Þau eru óneitanlega erfið orð guðspjallsins í dag. „Beiskur ertu, Drottinn minn,“ sagði kellíngin forðum. Beisk og erfið eru orð Jesú um þjóninn sem „..tekur að berja þjóna og þernur…” Maður á erfitt með að ímynda sér slíka þjóna á síðum guðspjallanna, að Jesú skuli til hugar koma að þá sé að finna í hópi játenda sinna og lærisveina. Og hörð eru viðbrögð húsbóndans í sögunni gagnvart þeim þjóni, … „sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum“ og mun barinn mörg högg. Jú, myndir ofbeldisins eru margvíslegar. Það þekkir Jesús, og það þekkjum við líka. Þær eru líka að finna innan hins kristna samfélags og menningar sem um aldir hefur verið mótað af kristnum gildum. Hvernig má það vera?
En í upphafi guðspjallsins spyr Jesús: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður…?“ Við skulum hlusta á þá spurningu og taka hana til okkar. Ráðsmaður er sá eða sú sem trúað er fyrir verðmætum, eða málefni, að gæta, ávaxta fyrir eigandann, húsbóndann. Jesús notar þessa líkingu iðulega um samskipti Guðs og manns; hlutverk mannsins í húshaldi Guðs er ráðsmennska. Það er mikilvægt hugtak sem vert er að gefa gaum. Hvað eigum við sem við höfum ekki þegið? Og hvað er það sem við þurfum ekki að skila af okkur þegar allt kemur til alls? Skila af okkur í hendur lífinu og höfundi þess og húsbónda. Ráðsmenn, það erum við, við höfum þegið verðmæti sem okkur eru á hendur falin til að gæta, ávaxta í þágu annarra, jafnvel sem við þekkjum ekki, höfum ekki séð, munum aldrei sjá.
„Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður?“ spyr Jesús. Hann spyr um trúmennsku í smáu sem stóru. Hann spyr um trúmennsku þeirra sem kölluð eru til forystu í þágu annarra á ólíkum sviðum samfélagsins. Hann spyr um heilindi og trúmennsku lærisveina sinna og leiðtoga þeirra, kristninnar í heiminum okkar, okkar sem vitum, eða eigum að vita vilja húsbóndans, Guðs, en hirðum augljóslega ekki um hann. Hann spyr um þetta upp og ofan hversdagsfólk sem hann á öðrum stað nefnir salt jarðar og ljós heimsins, sem gengur að verkum sínum á vettvangi dagsins öðrum til góðs og gæfu. Og hann spyr um leiðtoga kristninnar sinnar: Hvernig gæta þau skyldu sinnar? Þau, við sem falin hefur verið á hendur ráðsmennska yfir boðskap Jesú Krists og þeirri iðkun og athöfn sem heldur nafni hans á lofti og skal laða til fylgdar við hann? Okkur er mikið gefið. Hvernig gætum við ráðsmennskunnar, hvernig skilum við af okkur því sem okkur hefur verið léð? Hvernig höfum við sinnt ráðsmennskunni, við sem ættum að þekkja vilja húsbóndans? Ættum við ekki hvert og eitt að líta í eigin barm þegar leitað er svara við því? Okkur hefur verið mikið gefið og af okkur mun mikils krafist. Það fer ekki milli mála.
Jesú er heitt í hamsi í orðum guðspjallsins þegar hann sér að þjónninn „tekur að berja þjóna og þernur“. Vegna þess að þeir einstaklingar og samfélag, sem hann vill móta og reisa heiminum til heilla, bregst við á annan hátt. Hann lýsir því í upphafi Fjallræðunnar: Fátækir í anda, friðflytjendur, hógværir, sorgmæddir yfir neyð og hörmum, miskunnsamir, hjartahreinir, hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, gleðjast og fagna í andstreymi og ofsóknum.
Það er alveg ljóst að þetta allt á undir högg að sækja í samtíðinni, samtíð sem hefur úthýst Guði og rær að því öllum árum að bægja mynd og áhrifum Jesú Krists frá hinum ungu. Trú er álitin til ills eins.
Sagnfræðingurinn Will Durant fullyrti að ekki væri að finna neitt marktækt dæmi í mannkynssögunni um samfélag sem tekist hafi að viðhalda siðgæði án aðstoðar trúarbragða. Og bætir við: „Mikilvægasta spurning okkar tíma er hvort mannkynið geti lifað af án Guðs.“ Það eru umhugsunarverð orð og áleitin spurning hins vitra manns. Hið almennt viðurkennda viðhorf okkar daga að það sé tæknilausn á meir og minna öllum mannlegum vanda það er ekkert nema meinafræði græðgi og drottnunar. Og leiðir í ógöngur.
Munum orð Helen Keller, þeirrar merku konu. Hún var einn merkasti vottur liðinnar aldar um sigur mannsandans, umhyggjunnar, lífsins. Hún sagði eitt sinn: „Vísindin hafa ef til vill fundið lausn við flestum meinum, en þau hafa ekki fundið neina lausn við því sem verst er – sinnuleysi manna um hag náungans.“ Það eru umhugsunarverð orð.
Oft leitast menn við að beita tækninni til að móta betri heim, án þess að við þyrftum að verða betri manneskjur. En það nær skammt. Með allri virðingu fyrir fyrrverandi borgarstjóra og aðdáun hans á heimspeki, eins og hann lýsti í grein í Fréttablaðinu á dögunum og sem hann taldi að ætti að koma í stað trúarinnar. Grein hans birtir sannarlega skefjalausa sleggjudóma gegn trú og kristni. Og í blaðinu í gær bætir hann heldur betur í fordómaflauminn. Nei, með allri virðingu fyrir honum og heimspekinni, þá gerir hún út af fyrir sig fólk ekki að betra fólki, ekki fremur en tæknin, né hvers konar hugmyndafræði. Nei, það megnar kærleikurinn einn, kærleikurinn til Guðs og náungans. Og það læra menn ekki af bókum, ekki einu sinni af góðum bókum. Nei. Það þarf annað og meira að koma til. Kærleikur er alltaf tengsl, persónutengsl og samskipti
„Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður…?“ Þetta er spurning Jesú til okkar. Okkur eru falin verðmæti á hendur sem eru lífsspursmál heiminum okkar. Það er boðskapur og lífsviðhorf, trú og hyggindi, viðmót og verk, sem gera frið og sátt, miskunnsemi og réttlæti eftirsóknarverðari lífsgildi en að afl og auð; það er Jesús Kristur og fagnaðarerindi hans. Þótt borgarstjórinn fyrrverandi fullyrði að Jesús hafi aldrei komið til Íslands, þá vitum við betur. Hann hefur verið hér á ferð í þúsund ár og enn kallar hann, leitar, laðar til fylgdar við sig. Meistarinn, frelsarinn krossfesti og upprisni. Og við sem höfum heyrt, við erum kölluð til að fylgja honum, að læra af honum, elska hann, leitast við að líkjast honum í umhyggju, mildi, mannúð, miskunnsemi. Já, það er okkur falið, það er okkur léð. Engin viðmið eru traustari en boðskapur hans, engin markmið skýrari fyrir hið góða líf og heilbrigða samfélag en mynd hans og fordæmi. Engin aflvaki máttugri en andi og áhrif kærleika hans.
Hvernig stuðlum við að betra heimi, að friði og sátt? Við heyrðum eitt svar við því í lexíu dagsins þar sem Amos spámaður segir:„Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu.“ Þetta á við um Reykjavík sem og Jerúsalem. Það er skýrskotun til samfélagsins, kerfisins, stjórnmálanna, og einstaklinganna, okkar hvers og eins. Og það snýst ekki bara um stóru línurnar og háleitu markmiðin og hugsanirnar og samræðurnar og heimspekina, heldur viðhorf, breytni, orð og verk, umgengni við þau sem á vegi okkar verða frá degi til dags, á vettvangi hversdagsins í umgengni við náungann. Og þar gegnir barnatrúin ómetanlegu hlutverki, það sem sáð er í sál barnsins af virðingu fyrir því háa og djúpa, fagra, sanna og góða, Jesú mynd, Jesú nafn, Jesú orð.
Emerich Roth hét Gyðingur nokkur, sem helgaði líf sitt því að berjast gegn kynþáttahatri og ofbeldi. Hann var einn þeirra sem lifðu af Auschwitz, en missti þar foreldra sína, þrjár systur og fjörutíu nána ættingja aðra. Í blaðaviðtali var hann spurður hvaða hlutverk hann myndi óska sér að hafa leikið í veraldarsögunni. Þá svaraði hann: „Ég hefði viljað vera barnakennari lítils drengs sem leið ofbeldi og einelti og er nú heimsþekktur og alræmdur fyrir grimmd og mannhatur, og hét Adólf Hitler.“
Hvernig stuðlum við að friði og sátt í menningu og samfélagi? Með því að skapa því skilyrði í umhverfinu. Og hvernig gerir maður það? Áreiðanlega ekki með yfirlýsingum og skilgreiningum. Og alls ekki með reiði, afbrýðissemi, ágirnd eða hatri. Heldur með kærleika, opnum huga og einlægni. Og með skaphafnarmótun, miðlun og ræktun sem að því stuðlar.
Skáldið góða, Jón úr Vör, segir:
Stillt vakir ljósið
í stjakans hvítu hönd,
milt og hljótt fer sól
yfir myrkvuð lönd.
Ekki með orðaflaumi
mun eyðast heimsins nauð.
Kyrrt og rótt í jörðu
vex korn í brauð.
Norsk þingkona var í viðtali í ríkisútvarpinu norska. Með henni í stúdíóinu var sonur hennar, fimm-sex ára. Eftir að hafa rætt um málefni ríkisstjórnar og þings spurði fréttamaðurinn hvað hún ætlaði að gera í sumarleyfinu. Jú, fjölskyldan ætlaði að dvelja á grískri eyju sem hún hafði dvalið á undanfarin sumur og þar sem þau þekktu orðið íbúana og umhverfið. „Og hvað gerir þú þar?“ spurði fréttamaðurinn strákinn: „Ég leik mér.“ „Við hvern?“ „Við hann Androutsos.“ „Kann hann norsku?“ „Nei.“ „En talar þú grísku?“ „Nei!“ „Nú, hvernig getið þið þá leikið ykkur saman þegar þið skiljið ekki hvorn annan?“ Þögn. Það var greinilegt að hann skildi ekki spurninguna. „Ég á við, hvernig getið þið leikið ykkur saman þegar þið talið tvö ólík tungumál?“ Spurði fréttamaðurinn, og strákurinn svaraði hægt en með raddblæ sem gaf í skyn að svarið var ekkert nema sjálfsagt: „Við bara byrjum…!“ Við bara byrjum! Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur.
Dýrð sé Guði…..