Eins og sagt var frá hér í upphafi messu þá njótum við nú þátttöku Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og minnumst þess að þetta 220 ára gamla hús hefur frá upphafi varðað líf og heill bæjarbúa, til líkama og sálar, trúariðkun og velferð samfélagsins. Því þetta tvennt fer saman. Við minnumst og þökkum samfylgd slökkvistarfs, já og öryggismála bæjarins og Dómkirkjunnar á fyrstu áratugum kirkjunnar. En ekki aðeins að við séum hér að horfa um öxl, þó það sé mikilvægt til að staðsetja sig, átta sig í samtíð sinni. Sérhver stund í helgidóminum er vonartákn og framtíðarsýn, til þeirrar framtíðar sem Drottinn Kristur heitir og gefur.
En lítum aðeins um öxl.
Þegar Reykjavík fékk kaupstaðaréttindi árið 1786 var hér lítið þorp með á þriðja hundrað íbúa. Ekkert slökkvilið var, aðeins lítil, gömul slökkvidæla. Fljótlega var sett á laggirnar embætti næturvarðar, eða vaktara eins og það nefndist. Yrði vaktarinn var við eld skyldi hann hrópa: „Eldur! Eldur!“ og hringja síðan stærstu klukku kirkjunnar.
Segja má að vaktararnir hafi verið forverar brunavarða og lögreglu, því auk þess að gera viðvart ef eldur væri laus skyldu þeir láta sig varða allt annað sem óeðlilegt gæti talist. Til starfa síns höfðu þeir stundaglas og lukt en líka langan staf með göddóttum hnúð, svonefnda morgunstjörnu, til að nota í viðskiptum við afbrotamenn. Og eins og tíðkaðist í öðrum dönskum bæjum – sem Reykjavík sannarlega var – þá sungu vaktararnir svokölluð vaktaravers hátt og skýrt á klukkustundar fresti og til að láta vita að allt væri með felldu auk þess að tilkynna hvað tímanum liði, því óvíða voru klukkur í híbýlum fólks. Sérstakt vers var ætlað fyrir hvern heilan tíma. Klukkan ellefu var til dæmis sungið þetta:
Alfaðir að oss gái,
ungum og gömlum hér,
eitt virki um oss slái,
engla blessaður her!
Hann er staðarins hlíf,
geymi vor hús,
Guðs son Jesús,
góss, anda, sál og líf
Dómkórinn mun syngja úr þessum versum hér á eftir okkur til gleði og slökkviliðsmönnum, sjúkraflutningafólki og bráðaliðum til heiðurs.
Eitt af því sem gerði Reykjavík að höfuðstað var að biskupsstólinn í Skálholti var fluttur hingað og hér var reist Dómkirkja. Dómkirkjan skyldi að vissu leyti vera fjölnota hús, því skrúðhúsið var ætlað fyrir slökkvidæluna. Þessvegna voru dyrnar hafðar svo breiðar sem raun ber vitni. Í hinni merku bók séra Þóris Stephensen, Saga Dómkirkjunnar, segir að í dönskum pappírum sem tengjast byggingu kirkjunnar sé talað um skrúðhúsið sem „Sacristie og sprjötehus“, þ.e. skrúð og dæluhús. Fengin var ný og kraftmeiri dæla til að með henni væri hægt að sprauta vatni á turn kirkjunnar, sem var hæsta mannvirki bæjarins. Dómkirkjan átti líka sex slökkvifötur úr leðri og þrjá brunastiga, einn mjög langan og tvo styttri, og þessu var komið fyrir í og við skrúðhúsið. Það var fyrst að nær heilli öld liðinni að skrúðhús Dómkirkjunnar þótti of lítið fyrir þessa starfsemi og var því brunadælan og það sem slökkvistörfum fylgdi komið fyrir í skúr við Pósthússtræti og síðar í litlu húsi hér í Templarasundi, allt þar til slökkvistöð var reist við Tjarnargötu árið 1912. Mikið væri nú gaman ef það hús, sem enn stendur nær óbreytt, yrði lagt til að hýsa gömlu brunabílana, svo almenningur, borgarbúar og gestir, gætu notið þess að sjá þær gersemar sem þessir gömlu bílar eru. Eigum við ekki að skora á yfirvöld að sjá til þess!
Samvera okkar hér í dag minnist samferðar Slökkviliðs og Dómkirkjunnar í öndverðu, um leið og við biðjum Guð að blessa allt sem unnið er í þágu öryggis og björgunarmála hér í borginni. Og biðja fyrir þeim sem þeim störfum sinna, þeim mikla hetjuher. Við eigum þeim öllum svo mikið að þakka, einstaka árvekni, viðbragðsflýti og fagmennsku. Við biðjum þess að það megi allt finna styrk og gleði í störfum sínum, þá umbun sem það er í sjálfu sér að verða öðrum til góðs og blessunar, bjarga lífi, forða frá slysum.
Það sem Dómkirkjan stendur fyrir frá öndverðu og til dagsins í dag, er að móta, efla og næra það samfélag þar sem þau gildi eru í heiðri höfð, hið góða samfélag umhyggju, réttlætis og miskunnsemi í samræmi við vilja Guðs.
Ritningartextar þessa dags minnast ekkert á slökkvilið eða aðra viðbragðsaðila, en þeir fjalla um heimboð. Guðspjallið er dæmisaga um brúðkaup konungssonar. Ég játa það að ég var löngum ósáttur við þessa dæmisögu Jesú, ósáttur við konunginn og viðbrögð hans þegar hann lætur tortíma vanþakklátum boðsgestum og aukinheldur brenna borg þeirra. Fyrr má nú vera. Og svo þessi framkoma hans við gestinn sem ekki var í brúðkaupsklæðum, „já, fyrr má nú aldeilis fyrr vera,“ eins og kellíngin sagði.
Hvað er frelsarinn að segja með þessari líkingu um himnaríki, Guðs ríki, sem er annað orð yfir vilja og áhrifasvið Guðs?
Það er eins með dæmisögur og brandara að við ættum að varast að rýna í smáatriðin, þau eru eins og skuggar í bakgrunni myndar til að draga fram það sem máli skiptir; „pointið,“ eins og sagt er. Jesús er að segja sögu sína. Hann er að segja að kristin trú sé að þiggja heimboð. Ekki að kaupa sér aðgöngumiða að almættinu, heldur þiggja boð, heimboð, veisluboð. Þess vegna heitir sú trú sem hann kennir og gefur, fagnaðarerindi, gleðiboð. En það merkilega er að þau sem boðin voru vildu ekki koma. En hann gefst ekki upp. Þessvegna snýr Jesús sér út á stræti og götur, leitar uppi hin fátæku, örkumla, blindu og höltu, kallar á þau, býður þeim til borðs með sér. „Þeirra er himnaríki,“ segir hann um þau fátæku í anda, þau smáðu, smáu, – og börnin. Þeirra er himnaríki. Þessvegna er það ein meginskylda kristinnar kirkju að halda fram þeirri samfélagssýn þar sem þau eru einmitt í forgrunni, þau smáu og smáðu, og allir sitji við sama borð.
En svo þegar veislan var byrjuð og veislusalurinn þéttskipaður, þá var einum veislugestanna hent út, af því að hann hafði ekki látið svo lítið að klæða sig upp. Hann stendur þarna eins og illa gerður hlutur innan um allt prúðbúna fólkið, og þegir þegar konungurinn ávarpar hann vingjarnlega: hvers vegna ertu ekki í brúðkaupsklæðunum – sem þú fékkst afhent sem aðgöngumiða hingað inn?
Því það er einmitt þetta smáatriði sögunnar sem við áttum okkur ekki á. Þegar fólk var boðið til brúðkaups þá lagði gestgjafinn allt til sem gesturinn þurfti á að halda til að geta notið fagnaðarins. Brúðkaupsklæðin eru sem sagt aðgöngumiðinn, þau merkja það að allt sem við þurfum á að halda á áhrifasviði Guðs og vilja hans er okkur gefið, okkur er séð fyrir því, fyrirfram og ókeypis. Skírnin táknar einmitt það. Skírnarkjólar eru gjarna dragsíðir einmitt til að minna okkur á að við eigum að vaxa upp í það sem trúin er og merkir og gefur. Við fáum þetta allt ókeypis, af náð. Okkar er að þiggja og ef Guð lofar, að vaxa í þeirri náð. Að þiggja og þakka, eins og pistillinn minnir okkur á, þiggja og þakka, því allt sem máli skiptir, allt sem dýrmætast er það er okkur gefið, ókeypis, óverðskuldað. Það kallast náð.
Hvernig eigum við að skilja þetta í dæmisögunni að þessum manni var hent út í myrkrið fyrir utan?
Myrkrið fyrir utan merkir fjarvist Guðs, og þá ljóssins, gleðinnar og kærleikans. Það engin leið fyrir okkur að skilja það, vegna þess að í okkar reynsluheimi er ekkert án ljóss og náðar Guðs. Þess vegna er líka svo auðvelt að hafna Guði og skeyta engu um vilja hans, snúa baki við ljósinu. En að því sögðu þá skulum við muna hver það er sem segir þessa sögu, þessa líkingu. Það er konungssonurinn sjálfur, Kristur, frelsarinn, sem einmitt fór út úr veislusalnum og út í myrkrið fyrir utan, til þeirra sem þar eru. Þangað lá leið hans, alla leið í ystu myrkur, grát og gnístran tanna Golgata, já og niður til Heljar, eins og segir í trúarjátningunni, til Heljar sem er sterkasta táknmynd þessarar fjarvistar Guðs, ljóss og gleði og lífs. Guð vildi að ekkert, alls ekkert svið tilverunnar væri utan áhrifavalds hans. Þangað, já jafnvel þangað fer Jesús með heimboð sitt, með fyrirgefning sína: Faðir, fyrirgef þeim! Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís. Enginn er undanskilinn, alls enginn er undanskilinn því heimboði. Það nær til allra. Þessvegna er hann ekki aðeins boðberi með heimboð, meistari með leiðbeiningar og ráð. Hann er frelsari.
Orðið frelsari merkir einmitt sá sem bjargar úr háska, björgunarmaður, eða bráðaliði. Þið sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn, bráðaliðar sem einatt eruð í þeim aðstæðum að bjarga mannslífum. Þið þurfið að standa vaktir svo við getum notið hvíldar, þið þurfið að vera reiðubúin að bjarga móður og barni þegar fæðingu ber brátt að, eins og dæmin sanna, og líka að vaða inn í brennandi hús, í reykjarkóf og vítiselda til að bjarga. Mikið eigum við ykkur að þakka! Það er eins og mynd eða skuggi af því sem Frelsarinn Jesús er: björgunarmaðurinn, sem leitar að hinu týnda og leysir hið fjötraða og reisir upp þann sem bugast, og lífgar af dauða, frelsarinn Kristur. Og allt sem gert er öðrum til góðs og blessunar er í raun verkfæri hans, útréttar hendur hans. Það segir hann líka.
Trúin er gjöf, heimboð. Fagnaðarerindið er rétt okkur sem gjöf, aftur og aftur, heimboð. Komið, þiggið, fagnið! Já, okkar er bara að þiggja og þakka og njóta birtu trúar, vonar og kærleika í frelsarans Jesú nafni.
Guði sé lof fyrir það.