og ef við veltum ferðalokunum fyrir okkur þá hygg ég að óhætt sé að treysta Guði fyrir því að hafa eitthvað það í hyggju fyrir okkur sem er langt umfram það sem við óskum eða væntum. Því getum við lagt líf okkar og hvaðeina í hans hendur. Ef útí það er farið; Það er bara ekki enn komið að því að hyggja að slíku; Í dag lifum við. Sem betur fer lítur út fyrir að pestin sé í rénun; takmarkið framundan. Mig langar samt að rifja upp hvatningu sem ég fékk á leikjanámskeiðinu Íþróttir og Útilíf á Kársnesinu sumarið 1975. Ég var í kapphlaupi og hægði á mér nokkru framan við markið en leiðbeinandinn kallaði þá: „Keyra í gegn! Þú getur hvílt þig á eftir.” Ekki svo sem frumlegt en samt mikilvægt að festa sér í minni. Höldum einbeitingunni og klárum dæmið. Munum enn fremur hvers við eum. Við erum Hans sem skapaði okkur og myndaði og vill velferð okkar sem mesta. Guð vaki yfir þér með blessun sinni. Séra Sveinn Valgeirsson.

Laufey Böðvarsdóttir, 8/11 2020

„Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga og tunglið ekki birta þín um nætur heldur verður Drottinn þér eilíft ljós og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.“ (Jes 60.19) Það hefur verið mikið um minningardaga að undanförnu. Síðastliðinn laugardag mátti sjá mörg börn uppáklædd í grímubúninga og fyrir utan mörg hús loguðu kerti í útskornum graskerjum. „Halloween“ hefur fest sig í sessi hér á landi. En þessi dagur hefur hins vegar löngum haft sérstöðu í okkar sögu því 31. okt. er aðfangadagur allraheilagramessu og í okkar arfleifð er dagurinn kallaður „siðbótardagurinn“ vegna þess að þann dag árið 1517 festi dr. Martin Lúther upp 95 greinar sínar á dyrnar á Hallarkirkjunni í Wittenberg. Óhætt er að segja að við þennan viðburð hafi saga Evrópu og kirkjunnar tekið nýja stefnu. Greinunum var fyrst og fremst beint gegn aflátssölunni og páfavaldinu í Róm og byggðu á rannsóknum Lúthers á ritningunni. „Við höfum ekki hugmynd um allt það sem við getum þakkað Lúther,“ sagði stórskáldið Goethe eitt sinn. Enda þótt siðbótin yrði ekki sársaukalaus er engu að síður óhætt að segja að í henni hafi verið falin frelsun hugsunarinnar, bylting hvað varðaði menntun og gagnrýna hugsun. Það var engin hending að Lúther skyldi hengja greinarnar upp þennan tiltekna dag, því hann vissi að fjölmenni yrði við messu daginn eftir á allraheilagramessu, sem sett var til minningar um alla helga menn, sem með lífi sínu, trú og dauða gerðu miklu meira en venjulegt má teljast. Á allrasálnamessu sem er 2. nóv. var hins vegar messa sungin í minningu látinna. Sá siður hefur fest sig í sessi hérlendis að við minnumst látinna ástvina fyrsta sunnudag í nóvember. Með því heiðrum við minningu þeirra sem voru okkur dýrmæt og mótuðu okkur eða við syrgjum enn og söknum. Á þann veg veitum við sorginni heilbrigðan farveg og horfumst í augu við hana og viðurkennum hana sem hluta af veruleika okkar og tilveru. En af hverju er mönnum svona tíðrætt um sorg og missi nú á dögum? Hvað er orðið um það að bera harm sinn í hljóði? Þykir það ekkert fínt lengur? Sannleikurinn er sá, að reynslan hefur kennt okkur að það er ekki farsæl leið til að takast á við sorg. Það er viðtekið nú á dögum að sorg sem ekki fær ekki heilbrigðan farveg getur leitt til annarra andlegra og líkamlegra kvilla síðar meir á ævinni. Það er ekki langt síðan að það þótti óviðeigandi að minnast á látið fólk við aðstandendur. Ekki er ólíklegt að það hafi verið gert af misskildum kærleika og umhyggju fyrir hinum syrgjandi. Ótti margra við viðbrögð syrgjandi fólks er e.t.v. ótti okkar sjálfra við það hvernig við höndlum viðbrögð syrgjenda og það sorglega sem gerðist. Syrgjendur hafa lýst reynslu af því að kunningjar þeirra hafi ekki þóst sjá þá úti á götu eða í búðinni og aðrir hafa látið eins og ekkert hafi í skorist. Kona sem ég þekkti og missti tvö kornabörn fyrir meira en hálfri öld sagði mér, að eftir að börnin hennar voru borin til grafar vogaði enginn sér að minnast á þau við hana og hún tók það mjög nærri sér. Ekkert okkar kemst áfallalaust í gegnum lífið. Hugmyndir okkar um dauðann litast auðvitað af reynslu okkar af lífinu. Og það hvernig við tölum um dauðann er auðvitað myndmál um hluti sem við skiljum ekki til fulls. Engu að síður þá leyfir trúin okkur að treysta því að þegar lífinu lýkur taki við annar veruleiki í eilífð Guðs þar sem Drottinn verður okkur „eilíft ljós“ og „dýrðarljómi“. Þess vegna er okkur óhætt að vitja um leiði ástvina, tendra ljós og minnast þeirra í þökk og gleði. Þess vegna er okkur óhætt að vitja um leiði ástvina, tendra ljós og minnast þeirra í þökk og gleði og við megum líka minnast þess sem var ófullkomið og brotið í fari þeirra. Vegna þess að enda þótt fólk sé dáið þá voru þau líka bara í lifanda lífi ófullkomnar manneskjur eins og ég og þú. Og með því að leyfa þeim að lifa áfram í minningunum, með kostum og göllum eiga allar manneskjurnar sem við höfum elskað, áfram stað í hjarta okkar.

Laufey Böðvarsdóttir, 3/11 2020

Á allraheilagramessu Ágústínus kirkjufaðir hefur líkt lífshlaupinu sem ferðalaginu heim, – hann er nú ekki sá fyrsti sem það gerir né sá síðasti – og í því greinir hann á milli þess sem maður notar á ferðalaginu til þess að komast áfram og svo þess sem maðurinn á að njóta (la. uti og frui). Í hans huga er það ljóst að allt sem mætir manninum á að nota þannig að það komi þeim heilu og höldnu heim ef svo má að orði komast; að Guð sé það sem njóta á en allt annað eru í raun nytjahlutir manninum til aukins þroska og ekki eigi að gefa þeim vægi umfram það. Við þurfum ekki að vera Ágústinusi algerlega sammála; margt ber við á leið okkar sem er sannarlega dýrmætt og þakkarvert; góðar minningar, gefandi samskipti; sem birtir að kærleikur Guðs til þín skilar sér í samskiptum þínum við annað fólk. En takmarkið er hins vegar augljóst og það er að komast aftur til upphafsins, heim til Guðs; og fá að hvíla í honum. Við erum reyndar á ferðalagi. Ferðalagi sem getur samt alveg tekið á, því lífið er sjaldnast auðvelt. Í það minnsta hef ég aldrei hitt þá manneskju sem ekki hefur einhvern tíma þurft að takast á við erfiðleika og sorg; sannarlega í mismiklum mæli, en enginn er frír. Og auðvitað er ekkert gaman að kljást við erfiðleika og vanlíðan. sér; en það getur verið þroskandi Kannski var þeim heldur aldrei ætlað annað en að vera okkur vörður á þroskabrautinni eins og Ágústínus talaði um? Í Guðspjalli allraheilagramessu flytur Jesús sín frægu sæluboð; og tökum eftir því að hann segir: Sælir. Ekki hamingjusamir, heppnir eða flottir og farsælir. Og sjáum hverjir það eru sem hann telur upp: Ekki eru það auðmenn, gáfufólk, eða álitsgjafar; Ekki framafólk eða stórmenni þeirrar aldar. Nei, Hann hittir fólkið, mannhafið. Er með nýjan boðskap fyrir það: Hann segir þau sæl sem samfélagið taldi aum og vesæl og ekki hamingjusöm eða að meika það. Hin ofsóttu, fátæku í anda, hunguðu, og sorgbitnu. Það er nefnilega engin hamingja að standa frammi fyrir dauða ástvina, eða eigin vanmætti og takmörkunum; mistökum; synd og sekt eða hvaða þeim vandræðum og ógæfu sem kann að verða hlutskipti okkar. Samt geta þau verið gerð sæl sem í slíkum aðstæðum lenda. En er þá hægt að vera sæll án þess að vera hamingjusamur er eðlilegt að spurt sé: Vissulega skarast þetta tvennt en -já raunar er það hægt já. Jesús segir þau sæl vegna þess að þau eiga von, von umfram hverfula og fallvalta hamingju. Vonin er kannski það sem við þurfum helst á að halda í þessari tilveru. Og sérstaklega Vonina um að yfirstíga takmarkanirnar og allt sem spillir og þessi von er bundin við Jesú Krist. Hann getur veitt okkur þessa von; hann getur talað eins og hann gerir vegna þess að hann er orð Guðs holdi klætt kominn til þess að gera vilja Guðs. Dagarnir 1. og 2. nóv. eru allraheilagra og allrasálnamessa, sem er sérstakir minningardagar látinna ástvina. Þá hugsum við sérstaklega til allra látinna ástvina. Sem hlýtur að rifja upp fyrir okkur að við berum hin látnu í kirkju til hinst kveðju ; ekki eingöngu af því að það sé viðeigandi umgjörð um kveðjuna, heldur til að mæta Orðinu sem kemur frá Guði og kallar okkur til sín. Við mætum orðinu sem talar um sælu á allt allt öðrum forsendum en við eigum að venjast; þar mætum við orðinu sem gerir okkur sæl. Við mætum Jesú Kristi – Orði Guðs. Þetta Orð gerir okkur sæl – einnig í okkar mestu óhamingju – og gefur okkur von andspænis vonleysi, trú andspænis efa og kærleika andspænis dauðanum; því vonin er bundin við þetta orð. Á tíma pestarinnar er okkur sérstaklega mikilvægt að hafa þetta í huga; Hann, sem von okkar er bundin, bregst okkur ekki.

Laufey Böðvarsdóttir, 1/11 2020

Hugvekja séra Elínborgar Sturludóttur, dómkirkjuprests.

„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.

Að fæðast hefur sinn tíma
og að deyja hefur sinn tíma.

Að gráta hefur sinn tíma
og að hlæja hefur sinn tíma.

Að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma.

Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“

(Préd. 3:1nn.)

Hver á ekki bernskuminningar um langa og leiðinlega daga þegar ekkert gerðist og ekkert virtist hægt að gera?
Kannski var veðrið skelfilegt og ekki hundi út sigandi.
Kannski var enginn vinur til staðar sem vildi „vera memm“.
Ef til vill voru þetta helgidagar þegar ekki þótti viðeigandi að fara í önnur hús og maður vældi í foreldrum sínum: „Mér leiðist! “

Ég átti ömmu sem var afskaplega barngóð og góður uppalandi og stundum dvaldi hún hjá okkur í nokkurn tíma. Hún vorkenndi aldrei börnum sem leiddist heldur sagði bara við þau: „Finndu þér þá eitthvað skemmtilegt að gera!“

Og það var nú ekki alltaf stutt leið að því í þá daga þegar barnaefni var aðeins í sjónvarpinu á sunnudögum og ekkert Netflix sem hægt var að liggja yfir. Það voru heldur ekki snjallsímar, tölvur eða internet.

Þegar manni leiddist, neyddist maður nefnilega til að finna upp á einhverju skemmtilegu sjálfur.

Og sannleikurinn er sá að það var oft einmitt í mestu leiðindunum sem bestu hugmyndirnar að frábærum ævintýrum kviknuðu.

Það er nefnilega sennilega soldið hollt og gott að láta sér leiðast, a.m.k stundum!

Mér hefur verið hugsað til þessara æskudaga að undanförnu þegar leiðinn yfir hversdagslífinu í Covid hefur sótt að mér.

Í nútímanum er nefnilega svo auðvelt að hafa ofan af fyrir sjálfum sér. Fara frá einni afþreyingunni til annarrar. Staldra aldrei við. Hugsa ekki neitt. Vera með dagskrána svo stífa að hversdagslífið er endalaus hlaup frá einum stað til annars og þegar vinnudeginum lýkur þá taka skyldur heimilislífsins við og tómstundirnar sem eru svo stór hluti af lífsgæðum nútímamannsins. Enda þykir það sjálfsögð krafa millistéttarfólks nú á dögum, í okkar heimshluta, að eiga sér innihaldsríkar tómstundir sem veita okkur jákvæðar upplifanir.

„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma“ segir hjá Prédikaranum.

Sá lífstaktur sem er orðinn okkur flestum tamur, að hafa meira fyrir stafni en dagbókin okkar rúmar og dagurinn leyfir, er kannski ekki svo ýkja hollur þegar grannt er skoðað. Margir hafa þjáðst af kulnun og sífellt fleiri hafa þurft að fara í veikindaleyfi til að læra nýjar aðferðir til að lifa.

Aðstæður þessa árs með heimsfaraldri, hefur neytt okkur öll til að taka lífshætti okkar til gagngerrar endurskoðunar. Fæstum okkar finnst það auðvelt. En við höfum fengið tækifæri til að máta okkur við nýjan lífstakt þar sem meginþorrinn hefur meira tóm til hægara lífs, meiri ígrundunar og minni asa.

Mér hefur leiðst töluvert að undanförnu. En þá hef ég hugsað til ömmu minnar sem sagði mér að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera. En ég hef ekki einungis gert það; ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna ég hafi svona takmarkaða þolinmæði fyrir þessum tilbreytingarlausu dögum.

Ég er að minnsta kosti ákveðin í því að treysta því að, alveg eins og í barnæsku minni, fái ég nú frábærar hugmyndir að skemmtilegum ævintýrum.
Í öllum þessum leiðindum hefur a.m.k. skapast tóm til að ígrunda lífið og tilveruna, tilgang og merkingu sem asi nútímalífsins (fyrir Covid) leyfir okkur svo sjaldan. Og ég hef nú þegar komist að því í þessu kófi að það mikilvægasta af öllu, sem ég á, eru tengslin við þau sem ég elska.

Og af því dreg ég aðeins eina ályktun: Voru þessi leiðindi þá ekki þess virði fyrst ég komst að svo viturlegri niðurstöðu?

Laufey Böðvarsdóttir, 28/10 2020

Hugvekja sr. Sveins Valgeirssonar sunnudaginn 25. október

Í guðspjalli dagsins segir Jesús frá konungi er bauð til brúðkaups sonar síns, og vildi eðlilega gera þá veislu sem veglegasta. Hér fór það samt svo að enginn vildi koma, og sumir gengu jafnvel svo langt að drepa þá er færðu þeim boðskortin. Það er aldeilis gaman að halda veislu fyrir svona lýð.

Merking þessarar dæmisögu þarf ekki að vera svo mjög hulin skilningi okkar. Konungurinn er vitaskuld Guð og sonur hans er Kristur, sem í frumkristni, og reyndar einnig á seinni tímum, hefur verið kallaður Brúðgumi kirkjunnar

Hægur vandi er að líta svo á að þeir sem boðið var, eigi að tákna hina útvöldu gyðingaþjóðin, eða a.m.k. þann hluti hennar er ekki tók við Jesú Kristi sem syni Guðs. Því fari þjónarnir út fyrir þennan hring og safni öðrum, þ.e.a.s. á meðal heiðnu þjóðanna svokölluðu, sem áður voru ekki taldir verðugir, til að koma í veisluna.

Af hverju bregðast boðsgestirnir við eins og þeir gera? Ef við gefum okkur að hinir upphaflegu boðsgestir eigi að tákna lýð þann, er Guð hafði útvalið, Ísraelsþjóðina, þá má sjá í sögu þeirra ýmis konar átök milli þeirra innbyrðis, og oft fór það nú svo að þeir grýttu spámenn sína, og smánuðu.

En þrátt fyrir allar þrætur þeirra og stælur, nú eða þá skammsýni, þá liggur annar þáttur að baki því að boðsgestirnir höfnuðu veisluboðinu og er langt í frá bundinn við sögu Ísraelsþjóðarinnar. Það sem einkennir viðbrögðin er vanþakklætið. Vanþakklæti yfir þeirri gjöf sem lífið er, vanþakklæti sem gengur svo langt að telja sig yfir það hafinn að þiggja náð Guðs.

Við höfum þegið lífið að gjöf frá skaparanum, með öllum þeim gæðum sem því fylgir, og auk þess styrk hans í þrenginum og fyrirheitum um eilífa dýrð að þessu jarðlífi loknu. Hver erum við að forsmá þessar gjafir? Hver erum við að telja okkur vera yfir þær hafnar og þurfa ekkert á Guði að halda? Í raun ætti það að vera svo sjálfsagt að kannast við skapara sinn og þakka honum, að maður ætti eiginlega ekki að taka eftir því, frekar en maður fylgist með andardrættinum, eða hjartaslögum í brjóstinu. Hugsanlega teljum við að þannig sé það einmitt með þátttöku okkar í daglegu lífi, að maður upplifi þakklætið til skaparans í því að viðhalda hans góðu sköpun og starfa meðan dagur er? Hver veit. En hins vegar er það hluti af eðli mannsins að hann er hæfur til andsvars því maðurinn er skapaður til samfélags við Guð, og getur tjáð sig við hann umfram aðra sköpun. Þetta er blessun mannsins, en leggur honum um leið ákveðna ábyrgð á herðar.
Maðurinn þarf að taka ábyrgð á því sem hann velur, að svo miklu leyti sem hann frjáls að þessu vali og er á hans valdi. Boðsgestirnir í brúðkaupsveislunni höfðu val og þeir völdu að hafna Guði, jafnvel þó þeir teldu sig kannski vera að velja hann, svo undarlega sem það nú hljómar.

Kófið; rétt eins og svo margt í lífinu, snýst um val, og það val lýtur að samkennd; að við veljum orðum okkar og athöfnun farveg sem verða náunga okkar og samfélagi til uppþyggingar, þjónustu og farsældar en miðist ekki fyrst og fremst við að hámarka eigin ánægju og eftirlæti.
Zoon politikon – félagsvera – var einkunnin sem Aristóteles gaf mannskepnunni. Minnug þess er gott að miða gerðir sínar við það að samfélag manna sé betra, vegna þess að við hvert og eitt erum hluti af því, en ekki verra; að við dældum ekki samfélag okkar með ábyrgðarlausri hegðun. Það annað sem ekki er á okkar valdi, felum við Guði allsvaldanda og biðjum að hann muni vel fyrir sjá.
Mynd frá Dómkirkjan.

Laufey Böðvarsdóttir, 26/10 2020

Hugvekja sr. Sveins Valgeirssonar sóknarprests Dómkirkjunnar.

„Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verð ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum lofsöngvum og andlegum ljóðum…

Dagarnir eru vondir.

Það skrifar Páll postuli úr fangelsinu til safnaðarins í Efesus en hann bendir áheyrendum sínum að dvelja ekki fyrst og fremst við það, heldur hvernig eigi að bregðast við því.

Að sumu leyti gæti hann verið að skrifa inn í samtíma okkar; hefur veruskömmin ekki einmitt neytt okkur til að gefa vandlegan gaum að því hvernig við breytum? Mér liggur við að segja að ráðleggingar Páls séu á líku róli og þríeykisins góða; farið varlega. Sýnið aðgát. Vertu klár, ekki kjáni.
Er ekki einmitt tíminn til að sýna varkárni og skynsamlegt hyggjuvit, þegar tímarnir eru krefjandi og erfiðir? Tímar sem krefjast þolgæðis en til að blífa í því er svo mikilvægt að rækta með sér viðhorf og hugarfar sem rífur ekki niður heldur byggir upp og styrkir; hugarfar vonarinnar og æðruleysisins, – og samstöðu.

Laugardaginn 24. október, fyrsta vetrardag, verður Dómkirkjan lýst með bláu ljósi til að fagna því að 75 ár eru liðin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Vegna ástandsins í Kófinu verður lítið um opinber hátíðahöld en sú leið valin að vekja athygli á SÞ með þessum hætti. Fjöldamörgum opinberum byggingum öðrum hér á landi verður líkt varið, sem og í Evrópu allri, að þær baðast bláu ljósi. Hugsjón Sameinuðu þjóðanna hverfist um samstöðu og frið og á sannarlega samleið með kirkjunni í þeim efnum; Ástand heimsins nú undirstrikar sem aldrei fyrr mikilvægi þessarar hugsjónar.

Eru dagarnir eru vondir?

Já, vafalítið, en misvondir, eftir því hvern þú spyrð: En sem betur fer höfum við tækin og tólin til að gera dagana betri. Það skulum við líka gera.

Guð gefi okkur öllum þolgæði, æðruleysi og von.

Laufey Böðvarsdóttir, 25/10 2020

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Trú.is

Mánudagur

Annan mánudag í mánuði kl. 17:30, samvera hjá Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar yfir vetrartímann

Dagskrá ...