Dómkirkjan

 

„Drottinn vitjaði Söru eins og hann hafði heitið henni og gerði við hana eins og hann hafði lofað. Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans um þær mundir sem Guð hafði heitið honum. Abraham nefndi soninn, sem Sara ól honum, Ísak.“ (Gen. 21:1-3) Ein versta hugmynd sem við hjónin höfum fengið, er að ákveða í sameiningu rétt fyrir jól að gefa hvort öðru EKKI jólagjöf. Ástæðan var sú að við vorum blankir stúdentar. Þegar aðfangadagskvöld rann upp fann ég hvað ég saknaði þess að gefa manninum mínum ekkert og taka ekki heldur upp gjöf frá honum og geta þakkað fyrir með faðmlagi og kossi. Ég hef oft verið blönk fyrir jólin og margoft hef ég gefið gjafir sem hafa nánast ekki kostað neitt og ég hef aldrei aftur sleppt því að gefa manninum mínum jólagjöf. Hann hefur fengið vettlinga sem ég prjónaði sjálf, gamla bók úr Hjálpræðishernum, silkibindi úr Rauða Krossinum og eitt sinn gaf hann mér kvæði í afmælisgjöf! Allir þekkja tilfinninguna að verða fyrir vonbrigðum. Maður getur orðið fyrir vonbrigðum í stóru og smáu. Margir þekkja tilfinninguna að hafa þráð eitthvað svo heitt að þá langar til að gráta! Og nú er ég ekki að tala um að langa í jólagjafir eða e-a efnislega hluti. Í fyrstu bók Biblíunnar segir frá hjónunum Abraham og Söru. Þau höfðu um árabil lifað í ófrjósömu hjónabandi og það hafði valdið þeim mikilli sorg. En svo gerðist það að Guð vitjað Abrahams og sagði honum að taka sig upp og fara af stað til landsins sem hann myndi vísa honum til og hann ætti eftir að eignast marga afkomendur. Og með þetta fyrirheiti lögðu þau af stað út í óvissuna. Abraham hafði eignast son með ambátt sinni Hagar sem bar nafnið Ísmael. En svo gerast þau stórkostlegu undur að það, sem þau höfðu þráð heitast og voru án efa hætt að láta sig dreyma um, varð að veruleika og þau eignuðust son í elli sinni. Í 1. Mós. segir: „Sveinninn dafnaði og var vaninn af brjósti. Þann dag, er Ísak var vaninn af brjósti, gerði Abraham veislu mikla. Sá þá Sara son Hagar hinnar egypsku, sem hún hafði fætt Abraham, að leik og sagði við Abraham: „Rektu burt ambátt þessa og son hennar því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með Ísak, syni mínum.“ Það er athyglisvert að skoða þessa sögu núna á jólaföstunni þegar samkennd og samhjálp er áberandi vegna þess að staðreynd málsins er sú að það er líka stutt í miskunnarleysi mannskepnunnar! Enda þótt Sara hefði sjálf þjáðst gríðarlega vegna barnleysisins og þráð svo heitt að eignast afkvæmi, þá var hún fær um að sýna annarri móður ómaklega illsku. Hagar var ambátt og átti ekki margra kosta völ. Hún er fulltrúi hinna kúguðu og varnarlausu. Þessi saga beinir sjónum okkar að því að þau sem njóta náðar, geta líka sýnt ískalda grimmd. Þau sem hafa verið frelsuð frá kúgun, geta tekið upp á því að kúga aðra. Þjóð, sem hefur verið í þeim sporum að eiga ekki neitt til skiptanna og þurft að reiða sig á fátækraþerrinn fyrir jólin, hefur á undraskömmum tíma orðið að hugsunarlausum neytendum sem sóa í alls kyns óþarfa og ganga með því á auðlindir heimsins og takmörkuð gæði jarðarinnar. Nú á aðventunni þegar við bíðum þess að mega fagna örlæti Guðs og elsku sem birtist í fæðingu Jesúbarnsins, mættum við biðja um það að við sjálf yrðum örlátari, fúsari til að fyrirgefa og hæfari til að sýna öllum þeim sem á vegi okkkar verða miskunnsemi og virðingu. Um daginn birti ég mynd af kransinum á útidyrahurðinni hjá okkur sem ég hafði sjálf búið til. Ég keypti efnið í hann hjá vinkonu mínni Hlín í blómabúð hennar í Mosó og fór síðan til vinkonu minnar Guðrúnar í Stíflisdal sem er besti bandamaður í föndri. Hann var ekki búinn að hanga á hurðinni nema í 10 daga þegar honum var stolið! (Hann hlýtur að hafa þótt flottur! ) Full vonbrigða hengdi ég nokkrar greinar á naglann á hurðinni í staðinn. Og í anda jólaföstunnar var tekið til í grænmetisskúffunni í ísskápnum í gær og búin til dýrindis grænmetissúpa. Meðlætið var salat og brauðmolar úr gömlu súrdeigsbrauði sem var velt upp úr dýrindis ólífuolíu sem Margrét Jónsdóttir Njarðvík, eigandi Mundo, flytur inn og selur. Þeir fóru í ofn í nokkrar mínútur og þetta varð að ljúffengri máltíð! Njótið jólaföstunnar en verið miskunnsöm hvert við annað! Séra Elínborg Sturludóttir.

Laufey Böðvarsdóttir, 12/12 2020 kl. 15.51

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS