Með miklum söknuði og trega kveðjum við Dómkirkjufólkið góðan vin okkar og félaga Karl Sigurbjörnsson. Fljótlega eftir að hann lét af embætti biskups kom hann hingað til starfa í tímabundnum veikindum sr. Hjálmars og framlengdist svo þjónusta hans eftir að sr. Hjálmar kom aftur til starfa. Var það ótvírætt happ okkar og lán að fá að starfa með Karli og njóta alls þess sem hann deildi með okkur. Hann var óþrjótandi brunnur reynslu og visku, gríðarlega starfsamur og hugmyndaríkur og aldrei fyrir það að sitja á höndum sér: Hugmyndirnar hans urðu að veruleika; miklisverðum veruleika. Gott þótti okkur því hans dýrmæta starf; en miklu mest um vert var þó að eiga vináttu hans. Var hann hlýr, ráðhollur og hinn traustasti vinur. Kristínu, börnunum og ástvinum öllum biðjum við styrks í sorginni og þeirrar huggunar sem Guð einn getur gefið en heimurinn megnar ekki frá okkur að taka. Guð blessi minningu Karls Sigurbjörnssonar. Vinir hans í Dómkirkjunni
Laufey Böðvarsdóttir, 12/2 2024