Dómkirkjan

 

Hugvekja sr. Sveins Valgeirssonar sóknarprests Dómkirkjunnar.

„Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verð ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum lofsöngvum og andlegum ljóðum…

Dagarnir eru vondir.

Það skrifar Páll postuli úr fangelsinu til safnaðarins í Efesus en hann bendir áheyrendum sínum að dvelja ekki fyrst og fremst við það, heldur hvernig eigi að bregðast við því.

Að sumu leyti gæti hann verið að skrifa inn í samtíma okkar; hefur veruskömmin ekki einmitt neytt okkur til að gefa vandlegan gaum að því hvernig við breytum? Mér liggur við að segja að ráðleggingar Páls séu á líku róli og þríeykisins góða; farið varlega. Sýnið aðgát. Vertu klár, ekki kjáni.
Er ekki einmitt tíminn til að sýna varkárni og skynsamlegt hyggjuvit, þegar tímarnir eru krefjandi og erfiðir? Tímar sem krefjast þolgæðis en til að blífa í því er svo mikilvægt að rækta með sér viðhorf og hugarfar sem rífur ekki niður heldur byggir upp og styrkir; hugarfar vonarinnar og æðruleysisins, – og samstöðu.

Laugardaginn 24. október, fyrsta vetrardag, verður Dómkirkjan lýst með bláu ljósi til að fagna því að 75 ár eru liðin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Vegna ástandsins í Kófinu verður lítið um opinber hátíðahöld en sú leið valin að vekja athygli á SÞ með þessum hætti. Fjöldamörgum opinberum byggingum öðrum hér á landi verður líkt varið, sem og í Evrópu allri, að þær baðast bláu ljósi. Hugsjón Sameinuðu þjóðanna hverfist um samstöðu og frið og á sannarlega samleið með kirkjunni í þeim efnum; Ástand heimsins nú undirstrikar sem aldrei fyrr mikilvægi þessarar hugsjónar.

Eru dagarnir eru vondir?

Já, vafalítið, en misvondir, eftir því hvern þú spyrð: En sem betur fer höfum við tækin og tólin til að gera dagana betri. Það skulum við líka gera.

Guð gefi okkur öllum þolgæði, æðruleysi og von.

Laufey Böðvarsdóttir, 25/10 2020 kl. 11.29

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS