Dómkirkjan

 

Hátíðardagur í Dómkirkjunni. Biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir vígði Margréti Lilju Vilmundardóttir og Sigurð Má Hannesson. Megi Drottinn blessa þau séra Margréti Lilju og séra Sigurð Má í lífi og starfi.

Prestsvígsla
7. mars 2021

Vígsla í Dómkirkjunni 7. mars 2021

Laufey Böðvarsdóttir, 8/3 2021

Kæru vinir, góð vika framundan. Á morgun, þriðjudag er bæna-og kyrrðarstund í hádeginu. Gott að gefa sér hlé frá amstri dagsins og hvíla í núinu í helgidómnum. Á miðvikudaginn er örpílagrímaganga kl. 18.00 með séra Elínborgu Sturludóttur. Tíðasöngur með séra Sveini Valgeirssyni klukkan 17.00 á fimmtudaginn og kl. 18.30 eru tónleikar. Það eru tónleikar með Kammerkór Dómkirkjunnar undir stjórn Kára Þormar. Frítt inn. Verið velkomin í Dómkirkjuna!

IMG_3520

Laufey Böðvarsdóttir, 8/3 2021

Á sunnudaginn klukkan 11.00 er prestsvígsla í Dómkirkjunni. Biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir vígir og séra Sveinn Valgeirsson þjónar fyrir altari. Þau sem eru að vígjast eru: Mag. theol. Margrét Lilja Vilmundardóttir, vígist til þjónustu við Fríkirkjuna í Hafnarfirði Mag. theol. Sigurður Már Hannesson, vígist til þjónustu við Kristilegu skólahreyfinguna. Vegna sóttvarnarreglna þarf að skrá við kirkjudyr nöfn og kt. allra þeirra sem eru fæddir 2006 og síðar.Verið velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 4/3 2021

Örpílagrímaganga klukkan 18.00 í dag, miðvikudag. Verið velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 3/3 2021

Fimmtudaginn 4. mars kl. 18.30. Hálftíma orgeltónleikar í Dómkirkjunni. Kári Þormar leikur verk eftir Bach, Böhm og Gigout. Aðgangur er ókeypis. Verið velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 3/3 2021

Yfir altari Dómkirkjunnar blasir við altarismynd G. T. Wegeners, hirðmálara frá 1847, Upprisa Drottins. Þetta er áhrifamikið listaverk og eru eftirmyndir hennar víða í kirkjum landsins. Undir myndinni er letrað: Svo sem Drottinn hefur uppvakið Krist svo mun hann oss uppvekia.

78281460_10157777114310396_1284563437640220672_o (1)

Laufey Böðvarsdóttir, 28/2 2021

Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmislig. Þá líf og sál er lúð og þjáð, lykill er hún að Drottins náð. (Hallgrímur Pétursson Ps.4.22)

Laufey Böðvarsdóttir, 26/2 2021

Guðþjónusta kl. 11.00 á sunnudaginn prestur séra Elínborg Sturludóttir, Dómkórinn og Kári Þormar, dómorganisti. Verið velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 26/2 2021

Skemmtileg frétt frá séra Hreini H. á kirkjan.is. Pílagrímar í borg Sr. Elínborg Sturludóttir flytur hugleiðingu við upphaf örpílagrímagöngu sem farin var í gær í blíðskaparveðriSr. Elínborg Sturludóttir flytur hugleiðingu við upphaf örpílagrímagöngu sem farin var í gær í blíðskaparveðri Það er vel til fundið að bjóða upp á örpílagrímagöngur í borginni. Dómkirkjan hefur haft slíkt boð á takteinum í nokkur ár. Alltaf á miðvikudögum kl. 18.00. Það er sr. Elínborg Sturludóttir sem fer fyrir þessu verkefni. Hún þekkir vel til pílagrímafræða og stýrir göngunum með gleði og festu. Kirkjan.is slóst í hóp með örpílagrímum í gær. Stundin hófst í kirkjunni kl. 18.00 og sunginn var sálmurinn Fögur er foldin sem er náttúrlega hinn eini og sanni pílagrímasálmur, eða þannig. Síðan las sr. Elínborg upp úr Orðskviðunum sem áttu vel við hugsun pílagrímsins. Flutti svo snjalla örhugleiðingu. Orðskviðirnir 4.23-27 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru því að þar eru uppsprettur lífsins. Haltu munni þínum fjarri fláum orðum og vörum þínum fjarri lygamálum. Beindu augum þínum fram á við og sjónum þínum að því sem fram undan er. Veldu fótum þínum beina braut, þá verður ætíð traust undir fótum. Víktu hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum frá illu. Að því búnu var haldið af stað. Veðrið gat ekki verið betra. Sólbjart og fimm stiga hiti. Það var ekki margt fólk í bænum en örpílagrímahópurinn rann saman við gangandi vegfarendur sem héldu hver sína leið í lífinu eins og venja er. Og örpílagrímahópurinn rölti líka sinn veg og hver með sína hugsun en þó saman í hópi. Sem sé allir með sínar föggur. Allt féll þetta vel að hinum þremur stoðum í hugsun pílagrímsins: ferð, viðkomustaður með sjálfinu og áfangastaðurinn er helgimót í huga eða heimi. Örpílagrímaganga í borg er ólík löngum pílagrímagöngum. Borgargangan er inni í borginni, umvafin ys og þys hennar, en hún er líka inni í huga örpílagrímans því hver skyggnist í annars huga nema hann eða hún sjálfur og svo Guð ef fólk vill hafa hann með á ferð sinni? Hugur hvers og eins er heimur út af fyrir sig og ekki til neitt nákvæmt landakort af honum – kannski sem betur fer segir einhver því að þá væri búið að hertaka hann. Örpílagrímurinn fetar þar leið sína í þönkum sínum, þungum eða léttum. Gengið var út Pósthússtræti og niður að höfn þar sem skip lágu við bryggjusporða. Nýjar byggingar sem rísa hratt upp úr gamalli hafnauppfyllingu tóku um stund athygli örpílagrímagöngufólks, það var sumsé heimurinn sem bankaði lævíslega upp á sálirnar. Sem betur fer sneri sálartetrið við þegar listahöllin Harpan blasti við og sögð var lítil saga af tónlistarmönnum sem komust í hann krappan þegar harður skjálfti reið yfir suðvesturhornið um morguninn. Hann sló alla út af laginu eins og skiljanlegt er. Enginn gat lagt styrka hönd á hljóðfæri sitt þann morguninn því jörðin nötraði ekki aðeins heldur tók og hressilega í stoðir sálarkofans. Það var því gefið frí. Síðan var stikað við hlið Sæbrautarinnar meðfram stórgrýtinu. Á aðra hönd var elfur bílaumferðar með sínum eintóna hljómi en margbrotnari svælu, svo stöku maður á hjóli og fleiri á göngu. Staldrað var á leiðinni á tveimur stöðum og horft til Esjunnar og rifjuð upp fjallsheiti. Esjan horfði mót örpílagrímaleiðöngrum dreymandi augum því ljósaskiptin færðust mjúklega yfir. Það er sá tími þegar sumt verður dularfullt og jafnvel ískyggilegt í orðsins fyllstu merkingu í örmum skugganna sem grípa um allt sem hljóð hönd þeirra á festir og drekka í sig ljósið eins og ölur maður á knæpu. Örpílagrímarnir héldu síðan upp holtið í átt að Skólavörðuhæð. Örskotsstund var numið staðar við Hallgrímskirkju og dáðst að henni í húminu. Þingholtin voru þrædd og niður að gamla menntaskólanum og frá tröppum hans blasti við hið nýja ferlíkishótel hálfrisið og einhver sagði að mikið væri gaman ef hús sr. Bjarna hefði ekki brunnið hér um árið. Þá stæði það þarna fagurt á að líta. Pílagrímarnir kvöddu hver annan við Dómkirkjuna glaðir í bragð og endurnærðir. Hurfu síðan hver sína leið. Sr. Elínborg segir að aldrei hafi fallið niður örpílagrímaganga vegna veðurs. Og alltaf mætir einhver til göngu með henni. Þessi hópur sem gekk í gær fann að örpílagrímagangan var holl fyrir líkama og sál. Þó gengið sé með fólki sem þekkist vel eða kannast bara við hvert annað – eða bara þekkist alls ekki – þá sígur hugurinn alltaf inn á við á pílagrímagöngu. Ekki aðeins inn á við heldur og binst hann líka öðru fólki sem gengið er með. Gangan er nefnilega hvort tveggja í senn sameiginleg og einsleg. Pílagrímurinn tengist líka upp á við inn í dýpsta hvítbláma himinsins. Sérstaklega þegar gangan er hringur sem minnir á eilífðina sem lögð er hverjum pílagrími í brjóst. Það er ekki lítið og kannski undarlegt að ekki skulið oft haft hærra um það. En gleðin hleypur út úr innstu sálarfylgsnum mannfólksins því að frelsari heimsins fæddur er. Kirkjan.is mælir með örpílagrímagöngum og hvetur aðra söfnuði til að feta í fótspor Dómkirkjusafnaðarins og bjóða upp á slíkar göngur.

Laufey Böðvarsdóttir, 26/2 2021

Alla þriðjudaga er bænastund í hádeginu. Örpílagrímaganga á miðvikudaginn klukkan 18.00. Tíðasöngur á fimmtudaginn kl. 17.00 og kl. 18.30 eru tónleikar með Kammerkór Dómkirkjunnar undir stjórn Kára Þormar. Guðþjónusta kl. 11.00 á sunnudaginn prestur séra Elínborg Sturludóttir, Dómkórinn og Kári Þormar, dómorganisti. Verið velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 23/2 2021

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Trú.is

Þriðjudagur

- 12:10 Hádegisbæn

Dagskrá ...