Dómkirkjan

 

Safnaðarstarf

Fermingarstarf

Fermingarveturinn er tími fjölskyldunnar. Á fermingarvetri er tækifæri til að sameinast um hið heilaga, læra, biðja og eiga samfélag í kirkjunni og upplifa hátíðir hennar á sérstakan máta. Foreldrar og fjölskylda eru hvött til þátttöku í helgihaldi kirkjunnar á fermingarvetri barnsins. Með því að koma með foreldrum eða forráðamönnum sínum til helgihaldsins læra fermingarbörnin betur að njóta þátttöku í starfi kirkjunnar. Einnig er tilvalið að bjóða yngri systkinum, frænkum og frændum að koma með í sunnudagaskólann.

Fræðslukver, verkefni og spurningar.  Ýmsar aðrar heimildir eru einnig notaðar í fræðslunni. Auk fræðslunnar er lagt upp með að börnin taki þátt í tíu messum hið minnsta. Gjarnan fáum við góðar heimsóknir í fræðsluna.

Hvað getur maður vitað um Guð?

Hvað er trú?

Hver er ég?

Er tilgangur með lífinu?

Hvernig get ég haft góð áhrif á samfélagið sem ég lifi í?

Þetta eru stórar spurningar og ekkert víst að við getum svarað þeim í eitt skipti fyrir öll. En það getur verið gott og gagnlegt að velta þeim fyrir sér og það ætlum við að gera í fermingarfræðslu Dómkirkjunnar næsta vetur. Þar ert þú velkomin(n). Þau börn sem hyggjast taka þátt í fermingarfræðslunni eru vinsamlegast beðin að skrá þátttöku sína á netfanginu elinborg@domkirkjan.is Við hlökkum til að hitta ykkur í haust. Með góðri kveðju, prestarnir​

 

 

Opna húsið í safnaðarheimilinu

Alla fimmtudaga frá 13:00-14:30 frá hausti fram á vor er opið hús í Safnaðarheimilinu. Margt er til gamans gert, fróðleiks og skemmtunar. Við förum í dagsferðir bæði vor og haust. Við hvetjum eldri borgara og aðra til að líta við. Engin þörf er á að láta skrá sig sérstaklega, bara kíkja inn og við tökum vel á móti þér. Alltaf eitthvað gott með kaffinu.

 

 

Kvöldkirkjan

Kvöldkirkjan er óhefðbundin stund að formi og innihaldi. Andrúmsloftið er óformlegt og afslappað. Lýsing, tónlist og stuttar íhuganir blandast við alltumliggjandi kyrrð og ró rýmisins. Við bjóðum þér að hugleiða, biðja, kveikja á kertum, fara á milli mismunandi stöðva í kirkjunni, skrifa niður hugsanir þínar eða bænir eða bara sitja í bekkjunum eða hvílast á dýnum í kirkjunni.

Kvöldkirkjan er samstarfsverkefni Hallgrímskirkju og Dómkirkjunnar í Reykjavík. Verkefnið hófst haustið 2019. Í boði eru tvær stundir í mánuði, ein í hvorri kirkju, frá lokum september til loka apríl.

 

Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS