Kvöldkirkjan er óhefðbundin stund að formi og innihaldi. Andrúmsloftið er óformlegt og afslappað. Lýsing, tónlist og stuttar íhuganir blandast við alltumliggjandi kyrrð og ró rýmisins. Við bjóðum þér að hugleiða, biðja, kveikja á kertum, fara á milli mismunandi stöðva í kirkjunni, skrifa niður hugsanir þínar eða bænir eða bara sitja í bekkjunum eða hvílast á dýnum í kirkjunni.
Kvöldkirkjan er samstarfsverkefni Hallgrímskirkju og Dómkirkjunnar í Reykjavík.
Af hverju kvöldkirkja og hvert er markmiðið?
Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi dagkirkjunnar. Kvöldkirkjan er öðru vísi en hefðbundið helgihald. Fólk er ekki bundið við kirkjubekkina, heldur getur hreyft sig um kirkjurýmið setst niður eða lagst.
Hvað einkennir kvöldkirkjuna?
Kyrrð, ró og íhugun ásamt óhefðbundinni tónlist fyrir kirkju, eru helstu einkenni kvöldkirkjunnar. Í kvöldkirkjunni er slökkt á símanum og samtölin eru látin bíða þar til út er komið. Lesinn texti er á hálfímta fresti og tónlistarflutningur stiður við íhugun og slökun. Öllum er frjálst að ganga hljóðlega um kirkjuna, setjast eða liggja í kirkjubekkjunum eða á dýnum á gólfinu, kveikja á kertum, færa sig á milli stöðva og skrifa það sem þeim liggur á hjarta á miða og setja í körfur.
Laufey Böðvarsdóttir, 14/1 2025
Sönghópurinn Marteinn samanstendur af um 40-50 vinum sem sungu í Dómkórnum undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar dómorganista á einhverjum tímapunkti á árunum 1978 til 2010. Þó liðin séu brátt 15 ár frá andláti stjórnandans þá heldur kórinn áfram að hittast og rifja upp gamlar minningar og rækta áratuga vináttu. Æfingar eru óreglulegar og ráðast oftast af væntanlegu viðfangsefni eða einhverju skemmtilegu tilefni. Þrír meðlimir kórsins hafa deilt því verkefni að reyna að fylla í skarð Marteins: Þórunn Björnsdóttir, þekktur stjórnandi barna- og unglingakóra, hæfileikaríki tenórinn Sigmundur Sigurðarsson, að öðru leyti mjólkurbílstjóri á Suðurlandi, og sópraninn Kristín Valsdóttir, sem starfar að jafnaði sem dósent við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Kórinn fer reglulega í æfingabúðir og ferðalög og er nýkominn frá Spáni þar sem hann tók þátt í stóru kóramóti og kom sjálfum sér og öðrum á óvart með glæsilegri frammistöðu. Sönghópurinn Marteinn fagnar því að geta haft kóræfingar í Dómkirkjunni og langar að þakka fyrir sig með jólatónleikum þriðjudaginn 17. desember kl. 21:00. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Laufey Böðvarsdóttir, 2/1 2025
https://www.ruv.is/utvarp/dagskra/ras1/2025-01-01/5280291
Laufey Böðvarsdóttir, 2/1 2025
Flutt verður tónlist tengd jólum og þrettándanum auk tveggja verka eftir Benjamin Britten, A Hymn to the Virgin og hið undursamlega A Ceremony of Carols op. 28 sem kórinn flytur ásamt Elísabetu Waage hörpuleikara.
Miðar verða seldir við innganginn. Miðaverð er 3.000 kr. Ókeypis fyrir 12 ára og yngri.
Laufey Böðvarsdóttir, 2/1 2025