Náð og friður sé með ykkur.
Jólin eru að byrja, heimurinn okkar er að breytast – við breytumst. Það varð heilagt kl 6. Framundan er kvöldið og nóttin sem við höfum hlakkað til. Tími, sem líður fljótt, jól, sem verða bráðum minning ásamt öllum hinum jólunum sem við höfum lifað. Þannig líður tíminn, þannig týnist tíminn að vissu leyti. Samt eru eftir áhrif, áhrif, sem eru varanleg og skipta máli. Jólapakkarnir eru ofarlega í huga hinna ungu, en svona, eftir á að hyggja, þegar maður er kominn á seinna æviskeiðið, þá man maður ekki eftir því hvað var í pökkunum. Það er annað sem lifir og varir. Það er ólýsanlega tilfinningin, stemmingin, það er tilfinningin, sem kemur með jólunum.
Og þess vegna erum við íhaldssöm á hefðirnar sem jólunum fylgja. Þetta þekkjum við vel, sem störfum í kirkjunni, kirkjukórafólkið, þær þúsundir fólks í okkar landi sem hafa undirbúið helgihald jólanna í kirkjum landsins. Nú er messa í þeim mörgum, og sömu jólasálmarnir eru sungnir og voru sungnir í fyrra og árið þar áður, að sjálfsögðu lesið jólaguðspjall læknisins Lúkasar. Hann nefnir þar Sýrland, og það land skulum við hafa í bænum okkar.
Vinur minn sendi mér bók um daginn, Litla prinsinn, eftir Antoine de Saint-Exupéry. Oft hef ég lesið hana áður.
Höfundurinn, flugmaðurinn og rithöfundurinn, hafði nauðlent flugvél sinni vegna vélarbilunar í eyðimörkinni. Mitt í áhyggjum sínum og amstri hittir hann litla veru í eyðimörkinni, Litla prinsinn, sem segir honum barnslegar, en djúpvísar og hnyttnar sögur af fjarlægum hnöttum. En þeim er kippt inn í veruleikann af og til. Þeir eru í eyðimörk, flugvélin biluð. Þegar drykkjarvatn þrýtur fara þeir að leita að vatnsbóli og finna það eftir langa og erfiða leit. Svo segir Litli prinsinn:
„Þetta var ljúft eins og hátíð. Þetta vatn var annað og meira en venjulegt drykkjarvatn, það var til orðið við gönguna undir skini stjarnanna við söng vindunnar, við áreynslu handleggjanna. Það var gott fyrir hjartað eins og gjöf. Þegar ég var lítill drengur var það birtan frá jólatrénu, söngurinn við miðnæturmessuna og mild brosin, sem sköpuðu þannig geisladýrðina um jólagjöfina sem ég tók á móti.“ Og hann heldur áfram eftir litla þögn:
„Mennirnir hér hjá þér rækta 5000 rósir í sama garðinum og þeir finna ekki það sem þeir eru að leita að.“
„Þeir finna það ekki“, svaraði ég.
„Og þó væri hægt að finna það sem þeir leita, í einni rós, eða ofurlitlu af vatni.“
„Vissulega“, svaraði ég.
Og litli prinsinn bætti við: „En augun eru blind. Það verður að leita með hjartanu.“
Kæru vinir. Mér finnst stundum að það mikilvægasta sé ósýnilegt augunum. Sumt sjái maður best með hjartanu. Þess vegna er ekki ástæða til að standa í deilum og þrasi um trúmál. Þú þarft ekki að gera röklega grein fyrir neinu, þú lifir jól og við eigum jólin – í hjartanu. Þar er trúin líka. Enda þótt trúin sé höfuðatriði – er hún ekki síður fyrir hjartað. Þar lifir vonarljósið, þar vakir þráin eftir friði á jörðu, þar er upphaf lífs í kærleika. Páll postuli bað Guð upplýsa sálarsjón vina sinna, safnaðanna. Það er falleg ósk og bæn.
Þannig eru jólin. Samvera með vinum, sem lifa frið og kærleika.
En sértu ein eða einn, saknirðu samfélags við ástvini, vegna þess að eitthvað hefur breyst í kringum þig – sjáðu og finndu það að við erum öll saman, því að líf okkar allra á sama snertiflötinn í kvöld.
Í kvöld snertir okkur djúpt söknuður ykkar, sem hafið misst kæran vin, sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Þótt við fögnum jólum við góðar aðstæður flest, þá vitum við það ekkert síður að skuggalaust, áreynslulaust líf er ekki til. Þar er þörf á hógværri hjálp og stuðningi.
Markmið trúarinnar er líf í kærleika, í sátt og friði. Jólin vilja skila því til þín að Guð er sáttur við þig.
Hvað sem er á undan gengið í þínu lífi, – vertu viss um að Guð gerir engan fyrirvara, setur engin skilyrði. Þú átt framtíð fyrir þér, vegur þinn er greiður.
Það minnir mig á prestinn sem byrjaði ræðuna sína á því að lyfta upp stórum verðmætum peningaseðli. Hann krumpaði seðilinn síðan saman og trampaði á honum. Þurrkaði síðan af honum og lyfti honum upp og sagði: “Af þessu skulum við læra. Seðillinn er ennþá jafnmikils virði og áður.”
Þetta getur gerst í lífinu. Við lendum í árekstrum, okkur er hafnað, það er jafnvel traðkað á okkur, sumpart vegna þess sem við segjum eða gerum, sumpart vegna ytri orsaka, sem við fáum engu um ráðið. Okkur getur fundist við vera misheppnuð og einskis virði.
En einu gildir hvað fyrir þig kemur, þú missir aldrei gildi þitt í augum Guðs. Í hans augum ertu alltaf ómetanlega dýrmæt manneskja. Þetta er erindi Guðs við þig í kvöld. Þú ert perla, þú ert elskað Guðs barn.
Ykkur öllum, sem heyrið, flyt ég eftirfarandi ósk og bæn:
“Ég óska ykkur dálítils af ferskri gleði yfir fegurð og svolitlu meiri gleymsku á vonbrigði og dálitlu meira stolts yfir hrósi og örlitlu meiri friðar fyrir asa og umstangi – og svolitlu þéttari skjólveggjar gegn áhyggjum.”
Gleðileg jól. Í Jesú nafni. AMEN