Æðruleysismessa kl. 20 í kvöld, 19. mars.
Æðruleysismessur snúast um að dvelja hér og nú, að vera í nærveru hvers annars, við fætur Æðri máttar. Þar sem messurnar eru í anda tólf sporanna kemur félagi og deilir reynslu sinni.
Díana Ósk leiðir stundina og fer með okkur í sameiginlega bæn, Ástvaldur verður við pianóið, Bjarni Ara tekur lagið og Sr. Fritz Már fer með hugleiðingu.
Stundin er búin kl. 21:00 en við bjóðum upp á fyrirbæn fyrir þau sem það vilja eftir stundina.
Laufey Böðvarsdóttir, 19/3 2017
Laufey Böðvarsdóttir, 15/3 2017
Laufey Böðvarsdóttir, 15/3 2017
Jóhannesarpassían eftir J.S. Bach er ómissandi þáttur í aðdraganda páskanna.
Dómkórinn ásamt kammersveit og einsöngvurum mun flytja þetta magnaða verk í tvígang í Langholtskirkju dagana 1. og 2. apríl næstkomandi.
Einsöngvarar verða Kristinn Sigmundsson bassi í hlutverki Jesú, Þorbjörn Rúnarsson tenór í hlutverki guðspjallamannsins, Fjölnir Ólafsson baritón í hlutverki Pílatusar, Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hildigunnur Einarsdóttir alt. Stjórnandi er Kári Þormar.
Jóhannesarpassían sem er eitt af viðameiri verkum sem varðveist hafa eftir Jóhann Sebastían Bach, túlkar á áhrifaríkan hátt frásögn Jóhannesarguðspjallsins af handtöku og krossfestingu Jesú Krists. Í verkinu er texti guðspjallsins fluttur með sönglesi og mögnuðum kórköflum þar sem kórinn túlkar meðal annars ofsa og reiði múgsins eins og Jóhannes lýsir því. Inn á milli hljóma fagrar aríur og sálmar þar sem hin hryggilega atburðarás frásagnarinnar er hugleidd.
Þetta er í fyrsta skipti sem Dómkórinn flytur Jóhannesarpassíuna en áður hefur kórinn staðið fyrir flutningi á ýmsum stórum kórverkum svo sem Sálumessu Mozarts og Messíasi eftir Händel.
Aðgangseyrir er 4.900 kr. Miðar eru seldir á midi.is
Laufey Böðvarsdóttir, 15/3 2017