Dómkirkjan

 

„Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga og tunglið ekki birta þín um nætur heldur verður Drottinn þér eilíft ljós og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.“ (Jes 60.19) Það hefur verið mikið um minningardaga að undanförnu. Síðastliðinn laugardag mátti sjá mörg börn uppáklædd í grímubúninga og fyrir utan mörg hús loguðu kerti í útskornum graskerjum. „Halloween“ hefur fest sig í sessi hér á landi. En þessi dagur hefur hins vegar löngum haft sérstöðu í okkar sögu því 31. okt. er aðfangadagur allraheilagramessu og í okkar arfleifð er dagurinn kallaður „siðbótardagurinn“ vegna þess að þann dag árið 1517 festi dr. Martin Lúther upp 95 greinar sínar á dyrnar á Hallarkirkjunni í Wittenberg. Óhætt er að segja að við þennan viðburð hafi saga Evrópu og kirkjunnar tekið nýja stefnu. Greinunum var fyrst og fremst beint gegn aflátssölunni og páfavaldinu í Róm og byggðu á rannsóknum Lúthers á ritningunni. „Við höfum ekki hugmynd um allt það sem við getum þakkað Lúther,“ sagði stórskáldið Goethe eitt sinn. Enda þótt siðbótin yrði ekki sársaukalaus er engu að síður óhætt að segja að í henni hafi verið falin frelsun hugsunarinnar, bylting hvað varðaði menntun og gagnrýna hugsun. Það var engin hending að Lúther skyldi hengja greinarnar upp þennan tiltekna dag, því hann vissi að fjölmenni yrði við messu daginn eftir á allraheilagramessu, sem sett var til minningar um alla helga menn, sem með lífi sínu, trú og dauða gerðu miklu meira en venjulegt má teljast. Á allrasálnamessu sem er 2. nóv. var hins vegar messa sungin í minningu látinna. Sá siður hefur fest sig í sessi hérlendis að við minnumst látinna ástvina fyrsta sunnudag í nóvember. Með því heiðrum við minningu þeirra sem voru okkur dýrmæt og mótuðu okkur eða við syrgjum enn og söknum. Á þann veg veitum við sorginni heilbrigðan farveg og horfumst í augu við hana og viðurkennum hana sem hluta af veruleika okkar og tilveru. En af hverju er mönnum svona tíðrætt um sorg og missi nú á dögum? Hvað er orðið um það að bera harm sinn í hljóði? Þykir það ekkert fínt lengur? Sannleikurinn er sá, að reynslan hefur kennt okkur að það er ekki farsæl leið til að takast á við sorg. Það er viðtekið nú á dögum að sorg sem ekki fær ekki heilbrigðan farveg getur leitt til annarra andlegra og líkamlegra kvilla síðar meir á ævinni. Það er ekki langt síðan að það þótti óviðeigandi að minnast á látið fólk við aðstandendur. Ekki er ólíklegt að það hafi verið gert af misskildum kærleika og umhyggju fyrir hinum syrgjandi. Ótti margra við viðbrögð syrgjandi fólks er e.t.v. ótti okkar sjálfra við það hvernig við höndlum viðbrögð syrgjenda og það sorglega sem gerðist. Syrgjendur hafa lýst reynslu af því að kunningjar þeirra hafi ekki þóst sjá þá úti á götu eða í búðinni og aðrir hafa látið eins og ekkert hafi í skorist. Kona sem ég þekkti og missti tvö kornabörn fyrir meira en hálfri öld sagði mér, að eftir að börnin hennar voru borin til grafar vogaði enginn sér að minnast á þau við hana og hún tók það mjög nærri sér. Ekkert okkar kemst áfallalaust í gegnum lífið. Hugmyndir okkar um dauðann litast auðvitað af reynslu okkar af lífinu. Og það hvernig við tölum um dauðann er auðvitað myndmál um hluti sem við skiljum ekki til fulls. Engu að síður þá leyfir trúin okkur að treysta því að þegar lífinu lýkur taki við annar veruleiki í eilífð Guðs þar sem Drottinn verður okkur „eilíft ljós“ og „dýrðarljómi“. Þess vegna er okkur óhætt að vitja um leiði ástvina, tendra ljós og minnast þeirra í þökk og gleði. Þess vegna er okkur óhætt að vitja um leiði ástvina, tendra ljós og minnast þeirra í þökk og gleði og við megum líka minnast þess sem var ófullkomið og brotið í fari þeirra. Vegna þess að enda þótt fólk sé dáið þá voru þau líka bara í lifanda lífi ófullkomnar manneskjur eins og ég og þú. Og með því að leyfa þeim að lifa áfram í minningunum, með kostum og göllum eiga allar manneskjurnar sem við höfum elskað, áfram stað í hjarta okkar.

Laufey Böðvarsdóttir, 3/11 2020 kl. 15.46

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS