Dómkirkjan

 

Hugvekja sr. Sveins Valgeirssonar sunnudaginn 25. október

Í guðspjalli dagsins segir Jesús frá konungi er bauð til brúðkaups sonar síns, og vildi eðlilega gera þá veislu sem veglegasta. Hér fór það samt svo að enginn vildi koma, og sumir gengu jafnvel svo langt að drepa þá er færðu þeim boðskortin. Það er aldeilis gaman að halda veislu fyrir svona lýð.

Merking þessarar dæmisögu þarf ekki að vera svo mjög hulin skilningi okkar. Konungurinn er vitaskuld Guð og sonur hans er Kristur, sem í frumkristni, og reyndar einnig á seinni tímum, hefur verið kallaður Brúðgumi kirkjunnar

Hægur vandi er að líta svo á að þeir sem boðið var, eigi að tákna hina útvöldu gyðingaþjóðin, eða a.m.k. þann hluti hennar er ekki tók við Jesú Kristi sem syni Guðs. Því fari þjónarnir út fyrir þennan hring og safni öðrum, þ.e.a.s. á meðal heiðnu þjóðanna svokölluðu, sem áður voru ekki taldir verðugir, til að koma í veisluna.

Af hverju bregðast boðsgestirnir við eins og þeir gera? Ef við gefum okkur að hinir upphaflegu boðsgestir eigi að tákna lýð þann, er Guð hafði útvalið, Ísraelsþjóðina, þá má sjá í sögu þeirra ýmis konar átök milli þeirra innbyrðis, og oft fór það nú svo að þeir grýttu spámenn sína, og smánuðu.

En þrátt fyrir allar þrætur þeirra og stælur, nú eða þá skammsýni, þá liggur annar þáttur að baki því að boðsgestirnir höfnuðu veisluboðinu og er langt í frá bundinn við sögu Ísraelsþjóðarinnar. Það sem einkennir viðbrögðin er vanþakklætið. Vanþakklæti yfir þeirri gjöf sem lífið er, vanþakklæti sem gengur svo langt að telja sig yfir það hafinn að þiggja náð Guðs.

Við höfum þegið lífið að gjöf frá skaparanum, með öllum þeim gæðum sem því fylgir, og auk þess styrk hans í þrenginum og fyrirheitum um eilífa dýrð að þessu jarðlífi loknu. Hver erum við að forsmá þessar gjafir? Hver erum við að telja okkur vera yfir þær hafnar og þurfa ekkert á Guði að halda? Í raun ætti það að vera svo sjálfsagt að kannast við skapara sinn og þakka honum, að maður ætti eiginlega ekki að taka eftir því, frekar en maður fylgist með andardrættinum, eða hjartaslögum í brjóstinu. Hugsanlega teljum við að þannig sé það einmitt með þátttöku okkar í daglegu lífi, að maður upplifi þakklætið til skaparans í því að viðhalda hans góðu sköpun og starfa meðan dagur er? Hver veit. En hins vegar er það hluti af eðli mannsins að hann er hæfur til andsvars því maðurinn er skapaður til samfélags við Guð, og getur tjáð sig við hann umfram aðra sköpun. Þetta er blessun mannsins, en leggur honum um leið ákveðna ábyrgð á herðar.
Maðurinn þarf að taka ábyrgð á því sem hann velur, að svo miklu leyti sem hann frjáls að þessu vali og er á hans valdi. Boðsgestirnir í brúðkaupsveislunni höfðu val og þeir völdu að hafna Guði, jafnvel þó þeir teldu sig kannski vera að velja hann, svo undarlega sem það nú hljómar.

Kófið; rétt eins og svo margt í lífinu, snýst um val, og það val lýtur að samkennd; að við veljum orðum okkar og athöfnun farveg sem verða náunga okkar og samfélagi til uppþyggingar, þjónustu og farsældar en miðist ekki fyrst og fremst við að hámarka eigin ánægju og eftirlæti.
Zoon politikon – félagsvera – var einkunnin sem Aristóteles gaf mannskepnunni. Minnug þess er gott að miða gerðir sínar við það að samfélag manna sé betra, vegna þess að við hvert og eitt erum hluti af því, en ekki verra; að við dældum ekki samfélag okkar með ábyrgðarlausri hegðun. Það annað sem ekki er á okkar valdi, felum við Guði allsvaldanda og biðjum að hann muni vel fyrir sjá.
Mynd frá Dómkirkjan.

Laufey Böðvarsdóttir, 26/10 2020 kl. 18.58

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS