Dómkirkjan

 

Jólahugvekja. Nafn hans skal vera Immanúel, Guð með oss. Þannig er sagt í upphafi Mattheusarguðspjalls, þegar guðspjallamaðurinn fjallar um erindi Krists í heiminn. Með þessum orðum er grunntónn guðspjallsins sleginn, sem ómar það út í gegn. Í fæðingarfrásögn Mattheusar, – sem að vísu bliknar eilítið í samanburði við Lúkas, – heyrum við enduróm af þessum orðum í öllu starfi Jesú Krists, þegar hann boðar guðsríkið, bæði í orði en ekki síður því sem hann gerði og framkvæmdi. Við heyrum þennan tón þegar Hann gengur á Golgata og sterkastur er hann í undri páskadagsins; sonur Guðs gengur á hólm við dauðann og hefur sigur. Og hvernig lýkur svo guðspjallinu? Jú Jesús stendur á fjallinu, eftir upprisu sína og segir við lærisveinana: “Farið og gerið allar þjóðir að lærsveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.” “Ég er með yður” segir hann. Þetta segir hann sjálfur og ég held það sé með ráðum gert að guðspjalla¬maðurinn innrammar guðspjallið á þennan hátt. Til að undirstrika það að Guð er kominn í heiminn í Jesú Kristi; hann verður eitt með sköpuninni, þó án þess að láta heiminn ná neinu siðferðilegu valdi yfir sér. “Ég er með yður.” þetta er margrætt; hann styður vissulega og er alls staðar nálægur þeim sem leita hans. En hann er líka að finna í hverjum þeim sem þarfnast aðstoðar okkar; “Allt sem þér gerið einum minna minnstu bræðra, það gerið þér mér” og „Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta…” Ákallið er auðheyranlegt. Skilaboð hans heyrast enn, meira að segja í gegnum Kófið þykka og þrúgandi; Ég er með yður. Mitt inn í einmanaleika, kvíða og depurð – og einangrun berst erindi hans til þín: „Ég er með þér og rýf einangrunina og einsemd þína.” Guð var kominn í heiminn. Drengurinn nýfæddi skyldi látinn heita Jesús; Guð frelsar. Hann, sem er Orðið, frá upphafi hjá guði og er Guð; sá sem kom til eignar sinnar en heimurinn tók ekki við, þekkti ekki. Og þó hann hafi ekki fengið rúm hjá mönnum fyrstu nóttina sem hann lifði í heiminum þá útilokar hann mannkyn ekki frá náð sinni, heldur þvert á móti tekur hann þá að sér; hann er Immanúel; Guð meðal vor; Guð með oss. Þetta er erindi jólanna. Guð gefi þér uppbyggilega aðventu og gleðileg jól.

Laufey Böðvarsdóttir, 27/12 2020 kl. 23.21

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS