Guðspjall:
Jóh 20.19-31
Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Og er hann hafði sagt þetta andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“
En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“
En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“
Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“
Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“
Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“
Jesús gerði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.
“Að viku liðinni…”, segir guðspjall dagsins. Og hvílík vika!
Það ríkti fögnuður í lærisveinahópnum. Himinlifandi menn, sem höfðu hitt meistara sinn aftur – aftur – eftir að hann hafði verið tekinn af lífi. Þeir eru búnir að komast yfir fáránleikann, þá er ekki að dreyma, þeir eru ekki ruglaðir. Þeir eru búnir að hitta Krist og hann er búinn að dvelja í þeirra hópi. Hann er farinn að undirbúa framhaldið, að leiða þá áfram til frekari þekkingar og skilnings. Traust þeirra til hans, trúin, kristin trú þeirra, verður að sannfæringu. Þeir halda sig saman í hópi og láta fara lítið fyrir sér. Það var öruggara eins og þjóðfélagsástandið var. Þjóðfélagsástandið, já.
Tómas postuli var ekki með, hann lét ekki hrífast og honum leið ekki vel.
Það er leiðinlegt að hitta klíku. Umgangast klíku án þess að vera hluti af henni. Vera samvistum við þéttan, samheldinn hóp, sem hefur höndlað allan sannleikann og er búinn að loka á önnur sjónarmið en sín eigin. Barnslega sannfært fólk, sem lifir í einhvers konar háleitri fullvissu. Uppörvandi var það áreiðanlega ekki fyrir Tómas tvíbura að koma inn í þennan hóp. Hann hafði barist við efasemdirnar, hann hafði notast við sína heilbrigðu skynsemi. Hann hafði bægt frá sér óskhyggjunni, auðvitað vildi hann að þetta væri satt, hann vildi gjarnan trúa. Hann getur ekki leyft sér þann munað að trúa í blindni. Á þessum stað er hann Tómas eftir páskana. Ég skil hann vel. Hann er að mínu mati ranglega gerður að fulltrúa fyrir þá sem draga allt í efa, fyrir efasemdarmanninn. Mér finnst líka rangt að gera lítið úr efasemdamönnum yfirleitt.
Efasemdir eru nauðsynlegar. Efi hvetur til áframhaldandi rannsóknar, meiri prófana og gagnrýni. Þar að auki er það einfeldningslegt að gleypa við öllu í fljótheitum.
Það verður ekki sagt um upprisuna að hún sé auðveld að trúa henni. Hún er ekki frétt sem maður tekur eins og hverri annarri frétt, staðreynd sem síðan verður hluti af því sem við gefum okkur. Hún er enginn sjálfsagður hlutur. Þá er nú heilbrigðara að efast.
Og það herma guðspjöllin að lærisveinarnir hafi gert – allir. Konurnar flýðu frá gröfinni, í ótta og ofboði, segir í guðspjalli páskadagsins. Síðan fara þeir Emmaus-göngu-menn að segja að nokkrar konur úr hópnum hafi gert þá forviða með einhverju upprisutali. Þeir efuðust líka, allir. Það hef ég stundum gert líka og vafalaust mörg okkar. Skynsemisglóra og þekking og reynsla á öðrum lögmálum tilverunnar gerir það að verkum að maður hlýtur að spyrja sig.
Annars skal ég trúa ykkur fyrir því, að ég hef hitt Jesú Krist upprisinn. Ég hef vissulega oft orðið var við hann í margvíslegum atvikum lífsins. Ég hef séð hann ganga með fólki sem annars gæti ekki risið undir byrðum lífsins. Skynjað hann, ljósið hans, anda hans, persónu hans, við dánarbeð, á vettvangi slysa, í sárustu aðstæðum sem nokkur manneskja getur komist í. Þegar allt virðist vonlaust og örvænting og uppgjöf það eina rökrétta, þá kemur nýtt! Ljós rennur upp, sólin kemur upp. Góðir kraftar kærleika og umhyggjusemi umvefja fólk. Lífið er ekki á undanhaldi. Lífið sigrar.
Ég sé hann eins og ég sá hann fyrst þegar ég var drengur heima í afskekktri sveit. Ég vaknaði um nótt og hann stóð hjá rúminu mínu, hann hélt uppi hendi, brosti – og blessaði mig. Um þetta er ég alveg viss. Og síðan sé ég Jesú Krist fyrir mér, oftar en ekki brosandi, glaðan og uppörvandi í fasi. Þannig er hann, glaður.
Þetta er þrepið sem ég stend á þegar allt annað er haldlaust. Ég veit að Kristur lifir! Ég hef sjálfur hitt hann. Sú sönnun nægir mér. En hún nægir ekki öðrum. Aðrir hafa sitt. En þú sannar ekkert með upplifun þinni. Ég bið engan mann að trúa mér í þessu. Persónuleg trúarreynsla er persónuleg, og ekki til þess að heimta af öðrum. Það sem styrkir þína trú er þér mikilvægt.
Þetta lifa margir – en finnst ekki þörf á að sanna það. Það er svo margt sem við sönnum ekki af því sem er okkur sjálfsagt af því að við lifum það.
Þegar Yitzak Meir, hassidíski meistarinn, var barn að aldri kom hann inn á þorpskrána í þorpinu sínu í Póllandi. Einhver ætlaði að fipa bráðþroska barnið og sagði:
Meir, ég skal gefa þér gullpening ef þú segir mér hvar Guð býr!
Og drengurinn svaraði: Ég skal gefa þér tvo gullpeninga ef þú segir mér hvar hann býr ekki.
Það sem er veruleiki í lífi okkar finnst okkur ekki ástæða til að sanna eða sannreyna.
Við lifum samband við annað fólk, lifum í margs konar afstöðu, tengslum, nálægð og fjarlægð við fólk.
Við lifum ást og kærleika, hlýju og væntumþykju. Sálufélag sem er handan allra hugtaka. Skilgreining er ekki það fyrsta sem okkur dettur í hug, útskýring til sönnunar eða afsönnunar.
Vantrú heimtar sannanir og hæðist oft að þeim sem trúa. Mitt svar við áreiti af þeim toga er ósköp einfalt:
Ég hef ekki áhuga á að verja tímanum í þrætubók. Guð er veruleiki og þó handan veruleikans. Í lífi okkar þurfum við að trúa og treysta í svo mörgu tilliti. Lítið brot getum við sannprófað, við treystum án sannana. Og svo er annað.
Fátt af því sem þú getur sannprófað um daglega lífið, er þess virði að sannprófa það. En eftir á getum við oftast vitað og sagt: Jú, það var óhætt að trúa og treysta.
Og varðandi trúna þekki ég engan sem telur að bænalestur, Faðirvorið, biblíusögurnar, hafi haft vond áhrif á líf sitt. Að skírnin hafi verið mistök hjá foreldrunum, fermingin slæm. Öðru nær, góðar og glaðar minningar lifa og hafa orðið til styrktar í lífinu.
Við getum líka þroskað eða slævt hæfileikann til trúar. Stundum er spurt: Hvað hef ég upp úr því að trúa? Er trúmaðurinn eitthvað betur settur? Ber það einhvern árangur að biðja?
Bæn er að hafa samfélag, eiga samfélag við Guð. Þess vegna finnst mér það sérkennilegt að velta því fyrir sér hvort maður hafi eitthvað upp úr því að biðja.
Hvernig veljum við okkur vini? Leitum við uppi þá sem við getum grætt á að þekkja? Haft eitthvert gagn af þeim? Er Guð bara partur af svonefndu „tengslaneti“ ? Viljum við hafa hann í klíkunni ef við gætum haft gott af honum í einhverjum aðstæðum?
Bæn er að blanda geði við Guð.
Trú er að reikna með Guði, þiggja daginn og lífið. Þetta líf er hvikult og hverfult, veraldargengið er það sömuleiðis. Stundum eru dimmir dagar, stundum bjartir. En Guð er eilífur og samfélagið við hann er ekki hverfult heldur eilíft. Hann er ljós í heiminn komið – til þess að enginn þurfi að vera í myrkrinu. AMEN