Dómkirkjan

 

Velkomin til messu í fyrramálið, annan jóladag, kl. 11. Mæðginin, Hrafn Tómasson og Sif Tulinius lesa ritningarlestrana. Karl Sigurbjörnsson prédikar. Njótum jólasálmanna og jólasögunnar. Auðmýkt hirðanna og örlæti vitringanna, fögnuður englanna, umhyggja Maríu og friður Jesú-barnsins, verði gjöf Guðs okkur og öllum mönnum til blessunar þessi jól og allar stundir. Gleðileg jól!

Laufey Böðvarsdóttir, 25/12 2016

Jólaprédikun séra Hjálmars Jónssonar

Náð og friður sé með ykkur.
Jólin eru að byrja, heimurinn okkar er að breytast – við breytumst. Það varð heilagt kl 6. Framundan er kvöldið og nóttin sem við höfum hlakkað til. Tími, sem líður fljótt, jól, sem verða bráðum minning ásamt öllum hinum jólunum sem við höfum lifað. Þannig líður tíminn, þannig týnist tíminn að vissu leyti. Samt eru eftir áhrif, áhrif, sem eru varanleg og skipta máli. Jólapakkarnir eru ofarlega í huga hinna ungu, en svona, eftir á að hyggja, þegar maður er kominn á seinna æviskeiðið, þá man maður ekki eftir því hvað var í pökkunum. Það er annað sem lifir og varir. Það er ólýsanlega tilfinningin, stemmingin, það er tilfinningin, sem kemur með jólunum.
Og þess vegna erum við íhaldssöm á hefðirnar sem jólunum fylgja. Þetta þekkjum við vel, sem störfum í kirkjunni, kirkjukórafólkið, þær þúsundir fólks í okkar landi sem hafa undirbúið helgihald jólanna í kirkjum landsins. Nú er messa í þeim mörgum, og sömu jólasálmarnir eru sungnir og voru sungnir í fyrra og árið þar áður, að sjálfsögðu lesið jólaguðspjall læknisins Lúkasar. Hann nefnir þar Sýrland, og það land skulum við hafa í bænum okkar.
Vinur minn sendi mér bók um daginn, Litla prinsinn, eftir Antoine de Saint-Exupéry. Oft hef ég lesið hana áður.
Höfundurinn, flugmaðurinn og rithöfundurinn, hafði nauðlent flugvél sinni vegna vélarbilunar í eyðimörkinni. Mitt í áhyggjum sínum og amstri hittir hann litla veru í eyðimörkinni, Litla prinsinn, sem segir honum barnslegar, en djúpvísar og hnyttnar sögur af fjarlægum hnöttum. En þeim er kippt inn í veruleikann af og til. Þeir eru í eyðimörk, flugvélin biluð. Þegar drykkjarvatn þrýtur fara þeir að leita að vatnsbóli og finna það eftir langa og erfiða leit. Svo segir Litli prinsinn:
„Þetta var ljúft eins og hátíð. Þetta vatn var annað og meira en venjulegt drykkjarvatn, það var til orðið við gönguna undir skini stjarnanna við söng vindunnar, við áreynslu handleggjanna. Það var gott fyrir hjartað eins og gjöf. Þegar ég var lítill drengur var það birtan frá jólatrénu, söngurinn við miðnæturmessuna og mild brosin, sem sköpuðu þannig geisladýrðina um jólagjöfina sem ég tók á móti.“ Og hann heldur áfram eftir litla þögn:
„Mennirnir hér hjá þér rækta 5000 rósir í sama garðinum og þeir finna ekki það sem þeir eru að leita að.“
„Þeir finna það ekki“, svaraði ég.
„Og þó væri hægt að finna það sem þeir leita, í einni rós, eða ofurlitlu af vatni.“
„Vissulega“, svaraði ég.
Og litli prinsinn bætti við: „En augun eru blind. Það verður að leita með hjartanu.“
Kæru vinir. Mér finnst stundum að það mikilvægasta sé ósýnilegt augunum. Sumt sjái maður best með hjartanu. Þess vegna er ekki ástæða til að standa í deilum og þrasi um trúmál. Þú þarft ekki að gera röklega grein fyrir neinu, þú lifir jól og við eigum jólin – í hjartanu. Þar er trúin líka. Enda þótt trúin sé höfuðatriði – er hún ekki síður fyrir hjartað. Þar lifir vonarljósið, þar vakir þráin eftir friði á jörðu, þar er upphaf lífs í kærleika. Páll postuli bað Guð upplýsa sálarsjón vina sinna, safnaðanna. Það er falleg ósk og bæn.
Þannig eru jólin. Samvera með vinum, sem lifa frið og kærleika.
En sértu ein eða einn, saknirðu samfélags við ástvini, vegna þess að eitthvað hefur breyst í kringum þig – sjáðu og finndu það að við erum öll saman, því að líf okkar allra á sama snertiflötinn í kvöld.
Í kvöld snertir okkur djúpt söknuður ykkar, sem hafið misst kæran vin, sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Þótt við fögnum jólum við góðar aðstæður flest, þá vitum við það ekkert síður að skuggalaust, áreynslulaust líf er ekki til. Þar er þörf á hógværri hjálp og stuðningi.
Markmið trúarinnar er líf í kærleika, í sátt og friði. Jólin vilja skila því til þín að Guð er sáttur við þig.
Hvað sem er á undan gengið í þínu lífi, – vertu viss um að Guð gerir engan fyrirvara, setur engin skilyrði. Þú átt framtíð fyrir þér, vegur þinn er greiður.
Það minnir mig á prestinn sem byrjaði ræðuna sína á því að lyfta upp stórum verðmætum peningaseðli. Hann krumpaði seðilinn síðan saman og trampaði á honum. Þurrkaði síðan af honum og lyfti honum upp og sagði: “Af þessu skulum við læra. Seðillinn er ennþá jafnmikils virði og áður.”
Þetta getur gerst í lífinu. Við lendum í árekstrum, okkur er hafnað, það er jafnvel traðkað á okkur, sumpart vegna þess sem við segjum eða gerum, sumpart vegna ytri orsaka, sem við fáum engu um ráðið. Okkur getur fundist við vera misheppnuð og einskis virði.
En einu gildir hvað fyrir þig kemur, þú missir aldrei gildi þitt í augum Guðs. Í hans augum ertu alltaf ómetanlega dýrmæt manneskja. Þetta er erindi Guðs við þig í kvöld. Þú ert perla, þú ert elskað Guðs barn.
Ykkur öllum, sem heyrið, flyt ég eftirfarandi ósk og bæn:
“Ég óska ykkur dálítils af ferskri gleði yfir fegurð og svolitlu meiri gleymsku á vonbrigði og dálitlu meira stolts yfir hrósi og örlitlu meiri friðar fyrir asa og umstangi – og svolitlu þéttari skjólveggjar gegn áhyggjum.”
Gleðileg jól. Í Jesú nafni. AMEN

Laufey Böðvarsdóttir, 25/12 2016

Helgihald um jólin er með hefðbundnum hætti. Aftansöngurinn í Dómkirkjunni kl. 18 á aðfangadagskvöld lýkur upp hliðum hátíðarinnar fyir landsmönnum. Þá verður heilagt þegar klukknahljómurinn úr turni Dómkirkjunnar berst yfir landið á öldum ljósvakans. Að þessu sinni prédikar sr. Hjálmar Jónsson og séra Sveinn Valgeirsson þjónar. Á jólanótt klukkan hálf tólf er miðnæturguðsþjónusta. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Karl Sigurbjörnsson, biskup, prédikar. Á jóladag er hátíðarmessa kl. 11 þar sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar og dómkirkjuprestar þjóna. Á annan jóladag eru messa kl. 11 þar sem Karl Sigurbjörnsson, biskup prédikar. Á Gamlárskvöld er aftansöngur kl. 18 og messa á nýjársdag kl. 11. Dómkirkjan óskar öllum blessaðrar aðventu og gleðilegrar jólahátíðar.

Laufey Böðvarsdóttir, 24/12 2016

Nýr hátíðarhökull í Dómkirkjunni, séra Sveinn Valgeirsson skrýðist höklinum við aftansöng í kvöld kl. 18. Dómkirkjunni hefur borist nýr hátíðarhökull að gjöf. Gefandi vill ekki láta nafn síns getið. Hökullinn er hvítur, ofinn í damasktækni með íofnum gullþræði og fóðraður með sérlituðu silkifóðri. Á baki er gylltur kross, sem ber svip af silfurkrossinum sem prýðir altarisklæði kirkjunnar. Sitthvoru megin eru grísku stafirnir, alfa og ómega, sem vísa í orð Jesú: Ég er alfa og ómega, upphafið og endirinn. Að framan er svonefnd Lúthersrós, sem var innsigli Marteins Lúthers. Krossinn í hjartanu, tákn trúar og kærleika í hvítri rós, sem er tákn gleðinnar og umhverfis er gylltur hringur, tákn eilífa lífsins. Elín Stefánsdóttir, veflistarkona, vann og óf hökulinn í samvinnu við Karl Sigurbjörnsson biskup. Þessi fagra gjöf er kærleikstjáning og þakklætis til Dómkirkjunnar og þess Drottins sem hún er helguð, og þess sem hún stendur fyrir með helgri iðkun um ársins hring. Guð launi fagra gjöf og blessi þann góða hug sem að baki býr.

IMG_1283

Laufey Böðvarsdóttir, 24/12 2016

image1

Laufey Böðvarsdóttir, 23/12 2016

JÓLASTUND Í Dómkirkjunni

JÓLASTUND Í Dómkirkjunni
(English below)

Á Þorláksmessu, 23. desember kl 20:30

Hátíðleg sönglög og dúettar úr íslenskum þjóðlagaarfi, óperum og óratoríum í bland við sígild amerísk jólalög.

Fram koma
Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran
Guja Sandholt, mezzo-sópran
Matthildur Anna Gísladóttir, píanó

Miðaverð
3000 kr við innganginn
2500 kr í forsölu á https://midi.is/concerts/1/9877
1500 fyrir 16 ára og yngri
posi verður á staðnum

***
A Christmas concert
Reykjavík Cathedral at Austurvöllur
December 23rd at 8.30 pm

A festive selection of songs and duets – ranging from Icelandic folk music to American Christmas classics and pieces from operas and oratorios.

Performers:
Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, soprano
Guja Sandholt, mezzo-soprano
Matthildur Anna Gísladóttir, piano

Ticket price:
3000 ISK at the door
2500 ISK via https://midi.is/concerts/1/9877
1500 ISK for 16 year old and younger
***
www.arnadottir.info
www.gujasandholt.com

Laufey Böðvarsdóttir, 23/12 2016

„Mozart við kertaljós“ sem Camerarctica heldur 22. desember kl. 21:00. Það er ljúft að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu og njóta ljúfrar tónlistar Mozarts. Á Þorláksmessu, 23. desember kl 20:30 verða tónleikar þar sem fram koma: Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran, Guja Sandholt, mezzo-sópran og Matthildur Anna Gísladóttir, píanó. Hátíðleg sönglög og dúettar úr íslenskum þjóðlagaarfi, óperum og óratoríum í bland við sígild amerísk jólalög. Helgihald um jólin er með hefðbundnum hætti. Aftansöngurinn í Dómkirkjunni kl. 18 á aðfangadagskvöld lýkur upp hliðum hátíðarinnar fyir landsmönnum. Þá verður heilagt þegar klukknahljómurinn úr turni Dómkirkjunnar berst yfir landið á öldum ljósvakans. Að þessu sinni prédikar sr. Hjálmar Jónsson og séra Sveinn Valgeirsson þjónar. Á jólanótt klukkan hálf tólf er miðnæturguðsþjónusta. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Karl Sigurbjörnsson, biskup, prédikar. Á jóladag er hátíðarmessa kl. 11 þar sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar og dómkirkjuprestar þjóna. Á annan jóladag eru messa kl. 11 þar sem Karl Sigurbjörnsson, biskup prédikar. Á Gamlárskvöld er aftansöngur kl. 18 og messa á nýjársdag kl. 11. Dómkirkjan óskar öllum blessaðrar aðventu og gleðilegrar jólahátíðar.

Laufey Böðvarsdóttir, 22/12 2016

Jólatónleikar Dómkórsins verða haldnir í Dómkirkjunni í Reykjavík þann 21. desember kl. 22. Sungin verða hefðbundin jólalög í bland við ný jólalög og útsetningar eftir meðlimi kórsins. Fluttar verða útsetningar eftir Birgit Djupedal og Sigmund Sigurðarson auk þess sem nýtt jólalag eftir Erlu Ragnarsdóttur og Grétu Sigurjónsdóttur í útsetningu Ásbjargar Jónsdóttur verður frumflutt. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis.

Laufey Böðvarsdóttir, 21/12 2016

IMG_1250
Aðventan setur mark sitt á borgina og laðar hugi og hjörtu unga sem gamalla að ljósinu sem á móti kemur. Í Dómkirkjunni er boðið upp á guðsþjónustur, bænastundir og margvíslega viðburði, tónleika og samverur þar sem sálin fær næringu af boðskapnum um ljósið sem skín í myrkrinu og blessar líf og heim.
Föstudagurinn 16. desember kl. 20 eru Jólatónleikar Tónlistarskólans í Reykjavík, þar sem efnisskráin er afar fjölbreytt og verður boðið upp á úrval af því besta úr vetrarstarfinu.
Síðasta sunnudag fyrir jól, 18. desember, er boðið til fjölskyldumessu kl. 11, undir yfirskriftinni „Þökkum fyrir ljósið og lífið.“ Stundin er sérstaklega helguð ljósmæðrunum og þjónustu þeirra í þágu lífsins. Ljósmæður munu lesa texta og sungnir verða aðventu og jólasálmar. Karlakór KFUM syngur undir stjórn Laufeyjar Geirlaugsdóttur, sem einnig syngur einsöng. Ljúf og notaleg samverustund í anddyri jólanna.
Norsk messa er kl. 14 þar sem sr. Þorvaldur Víðisson prédikar og sr. Hjálmar Jónsson þjónar.
Kl. 20 er æðruleysismessa, þessi klukkutími verður fylltur ró, góðri nærveru, bæn og íhugun. Sr. Anna Sigríður mun leiða stundina, sr. Karl Matthíasson mun tala til okkar, félagi mun deila reynslu sinni, Díana fer fyrir bæn, Ástvaldur verður á píanóinu og Berglind Magnúsdóttir kemur og syngur fyrir okkur og með okkur, ljúf og góð stund.
Jólatónleikar Dómkórsins verða 21. desember kl 22:00. Stjórnandi er Kári Þormar, dómorganisti. Í huga margra eru jólatónleikar Dómkórsins í dimmasta skammdeginu ómissandi sem hluti aðventu og jólaundirbúningsins.
Sama er að segja um hina árlegu kertaljósatónleika „Mozart við kertaljós“ sem Camerarctica heldur 22. desember kl. 21:00. Það er ljúft að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu og njóta ljúfrar tónlistar Mozarts.
Á Þorláksmessu, 23. desember kl 20:30 verða tónleikar þar sem fram koma: Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran, Guja Sandholt, mezzo-sópran og Matthildur Anna Gísladóttir, píanó. Hátíðleg sönglög og dúettar úr íslenskum þjóðlagaarfi, óperum og óratoríum í bland við sígild amerísk jólalög.
Helgihald um jólin er með hefðbundnum hætti. Aftansöngurinn í Dómkirkjunni kl. 18 á aðfangadagskvöld lýkur upp hliðum hátíðarinnar fyir landsmönnum. Þá verður heilagt þegar klukknahljómurinn úr turni Dómkirkjunnar berst yfir landið á öldum ljósvakans. Að þessu sinni prédikar sr. Hjálmar Jónsson. Á jólanótt klukkan hálf tólf er miðnæturguðsþjónusta. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Karl Sigurbjörnsson, biskup, prédikar.
Á jóladag er hátíðarmessa kl. 11 þar sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar. Á annan jóladag eru messa kl. 11 þar sem Karl Sigurbjörnsson, biskup prédikar. Á Gamlárskvöld er aftansöngur kl. 18 og messa á nýjársdag kl. 11.
Dómkirkjan óskar öllum blessaðrar aðventu og gleðilegrar jólahátíðar.

Laufey Böðvarsdóttir, 16/12 2016

ÆÐRULEYSISMESSA 18. DESEMBER KL. 20

Aðventan er mörgum góður tími ríkur af tilhlökkun, ljósum og notalegum stundum en aðventan er líka mörgum erfið. Það er sama hvernig aðstæður eru það er alltaf gott að taka sig frá og gefa sér tíma.
Nú er tækifæri því Æðruleysismessa verður sunnudaginn 18. Desember 2016 kl. 20:00 í Dómkirkjunni.
Þessi klukkutími verður fylltur ró, góðri nærveru, bæn og íhugun. Sr. Anna Sigríður mun leiða stundina, Sr. Karl Matthíasson mun tala til okkar, félagi mun deila reynslu sinni, Díana fer fyrir bæn, Ástvaldur verður á píanóinu og Berglind Magnúsdóttir kemur og syngur fyrir okkur og með okkur :)
Verið öll velkomin ;) Sjáumst sem flest <3

Laufey Böðvarsdóttir, 14/12 2016

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Skráning í fermingarfræðslu

Miðvikudagur

Tíðasöngur klukkan 9.15 .
Örpílagrímagöngur frá Dómkirkjunni kl. 18.00 yfir vetrarmánuðina

Dagskrá ...