Dómkirkjan

 

Séra Hjálmar jónsson prédikar og þjónar fyrir altari sunnudaginn 11. janúar kl. 11:00. Dómkórinn syngur undir stjórn Kára Þormar dómorganista. Barnastarf kirkjunnar hefst aftur eftir jólafrí, Ólafur Jón og Sigurður Jón verða með skemmtilegt barnastarf á kirkjuloftinu. Eigum gæðastundir með börnunum okkar á nýju ári í kirkjunni okkar. Hjartanlega velkomin.

Laufey Böðvarsdóttir, 7/1 2015

Fyrsta bæna-og kyrrðarstundin á nýju ári verður á þrettándanum kl. 12:10. Létt máltíð að bænastund lokinni í safnaðarheimilinu við Vonarstræti. Fyrirbænir má hringja inn í síma 520-9700. Hlökkum til að sjá ykkur öll og eiga góða stund saman. Allir hjartanlega velkomnir.

Vor 062

Laufey Böðvarsdóttir, 4/1 2015

Sunnudaginn 4. janúar messa kl. 11:00. Séra Anna Sigríður Pálsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Lítil stúlka verður borin til skírnar. Dómkórinn syngur undir stjórn Kára Þormar dómorganista. Hjartanlega velkomin. Athugið sunnudagaskólinn byrjar aftur eftir rúma viku eða sunnudaginn 11. janúar

Laufey Böðvarsdóttir, 2/1 2015

Gleðilegt ár kæru vinir, biðjum ykkur blessunar á nýju ári. Þökkum ánægjulegar samverustundir á árinu

Laufey Böðvarsdóttir, 2/1 2015

Prédikun séra Hjálmars við aftansöng í Dómkirkjunni á gamlársdag 2014

Við höfum haft jól í huganum og á vörunum í margar vikur. Og enn eru jól, þau tengja saman árin. Sólin er farin að hækka á lofti þegar jólum lýkur. Verkefni nýs árs verða þá tekin við, verkahringurinn eins og ársins hringur. Og eins verður það með dagamuninn, sem fylgir hverri tíð, þorramatur og vetrarhátíðir og síðan fara að sjást gulir og glaðir páskaungar með hækkandi sól.

Undirbúningstíminn hafði líka sitt sjálfstæða gildi, samkomur, tónleikar, kirkjuhátíðir. Meira er þá af venjum og mótuðum siðum en annars staðar í árinu og í lífi okkar. Margfalt meiri tengsl og samskipti eru í fjölskyldum, við vini og kunningja. Margt af þessu er vanabundið, endurtekning á mörgu sem okkur hefur orðið kært. Unga kynslóðin, börnin á fyrstu árum sínum, alast upp við sið og venju sem þau njóta – og njóta sín við þegar líða fer að jólum. Og trúin og siðurinn á sínum stað. Engin ástæða er til að líta mikilvægi þessa smáum augum. Umræða, ólund og ýfingar vegna starfsemi kirkju og kristinnar trúar setti mark sitt á umræðuna á jólaföstunni. Það var flokkað undir “mannréttindi” að meina ungu skólafólki að heimsækja kirkjur hér í borginni. Stundum á maður erfitt með að fylgja hugsanagangi annarra, skilja þá, þótt maður leggi sig fram.Sagt hefur verið að smáþjóðir geti átt við ýmsan tilvistarvanda að glíma. Þær gangi oft með inngróna minnimáttarkennd. Eins og kotbóndinn forðum sem fyrirleit aðstæður sínar og þjóðfélagsstöðu. Er þessi framganga e.t.v. birtingarmynd staðfestuleysis gagnvart eigin grundvelli.? Brotin sjálfsmynd og áleitinn ótti við að teljast úreltur og uppidagaður eins og nátttröll.Í hillingum getum við séð alþjóðlegt samfélag á Íslandi, fjölmenningarlegt. En hins verðum við að gæta þess að bindiefnið er sagan, tungan, landið, trúin. Þarna er vandasaman stíg að feta. Við bjóðum fólk velkomið til landsins, fólk sem er ólíkt okkur. Sú gestrisni er sjálfsögð. Um leið hljótum við að halda við menningu okkar og gæta að samfellu í sögunni. Ég sé ekki að árekstrar þurfi að verða í þessum efnum.Sú hugsun er úrelt og heimsk, sem flokkar alla trú með hindurvitnum. Trú er ekki sama og trúgirni. Kristin trú er trúnaður við Krist. Hún er sannfæring um það að hann hafi sagt satt. Að hann sé sá sem hann sagðist vera. Fyrir því höfum við rök sögunnar og við höfum rök eigin hjarta og reynslu. Enginn einstakur maður hefur haft viðlíka áhrif á lífið í heiminum. Trúin á hann er mikilvægur þáttur í lífi þeirra sem kynnast honum og festa trú á hann. Sú trú krefst þess ekki að við vörpum frá okkur skynsemi og viti. Þvert á móti vill hún að við verðum betur sjáandi. Kristur vill gera okkur heilla og kærleiksríkara fólk. Í þessu sambandi eru mér í huga orð rektors MR frá miðri síðustu öld þegar hann segir:

“Ef vér festum eigi trú og traust við landið, söguna og tunguna, við hlutverk vort og framtíð, við Guð vors lands og Guð vors lífs, þá erum vér í hættu stödd og kunnum að farast í skiptum við þær þjóðir sem fastar trúa.”

“Þær þjóðir sem fastar trúa,” sagði sá glöggi skólamaður. Við getum átt á hættu að týnast sem dropi í mannlífshafi heimsins. Án sérkenna erum við varla meira en dropi í hafinu.

 

Nú er ári að ljúka, skammt er síðan við vorum hér síðast á áramótum. Við verðum hér aftur á áramótum innan skamms – allt þangað til við mætum mótum tíma og eilífðar, þegar við fáum ekki meiri tíma í þessu lífi. Áfram verður endurtekning, jól og áramót verða jafn kærkomin þegar skammdegið leggst að síðla næsta árs. Gildir þá einu hvernig ástand og horfur verða umhverfis okkur. Við munum aftur hlakka til jólanna og endurtaka leikinn. Við munum aftur fara að undirbúa hátíðina, Jesús Kristur mun líka koma, mitt í vafstrinu og ytri umsvifunum. “Minn frið gef ég yður” segir hann í guðspjalli gamlárskvölds. Sá er boðskapur hans alltaf.

Ár er liðið, sumt hefur okkur tekist, annað miður. En hvernig sem árið þitt hefur verið, þar kunna að vera vonbrigði, sorgir, rangindi, hvað svo sem hefur fyrir þig komið skaltu vera þess viss að þú ert óendanlega dýrmætt eintak af manneskju í augum Guðs.

Það minnir mig á manninn sem byrjaði ræðuna sína á því að lyfta upp stórum peningaseðli. Hann krumpaði seðilinn síðan saman og trampaði á honum. Þurrkaði síðan af honum og lyfti honum upp og sagði: “Af þessu skulum við læra. Seðillinn er ennþá jafnmikils virði og áður.”

Oft gerist þetta í lífinu. Við lendum í árekstrum, okkur er hafnað, það er jafnvel traðkað á okkur, sumpart vegna þess sem við segjum eða gerum, sumpart vegna ytri orsaka, sem við fáum engu um ráðið. Okkur getur fundist við vera misheppnuð og einskis virði.

En einu gildir hvað fyrir þig kemur, þú missir aldrei gildi þitt í augum Guðs. Í hans augum ertu alltaf ómetanlega dýrmæt manneskja. Þetta vil ég biðja þig að taka með þér héðan í kvöld. Þú ert perla, þú ert elskað Guðs barn.

Ykkur öllum vil ég flytja eftirfarandi ósk og bæn, persónulega og frá kirkjunni okkar við upphaf nýs árs:

“Ég óska ykkur dálítils af ferskri gleði yfir fegurð og svolitlu meiri gleymsku á vonbrigði og dálitlu meira stolts yfir hrósi og örlitlu meiri friðar fyrir asa og umstangi – og svolitlu þéttari skjólveggjar gegn áhyggjum.” (J. Ruskin)

Í Jesú nafni. AMEN

 

Laufey Böðvarsdóttir, 1/1 2015

Prédikun séra Karls Sigurbjörnssonar biskups í Dómkirkjunni á jólanótt 2014

Hnattvæðing umhyggjunnar

Miðnæturmessa í Dómkirkjunni á jólanótt 2014

 

Á helgri jólanótt sláumst við í för með hirðunum í Betlehem og virðum fyrir okkur ungbarnið og hlustum eftir englakórunum sem syngja um frið á jörðu og frelsarann sem fæddur er. Og við tökum undir með þeim, enn einu sinni eru það þið, sem færið okkur þann söng, Þorgerður og Kór Menntaskólans í Hamrahlíð. Guð launi það og blessi ykkur og allt sem að ykkur stendur. Guð gefi ykkur og okkur öllum gleðileg jól!

Hér á eftir munum við heyra gamlan íslenskan jólasálm:

Jörð og himnar, menn og englar

saman ræða.

Guð vor allra, barn í stalli,

lét sig fæða.

Hinn mesti

minnstan allra gjörði sig.

Leysti mig.

 

Þetta eru jólin, hin kristnu jól, kristin trú tjáð, útlegging á einfaldri sögu jólaguðspjallsins. Hlustaðu á með hjartanu. Guð vor allra, almættið, hinn mesti minnstan allra gjörði sig. Móðurlíf Maríu var bústaður hans, fæðingarhríðir hennar hættuför hans, varnarlauss barns inn í þennan heim, til þess að enginn og ekkert í heimi hér sé undanskilið návist Guðs, í öllu vill hann vera einn af okkur og deila með okkur kjörum. Í öllu. Og leysa, frelsa þig og mig og allan heiminn.

Síðar átti þetta barn eftir að vaxa upp og marka dýpri heillaspor í heiminum en nokkur annar. Eitt af því sem markar sérstöðu hans er að hann gerði málefni þeirra sem minna mega sín að sínu, kemur börnum og konum sérstaklega til varnar, bendir reyndar á barnið sem fyrirmynd. Segir að leiðin til að opnast fyrir þeim raunveruleika sem hann vitnar um og því lífi sem hann gefur, sé að vera sem barn. Með opinn, leitandi huga trúartausts og kærleika.

Sú hreyfing sem Jesús hratt af stað er hnattvæðing umhyggjunnar þvert á allar markalínur kynþátta og þjóðernis. Jólaguðspjallið er eins og mynd af því og hin siðferðislega skýrskotun hinna kristnu jóla: Ekki hnattvæðing markaðsaflanna og neyslunnar, sem við erum einatt svo upptekin af, nei, hnattvæðing umhyggjunnar fyrir lífinu. Og við erum í þessu samhengi sem umlykur okkur. Kristin trú er miklu frekar samhengi en skoðanir, samhengi að vera í og kórsöngur í hjartanu, eins og Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur, orðaði það  á dögunum. Kórsöngur í hjartanu. Varðveitum þann söng og látum hann knýja okkur til góðs fyrir aðra.

 

Friðarverðlaunahafar Nóbels í ár, þau Malala Yousafzay og Kailash Satyarthi, voru bæði heiðruð vegna baráttu sinnar fyrir réttindum barna. Það var verðskuldað. Barátta Malölu fyrir menntun stúlkna er okkur öllum vel þekkt, en starf Satyarthi til frelsunar barna úr ánauð hefur síður ratað í fréttir. Þau eru ótal mörg börnin sem hann hefur stuðlað að því að leysa úr þrældómsfjötrum í heimalandi sínu. Ég vil minna á að fjölmargir Íslendingar hafa á umliðnum árum lagt sitt að mörkum til að leysa indversk börn úr þrældómi og skuldaánauð að tilstuðlan Hjálparstarfs kirkjunnar. Ég hef séð með eigin augum hvernig það gengur fyrir sig. Sú sjón að sjá börn þrælkuð við háskalegar og heilsuspillandi aðstæður myrkra á milli og líta helst aldrei glaðan dag, það líður manni ekki úr minni. Nei. Né heldur sú sjón að hitta barn sem hafði búið við slíkt en er nú frjálst, leyst úr fjötrum og nýtur umhyggju og menntunar. Því gleymir maður aldrei.

Í þakkarræðu sinni í Osló sagði Satyarthi: „Hnattvæðum umhyggjuna og frelsum öll börn! Gleymdu börnin sem þrá menntun, hræddu börnin sem þrá frið… Hverju sinni sem ég hef séð fyrsta bros á andliti barns sem hefur verið leyst úr ánauð hef ég séð Guð brosa.“  Svo vitnaði Satyarthy, sem er hindúi, – tökum eftir því! – hann vitnar í orð Jesú: „Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, þeirra er himnaríki.“

 

En hvað getur ein manneskja gert? Satyarthi svaraði því með sögu sem hann lærði sem barn. Skógareldur braust út og öll dýrin lögðu á flótta, þar á meðal ljónið, konungur dýranna. Allt í einu mætti það svölu sem þaut í áttina að eldinum. „Hvað í ósköpunum ertu að gera?“ Hrópaði ljónið. „Ég er með vatnsdropa í nebbanum og ætla að slökkva eldinn,“ sagði Svalan, stolt. „Ha!“ hnussaði ljónið, „hvernig heldurðu að þú getir slökkt skógareld með einum vatnsdropa?“ En svalan svaraði að bragði: „Ég geri það sem ég get.“

 

Öll getum við lagt okkar litla skerf að mörkum að betra heimi, betra lífi. Hvert og eitt okkar, og áreiðanlega meir en við getum ímyndað okkur. Munum eftir orðum Malölu: „Eitt barn, einn kennari, einn blýantur og ein bók getur breytt heiminum.“ Þetta sagði hún, hugrakka stúlkan, sem hatursfullir ofstækismenn reyndu að myrða öðrum stúlkum til viðvörunar.

Og það var gert í nafni trúar, í nafni Guðs!!!!

Ekki þess Guðs sem mestur er og gerðist minnstur allra, til að leysa, frelsa! Hann hafnar leið ofbeldis og illvirkja. Minnstan allra gjörði sig. Þó hafa sannarlega illvirki verið framin í nafni hans í sögu og samtíð. Illskan og ofstækið er alls staðar að finna og leitar færis. En því verður ekki móti mælt að með Jesú kom nýr mælikvarði og viðmið inn í heiminn okkar, ný guðsmynd og mannskilningur. Við verðum að gæta þess að það glatist ekki úr minningu og menningu okkar frammi fyrir fælni, fordómum, trúarlegum og pólitískum hroka og ofstæki í alskyns litbrigðum sem sækir hvarvetna á.

Í Betlehem fór hinn mesti, almættið, að tala við manninn augliti til auglitis, með mannlegri rödd, ekki þrumuraust yfirvalds eða dómara, jafnvel ekki spámanns, heldur í ambri og gráti varnalauss barns sem fátæk móðir vafði örmum í köldu fjárhúsi. Og síðar í máli og rómi þess manns sem hann óx til að verða, Jesús Kristur. „Hinn mesti, minnstan allra gjörði sig. Leysti mig.“ Þegar við förum að heyra rödd Guðs í gráti barnsins og skynjum að við erum öll þrátt fyrir allt eins, hver sem við erum og hvaðan runnin, öll fæddumst við nakin og nötrandi af móðurlífi og öll eigum við meir og minna allt sameiginlegt sem skiptir máli þegar allt kemur til alls. Við erum systkin, börn hins sama Guðs. Fæst okkar hugrakkar hetjur, yfirleitt vanmegna og varnalaus og þurfum hjálp, þörfnumst hvert annars, og æðri máttar, Guðs. Jesús vill kenna okkur að hlusta á hvert annað án ótta, án tortryggni, án fyrirvara, án reiði, og takast í hendur þvert á alla múra og markalínur, takast í hendur í þágu umhyggju, réttlætis og friðar, og bera birtu Guðs og bros áfram, að lífið leysist úr viðjum myrkursins. Réttlæti og friður verða fyrst þegar við erum tilbúin að vera manneskjur, mannleg, hættum að dýrka valdið og auðinn, hættum að meta ágirndina meir en örlætið, ofbeldið fremur en mildina, og horfumst í augu og opnum hjörtu okkar og arma fyrir umhyggjunni.

Þetta eru jólin að segja. Þetta er kjarni trúar og siðar kristninnar. Og er ekki merkilegt að hugsa til þess að einmitt á aðventu og jólum þá leggst yfir heilt samfélag samstaða um að auðsýna náungakærleika, góðvild og gleði?  Hnattvæðing umhyggjunnar. Er það ekki merkilegt? Enn glitra þau kristnu áhrif gegnum kauptíðina og ærustuna, ofgnóttina og sjálfselskuna. Og kórsöngurinn ómar í hjartanu. Bara að sá ómur og heilnæmu áhrif endist og knýi hjörtu okkar til góðra verka í þágu lífsins og náungans. Þú hefur það í þinni hendi, ef þú lýkur upp hjarta þínu fyrir barninu, sem er frelsari heimsins:

Jörð og himnar, menn og englar

saman ræða.

Guð vor allra, barn í stalli,

lét sig fæða.

Hinn mesti

minnstan allra gjörði sig. Leysti mig.

 

Laufey Böðvarsdóttir, 1/1 2015

Aftansöngur á morgun gamlársdag kl. 18:00. Séra Hjálmar Jónsson prédikar og séra Sveinn Valgeirsson þjónar fyrir altari. Dómkórinn og organisti er Kári Þormar, Pétur Björnsson leikur einleik á fiðlu. Nýársdagur 1. janúar. Hátíðarmessa kl. 11:00. Biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir prédikar, séra Hjálmar Jónsson og séra Sveinn Valgeirsson þjóna fyrir altari. Dómkórinn syngur undir stjórn Kára Þormar dómorganista.

IMG_0841

Laufey Böðvarsdóttir, 30/12 2014

Messa kl. 11:00 sunnudaginn 28. desember.

Messa á morgun, sunnudag kl. 11.00 séra Sveinn Valgeirsson prédikar og þjónar fyrir altari ásamt séra Hjálmari Jónssyni. Tvö börn verða færð til skírnar. Dómkórinn og organisti er Kári Þormar. Verið velkomin

Laufey Böðvarsdóttir, 27/12 2014

Hugheilar óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári. Dómkirkjan óskar sóknarbörnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með þakklæti fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Megi blessun Guðs fylgja ykkur og umvefja.

IMG_0932

Laufey Böðvarsdóttir, 26/12 2014

Messuhald um jól og áramót

Aðfangadagur jóla, 24. desember

Dönsk messa kl. 15, séra María Ágústsdóttir prédikar og Bergþór Pálsson syngur.

Aftansöngur kl. 18, séra Sveinn Valgeirsson prédikar og séra Hjálmar Jónsson þjónar fyrir altari.

Dómkórinn syngur undir stjórn Kára Þormar.

            Miðnæturmessa kl. 23:30 sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup prédikar og þjónar fyrir altari.

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðarkórinn syngja undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

Jóladagur 25.des.

Hátíðarmessa kl. 11 biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir prédikar. Séra Hjálmar Jónsson þjónar.

Annar dagur jóla 26. desember

Messa kl. 11:00 sr. Sveinn Valgeirsson, prédikar, Dómkórinn og organisti er Kári Þormar.

Sunnudagur milli jóla og nýárs, 28. desember

Messa kl. 11.00  sr. Sveinn Valgeirsson predikar

Gamlársdagur 31. des.

Aftansöngur kl. 18 sr. Hjálmar Jónsson prédikar

Nýársdagur 1. janúar

 Hátíðarmessa kl. 11 Biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir prédikar

séra Hjálmar Jónsson  og séra Sveinn Valgeirsson þjóna fyrir altari

 

Laufey Böðvarsdóttir, 24/12 2014

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Skráning í fermingarfræðslu

Miðvikudagur

Tíðasöngur klukkan 9.15 .
Örpílagrímagöngur frá Dómkirkjunni kl. 18.00 yfir vetrarmánuðina

Dagskrá ...