Dómkirkjan

 

Í dag þriðjudag verður heljarinnar stuð í Ungdóm og farið verður í “minute to win it” keppnir. Góð verðlaun í boði er krýndur verður minute to win it meistari Ungdóm 2015. Ungdóm hefst klukkan 19:30 í kvöld. Kær kveðja, Óli Jón og Siggi Jón

Laufey Böðvarsdóttir, 3/3 2015

Kyrrðardagur í Dómkirkjunni

Laugardaginn, 14. mars er boðið til kyrrðardags í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar við Vonarstræti. Karl Sigurbjörnsson, biskup, leiðir kyrrðardaginn, fræðir um Bænabandið og hvernig hægt er að nýta það í uppbyggingu trúar og bænalífs, og stýrir íhugun og bæn.
Stuðst er við bækurnar: Martin Lönnebo: Bænabandið, og: Eva Cronsioe og Thomas Ericson: Vegurinn. Byrjað verður með morgunverði 8.30 og lokið um kl. 16. Eftir hádegi verður gengin verður pílagrímaganga, bænaganga um nágrennið, svo mikilvægt er að búa sig í samræmi við það.
Skráning og nánari upplýsingar: laufey@domkirkjan.is.
Kyrrðardagur, retreat, er hvíldardagur, þar sem við færi gefst að leita inn í hina góðu, umvefjandi kyrrð, sem veitir hjartanu hvíld, og styrkjast í trú og bæn.

Laufey Böðvarsdóttir, 3/3 2015

Séra Þórir Stephensen fyrrverandi dómkirkjuprestur prédikar sunnudaginn 8. mars

Við messu á sunnudaginn, 8. mars, verður þess minnst að nú í ár eru 85 ár liðin frá stofnun Kirkjunefndar kvenna Dómkirkjunnar. Kirkjunefndarkonur lesa ritningarlestra. Eins og raunin er um kirknakvenfélög um land allt hefur Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar frá upphafi vega sinnt prýði helgidómsins, stutt safnaðarstarf og líknarstarf í söfnuðinum með margvíslegu móti. Séra Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur, predikar, séra Sveinn Valgeirsson og Karl Sigurbjörnsson, biskup þjóna fyrir altari. Dómkórinn syngur undir stjórn Kára Þormar. Dagbjört Andrésdóttir syngur einsöng. Messukaffi, verið hjartanlega velkomin.

Laufey Böðvarsdóttir, 3/3 2015

Samtal um trú á morgun, miðvikudag frá kl. 18:00-20:30 í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar við Vonarstræti. Séra Sveinn Valgeirsson fjallar um tvo gagnrýnendur á kristna trú þá Celsus og Porphyrus og tengir það við trúvörn í nútímanum. Umræður og gott samfélag. Allir hjartanlega velkomnir. Boðið er upp á létta máltíð við vægu verði.

Laufey Böðvarsdóttir, 3/3 2015

Fjölskyldumessa á sunnudaginn Ólafur Jón Magnússon prédikar og séra Sveinn Valgeirsson þjónar fyrir altari. Kór Menntaskólans í Reykjavík undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar og organisti er Kári Þormar. Fermingarbörn lesa ritningarlestrana, sunnudagaskóli á kirkjuloftinu með Sigurði Jóni. Fundur með fermingarbörnum og foreldrum/forráðamönnum þeirra í Safnaðarheimilinu að lokinni messu. Verið hjartanlega velkomin.

Laufey Böðvarsdóttir, 26/2 2015

Á morgun, fimmtudag verður séra Bernharður Guðmundsson gestur okkar í Opna húsinu. Það verður áhugavert að hlýða á séra Bernharð, hann hefur frá mörgu skemmtilegu að segja. Kaffi og kökur, sjáumst 13:30 á morgun. Hér eru myndir frá námskeiðinu Samtal um trú sem var hér í Safnaðarheimilinu í kvöld – erindi, samtal og gefandi samvera með góðu fólki. Námskeiðið heldur áfram nk. miðvikudag kl. 18. Ein mynd af Páli á Húsafelli sem kom ásamt tónlistarmönnum í Dómkirkjuna í dag og spilaði á hljóðfæri sitt unnið úr rabarabara.

IMG_1190 IMG_1188 IMG_1192 IMG_1183

Laufey Böðvarsdóttir, 25/2 2015

Samtal um trú í kvöld kl. 18 – verið velkomin.

Það var vel sótt s.l. miðvikudagskvöld í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar við Vonarstræti, þar sem boðið var til samtals um trú. Umræður líflegar og samfélagið notalegt. Rætt var um trúarreynsluna og Biblíuna. Miðvikudaginn 25. febrúar  verður framhald samtalsins, þá mun Karl biskup leiða umræðu um sköpunarsögur og sköpunartrú. Allir hjartanlega velkomnir. Samveran hefst kl. 18 og lýkur um hálf níu. Boðið er upp á létta máltíð við vægu verði.

Laufey Böðvarsdóttir, 25/2 2015

Bráðskemmtileg ræða Davíðs Schevings Thorsteinssonar – Dómkirkjan á degi aldraðra 29. maí 2014.

 Ágætu tilheyrendur.

Þegar Séra Hjálmar bauð mér að segja, hér í sjálfri Dómkirkjunni, nokkur orð, hugleiðingar, á Degi aldraðra, kom mér í huga sagan af manninum, sem ætlaði að vaða yfir Ölfusá eina vornóttina.

Þegar áin tók að dýpka og hann sá kolsvartan álinn fyrir framan sig sagði hann :

“ Hvað hjálpar nú gagnfræðaprófið ?”

Sagan kom mér í hug því ég vissi mig alls ófæran til að segja nokkuð það við ykkur, sem þið eruð ekki búin að heyra mörgum sinnum áður. Því ég mun tala um það, sem mér er efst í huga þessi árin, en ekki flytja formlega ræðu heldur óformlegt spjall um lífið og tilveruna og bið ykkur því að vera mild við mig og taka viljann fyrir verkið.

Deilan um tilurð Guðs er æfaforn og er enn á fullu og því miður virðist alltaf vera nóg til af hávaðasömum efasemdarmönnum, sumir sinna þeirri köllun sinni að berjast gegn bólusetningum og annað dæmi um fáránleikann er að enn starfar The Flat Earth Society á Bretlandi.

Geimfari og heilaskurðlækir voru eitt sinn að deila um trúmál.

Geimfarinn sagði :

“ Það er enginn Guð til. Ég er búinn að dvelja bæði oft og lengi úti í geimnum og hef aldrei séð svo mikið sem engil fljúga fram hjá, hvað þá Guð sjálfan, eða himnaríki, þetta er allt bull og vitleysa.”

Heilaskurðlæknirinn svaraði og sagði :

“ Ég er búinn að saga göt á höfuðkúpur hundraða manna, hef fjarlægt bæði gúlpa og æxli úr heilum þeirra, en ég hef aldrei séð hugsun. “

Þegar Sigurbjörn biskup var að vígja kirkjuna á Kirkjbæjarklaustri var alveg snældu vitlaust verður.

Dimman var svo mikil að sjálfur Vatnajökull sást ekki.

Sigurbjörn biskup sagði :              

“ Við sjáum ekki jökulinn, en við vitum að hann er þarna.

Eins er með Guð, við sjáum hann ekki, en við vitum að hann er

með okkur alla daga. “

 

Ég fæddist fyrir tæpum 85 árum og þegar ég hugsa til baka þá verð ég alltaf meira og meira hissa á því að ég og leikfélagar mínir skulum hafa lifað af barnaskólaárin.

Hugsið ykkur hvað minni kynslóð var boðið upp á :

Ekkert Penicillín.

Ef við veiktumst var okkur gefið þýskt litarefni, Prontósíl, og maður pissaði rauðu í að minnsta kosti eina viku á eftir.

Engin hitaveita, kolaryk og kolareykmökkur lá yfir öllum bænum.

Einfalt gler í gluggum, enda þeir þaktir frostrósum allan veturinn.

Fiskur í matinn fjórum til fimm sinnum í viku með banvænni fitu,

tólg og mör.

Grænmeti fékk maður þá helst, ef maður gat stolið rabarbara og rófum og ávexti, ef maður gat smogið inn í garð með rifsberjum.

Í sveitinni ógerilsneydd og ófitusprengd mjólk, svokölluð beljumjólk.

Grænt slý þreifst mjög vel í sundlaugunum í Laugardal og varð engum meint af, svo ég viti til.

Eða dótið okkar, dúkkurúm stelpnanna og vörubílar okkar strákanna.

Allt málað með lífshættulegri blýmálningu og tindátarnir voru ekki úr tini heldur úr baneitruðu blýi.

Engir hjálmar voru notaðir á reiðhjólum og heldur ekki á hestbaki.

Engin bílbelti, heldur setið aftan á vörubílspalli og haldið sér fast í hvert annað, sem út af fyrir sig var nú ekki endilega alvont, eða setið

í vegavinnuskúr, sem bundinn hafði verið með snæri ofan á vörubíls-pallinn.

Eða leikirnir :  

Kýló.

Leikvöllurinn var næsta moldargata, enda ekki mikið um bíla.

Og leikurinn, að henda bolta eins fast og maður gat í annað barn.

Þarf ekki að ræða það.  Örugglega harðbannað í dag.

Eða   fallin spýtan.

Henda spýtu eins langt og maður gat og ekkert hugsað um hvort spýtan færi í hausinn á næsta barni.

Að “teika” bíl var aðal vetrarsportið, enda ekki búið að finna upp saltaustur á göturnar.

Ég held að allir sem bjuggu nálægt Tjörninni í Reykjavík hafi einhvern tíma dottið í hana.

Það var ekki fyrr en Alvar Aalto var að teikna Norræna húsið svona um 1965 að í ljós kom að það hafði fyrirfarist að leggja klóak frá austanverðu Grímsstaðaholtinu til sjávar.

Þegar við vorum að bralla í verklegri efnafræði í Atvinnuvega húsinu norðan við Háskólann runnu því bæði Vítissódi, Brennisteinssýra, Saltsýra, Saltpéturssýra og Blásýra, svo og allt gúmmulaðið úr Háskólanum og prófessorabústöðunum, niður í mýrina þar fyrir neðan og þaðan út í tjarnirnar þrjár og loks út í sjó undir Lækjargötunni.

Kannski var þetta nú ekki svo slæm blanda eftir allt saman því ég veit ekki til þess að neinum hafi orðið verulega meint af því að detta í Tjörnina.

Tjörnin iðaði af lífi, græni slýi, örugglega milljónum af örverum og bæði hornsílum og brunnklukkum.

Það er því merkilegt rannsóknarefni að nú er svo komið að ekkert líf þrífst lengur Tjörninni og fuglar fá ekki lengur lífræna fæðu úr henni.

Tvennt var talið hættulegast af öllu :

1.     Brunnklukkur sóttust mjög eftir því að komast ofan í mann.

Við þeim ósköpum var aðeins eitt ráð, að gleypa lifandi hornsíli,

sem dræpi óvættina í maganum á manni eftir harðan bardaga.

2.    Að gleypa tyggigúmmí = garnaflækja og dauði innan skamms.

Eða hugsið hugsið ykkur hvernig búið var að skólastarfinu.

Enginn skólasálfræðingur, enda aðeins einn eða tveir sálfræðingar

til á öllu landinu.

Ekkert Rítalín handa hrekkisvínum og óþekktarormum.

Enginn Námsráðgjafi.

Enginn Sérkennslufræðingur.

Enginn Menntunarfræðingur.

Enginn Mannauðsfræðingur.

Enginn Félagsfræðingur.

Enginn Margmiðlunarfræðingur.

Enginn Fjölmiðlafræðingur.

Enginn Stjórnmálafræðingur.

Enginn Næringafræðingur.

Enginn Lífsleiknifræðingur.

Enginn Kynjafræðingur.

Enginn Ferðamálafræðingur.

Enginn Snyrtifræðingur.

Engin Áfallahjálp

og   engin rafreiknir og    engin tölva.

 

En, fyrir nokkrum dögum sá ég í sjónvarpinu viðtal við rúmlega 100 ára gamla konu, sem var eldhress, þrátt fyrir að hafa alist upp við enn lakari skilyrði en ég var að telja upp.

Fyrir skömmu kom út firna góð bók eftir Jón Pétursson, Jón Lögga.

Jón er fæddur 1935 og ólst upp í Grundarfirði sunnanvert við matarkistuna Breiðafjörð.

Hann segir m.a. frá því vandamáli, sem blasti við foreldrum hans á hverjum degi :

“ Hvað eigum við að gefa börnunum að borða á morgun ?”

Jóni þykir skjóta skökku við að nú hafa hundruðir manna atvinnu af því að grenna fólk og offita er orðin verulegt vandamál á Íslandi.

Frumþarfir mannsins eru stundum sagðar vera þrjár :

 

Fæða,  klæði  og  skýli.

 

Fyrstu 500.000 árin eða svo, snerist barátta mannsins fyrst og fremst um að fullnægja þessum frumþörfum sínum.

En, hvað tók svo við þegar þessum frumþörfum mannsins hafði verið fullnægt, ræktun var hafin og hann hafði svo greiðan aðgang að mat, að hann átti ekki í vandræðum með að sjá sér og sínum fyrir mat ?

Þá byrjaði nú ballið fyrir alvöru því þá hófst kapphlaupið um að eignast meira, stærra jarðnæði, fleiri konur, fleiri uxa, fleiri þræla

og stærri helli heldur en nágranni hans átti.

Á þessari öld hefur þetta því miður aukist enn og snúist upp í keppni hjá okkur um fánýti, svo sem :

Hvor á dýrari bíl,

hvor á stærra hús,

hvor á dýrari flugvél,

hvor heldur flottari veislur,

hvor fer í fleiri utanlandsferðir   og

persónulega finnst mér sem botninum hafi verið náð þegar menn fóru að fara á milli hylja á laxveiðum á þyrlum, eða til að skjótast ofan af Arnarvatnsheiði niður í Borgarfjörð til að fá sér pylsu og eiga svo ekki fyrir pylsunni.

 

                                          Enda fór sem fór.

 

Ég vona að ykkur þyki, eins og mér, þessi eftirsókn eftir vindi ekki vera eftirsóknarverð.

 

Við vorum jú spurð fyrir tæpum 2000 árum :

“ Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, ef hann glatar

sálu sinni “ ?

Enn er þó alveg klárt í mínum þykka haus að :

Mammon má aldrei verða guð okkar og

við megum aldrei meta fólk til fjár.

Og við megum heldur aldrei gleyma því að ekkert okkar á

neitt nema það, sem við höfum gefið af okkur til annarra.

Skömmu fyrir aldamótin 1000 bjó maður að nafni Ingjaldur í

Hergilsey í Breiðafirði og var hann vinur útlagans Gísla Súrssonar.

 

Börkur hinn digri, sem hataði Gísla bróðurbana sinn, kom í Hergilsey til að leita Gísla og hótaði Ingjaldi dauða, nema hann segði sér hvar Gísli leyndist.

Ingjaldur svaraði :

“ Ég hef vond klæði og þykir ekki mikið fyrir þótt ég slíti þeim eigi gerr og heldur skal ég láta lífið en ég geri eigi Gísla það gott, sem ég má og reyni að firra hann vandræðum.”

Það þurfti engan skriflegan samning milli Ingjaldar og Gísla,

Ingjaldur hafði lofað Gísla vináttu sinni og stóð við loforð sitt.

Kaus fremur að deyja, en að ganga á bak orða sinna.

Ingjaldur klæddist hvorki klæðskera saumaðri skyrtu né Armani fötum.

Hann var bláfátækur, átti aðeins ein gömul slitin föt, en orðstír hans hefur lifað með þjóðinni í meira en þúsund ár, því hann var gæddur ríkri sómatilfinningu og var sjálfum sér og gildum sínum trúr.

 

Auðvitað er það hið besta mál að ganga snyrtilega til fara, en það eru nú ekki fötin, sem skapa manninn.

Það, sem skiptir máli er hversu heilsteypt skapgerð hans er,

hversu trúr hann er sjálfum sér, hversu orðheldinn hann er

og hversu mikla virðingu hann ber fyrir öðrum.

Þið heyrið af þessu að ég þoli illa tískufrasann :

“ Elskaðu sjálfan þig.”

Hvílíkt endemis rugl, væri ekki nær sanni að segja :

Við verðum að forðast að falla í þann fúla pytt að verða sjálfhverf og hugsa allt út frá eigin hag, það er : “ Ég,  um mig,  frá mér,  til mín. “

 

Hollráðin í Hávamálum eru síglid og enn í fullu gildi :

Deyr fé,

Deyja frændur,

Deyr sjálfur ið sama,

En orðstír

Deyr aldregi

Hveim er sér góðan getur.

 

Því glatað mannorð, glataður orðstír, verður aldrei endurunninn.

 

Ísland var fátækasta land í Vestur Evrópu árið 1930 þegar ég fæddist.

Allt tal um langan vinnudag á Íslandi í dag verður hjóm eitt þegar sá vinnutími og allt það strit, sem forfeður okkar og formæður þurftu á sig að leggja til þess eins að afla sér og sínum matar til að lifa af.

Og í því sambandi ber okkur að minnast þess það eru ekki nema

um 120 ár, ég endurtek, aðeins um eitthundrað og tuttugu ár, síðan þrælahald, svokallað Vistarband, var numið úr lögum hér á landi.

Sem sagt þegar pabbi minn fæddist var þrælahald löglegt á Íslandi.

Um aldamótin 1900 árum bjó um helmingur þjóðarinnar í torfbæjum, sem voru kaldir og lekir, engin upphitun, nema helst kýrnar, mór notaður til að elda mat í eldstó, ekkert rafmagn, engar þvottavélar, engar uppþvottavélar, enginn ísskápur, engin frystikista, vatn sótt út í brunn eða læk, kamrar í stað salerna, en þó stóð í einum ráðningarsamningnum frá þessum tíma :

“ Bað skal tekið einu sinni á ári, sé þess talin þörf. “

Búsetuskilyrði hér á landi voru hrikaleg áður en tæknin kom til sögunnar og okkur er hollt að minnast þess að fjórðungur þjóðarinnar dó úr sulti í Móðuharðindunum 1783-5.

Það samsvarar því að meira en 80.000 manns myndu deyja úr sulti á Íslandi á næstu þremur árum.

Við hefðum ekki einu sinni undan að grafa allan þennan fjölda með jarðýtum.

Og hundrað árum seinna flúði fjórði hver maður land.

Feður okkar og mæður, ömmur okkar og afar og aðrir forfeður okkar, tókust öldum saman á við þessi lífsskilyrði, sigruðust á þeim og

skópu grundvöllinn að þeim lífskjörum, sem við búum við í dag.

Hugsið ykkur hversu þakklát okkur ber að vera fyrir að hafa fengið að fæðast á því Íslandi, sem forfeður okkar skópu grunninn að, alast hér upp, búa hér og starfa og stofna hér heimili okkar.

Hér er að finna hreint loft, tandurhreint vatn, hreinna en nokkurt fokdýrt franskt “mineral water,” ósnortna náttúru rétt við bæjardyrnar, heitt vatn í krönum og til upphitunar, gott heilbrigðiskerfi, gott skólakerfi, gott samgöngukerfi og nálægðin við fólkið okkar.

Fegurð Íslands er ólýsanleg og okkur ber skylda til að umgangast Ísland af mikilli kurteisi, því við eigum landinu mikla skuld að gjalda vegna illrar meðferðar okkar á því.

Ég hef miklar áhyggjur að núverandi meðferð okkar á landinu þeirri áníðslu sem það verður fyrirdaglega.

Við Steffí áttum nýlega leið fram hjá Mývatni. Þar fara í gegn og stoppa hundruðir þúsunda ferðamanna á hverju ári og það sem frá þeim kemur rennur út Mývatn og þaðan út í sjálfa Laxá í Aðaldal, sem þanni er búið er að breyta í 50 kílómetra langa skólplögn.

Fegurð er mjög svo afstætt hugtak því nefnd, skipuð Íslendingum, sem konungur skipaði árið 1759, lagði til að Alþingi yrði flutt frá Þingvöllum því staðurinn væri einhver sá al-ljótasti á öllu landinu.

Mig langar til að minnast á sögu, sem gerðist á Sturlungaöld,

í borgarastyrjöldinni árið 1229.

Sturla Sighvatsson var ekki heima þegar óvinir hans réðust á

og rústuðu höfuðbóli hans, Sauðafelli, myrtu og limlestu fjölda heimamanna og rændu öllu, sem hönd á festi.

Þegar Sturlu, sem skildi eftir sig blóðuga slóð þegar hann féll á Örlygsstöðum og sást svo sannarlega ekki fyrir í valdabaráttunni, voru sögð tíðindin, spurði hann :

“ Hvort gerðu þeir Solveigu ?”   Þeir sögðu hana heila.

 

Síðan spurði hann einskis.

 

Sturla, sem var líklega valdamesti maður á Íslandi þegar þetta gerðist gerði sér grein fyrir hvað skipti hann mestu máli í lífinu, ekki völd, ekki auður, ekki mannaforráð, heldur Solveig, konan sem hann unni.

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig það má vera að þúsundir manna og kvenna hafa um aldir komist upp með að skrifa mörg þúsund hillumetra, af ástarsögum þegar sagnaritarinn mikli, Sturla Þórðarson, var búinn að skrifa kjarnann í fjórum orðum í öllum ástarsögum fyrir tæpum 800 árum.

Fyrir nokkrum áratugum sagði einn af bankastjórum Chase Manhattan bankans í New York við mig

“ Ef tvö ríki bjóða orku til iðnaðar á sama verði og öll starfsskilyrði önnur eru sambærileg, þá förum við hiklaust til þess lands, sem er með sinfóníuhljómsveit, því hvert það land, sem státar af sinfóníu-hljómsveit stendur á háu menningarstigi á öðrum sviðum. “

Okkur ber því að muna að menning okkar er auðlind, sem okkur ber að styðja við og þróa í hvaða formi, sem hún er

Þegar maður er kominn á minn aldur fer ekki hjá því að maður líti yfir farinn veg og þá vakna gjarnan spurningar, sem erfitt er að svara, eins og til dæmis þegar Jóhann Jónsson spyr í kvæðinu Söknuður :

 

Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað ?

Og ljóðin sem þutu um þitt blóð frá draumi til draums

hvar urðu þau veðrinu að bráð ?

 

Og ekki liggur svarið augljósar fyrir þegar maður spyr :

 

“  Hver er tilgangur lífsins ?“

 

“  Til hvers er þetta líf, sem Guð hefur gefið okkur ?

 

Ég hef auðvitað engin svör við þessum spurningum, en getur verið

að það sé sjálf leitin að tilgangi lífsins og það sem gerist og kemur í ljós meðan á leitinni stendur, sem sé tilgangur lífsins ?

 

 

Þegar ég fermdist hér í kirkjunni fyrir 70 árum vitnaði pabbi minn

í sálm eftir Séra Matthías og sagði svo :

 

“ Davíð minn, hafðu ávalt Guðs orð sem leiðarstein í stafni,

því þá kemur allt annað af sjálfu sér.”

 

Og það hefur svo sannarlega reynst rétt, sem hann pabbi minn sagði,

því sé Guð með í för þá kemur allt annað af sjálfu sér.

 

Öll mín hamingja og allt það, sem skiptir mig megin máli í lífinu,

eru gjafir Guðs til mín, konan mín elskuleg, börnin mín, tengda-

börnin mín, barnabörnin mín, barnabarnabarnið mitt, hamingja

þeirra og velferð, góð heilsa okkar allra og að hafa fengið að fæðast,

þroskast, starfa og búa á Íslandi.

 

Megin takmark mitt í öllu því, sem ég er að bjástra við þessa dagana,

er að hegða mér þannig að þolinmæði Guðs bresti ekki og að hann

gefist ekki upp á mér.

 

Þakka ykkur fyrir þolinmæðina.

 

 

 

 

Laufey Böðvarsdóttir, 24/2 2015

Hlökkum til að sjá ykkur í bæna-og kyrrðarstundinni í hádeginu í Dómkirkjunni í dag. Súpa í Safnaðarheimilinu að hætti gestakokksins. Sjáumst

Laufey Böðvarsdóttir, 24/2 2015

Prjónakvöld á kvöld, mánudag kl. 19:00. Davíð Scheving Thorsteinsson gestur okkar

Síðastliðinn vetur tóku nokkrar dómkirkjukonur sig til og byrjuðu á að hafa mánaðarleg prjónakvöld í safnaðarheimilinu. Þetta eru notalegar og skemmtilegar samverustundir, sem styrkja vináttubönd og samfélagið í söfnuðinum. Þau eru vinsæl, enda fáum við yfirleitt gest í heimsókn. Í janúar kom Pálína Sigurbergsdóttir og sýndi okkur sitt fallega handverk. Í kvöld 23. febrúar fáum við góðan gest, en það er Davíð Scheving Thorsteinsson. Ekki vitum við hvort hann sé með eitthvað á prjónunum, en öruggt er að frásögn hans kemur til með að kitla hláturtaugarnar. Létt máltíð við vægu verði. Hjartanlega velkomin í Safnaðarheimilið við Vonarstræti.

Laufey Böðvarsdóttir, 23/2 2015

Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14

Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.

Skráning í fermingarfræðslu

Fimmtudagur

- 13.00- 14.30 Opna húsið í safnaðarheimilinu, samvera, fræðsla og gott með kaffinu. Yfir vetrarmánuðina.
Tíðasöngur kl. 17.00 yfir vetrarmánuðina.
21.00 AA fundur

Dagskrá ...