Vinur Dómkirkjunnar?
Dómkirkjan er eitt elsta hús Reykjavíkur og hefur verið helgidómur Reykvíkinga í á þriðju öld. Auk helgihalds í hinu aldna húsi heldur söfnuðurinn uppi fjölbreyttu safnaðarstarfi fyrir fólk á öllum aldri, óháð trúfélagsaðild. Guðsþjónustur eru alla sunnudaga og á hátíðum ársins, fyrirbænaguðsþjónustur alla þriðjudaga í hádeginu, tíðasöngur á fimmtudögum kl. 17 og örpílagrímagöngur á miðvikudögum kl. 18. Í hverri viku eru jarðarfarir, iðulega hjónavígslur og skírnir við hinn fagra skírnarfont sem listamaðurinn, Thorvaldsen, gaf föðurlandi sínu. Auk þess er fermingarfræðsla, þróttmikið kórstarf, fræðsla í trú og sið og andlegrar umhyggju. Í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar að Lækjargötu 14b, gamla Iðnskólahúsinu, eru skrifstofur prestanna, þar fer fram fræðslustarf, opið hús á fimmtudögum, hádegisverður á þriðjudögum að lokinni bænastund og eins er safnaðarheimilið leigt út fyrir skírnarveislur og aðrar samverur.
Dómkirkjusöfnuðurinn ber ábyrgð á rekstri og viðhaldi Dómkirkjunnar og Safnaðarheimilisins sem eru friðuð hús og með merkustu byggingum borgarinnar. Sóknargjöld hafa hvergi nærri fylgt verðlagsþróun og eins hefur gjaldendum fækkað.
Því viljum við gefa fólki kost á því að gerast Vinir Dómkirkjunnar og styðja við starf hennar með reglubundnum framlögum á reikning sóknarinnar: Banki: 334-26-371, kennitala: 500169-5839
Viltu skrá þig í söfnuðinn og Þjóðkirkjuna? Það er einfalt og þú getur gert það á netinu.
Laufey Böðvarsdóttir, 1/9 2023
Um viðburðinn
Tónskáldið og trompetleikarinn Tumi Torfason fagnar útgáfu debútplötu sinnar “Torfær tími”, sem tekin var upp síðastliðið sumar, með stærðarinnar tónleikum í Dómkirkjunni í Reykjavík. Á efnisskránni eru fjölbreyttar tónsmíðar Tuma sem draga innblástur úr ýmsum áttum, jafnt klassískum impressjón- og minimalisma sem og seinni tíma djasstónlist Ameríku og Norðurlanda. Hann skeytir saman spuna við hið skrifaða, því lífræna við hið mekaníska, nýsköpun við hið tímalausa. Meðleikarar Tuma eru stór hópur vina og kollega úr djass- og spunasenunni sem í gegnum plötuna og tónleikana manna hljóðfæraskipan af ýmsum stærðum og gerðum, allt frá dúó upp í stórsveit.
Tumi stígur nú á stokk í þriðja sinn á Jazzhátíð Reykjavíkur en hann hefur leitt og tekið þátt í verkefnum hér heima sem og í Stokkhólmi þar sem hann lauk nýverið námi við djassdeild Konunglega tónlistarháskólans KMH.
Tumi Torfason : trompet og tónsmíðar
Tumi Árnason : tenór sax
Björgvin Ragnar Hjálmarsson : tenór sax og bassa klarinett
Hannes Arason : trompet og flygilhorn
Bjarni Már Ingólfsson : rafgítar
Mikael Máni Ásmundsson : rafgítar
Birgir Steinn Theódórsson : kontrabassi og rafbassi
Matthías Hemstock : trommur
…og fleiri
Laufey Böðvarsdóttir, 25/8 2023
Í ágúst hefst fermingarfræðsla í Dómkirkjunni, ætluð börnum í 8. bekk.
Fermingarbarnanámskeið verður í ágúst og er það samstarfsverkefni prestanna og safnaðanna í Dóm-og Neskirkju.
Kynningarfundur er sun. 13. ágúst kl. 20:30 í Dómkirkjunni.
Námskeið fer svo fram 14.-17. ágúst.
Námskeiðið hefst í Neskirkju mán. 14. ágúst kl. 10:00
Mæting á námskeiðið er alla dagana í Neskirkju og fer fram
eftirfarandi daga:
mán.14. ágúst kl. 10-15
þri. 15. ágúst kl. 10-15
mið. 16. ágúst kl. 10-15
fim. 17. ágúst kl. 10-15.
fim. 17. ágúst kl. 19:30 Grillveisla
Dagskráin er afar fjölbreytt en markmiðið er að veita börnunum fræðslu um kristna trú, siðferði og menningu. Þar má nefna:
- Sögur Biblíunnar
- Helgihaldið, saga, tákn og tónlistin.
- Lífsleikni
- Mannréttindi
- Umhverfisvernd
- Þróunar-og hjálparstarf.
Laufey Böðvarsdóttir, 10/8 2023