Dómkirkjan

 

Prédikun Karls Sigurbjörnssonar, biskups.

10. sunnudagur eftir trinitatis. Dómkirkjan, 20. ágúst 2017

Jer. 18.1-10;Róm. 9. 1-5;  Lúk. 19,41-48

 

Í guðspjalli dagsins segir frá því er Jesús kom til Jerúsalem, borgarinnar helgu. Frásögnin er framhald sögunnar af innreiðinni sem rifjuð er upp á pálmasunnudag og líka fyrsta sunnudegi í aðventu.

Jerúsalem. Nafnið merkir Friðarborg. Í Gamla testamentinu er sagt að borgin hafi verið reist sem tákn friðar og sáttargjörðar milli manna innbyrðis og Guðs. Hún er líka eins og táknmynd heimsins okkar. Sjaldan hefur friðsældinni verið fyrir að fara í friðarborginni sjálfri, fremur en í heiminum,  menningarheimar og trúarbrögð rekast hastarlega á, oft í blóðugum átökum. Í Jerúsalem stóð til forna musterið, og minnti á návist Guðs í heiminum okkar. Það gnæfði yfir borgina og þar voru fórnir færðar til að sætta Guð og menn. Þar höfðu spámennirnir staðið og prédikað gegn misnotkun trúarinnar. Eins og Jeremía, sem lexía dagsins er frá. Hann stóð í musterishliðunum og sagði: „Svo segir Drottinn: Spámennirnir boða lygi, prestar kenna að eigin geðþótta og þjóð minni fellur það vel. En hvað ætlið þér að gera þegar kemur að skuldadögunum?“ „Miskunnsemi þrái ég en ekki fórnir,“ sögðu þeir líka. Og þeir fluttu þau fyrirheit Guðs að senda Messías, Krist, friðarhöfðingjann með frið og frelsi heiminum öllum til heilla. Menn biðu með óþreyju, að sá dagur rynni er Kristur kæmi til borgarinnar helgu til að setjast þar í hásæti sitt. Og nú virtist sem  loksins væri komið að því! Guðspjallið segir frá því þegar Jesús sást feta vegslóðann ofan hlíðar Olíufjallsins og honum var ákaft fagnað. En hann grét er hann horfði yfir borgina og sagði, Þú veist ekki hvað til friðar heyrir, þín bíður eyðilegging á eyðilegging ofan, þú þekkir ekki þinn vitjunartíma.

Kristur horfir á borgina með sína háu turna, gullnu hvolfþök og á fólkið sem veifar pálmagreinum í hrifningu sinni, og hann grætur. Það eru ekki hrifningartár sigurvegarans á verðlaunapallinum, heldur sorgartár.  Á öðrum stað í guðspjöllunum er sagt frá því að Jesús grét. Það var við gröf Lasarusar, vinar síns. Þá var það sorgin yfir afli dauðans. Nú var það sorgin yfir syndinni. Af því að borgin, íbúarnir vissu ekki hvað til friðar heyrði, hvað þeim var fyrir bestu. Hann sá að fólk var upptekið af því að tryggja sig gegn Guði og náunganum. Menn töldu sig geta verslað við Guð, keypt sér náð hans og velþóknun. Og þeir þekktu ekki sinn vitjunartíma, að Drottinn var sjálfur kominn til að frelsa lýð sinn, lækna, sætta, skapa frið. Ekki með því að stofna ríki á forsendum heimsins, með beitingu valds og vopna, heldur með því að lækna hjörtu mannanna og sigra þar. Og svo heldur Jesús rakleitt upp í musterið og blöskrar misnotkun trúarinnar, fyllist réttlátri reiði og fer að hrinda um borðum kaupmannanna og víxlaranna sem hann sagði að hefðu breytt Guðs húsi í ræningjabæli. En hann lætur þar við sitja.

 

Það er gömul saga og ný að helgidómar séu ofurseldir græðgi mannanna. Mér er hugsað til Víkurgarðs hér hjá okkur. Kirkjugarðar eru nefnilega hluti helgidómsins, vígðir reitir sem hlúa moldum genginna kynslóða. „Jurtagarður er Herrans hér helgra Guðs barna legstaðir. Þegar þú gengur um þennan reit, þín skal til reiðu bænin heit, andláts þín gæt, og einnig þá upprisudaginn minnstu á.“ Segir Hallgrímur um kirkjugarðinn, og það vers var oft og er oft enn sungið þegar kista er borin um sáluhlið til grafar. Þannig hefur það verið um aldir í Víkurgarði. Nú skreyta þar pylsuvagnar elsta helgireit Reykvíkinga og brátt mun hann hverfa undir hótelbyggingu. Gróðavonin, græðgin ryður burt virðingunni og helginni. Og þá tekur óhjákvæmilega uppblástur mennsku og menningar við.

Menning er nefnilega meir en veisla og neysla, nautn viðburða, hversu glæsilegar sem umbúðirnar eru og stórfenglegar flugeldasýningar. Menning er minning segir einhvers staðar, samhengi virðingar, vefur minninga, sögu, siðvenju, uppeldis, iðkunar sem leggur til viðmið og áttavita til að móta hið góða samfélag og takast á við það sem lífið færir að höndum. Þegar veisluglaumurinn þagnar og dagur rennur þá hringja kirkjuklukkurnar og laða að uppsprettulindum mennsku og menningar, sem er orð Guðs og borð, sem Jesús Kristur býður til.

 

Hryðjuverkin í Barcelona – og nú aftur í Finnlandi-  er enn ein áminningin um átök menningarheima í okkar samtíð. Þar voru að verki ungir menn blindaðir af trúarofstæki og hugmyndafræði sem sagt hefur vestrænni menningu og trú stríð á hendur.  Sagt er að ungi ódæðismaðurinn, þetta verkfæri dauða og skelfingar er hann ók bílnum á mannfjöldann, hafi áður lýst þeim áformum sínum að drepa alla vantrúaða- og það fer ekki milli mála að hann átti við kristið fólk, en líka trúsystkin hans, sem eru af annarri skoðun.

Við hljótum að gráta með þeim sem eiga um sárt að binda og fordæma  þá illsku sem ódæðið birtir. Og biðja þess að Drottinn geri okkur að verkfærum friðar síns.

 

Jesús hélt upp í musterið og hratt um borðum víxlaranna í heilagri reiði og sorg. Hann sem grét yfir borg sinni sem þekkti ekki sinn vitjunartíma, fylltist heilagri vandlætingu þegar hann sá meðferðina á helgidóminum, afbökun og misnotkun trúarinnar: Hús mitt á að vera bænahús en þið hafið gert það að ræningjabæli!   Nokkrum árum síðar gerðist það, sem Jesús hafði séð fyrir. Rómverjar brutu uppreisn Gyðinga á bak aftur með ólýsanlegri hörku og lögðu borgina í rúst. Margir hafa fyrr og síðar haldið því fram að þar hafi Gyðingar hlotið makleg málagjöld. Það er alltaf og alls staðar fullt af ofstækisfólki sem horfir með velþóknun á brenndar borgir og hrunda helgidóma og sér þar staðfestingu eigin yfirburða, sannleiksástar, réttlætis, trúar. Það er svo grátlegt. Það er svo skelfilegt þegar menn telja sig þekkja svo hug og dóma Drottins, að þeir geti hlakkað yfir óförum annarra eða dæmt þjáningu annarra sem makleg málagjöld. Það er svo víðsfjarri því sem Jesús kennir. Hann sem grét yfir borginni forðum.

Ég las um bandarískan sjónvarpsprédikara sem sagði frá því í prédikun að þegar Titanic fórst og á annað þúsund manns týndu lífi, þá hafði einn af skipverjunum skrifað foreldrum sínum bréf þar sem hann lýsti því guðleysi sem þar hafði ríkt um borð, gengdarlausum veisluglaumi og siðleysi, og guðsafneitun áhafnarinnar. Á einn vegginn neðan þilja hafði verið málað: Enginn Guð er til! Og það  var einmitt þar, sagði presturinn, á þeim sama vegg sem ísjakinn risti sundur skipsskrokkinn, einmitt þar sem þessi afneitun var máluð risastórum stöfum. Og presturinn bætti við: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða!“

Jú, það er vissulega satt, Guð lætur ekki að sér hæða, og þau orð Biblíunnar skulum við leggja okkur á hjarta, okkur sjálfum á hjarta. Líka þótt okkur líki þau ekki. Einmitt þegar okkur líkar þau ekki. En við skulum láta vera að dæma og lemja aðra með þeim.

En, þar fyrir utan skil ég ekki og þoli bara ekki þessa frásögn prestsins. Sé hún sönn, ég veit ekkert um það, –  því hvar eru þá tár Jesú yfir fólkinu, samlíðan Jesú með fólkinu um borð, öllum þeim fjölda sem ekkert vissi og hvergi kom nærri þessu guðlasti sem málað var á vegginn og ólifnaði sem presturinn fullyrðir að hafi valdið þessum hörmungum? Það er eitthvað afskaplega ókristilegt við þessa frásögn, þessa „frómu“ frásögn prestsins. Óþolandi og andstyggilegt. Ekkert nema guðlast.

Og svona hugsar líka ódæðismaðurinn þegar hann sest undir stýri eða mundar vopnið og býr sig undir að drepa og meiða og skelfa í nafni guðs síns, hvaða nafni sem hann nefnist.

 

Jesús grét yfir borginni, sem vissi ekki hvað til friðar heyrði. Hann sem birtir Guð á jörð, hann sem er Guð með oss, sem elskar þennan heim og var kominn var til að frelsa. Hann fann til með fólkinu, íbúunum, hann sá fyrir hvað myndi gerast. En menn hlustuðu ekki á hann. Nokkrum dögum síðar var hann negldur á kross. Hvað sagði hann þar? Hann sagði „Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gera!“ Og svo sagði hann við samfanga sinn, sem var sannarlega sekur um alvarlegan glæp, raunverulegur ræningi: „Sannlega segi ég þér, í dag skaltu vera með mér í Paradís.“

Jesús grét yfir borginni, yfir þjóðinni. Og það var engin þórðargleði í grát hans. Hann hlakkaði ekki yfir þeim maklegu málagjöldum sem þetta trúlausa fólk átti í vændum. Nei, heldur aðeins sorg, hann grætur, hann sem lét negla sig fast við þá sekt og skuld sem er okkar. Okkar allra. Tökum eftir því!  Lokaorð hans er ekki fordæming heldur fyrirgefning. Ekki refsing heldur sýknudómur! Kross og tóm gröf, fyrirgefning, páskasól. Þar með eru fórnarsiðir lögmálsins felldir úr gildi og áhrif endurlausnar, fyrirgefningar, friðar og frelsis leidd fram sem grunntónn trúar, menningar og samfélags. Og þar eigum við öll svo mikið ólært enn.

 

Lexía dagsins eru orð Jeremía spámanns um leirkerasmiðinn. Þegar ég var strákur og lék mér á Skólavörðuholtinu þá stóð þar hús innan um óhrjálega braggana og nefndist Listvinahús. Þar var Guðmundur frá Miðdal með leirmunaverkstæði. Þarna var maður eins og grár köttur og fylgdist með þessu mikla ævintýri þegar listamennirnir voru að móta leirinn á skífunni. Þeir skelltu blautri leirklessunni á hjólið, og sneru því svo með ógnar hraða og mótuðu með fimum höndum fegurstu vasa og skálar, nytjahluti eða skrautgripi til gleði og þarfa. En stundum kom fyrir að verkið mislukkaðist. Það fékk ekki það form sem listamaðurinn ætlaði því. Þá tók hann það bara af skífunni og hnoðaði það í nýja klessu sem hann skellti aftur á skífuna, og hann hætti ekki fyrr en hann hafði náð því sem hann ætlaði sér.  Aftur og aftur, og enn á ný, af ótrúlegri þolinmæði.

En svo var annað umhugsunarvert. Þegar búið var að brenna leirinn þá varð ekki aftur snúið. Ef vasinn kom gallaður út úr ofninum þá var honum bara fleygt. Þá var hann bara glerbrot á stórum haug. Þetta var mér alltaf jafnmikið undrunarefni og aðdáunar.

Löngu síðar rakst ég á þessa frásögn spámannsins Jeremía af leirkerasmiðnum. Hann líkir Guði við leirkerasmið, sem fer mildum höndum um handaverk sín. Og hann vill lækna og græða og gera heilt og mótar að nýju það sem miður fer. Og  í höndum Guðs er ekkert of seint, jafnvel glerbrotin getur hann mótað að nýju, jafnvel hið brotna og mislukkaða getur hann reist við. Fyrirgefning syndanna kallast það og um það vitnar krossinn, um það vitnar helgidómurinn. Guð fer mildum höndum um og mótar að nýju, endurskapar, endurleysir, reisir upp.

 

Daglega var hann að kenna í helgidóminum, segir guðspjallið, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann. Það var þá. En stóð stutt. Brátt hafði þessi hrifning snúist upp í hatur og fordæming. Mannssálin er reikul og rótlaus. Þá sem nú.

Hann er enn í helgidóminum að kenna. Í helgidómum landsins, eins og hér í Dómkirkjunni á þessum morgni. Í helgidómi bænarinnar, skírnar og kvöldmáltíðar. Þar er hann að hlusta, að kenna, að gefa sjálfan sig. Og margir vilja ráða hann af dögum. En hvar er fólkið sem vill hlýða á hann og hlýða honum, biðja?

Þekkjum við okkar vitjunartíma? Enn og aftur erum við hvött til þess í heilagri ritningu: Kjósið í dag hverjum þið viljið þjóna! Nú er hagkvæm tíð. Nú er hjálpræðisdagur! Og þið eruð börn ljóssins og dagsins!

 

 

 

 

 

Drottinn ger mig að verkfæri friðar þíns,

að kærleikur rými burt hatri,

ranglæti víki fyrir fyrirgefningu,

myrkrið fyrir ljósi,

örvænting snúist í von,

sorgin í gleði.

 

Hjálpa mér að fyrirgefa rangindi,

stuðla að sátt í ósætti,

tendra ljós í skugga,

veita huggun í sorg.

Hjálpa mér Drottinn, að sækjast fremur eftir að

hughreysta en láta huggast,

skilja en njóta skilnings,

elska en vera elskaður.

Því að okkur er gefið ef við gefum,

við finnum okkur sjálf í umhyggju um aðra,

okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum og

fyrir dauðann fæðumst við til eilífs líf. Amen

 

 

 

 

 

Laufey Böðvarsdóttir, 21/8 2017

Á morgun, sunnudaginn 20. ágúst sem er tíundi sunnudagur eftir Þrenningarhátíð er messa kl. 11. Karl Sigurbjörnsson, biskup mun prédika og þjóna fyrir altari. Kári leikur á orgelið og félagar úr Dómkórnum syngja. Næg bílastæði við Alþingishúsið, verið velkomin.

IMG_3308

Laufey Böðvarsdóttir, 19/8 2017

Falleg mynd sem hann Ástbjörn okkar tók áðan í blíðunni. Minni á tónleikana í kvöld.

IMG_1116
Á Menningarnótt eru tónleikar kl. 19 í Dómkirkjunni, þá mun Guðrún Árný Karlsdóttir syngja og leika á píanó sin uppáhalds lög. Aðgangur ókeypis
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari leiða áheyrendur í gegnum ljúfa tóna á tónleikum á Menningarnótt, laugardaginn 19. ágúst kl. 20:00 í Dómkirkjunni í Reykjavík. Á efnisskránni verða íslensk og þýsk sönglög en einnig ýmsar aríur og samsöngvar óperubókmenntanna. Auk Álfheiðar og Evu koma meðal annars fram Eyrún Unnarsdóttir sópran og Fjölnir Ólafsson baritón. Aðgangur er ókeypis.
Verið hjartanlega velkomin á kvöldtóna í Dómkirkjunni!

Laufey Böðvarsdóttir, 19/8 2017

Fimm umsækjendur um embætti prests í Dómkirkjuprestakalli

Fimm umsóknir eru um embætti prests í Dómkirkjuprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Umsækjendur eru (í starfrófsröð):
Cand. theol. Bryndís Svavarsdóttir,
sr. Elínborg Sturludóttir,
sr. Eva Björk Valdimarsdóttir,
Mag. theol. Jónína Ólafsdóttir,
sr. Vigfús Bjarni Albertsson.

Umsóknarfrestur um embættið rann út 14. ágúst sl. Biskup Íslands skipar í embættið frá 1. október nk. til fimm ára. Umsóknir fara nú til umfjöllunar matsnefndar um hæfni til prestsembættis og að fenginni niðurstöðu hennar fjallar kjörnefnd prestakallsins um umsóknir þeirra sem matsnefnd telur hæfasta. Kjörnefnd kýs að því búnu milli umsækjendanna.

 

Laufey Böðvarsdóttir, 18/8 2017

Á þessum fallega sumardegi verður skólasetning Menntaskólans í Reykjavík í Dómkirkjunni kl. 14. Yngvi Pétursson rektor og séra Hjálmar Jónsson munu taka fagnandi á móti glöðum ungmennum. Kór Menntaskólans í Reykjavík syngur. Við í Dómkirkjunni þökkum Yngva fyrir einstaklega gott samstarf á liðnum árum og óskum honum velfarnaðar.

IMG_2627

Laufey Böðvarsdóttir, 17/8 2017

Tónleikar á Menningarnótt í Dómkirkjunni kl. 19. og kl. 20. Hjartanlega velkomin

Á Menningarnótt eru tónleikar kl. 19 í Dómkirkjunni, þá mun Guðrún Árný Karlsdóttir syngja og leika á píanó sin uppáhalds lög. Aðgangur ókeypis

Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari leiða áheyrendur í gegnum ljúfa tóna á tónleikum á Menningarnótt, laugardaginn 19. ágúst kl. 20:00 í Dómkirkjunni í Reykjavík. Á efnisskránni verða íslensk og þýsk sönglög en einnig ýmsar aríur og samsöngvar óperubókmenntanna. Auk Álfheiðar og Evu koma meðal annars fram Eyrún Unnarsdóttir sópran og Fjölnir Ólafsson baritón. Aðgangur er ókeypis.

Verið hjartanlega velkomin á kvöldtóna í Dómkirkjunni!

Laufey Böðvarsdóttir, 16/8 2017

Messa 20. ágúst kl. 11

Hr. Karl Sigurbjörnsson prédikar og þjónar fyrir altari. Ritningarlestra les Oddur Björnsson. Félagar úr Dómkórnum leiða söng og Kári Þormar leikur á orgelið. Næg bílastæði aftan við Alþingishúsið. Allir velkomnir!

Laufey Böðvarsdóttir, 16/8 2017

Sunnudaginn 20. ágúst sem er tíundi sunnudagur eftir Þrenningarhátíð er messa kl. 11. Karl Sigurbjörnsson, biskup mun prédika og þjóna fyrir altari. Kári leikur á orgelið og félagar úr Dómkórnum syngja. Næg bílastæði við Alþingishúsið, verið velkomin.

IMG_3313

Laufey Böðvarsdóttir, 15/8 2017

Á þessum góða þriðjudegi er gott að njóta kyrrðar-og bænastundar í hádeginu í Dómkirkjunni. Góð máltíð hjá henni Ástu okkar í safnaðarheimilinu. Í kvöld eru Bach tónleikar Ólafs Elíassonar kl. 20.30. Verið velkomin.

Laufey Böðvarsdóttir, 15/8 2017

Messa 13. ágúst kl. 11

Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup mun prédika og þjóna fyrir altari. Félagar úr Dómkórnum syngja og Kári Þormar leikur á orgelið. Næg bílastæði fyrir aftan alþingishúsið. Allir velkomnir!

 

Laufey Böðvarsdóttir, 12/8 2017

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Skráning í fermingarfræðslu

 

Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS