Kæru vinir, það er breyting á dagskrá Opna hússins í dag. Í stað þess að hittast í safnaðarheimilinu, þá förum við í heimsókn á Mörkina, Suðurlandsbraut 66. Hittumst þar kl. 14.
Laufey Böðvarsdóttir, 3/11 2016
Laufey Böðvarsdóttir, 3/11 2016
Laufey Böðvarsdóttir, 2/11 2016
Þórir Stephensen:
Dómkirkjan í Reykjavík 220 ára
Prédikun á afmælishátíð 30. 10. 2016
Í kirkju þína kenn þú mér
að koma Drottinn sem mér ber,
svo hvert sinn, er ég héðan fer,
ég handgengnari verði þér. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Við minnumst í dag 220 ára vígsluafmælis Dómkirkjunnar og 210 ára afmælis biskupsstóls í Reykjavík. Því segi ég: Gleðilega hátíð.
Alþingiskosningar eru að baki, spennandi kosninganótt einnig, og framundan eru miklar vangaveltur um framtíð lands og þjóðar. Munu háleitar hugsjónir ráða eða lævísi og lágkúra? Við ræðum það ekki hér, og þó. Í prédikunarstólum kirkjunnar er nánast alltaf verið að ræða þann grundvöll, sem þjóðmálin þurfa að byggja á, eigi þau að leiða til farsældar. Hér er umræðan ævinlega um nauðsyn vináttu, kærleika og sannleika – um jafnrétti og bræðralag, um kvenfrelsi og rétt lítilmagnans. Boðskapur kirkjunnar geymir nefnilega kjölfestuna bæði í lífi einstaklings og landslýðs alls. Þjóðarskútunni verður aldrei siglt fullum seglum, nema kjölfestan sé í lagi. Af þessu leiðir, að einstaklingurinn á meira erindi í kirkju en hann gerir sér almennt grein fyrir.
En nóg um það að sinni. Ég segi enn „gleðilega hátíð“ og les hér einn af ritningarlestrum dagsins, tekinn úr Opinberunarbókinni:
„Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. Og sá sem í hásætinu sat, sagði: Sjá ég gjöri alla hluti nýja.“
Opinberunarbókin geymir frásagnir af vitrunum Jóhannesar postula, sem var verndardýrlingur Reykjavíkurkirkju á kaþólskri tíð. Bókin er skrifuð í upphafi þess tíma, er kristnir menn voru ofsóttir fyrir það eitt að neita að tilbiðja keisarann sem guð. Það var m.a. sú eilífðarsýn, sem Jóhannes gaf þeim í þessu riti, er olli því, að þeir óttuðust hvorki keisarann né dauðann og fórnuðu glaðir lífi sínu fyrir Krist. Blóð píslarvottanna varð svo sterkasta sáðkornið á akri kristniboðins og olli því að síðasti ofsóknakeisarinn lést með fræg orð á vörum: „Þú hefur sigrað Galílei.“
Við vitnum gjarnan til ritningartextans við jarðarfarir. Hann gefur svo sterka sýn inn í hina nýju, andlegu veröld, sem bíður okkar handan við móðuna miklu. Efnisheimurinn hrjáir okkur þá ekki lengur. Dauðameinin eru okkur þá sjálfdauð, sjúkdómarnir, glæpirnir, hryðjuverkin, styrjaldirnar. Þess vegna er hvorki harmur né vein né kvöl framar til af því að Guð gjörir alla hluti nýja. Hann tekur okkur sér við hönd og leiðir okkur til móts við það, sem ég hef svo oft skýrt með orðum skáldsins um „nóttlausa voraldar veröld, þar sem víðsýnið skín.“
En allt þetta á einnig og ekki síður við um daginn í dag. Lífið er í raun bara eitt, og það byrjar hér. Jörðin er athafnasvið okkar frá fæðingu til dauða. Hann, dauðinn, er svo dyr að æðra lífsformi sem þá tekur við og Jóhannes lýsti svo fagurlega. Þegar kirkja var fyrst reist í Reykjavík, nálægt árinu 1000, urðu spádómsorðin staðreynd fyrir íbúa hennar. Tjaldbúð Guðs, dvalarstaður hans, heimkynni kærleikans var komið til að vera hér meðal fólksins, af því að hann vildi búa meðal þeirra, verða sterkasti veruleiki lífs þeirra, taka þátt í kjörum þeirra, veita þeim með boðskap sínum og andlegum styrk, dýrmætustu hjálpina, þegar glímt er við erfiðleikana og barist upp á líf og dauða. Þetta er sú arfleifð, sem hefur gengið frá kyni til kyns og er í okkar höndum í dag. Samnefnari alls þessa er kærleikur, kærleikur, sem kemur með því, að Guð gerir sér bústað meðal okkar. Og þessi þúsund ára gamli boðskapur hefur ekki farið erindisleysu.
Barnaútburður og þrælahald heyrðu brátt sögunni til. Vopnaburður var lagður af og hin pólitíska barátta var háð með orðum. Kirkjan varð móðir menntunar í landinu. Vegna fermingarinnar urðum við meðal fyrstu Evrópuþjóða, þar sem lestrarkunnátta varð allra eign. Guðbrandsbiblía bjargaði íslenskri tungu. Tónlistin kom í kjölfar messunnar. Klaustrin og Kristsbúin hlynntu að öryrkjum. Í allri kjara- og jafnréttisbaráttu hafa kærleiks- og bróðerniskenningar Krists sífellt sótt á. Sú samhjálp, sem við njótum, er öll þessarar ættar.
Það hefur tekið okkur þúsund ár að ná þessari stöðu og oft kostað miklar fórnir, en menn hafa ekki gefist upp. Og af hverju? Af því að við eigum fyrirheit um fullkomnun og það skapar svo mikla gleði og andlega fullnæging að ná, þó ekki sé nema hænufet, í átt að markmiðum kristindómsins.
Þetta varðar mest samfélagið, en áhrifin fyrir einstaklinginn sjálfan eru ekki síðri. Hið persónulega samfélag Guðs og manns er grundvöllurinn undir öllu hinu, sannfæringin um æðri mátt, sem kemur okkur til hjálpar, hvenær sem við leitum hans í bæn og trú. Þar fáum við besta stuðninginn þegar aðstæður okkar eru erfiðar, þar skapast samkenndin með náunganum. Hjá þeim sem hafa fengið listgáfuna í vöggugjöf, skapar andi Guðs ódauðleg verk.
Vantrúarmennirnir eru iðnir við að gera lítið úr tilveru Guðs. Þrátt fyrir mikilleik sköpunarverksins er í þeirra augum enginn skapari til. Slíkt er erfitt að rökræða, en mér dettur í hug lítil saga, sem sr. Bjarni, forveri minn, sagði Matthíasi Johannessen: Kvöld eitt, þegar nokkur hundruð stúdentar voru saman komnir í Danmörku, talaði menntamaður að nafni Rasmussen gegn trú og kirkju og sagði: „Ég trúi ekki því, sem ég hef ekki séð og treysti ekki á það.“ Kennari minn í kirkjusögu, sagði sr. Bjarni, Ammundsen prófessor, síðar biskup, tók til máls og spurði með hógværð: „Segið mér, herra Rasmussen, hafið þér séð yðar eigin skynsemi?“ Hinn svaraði: „Nei.“ Ammundsen svaraði: „Við hinir höfum ekki heldur séð hana, hvar er hún þá?“
Samtali þeirra Matthíasar og sr. Bjarna lauk með orðum þess síðar nefnda: „Eitt er nauðsynlegt – að hver prestur geti fagnandi sagt: „Ég trúi, þess vegna tala ég.“
Ég vildi gjarnan, að menn íhuguðu þessa litlu sögu, þeir sem með sífelldum og algerlega órökstuddum yfirlýsingum fullyrða, að það sé enginn Guð, að við eigum að hætta að spegla okkur í 2000 ára gömlum frásögnum og þar haft undirliggjandi að því hljóti að vera farið að slá í þær. Það sem svo kórónar allt þetta, er að þeir, sem þessu halda fram, hafa mér vitanlega ekki sýnt neina andlega burði, sem geri þá marktækari öðrum. Þarna hermir hver eftir öðrum og allt virðist þetta gert til þess að eyðileggja hin fornu andlegu gildi, sem hafa haldið uppi menningu og siðgæði þjóðar okkar um aldir. Þessir menn hafa ekki verið áhrifalausir. Það sjáum við víða. Nýlegt dæmi er sá ótti og kvíði, sem nú þjakar unga fólkið okkar. Ég tel víst, að hann væri mun minni hefði betur verið hlúð að trúarumræðu og bænalífi.
Ég hugsa oft til afburðamanna, bæði hér okkar á meðal og á heimsvísu. Tónskáldið mikla J. S. Bach hefur verið nefndur fimmti guðspjallamaðurinn. Viljum við hafna vitnisburði hans, trúnni er gaf anda hans neista, sem oft varð að báli, heilögum eldi, sem tendraði og skapar enn líf listar og trúar, þar sem hann logar? Eru tónsmíðar hans innblásin listaverk eða eru þau bara sniðugar fingraæfingar? Eigum við kannski að afskrifa hann af því að verk hans eru orðin svo gömul? Svipað má segja um flesta eða alla gömlu meistarana.
Þegar hamrað er á hinum guðlausa, andkristna áróðri í fjölmiðlum dagsins, verður mér einnig hugsað til þjóðskáldanna okkar, Matthíasar Jochumssonar, Einars Ben., Davíð Stefánssonar, Tómasar, Matthíasar Johannessen og Hannesar Péturssonar. Hvorir skyldu líklegri til þess að lyfta íslenskri þjóð til betri framtíðar, þeir miklu andans jöfrar, sem ég hef hér nefnt, og allir mæra í skáldskap sínum kristið líf, háleitar hugsjónir og bjarta eilífðarsýn eða vantrúarmennirnir? Sagði ekki Davíð:
„Máttug er í moldarserki
mannsins sál í orði og verki,
þegar hug við himin ber.“
Hannes Pétursson segir í ljóði sínu um sr. Hallgrím:
„Þú namst þau orð sem englarnir sungu.
Þú ortir á máli sem brann á tungu.
Óttinn fangstaðar á þér missti.
Alnánd: þú gekkst við hliðina á Kristi.“
Orðið „alnánd“ var nýyrði og afar dýrmætt yfir það ástand, sem menn skynja á einlægustu stundum bænar og trúar. Sá sem slíkt hefur reynt, skynjar að Guð er sterkasti veruleiki lífsins. Einstaklingurinn er frelsaður frá óttanum, traustið kemur í hans stað, traustið til Guðs, sem hann veit, að muni verða styrkur hans í öllum aðstæðum. Hann hlýtur að vorkenna þeim, sem fara á mis við slíka reynslu og eiga engan fastan punkt, enga undirstöðu fyrir lífsskoðun sína. Hjá því verður heldur ekki komist að efast um að slík lífsstefna geti stefnt í Hágöngur hins andlega lífs. Hún getur verið framfarasinnuð, en hún á enga von, af því að hún sér ekki í gegnum sjóndeildarhringinn. Þeir, sem slíkri stefnu fylgja, mættu hugsa til Stefáns G. sem elskaði mest „þá hugsun, sem hóf sig á loft / og himininn ætlaði sér,“ og þrátt fyrir efasemdir á andvökunóttum var
„svo viss, að í heiminum vari þó enn
hver von mín með ljós sitt og yl,
það lifi, sem best var í sálu mín sjálfs,
að sólskinið verður þó til.“
Áfram hærra, í sólarátt, er köllun hins kristna manns, að gera hvern dag vænni, með því að stefna í kjölfar skipa heiðríkjunnar, þar sem trúin er í stafni og Kristur við stýri.
Við þurfum að efla íslenska hámenningu, hugsun trúar og andlegs lífs, kærleika í orði og verki, skáldskapar og skynjunar þess óræða. Öllu slíku þarf að viðhalda með því að iðka það og kenna. Heilaþvottur og afsiðun Isis-hreyfingarinnar erlendis sýna okkur hvert okkar hlutskipti getur orðið, sé þetta vanrækt. Við skulum ekki gleyma orðum skáldsins frá Fagraskógi:
„Þar sem brestur þrek og trú,
þar er andlegt dánarbú.
Þrjóti bæði störf og styrkur,
steypist yfir landið myrkur.
Þar er fólk að frjósa inni,
sem frelsishvötin gerist minni.
Þar sem fólk er hætt að heyja
heilagt stríð, en skáldin þegja,
þar er þjóð að deyja.“
Kirkjan þarf að koma þarna betur að málum. Yfirvöld hafa haldið henni í hálfgerðri fjáhagslegri spennitreyju nú að undanförnu og gert henni erfitt um vik. Hún á að vinna eins og skáldið Pétur Hafstein Lárusson lýsti afstöðu Valgerðar Hjörleifsdóttur, sem lengi var hér í sóknarnefnd, en er nýlega látin: „Fyrir henni var kirkjan ekki stofnun, heldur kærleiksband ofið vináttu og trú.“
„Kærleiksband ofið vináttu og trú“ er, í stórum dráttum hugsað, það sem tjaldbúðin geymir og gefur. Þeir eiginleikar eru auðna manns og heims. Án þeirra fæst hvorki friður né farsæld, en í slíkum vefnaði felst velferð allra.
Gömul helgisögn segir, að þegar Jóhannes postuli, þá safnaðaröldungur í Efesus, kom á síðustu samkomuna hjá söfnuði sínum, maður um nírætt og svo hrumur orðinn, að það þurfti að bera hann inn, hafi hann haldið ræðu, sem var ekki nema fimm orð: „Börnin mín, elskið hvert annað.“ Öldungurinn, sem í dag stendur í prédikunarstóli kirkju hans í Reykjavík, vill gjarnan gera orð hans að sínum: Börnin mín, elskum hvert annað, elskum hvert annað, þá mun okkur vel farnast.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Laufey Böðvarsdóttir, 1/11 2016
Laufey Böðvarsdóttir, 31/10 2016
Allir sálmarnir sem þú vildir syngja en þorðir ekki, kannski út af því að kórinn syngur sálmana fyrir þig en enginn annar í kirkjunni.
Þá er þetta tilvalið tækifæri fyrir þig að koma og syngja hástöfum, því kórinn verður í fríi og allir aðrir í kirkjunni syngja við þrumandi undirleik Kára Þormar og Margrét Bóasdóttir stýrir fjöldasöng.
Sungnir nýir og gamlir sálmar úr sálmabók íslensku Þjóðkirkjunnar.
Allir hjartanlega velkomnir
Aðgangur ókeypis
Laufey Böðvarsdóttir, 30/10 2016
Kirkjan er opin alla virka daga frá 10-14
Viðtalstímar presta eru í safnaðarheimilnu
Lækjargötu 14a,
þri-fös 11-12 og eftir samkomulagi.
Sími: 520-9700.
Skráning í fermingarfræðslu
Tíðasöngur klukkan 9.15 .
Örpílagrímagöngur frá Dómkirkjunni kl. 18.00 yfir vetrarmánuðina
Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi