Dómkirkjan

 

Skráning í fermingarfræðslu 2022-2023

Til barna sem fædd eru 2009 og foreldra/forráðamanna þeirra.

Skráning í fermingarfræðslu fer fram hér: https://domkirkjan.skramur.is/input.php?id=7

Í ágúst hefst fermingarfræðsla í Dómkirkjunni, ætluð börnum í 8. bekk sem eru að velta því fyrir sér eða hafa ákveðið að fermast vorið 2023.
Fermingarbarnanámskeið verður í ágúst og er það samstarfsverkefni prestanna og safnaðanna í Dóm-og Neskirkju.
Kynningarfundur er sun. 15. ágúst kl. 20:30 í Dómkirkjunni.
Námskeið fer svo fram 15.-18. ágúst.
Námskeiðið hefst í Neskirkju mán. 15. ágúst kl. 10:00
Mæting á námskeiðið er alla dagana í Neskirkju og fer fram
eftirfarandi daga:
mán.15. ágúst kl. 10-15
þri. 16. ágúst kl. 10-15
mið. 17. ágúst kl. 10-15
fim. 18. ágúst kl. 10-15.
fim. 18. ágúst kl. 19:30 Grillveisla
Dagskráin er afar fjölbreytt en markmiðið er að veita börnunum fræðslu um kristna trú, siðferði og menningu. Þar má nefna:
- Sögur Biblíunnar
- Helgihaldið, saga, tákn og tónlistin.
- Lífsleikni
- Mannréttindi
- Umhverfisvernd
- Þróunar-og hjálparstarf.
Sunnudaginn 21. ágúst kl. 11 verður guðsþjónusta í Dómkirkjunni þar sem fermingarbörn og foreldrar/forráðamenn þeirra eru sérstaklega boðin velkomin.
Auk námskeiðsins verða samverustundir og fræðsla reglulega yfir veturinn.
Það verður auglýst með sérstöku bréfi að skráningu lokinni.
Helgina 9.-11. sept. verður farið í Vatnaskóg í Svínadal, en þar hafa sumarbúðir KFUM verið reknar í næstum heila öld. Þar mun fara fram fræðsla, útivist og skemmtun í bland og við munum án efa njótum dvalar á undurfögrum stað sem er sérsniðinn að þörfum barna og ungmenna.
Fyrirhugaðir fermingardagar vorið 2023 eru:
pálmasunnudagur 2. apríl kl. 11:00
skírdagur 6. apríl kl. 11:00
hvítasunnuudagur 28. maí kl. 11:00
Ef þið viljið skrá börnin ykkar til þátttöku í fermingarstarfinu eða fá ítarlegri upplýsingar um fermingarstarfið biðjum við ykkur um að skrá börnin á fésbókarsíðu Dómkirkjunnar. Hér mun koma linkur þar sem hægt er að skrá sig í fermingarfæðsluna, linkurinn er orðinn virkur á fésbókarsíðu Dómkirkjunnar.
Ef ykkur vantar frekari upplýsingar um fermingarstarfið getið þið sent tölvupóst á : sveinn@domkirkjan.is eða elinborg@domkirkjan.is eða hringt í síma 5209709.
Verð fyrir fræðsluna er kr. 35. 000,- og er þar innfalið: Kennsla, fæði, námsgögn og helgarferð í Vatnaskóg.
Við hlökkum til fermingarstarfsins og vonumst til að sjá ykkur sem flest!
Elínborg Sturludóttir
Sveinn Valgeirsson

Laufey Böðvarsdóttir, 31/5 2022

Á annan í hvítasunnu er messa klukkan 11.00. Séra Elínborg Sturludóttir þjónar, Kári Þormar dómorganisti og Dómkórinn, barn verður fært til skírnar. Verið hjartanlega velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 31/5 2022

Hlökkum til að sjá ykkur í messunni á morgun, sunnudag klukkan 11.00. Prestur séra Sveinn Valgeirsson, Kári Þormar og Dómkórinn. Dómkórinn er með tónleika á miðvikudaginn í Hallgrímskirkju. Miðasala á tix.is

Laufey Böðvarsdóttir, 28/5 2022

Glóandi sindur-Dómkórinn í Reykjavík. Miðasala á tix.is

Eftir þriggja vora þögn fagnar Dómkórinn í Reykjavík nýju sumri þar sem flutt verða íslensk kórverk úr ólíkum áttum undir stjórn Kára Þormar. Tónleikarnir fara fram í Hallgrímskirkju, 1. júní næstkomandi og hefjast kl. 20:30.
Verkin eiga það sammerkt að vera samin á undanförnum áratugum, það elsta frá 1971 en yngstu verkin voru skrifuð fyrir Dómkórinn í byrjun árs 2020 í aðdraganda heimsfaraldursins sem setti öll tónleikaáform til hliðar. Nú er loks komið að því að kórinn fái að láta þessi nýju verk hljóma opinberlega í bland við aðeins eldri kórsmelli.
Nýju verkin eru þrjú talsins, eftir þau Arngerði Maríu Árnadóttur, Hafstein Þórólfsson og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Að auki heyrast verk eftir Smára Ólafsson, Pétur Þór Benediktsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Stefán Arason, Sigurð Sævarsson, Atla Heimi Sveinsson, Martein H. Friðriksson, Önnu Þorvaldsdóttur, Báru Grímsdóttur, Sigurð Flosason og Jón Ásgeirsson.
Þótt tónsmíðarnar séu allar í nýrri kantinum sækja tónskáldin innblástur frá ólíkum tímum en ljóðin eiga uppruna sinn allt frá fornum helgitextum og til eldri sálmaskálda á borð við Hallgrím Pétursson til yngri höfunda eins og Vilborgar Dagbjartsdóttur og Aðalsteins Ásberg Sigurðssonar.
Yrkisefnin eru þó sígild: Andinn og efnið, trúin, efinn, ástin, dauðinn, lotning, lof og fögnuður yfir undri lífsins.
Tónleikarnir eru um klukkustund að lengd og eru án hlés.

Laufey Böðvarsdóttir, 26/5 2022

Er sumarið kom yfir sæinn- nú er blómlegt og fallegt í miðborginni. Tilvalið að koma til messu, fá gott messukaffi og ganga í kringum Tjörnina fyrir eða eftir messu. Séra Sveinn Valgeirsson prédikar við guðþjónustu á uppstigningardag 26. maí klukkan 11.00. Dómkórinn og Kári Þormar. Messukaffi í safnaðarheimilinu. Verið hjartanlega velkomin og takið með ykkur gesti!

283769667_10160086342150396_5286326524349087880_n

Laufey Böðvarsdóttir, 23/5 2022

Kæru vinir, bæna-og kyrrðarstundin í hádeginu á morgun, þriðjudag verður í safnaðarheimilinu, Lækjargötu 14a. Verið velkomin!

Laufey Böðvarsdóttir, 23/5 2022

22. maí 5. sunnudagur páskatímans (Rogate) – Hinn almenni bænadagur.Þá er messa klukkan 11.00. Séra Elínborg Sturludóttir Kári Þormar og Dómkórinn. Verið hjartanlega velkomin!
Vers vikunnar: Slm 66.20
Lofaður sé Guð er hvorki vísaði bæn minni á bug né tók frá mér miskunn sína.

Laufey Böðvarsdóttir, 20/5 2022

Norsk messa í Dómkirkjunni klukkan 14.00 í dag á þjóðhátíðardegi norðmanna. Prestur séra Þorvaldur Víðisson. Til hamingju norðmenn!

Til hamingju, norsku vinir og vinir Noregs! Á hugann leitar yndislegur vorsálmur norska skáldsins (og tendasonar Íslands) Knut Ödegård í þýðingu vinar hans, Sigurbjörns Einarssonar:
Sjá vorsins bjarta veldi
úr viðjum leysa jörð.
Það lauf sem frostið felldi
í freðinn vetrarsvörð,
rís upp á yngdum kvisti
við yl frá vorsins sól.
Já, allt rís upp með Kristi
sem áður féll og kól.
Sjá ljóssins tökin ljúfu
sem leysa dauðans ís.
Hvert blóm, hvert blað á þúfu,
er bros frá Paradís
því hann sem dauðann deyddi
í deiglu kærleikans
það ljós til sigurs leiddi
sem leysir sköpun hans.

Laufey Böðvarsdóttir, 17/5 2022

Pétur Nói var með glæsilega útskriftartónleika í liðinni viku. 16. maí er hann aftur með tónleika í Dómkirkjunni klukkan 18.00. Þið sem misstuð af þessum frábæru tónleikum hjá Pétri Nóa, nú er tækifærið að koma og njóta. Frítt inn!

Laufey Böðvarsdóttir, 16/5 2022

Dómkirkjufólk þakkar dásamlegar móttökur hjá Guðna Th. Jóhannessyni forseta á Bessastöðum í vikunni.

280916120_10160069360485396_397483444774118214_n

Laufey Böðvarsdóttir, 15/5 2022

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Skráning í fermingarfræðslu

Fimmtudagur

Tíðasöngur kl. 9. 15 og kl. 17.00 yfir vetrarmánuðina.
21.00 AA fundur

Dagskrá ...