Dómkirkjan

 

Á allraheilagramessu Ágústínus kirkjufaðir hefur líkt lífshlaupinu sem ferðalaginu heim, – hann er nú ekki sá fyrsti sem það gerir né sá síðasti – og í því greinir hann á milli þess sem maður notar á ferðalaginu til þess að komast áfram og svo þess sem maðurinn á að njóta (la. uti og frui). Í hans huga er það ljóst að allt sem mætir manninum á að nota þannig að það komi þeim heilu og höldnu heim ef svo má að orði komast; að Guð sé það sem njóta á en allt annað eru í raun nytjahlutir manninum til aukins þroska og ekki eigi að gefa þeim vægi umfram það. Við þurfum ekki að vera Ágústinusi algerlega sammála; margt ber við á leið okkar sem er sannarlega dýrmætt og þakkarvert; góðar minningar, gefandi samskipti; sem birtir að kærleikur Guðs til þín skilar sér í samskiptum þínum við annað fólk. En takmarkið er hins vegar augljóst og það er að komast aftur til upphafsins, heim til Guðs; og fá að hvíla í honum. Við erum reyndar á ferðalagi. Ferðalagi sem getur samt alveg tekið á, því lífið er sjaldnast auðvelt. Í það minnsta hef ég aldrei hitt þá manneskju sem ekki hefur einhvern tíma þurft að takast á við erfiðleika og sorg; sannarlega í mismiklum mæli, en enginn er frír. Og auðvitað er ekkert gaman að kljást við erfiðleika og vanlíðan. sér; en það getur verið þroskandi Kannski var þeim heldur aldrei ætlað annað en að vera okkur vörður á þroskabrautinni eins og Ágústínus talaði um? Í Guðspjalli allraheilagramessu flytur Jesús sín frægu sæluboð; og tökum eftir því að hann segir: Sælir. Ekki hamingjusamir, heppnir eða flottir og farsælir. Og sjáum hverjir það eru sem hann telur upp: Ekki eru það auðmenn, gáfufólk, eða álitsgjafar; Ekki framafólk eða stórmenni þeirrar aldar. Nei, Hann hittir fólkið, mannhafið. Er með nýjan boðskap fyrir það: Hann segir þau sæl sem samfélagið taldi aum og vesæl og ekki hamingjusöm eða að meika það. Hin ofsóttu, fátæku í anda, hunguðu, og sorgbitnu. Það er nefnilega engin hamingja að standa frammi fyrir dauða ástvina, eða eigin vanmætti og takmörkunum; mistökum; synd og sekt eða hvaða þeim vandræðum og ógæfu sem kann að verða hlutskipti okkar. Samt geta þau verið gerð sæl sem í slíkum aðstæðum lenda. En er þá hægt að vera sæll án þess að vera hamingjusamur er eðlilegt að spurt sé: Vissulega skarast þetta tvennt en -já raunar er það hægt já. Jesús segir þau sæl vegna þess að þau eiga von, von umfram hverfula og fallvalta hamingju. Vonin er kannski það sem við þurfum helst á að halda í þessari tilveru. Og sérstaklega Vonina um að yfirstíga takmarkanirnar og allt sem spillir og þessi von er bundin við Jesú Krist. Hann getur veitt okkur þessa von; hann getur talað eins og hann gerir vegna þess að hann er orð Guðs holdi klætt kominn til þess að gera vilja Guðs. Dagarnir 1. og 2. nóv. eru allraheilagra og allrasálnamessa, sem er sérstakir minningardagar látinna ástvina. Þá hugsum við sérstaklega til allra látinna ástvina. Sem hlýtur að rifja upp fyrir okkur að við berum hin látnu í kirkju til hinst kveðju ; ekki eingöngu af því að það sé viðeigandi umgjörð um kveðjuna, heldur til að mæta Orðinu sem kemur frá Guði og kallar okkur til sín. Við mætum orðinu sem talar um sælu á allt allt öðrum forsendum en við eigum að venjast; þar mætum við orðinu sem gerir okkur sæl. Við mætum Jesú Kristi – Orði Guðs. Þetta Orð gerir okkur sæl – einnig í okkar mestu óhamingju – og gefur okkur von andspænis vonleysi, trú andspænis efa og kærleika andspænis dauðanum; því vonin er bundin við þetta orð. Á tíma pestarinnar er okkur sérstaklega mikilvægt að hafa þetta í huga; Hann, sem von okkar er bundin, bregst okkur ekki.

Laufey Böðvarsdóttir, 1/11 2020 kl. 21.21

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS