Dómkirkjan

 

Janus Guðlaugssson lektor er gestur okkar í Opna húsinu á fimmtudaginn. Erindi hans er um heilsutengdar forvarnir. Doktorsritgerð Janusar bar heitið „Fjölþætt heilsurækt: Leið að farsælli öldrun.“ Tilhlökkun að hlusta og huga að heilsunni. Opna húsið Lækjargötu 14a er frá klukkan 13.00-14.30. Heimabakað með kaffinu. Verið velkomin og takið með ykkur gesti.

Laufey Böðvarsdóttir, 29/3 2023

Á Pálmasunnudag er fermingarbarnamessa kl. 11.00, séra Sveinn Valgeirsson og séra Elínborg Sturludóttir, Guðmundur Sigurðsson organisti og Dómkórinn.

Þriðjudaginn 28. mars er tíðasöngur kl. 9.15 með séra Sveini Valgeirssyni. Bæna-og kyrrðarstund í hádeginu og léttur hádegisverður eftir stundina. Bach tónleikar Ólafs Elíassonar kl. 20.00- 20.30. Miðvikudaginn 29. mars er tíðasöngur kl. 9.15 og örganga með séra Elínborgu kluklan 18.00. Fimmtudaginn 30. mars tíðasöngur kl. 9. 15 og kl. 17.00. Gestur okkar í Opna húsinu er Janus Guðlaugsson lektor, hann mun fjalla um heilsueflingu hjá 60 ára og eldri. Heimabakað með kaffinu. Opna húsið er frá 13.00-14.30 Lækjargötu 14a. Sjáumst í safnaðarstarfinu!

Laufey Böðvarsdóttir, 26/3 2023

Sunnudaginn 26. mars Messa kl. 11.00 Séra Sveinn Valgeirsson, Guðmundur Sigurðsson organisti og Dómkórinn. Verið hjartanlega velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 25/3 2023

Séra Elínborg í Opna húsinu í dag frá 13.00-14.30. Hlökkum til að sjá ykkur!

Séra Elínborg rifjar upp margt skemmtilegt úr Hólminum, en hún ólst upp í Stykkishólmni. Heimabakað með kaffinu og góður félagsskapur. Sjáumst í Safnaðarheimilinu, Lækjargötu 14a.

Laufey Böðvarsdóttir, 23/3 2023

Útgáfutónleikar Kira Kira & Eldingarnar

Útgáfutónleikar fyrir tónlistina úr stuttmyndinni “Eldingar eins og við!”

Dómkirkjan við Austurvöll 23. mars kl 20:00-21:00.
Dagskrá:
20:00-20:11 • “ELDINGAR EINS OG VIÐ,” STUTTMYND.
20:11-20:30 • ALEXANDRA KJELD, KONTRABASSA SÒLÒ.
20:30-20:45 • ÞÒRDÌS ÞÙFA, UPPLESTUR
20:30-21:00 • KIRA KIRA & ELDINGARNAR
Á tónleikunum kemur fram ásamt Kiru, tónlistarfólkið sem birtist í myndinni, þ.e. þau sem eru á landinu eða ekki að spila samtímis annars staðar:
Alexandra Kjeld á kontrabassa, Hermigervill á þeremìn og Thoracius Apotite á kjöltustál, Eiríkur Orri Ólafsson á trompet og flügel horn, Jara Karlsdóttir á hörpu ásamt kærustuparinu Teiti Magnússyni og Gefjunni.
Kristófer Rodriguez Svönuson spilar á slagverk á plötunni og við vonum líka að hann nái að sigra tíma og rúm og tromma með.
Útgáfan er gerð af því tilefni að myndin er komin í dreifingu hjá kvikmyndadreifingarfyrirtækinu 7 Palms Entertainment, en hún var annars frumsýnd á Kvikmyndahátíð í Reykjavík.
Platan er komin ùt hjá Reykjavik Record Shop á 10″ vìnyl og á öllum helstu streymisveitum.
Miðaverð er: 2500 kr

Laufey Böðvarsdóttir, 23/3 2023

Vikan framundan í safnaðarstarfinu

Þriðjudagur 21. mars
Tíðasöngur kl. 9. 15
Bæna-og kyrrðarstund kl. 12.00 og létt máltíð eftir stundina. Gott að koma í kirkjuna og eiga notalega stund frá amstri hverdagsins.
Bach tónleikar Ólafs Elíassonar kl. 20.-20.30.
Miðvikudagur 22. mars
Tíðasöngur kl. 9. 15 með séra Sveini.
Örganga með séra Elínborgu kl. 18.00. hefst með stuttri hugvekju í kirkjunni.
Fimmtudagur 23. mars
Tíðasöngur kl. 9. 15.
Opna húsið er í safnaðarheimilinu kl. 13.00-14.30.
Séra Elínborg Sturludóttir. Minningar frá Stykkishólmi. Heimabakað með kaffinu og gott samfélag.
Tíðasöngur kl. 17.00 með séra Sveini.
Sunnudaginn 25. mars
Messa kl. 11.00 Séra Sveinn Valgeirsson, Guðmundur Sigurðsson organisti og Dómkórinn.
Verið hjartanlega velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 19/3 2023

Séra Jakob Ágúst okkar er gestur í opna húsinu 16. mars kl. 13.00

Tíðasöngur kl. 9. 15.

Opna húsið hefst í Dómkirkjunni kl. 13.00-14.30.

Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson segir frá myndun þorps á Bíldudal. Heimabakað með kaffinu og gott samfélag.
Tíðasöngur kl. 17.00 með séra Sveini.
Á sunnudaginn er messa kl.11.00, séra Sveinn, Guðmundur organisti og Dómkórinn. Verið hjartanlega velkomin til messu!

Laufey Böðvarsdóttir, 15/3 2023

Prédikun séra Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar sunnudaginn 12. mars

Ritningartextar þessa 3. sunnudags í föstu eru ekki fyrir teprur; hlutirnir eru sagðir beint út án þess að draga úr nokkru. Lexían segir reyndar eina allra þekktustu biblíusöguna, söguna af Davíð og Golíat sem stendur svo djúpum rótum í vestrænni menningu að líklega skilja flestir hvað átt er við þegar talað er um að þar takist á Davíð og Golíat; ég hef margoft heyrt þessa myndlíkingu notaða í lýsingum á íþróttaleikjum. Og þeir sem á hlusta skilja hvað er verið að meina, jafnvel þótt þeir þekki ekki söguna.

En allir sem sótt hafa sunnudagaskóla þekkja Davíð og Golíat; enda er sagan af glímu þeirra tveggja ótrúlega skemmtileg og spennandi og litlu krílin eiga ekki í neinum erfiðleikum með að samsama sig litla Davíð þar sem hann stendur frammi fyrir risanum Golíat, þau sem sjálf horfa á heiminn í kringum sig og sjá ekkert nema risa hvert sem litið er. Og auðvitað fagna allir þegar Davíð, sem er bara lítill drengur, fellir risann. Og svo er sungið úr barnasálmabókinni: Hann Davíð var lítill drengur, á Drottins vegum hann gekk. Hann fór til að fella risann og fimm litla steina hann fékk o.s.frv. Síðan er því lýst hvernig Davíð setur einn lítinn stein í slönguvaðinn sem snýst hring eftir hring og svo hljómar upp í loftið hentist hann og hæfði þennan risamann. Við sjáum strax að í sunnudagaskólanum er búið að einfalda söguna talsvert. Rimman er þar meira eins og áflog óknyttastráka frekar en blóðugur bardagi upp á líf og dauða; því að hann er sannarlega blóðugur – og raunsær. Golíat hótar jú að gefa fuglum himinsins og dýrum merkurinnar hræ Davíðs að éta og Davíð hótar kokhraustur hinu sama á móti að því viðbættu að hann muni höggva höfuðið af Golíat. Og hann stendur við það – en þá senu vantar í lexíuna. Líklega hefur perikópunefnd kirkjunnar, sem valdi textana, óttast að hneyksla söfnuðinn ef lýsingin á niðurlagi bardagans yrði lesin: Síðan hljóp Davíð að og til Filisteans, greip um sverð hans, dró það úr slíðrum og drap hann og hjó loks af honum höfuðið með því. Þegar Filistearnir sáu að hetja þeirra var fallin lögðu þeir á flótta.

Það gefur auga leið að slíka sögu þarf að gera meinlausari fyrir sunnudagaskólann eins og tilhlýðilegt er, allt í samræmi við þroska og aldur áheyrenda. Við myndum ekki heldur lesa alla kafla úr Íslendingasögunum óritskoðaða í sunnudagaskólanum. Kannski myndu sumir segja að sögur sem innihalda óhugnað af e-u tagi ættu alls ekkert erindi við börn – því sagan af Davíð og Golíat er vissulega alltaf saga af ofbeldi, sama hvað það er útþynnt. En þá gætum við allt eins sagt að Grimmsævintýri ættu ekkert erindi við börn. T.d. Hans og Gréta eða tröllið sem felur sig undir brúnni og hótar að éta fólk. Staðreyndin er sú að stór hluti bókmennta fyrir börn sem og fullorðna fjallar um einhvers konar ógn og að komast heilu og höldnu úr einhverjum hættulegum aðstæðum.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar að mínu mati tímabæran pistil í Mogganum í dag um ritskoðun á barnabókum breska rithöfundarins Roalds Dahls, sem m.a. skrifaði Kalla og súkkilaðiverksmiðjuna og Matthildu. Þar skrifar hún m.a.:

„Dahl var ekki fágaður höfundur, grófleiki og ýkjur einkenna barnabækur hans. Þar eru iðulega ill öfl að verki, oft í líki fullorðinna sem eru ekki beinlínis bestu vinir barnanna. Einhverjum finnst örugglega auðvelt að finna að því, en börn hafa flest yndi af sögum hans því þar eru börn eins og þau sjálf sannar hetjur og þurfa að hafa fyrir sínu í ansi grimmum heimi, en standa að lokum uppi sem sigurvegarar.“ Tilvitnun lýkur.

Kolbrún imprar hér á þeim möguleika að það að kynna börn fyrir dekkri hliðum tilverunnar í bókmenntum sem beint er til þeirra kunni að hafa praktískt sálrænt gildi fyrir þau. Það er þekkt að börn hafa alltaf leikið sér í hlutverkjaleikjum þar sem þau ímynda sér að þau séu að kljást við illan andstæðing: að skylmast í riddaraleik, í löggu og bófa, kúrekaleik o.s.frv. Ég man eftir því að hafa lesið viðtal við einhvern sálfræðing sem mark þótti á takandi sem hélt því fram að leikir á borð við þessa væru börnum bráðnauðsynlegir því að það að sigrast á illum andstæðingi í leik gerði þeim kleift að slá á eigin kvíða og ótta andspænis öllum þeim raunverulegum ógnum sem enginn skortur er á í heiminum. Og skyldi það ekki einmitt hafa viðlíka áhrif að sjá hetjuna sína sigrast á hinu illa í uppáhaldsteiknimyndinni? Eða heyra hvernig söguhetjan leikur á vonda tröllið í ævintýrinu? Eða hvernig Matthilda í bók Roalds Dahls snýr fyrir kraft eigin gáfna og hæfileika á siðblinda, ofbeldisfulla skólastýru og kemst í öruggt skjól frá fullkomlega óhæfum foreldrum? Svo ekki sé minnst á að lesa um hvernig Harry Potter og vinir hans sigrast á öflum hatursins?

Í ljósi þessa sjáum við þá að líklegt er að sögur á borð Davíð-Golíat-söguna hafi einhvern dýpri tilgang en þann að vera aðeins til skemmtunar. Og þegar nánar er að gáð kemur enda á daginn að líklega var sigri Davíðs var á sínum tíma ætlað að blása smáþjóð hugrekki í brjóst andspænis risavöxnum hernaðarveldum sem stöðugt ógnuðu sjálfstæði hennar og jafnvel tilvist. Því að þó svo að rit Gamla testamentisins geri mikið úr mikilfengleik Ísraelsríkis á gullöld Davíðs og Salómons þá var sögulegur veruleiki sá að hebresku ríkin tvö, Ísrael og Júda, voru aðeins smápeð í eilífu valdatafli stórveldanna Assúr, Babel og Egyptalands – kannski dálítið eins og Niðurlönd á öldum áður.

Davíð og Golíat. Tvær stærðir sem eru sígildar. Á hverjum tíma er alltaf einhver Davíð að kljást við sinn Golíat. Hver getur t.d. ekki séð Davíð og Golíat á vígvellinum í Úkraínu?

En spurningin sem Davíð stendur alltaf frammi fyrir er þessi: Hvernig á ég að mæta ofureflinu? Í hetjusögunni í Fyrri Samúelsbók sigrar Davíð fyrir tilstilli óbilandi hugrekkis og færni í að beita vopni sem virðist við fyrstu sýn mega sín lítils gegn alvæpni andstæðingsins. Slönguvaður og smásteinar eru ekki merkileg vopn samanborið við sverð og spjót og þar að auki var Davíð óvarinn en Golíat bæði með skjöld, hjálm og brynju auk legghlífa. Það kom þó að litlum notum gegn einum litlum steini sem hæfði nákvæmlega þar sem hann átti að hitta. Hernaðarstórveldi sögunnar hafa einmitt margoft rekið sig á að lítilfjörlegur andstæðingur reynist vera reglulegur Davíð; Bandaríkjamenn fengu að reyna það í Víetnam og Sovétmenn í Afganistan.

Og nú hefur það komið Pútín og kumpánum hans vægast sagt á óvart að Úkraína skyldi ekki reynast sú auðvelda bráð sem þeir hugðu. Stríðið hefur staðið í ár og margir í Evrópu óttast að átökin eigi eftir að breiðast út. Það er líklega meginástæða þess, t.d., hve Þjóðverjar hafa reynst tregir til þess að styðja Úkraínu beint með vopnasendingum. Staðreyndin er auðvitað sú að ekki er endilega augljóst hvað réttast sé að gera þegar ítrustu aðstæður á borð við stríð koma upp. Er réttast að láta sverfa til stáls eða að reyna að komast að samkomulagi? Í Þýskalandi eru nú uppi miklar deilur um tillögur málsmetandi aðila um samningaviðræður við Pútín – óhjákvæmilega á kostnað Úkraínu. Að baki liggur óttinn við það að stríðið breiðist út og sýnist sitt hverjum.

Hvert ætti hið kristna viðhorf að vera? Svarið við því liggur ekki á lausu – augljóslega. „Kristni“ eða „kristið viðhorf“ er ekki til sem eitthvað eitt algilt fyrirbæri óháð tíma og rúmi. Jú, við eigum vissulega kristin trúarrit og kristnar kenningar og guðfræði en á endanum eru það kristnir einstaklingar í sínum sögulegu aðstæðum sem þurfa að leggja mat á hlutina. Kristinn Úkraínumaður í Kiev, kristinn Þjóðverji í Berlín; ólíkar aðstæður, ólík viðhorf.

En samt er – að ég held – endanleg ósk flestra manna sú sama: óskin um frið. Frið til þess að rækta garðinn sinn, sinna vinnunni sinni, ala upp börnin, fara í frí. Frið til þess að skapa sér og sínum heilnæmar aðstæður til þess að lifa í. Og það gefur auga leið að stundum þarf að grípa til ofbeldis – í nauðvörn – til þess að koma á friði og vernda lífið. M.a. það má lesa úr lexíu dagsins.

það er í það minnsta ljóst að það eru ekki til neinar patentlausnir þegar kemur að stríði og friði og viðbrögðum við árásargirni ofbeldismanna. Textar dagsins varpa upp mörgum spurningum en veita fá svör. En við skulum ekki sleppa hendinni af lexíunni alveg strax. Hún hefur nefnilega að geyma mikilvægt smáatriði sem mig langar að benda á okkur til íhugunar. Davíð segir nefnilega: „Allir, sem hér eru saman komnir, skulu viðurkenna að Drottinn frelsar ekki með sverði og spjóti.“ Þarna hefur Davíð auðvitað í huga þá fyrirætlun sína að fella Golíat með slönguvað og steini en jafnframt eru þetta skilaboð um að hernaðarmáttur dugi ekki einn og sér. Trúartraustið er úrslitaatriðið í tilfelli Davíðs.

En jafnvel þótt Davíð beri ekki sjálfur sverð heggur hann engu að síður höfuðið af Golíat með sverði, hans eigin sverði. Það vekur hugrenningatengsl við orð Krists í Grasagarðinum þegar hann segir við lærisveininn sem hjó eyrað af þjóni æðsta prestsins: „„Slíðra sverð þitt! Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla.“ Þessi orð – þótt þau standist ekki röklega skoðun – vara einmitt við hættunni á ofbeldisspíralnum, sem við upplifðum hér á Sturlungaöld og margir óttast á vettvangi alþjóðastjórnmála en á í raun við á öllum sviðum mannlegs lífs í yfirfærðri merkingu. En fyrst og fremst vara orð Krists við því að framganga í offorsi ofbeldi muni líklega koma í bakið á þeim er þannig ganga fram.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Laufey Böðvarsdóttir, 14/3 2023

Vikan framundan í safnaðarstarfinu:

Þriðjudagur 14. mars

Tíðasöngur kl. 9. 15
Bæna-og kyrrðarstund kl. 12.00 og létt máltíð eftir stundina. Gott að koma í kirkjuna og eiga notalega stund frá amstri hverdagsins.
Bach tónleikar Ólafs Elíassonar kl. 20.-20.30.
Miðvikudagur 15. mars
Tíðasöngur kl. 9. 15 með séra Sveini.
Örganga með séra Elínborgu kl. 18.00. hefst með stuttri hugvekju í kirkjunni.
Fimmtudagur 16. mars
Tíðasöngur kl. 9. 15.
Opna húsið hefst í Dómkirkjunni kl. 13.00-14.30.
Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson segir frá myndun þorps á Bíldudal. Heimabakað með kaffinu og gott samfélag.
Tíðasöngur kl. 17.00 með séra Sveini.
Sunnudaginn 19. mars
Messa kl. 11.00 Séra Sveinn Valgeirsson, Guðmundur Sigurðsson organisti og Dómkórinn.
Verið hjartanlega velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 14/3 2023

Á sunnudaginn sem er þriðji sunnudagur í föstu, er messa klukkan 11.00. Prestur séra Jón Ásgeir Sigurvinsson, Guðmundur Sigurðsson organisti og Dómkórinn. Verið hjartanlega velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 10/3 2023

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Skráning í fermingarfræðslu

Mánudagur

Annan mánudag í mánuði kl. 17:30, samvera hjá Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar yfir vetrartímann

Dagskrá ...