Dómkirkjan

 

Hugvekja séra Elínborgar Sturludóttur, dómkirkjuprests.

„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.

Að fæðast hefur sinn tíma
og að deyja hefur sinn tíma.

Að gráta hefur sinn tíma
og að hlæja hefur sinn tíma.

Að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma.

Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“

(Préd. 3:1nn.)

Hver á ekki bernskuminningar um langa og leiðinlega daga þegar ekkert gerðist og ekkert virtist hægt að gera?
Kannski var veðrið skelfilegt og ekki hundi út sigandi.
Kannski var enginn vinur til staðar sem vildi „vera memm“.
Ef til vill voru þetta helgidagar þegar ekki þótti viðeigandi að fara í önnur hús og maður vældi í foreldrum sínum: „Mér leiðist! “

Ég átti ömmu sem var afskaplega barngóð og góður uppalandi og stundum dvaldi hún hjá okkur í nokkurn tíma. Hún vorkenndi aldrei börnum sem leiddist heldur sagði bara við þau: „Finndu þér þá eitthvað skemmtilegt að gera!“

Og það var nú ekki alltaf stutt leið að því í þá daga þegar barnaefni var aðeins í sjónvarpinu á sunnudögum og ekkert Netflix sem hægt var að liggja yfir. Það voru heldur ekki snjallsímar, tölvur eða internet.

Þegar manni leiddist, neyddist maður nefnilega til að finna upp á einhverju skemmtilegu sjálfur.

Og sannleikurinn er sá að það var oft einmitt í mestu leiðindunum sem bestu hugmyndirnar að frábærum ævintýrum kviknuðu.

Það er nefnilega sennilega soldið hollt og gott að láta sér leiðast, a.m.k stundum!

Mér hefur verið hugsað til þessara æskudaga að undanförnu þegar leiðinn yfir hversdagslífinu í Covid hefur sótt að mér.

Í nútímanum er nefnilega svo auðvelt að hafa ofan af fyrir sjálfum sér. Fara frá einni afþreyingunni til annarrar. Staldra aldrei við. Hugsa ekki neitt. Vera með dagskrána svo stífa að hversdagslífið er endalaus hlaup frá einum stað til annars og þegar vinnudeginum lýkur þá taka skyldur heimilislífsins við og tómstundirnar sem eru svo stór hluti af lífsgæðum nútímamannsins. Enda þykir það sjálfsögð krafa millistéttarfólks nú á dögum, í okkar heimshluta, að eiga sér innihaldsríkar tómstundir sem veita okkur jákvæðar upplifanir.

„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma“ segir hjá Prédikaranum.

Sá lífstaktur sem er orðinn okkur flestum tamur, að hafa meira fyrir stafni en dagbókin okkar rúmar og dagurinn leyfir, er kannski ekki svo ýkja hollur þegar grannt er skoðað. Margir hafa þjáðst af kulnun og sífellt fleiri hafa þurft að fara í veikindaleyfi til að læra nýjar aðferðir til að lifa.

Aðstæður þessa árs með heimsfaraldri, hefur neytt okkur öll til að taka lífshætti okkar til gagngerrar endurskoðunar. Fæstum okkar finnst það auðvelt. En við höfum fengið tækifæri til að máta okkur við nýjan lífstakt þar sem meginþorrinn hefur meira tóm til hægara lífs, meiri ígrundunar og minni asa.

Mér hefur leiðst töluvert að undanförnu. En þá hef ég hugsað til ömmu minnar sem sagði mér að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera. En ég hef ekki einungis gert það; ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna ég hafi svona takmarkaða þolinmæði fyrir þessum tilbreytingarlausu dögum.

Ég er að minnsta kosti ákveðin í því að treysta því að, alveg eins og í barnæsku minni, fái ég nú frábærar hugmyndir að skemmtilegum ævintýrum.
Í öllum þessum leiðindum hefur a.m.k. skapast tóm til að ígrunda lífið og tilveruna, tilgang og merkingu sem asi nútímalífsins (fyrir Covid) leyfir okkur svo sjaldan. Og ég hef nú þegar komist að því í þessu kófi að það mikilvægasta af öllu, sem ég á, eru tengslin við þau sem ég elska.

Og af því dreg ég aðeins eina ályktun: Voru þessi leiðindi þá ekki þess virði fyrst ég komst að svo viturlegri niðurstöðu?

Laufey Böðvarsdóttir, 28/10 2020 kl. 17.01

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS