Dómkirkjan

 

Hugleiðing frá séra Elínborgu Sturludóttur, dómkirkjupresti.

Verið þakklát.Látið orð Krists búa með ykkur í allri sinni auðlegð og speki. Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum.“ (Kol. 3:15 ff.)

Þeir hafa verið fallegir dagarnir að undanförnu. Sólskin og blíða og falleg fjallasýn. Það er svo undursamlegt hvað fallegt veður getur glatt mann og hvað sólskin getur lífgað mann upp.

Um þessar mundir þakka ég fyrir hvern þann dag sem ég og fólkið mitt erum heil heilsu.

Ég hygg að margir séu í sömu sporum; að finna fyrir djúpu þakklæti fyrir líf og heilsu og fallega daga.

Nú færist vetur nær og í gær þurftu margir hér á höfuðborgarsvæðinu að skafa af bílrúðunum þegar þeir fóru út í morgunsárið. Það minnir okkur á að nú fer skammdegið í hönd og það krefur okkur um enn meiri bjartsýni, jákvæðni og þolgæði.
Sjálf hef ég í hyggju að fara í þann leik við kvöldmatarborðið með fjölskyldunni minni næstu vikurnar, að telja upp eitthvað jákvætt sem mætti mér þann daginn og leggja mig fram um að koma auga á þakkarefni í hversdagslífi okkar.

Ég hygg að við þráum það flest að fá meiri rútínu í líf okkar, að við öðlumst á ný meira frelsi til athafna og aukið samfélag við vini og vandamenn.

Ég hlakka til þess að fara aftur í leikfimi á morgnana, hitta vinkonur í saumó og fara út úr bænum til að heimsækja vini og vandamenn á landsbyggðinni.
Nú ætla ég að leyfa mér að hlakka til þess, þegar allt þetta má aftur og þá ætla ég að vera enn þakklátari fyrir það að njóta svo hversdagslegs munaðar.

Ég verð að viðurkenna að ég hafði aldrei leitt hugann að því fyrr, hvað hið einfalda og hversdagslega á stóran hlut í lífsgleði minni.
Og ég sé að það er gott!

Laufey Böðvarsdóttir, 21/10 2020 kl. 10.30

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS