Sagan
Hér til hliðar finna valda kafla úr bókinni ,,Saga Dómkirkjunnar” eftir sr. Þóri Stephensen. Bókin kom út í tilefni 200 ára afmæli Dómkirkjunnar árið 1996.
Dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1796 og var fyrsta byggingin sem reist var sérstaklega með tilliti til þess að Reykjavík skyldi verða höfuðstaður landsins. Tæpri öld síðar var svo Alþingishúsið reist þétt við kirkjuna. Síðar hafa þessi tvö hús myndað heild í hugum landsmanna og táknað órofa samhengi laga og siðar í landinu. Dómkirkjan hefur verið vettvangur stórra atburða í lífi íslensku þjóðarinnar, einstaklinga, fjölskyldna, samfélags. Við þingsetningar ganga alþingismenn til Dómkirkjunnar og hlýða á guðsþjónustu og eins við embættistöku forseta Íslands. Dómkirkjan er kirkja biskups Íslands, þar sem hann vinnur flest embættisverk sín. Umfram allt er Dómkirkjan þó sóknarkirkja, fyrst allra Reykvíkinga en nú gamla Vesturbæjarins og næstu hverfa til austurs.
Byggingarsaga
Árið 1784 var ákveðið að Skálholtsbiskup og skóli skyldi flutt til Reykjavíkur. Varð þá gamla sóknarkirkjan sem staðið hafði frá upphafi kristni í gamla kirkjugarðinum við Aðalstræti, dómkirkja. Þrem árum síðar hófst bygging núverandi dómkirkju. Hún var byggð eftir teikningum A. Kirkerups.
Byggingin stóðst illa tímans tönn og svo fór að hún var endurbyggð 1848 í núverandi mynd, að forsögn arkitektsins, L. A. Winstrup. Þá var hún hækkuð og byggður kór, forkirkja og turn. Hún hefur nokkrum sinnum fengið gagngerar endurbætur síðast 1985 og svo um aldamótin síðustu.
Dómkirkjan er stílhreint og fagurt hús, í nýklassískum stíl og fagurlega prýdd. Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt hefur haft umsjón með seinustu tvennum endurbótunum. Gólfið í kirkjunni er lagt ljósum steinflögum. Setloft er í kirkjunni beggja vegna.
Þegar komið er inn í forkirkjuna blasir við tafla yfir dyrum og er á ritað erindi eftir sr. Hallgrím Pétursson í ramma sem Ríkharður Jónsson, myndhöggvari gerði: “Þá þú gengur í Guðs hús inn…” Á veggjum forkirkju eru gipsmyndir eftir Albert Thorvaldsen. Sýna þær guðspjallamennina Lúkas og Jóhannes, en honum var Víkurkirkja helguð.
Yfir altarinu blasir við altarismynd G. T. Wegeners, hirðmálara frá 1847, Upprisa Drottins. Þetta er áhrifamikið listaverk og eru eftirmyndir hennar víða í kirkjum landsins. Undir myndinni er letrað: Svo sem Drottinn hefur uppvakið Krist svo mun hann oss uppvekia.
Loftið yfir kórnum er markað bláum flötum með gylltum stjörnum. Yfir gluggunum eru átta englamyndir, sem eins prýða prédikunarstólinn.
Altarið er klætt rauðu flaueli sem prýtt er silfurskrauti sem Halldór Kristinsson, silfursmiður gerði 1956 og ´58. Fyrir miðju er silfurkross og umhverfis vínviður og eru þrúgurnar myndaðar af íslenskum glerhöllum, agat.
Skírnarfontur Alberts Thorvaldsen er einn mestu dýrgripa þjóðarinnar. Hann kom í Dómkirkjuna árið 1839 og ber ártalið 1827 en þá var hann gerður í Rómaborg þar sem listamaðurinn starfaði lengi. Á framhlið fontsins er mynduð skírn Jesú af Jóhannesi skírara, á norðurhlið eru sömu persónur á barnsaldri með Maríu Guðsmóður og á suðurhlið er Jesús að blessa börnin. Á bakhlið er letrað á latínu:
Reisti smíð þessa í Róm suður Albert Thorvaldsen ættjörðu sinni, Ísalandi, gefandi hana af góðum hug. (Jónas Hallgr.)
Prédikunarstóll Dómkirkjunnar er mikil listasmíð af hendi Winstrups sem og umgjörð altarismyndarinnar. Stíllinn er ný-barrok og fellur ásamt öðrum skreytingum vel að nýklassískum stíl kirkjunnar. Á prédikunarstólinn er letrað: Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.
Kirkjugripir
Meðal gripa kirkjunnar eru kaleikur og patína úr silfri, gerð af Sigurði Þorsteinssyni silfursmið í Kaupmannahöfn 1784 og voru þeir áður í gömlu kirkjunni við Aðalstræti. Á altarinu eru samstæðir stjakar og róðukross, sem gerðir voru á Englandi.
Orgel Dómkirkjunnar var vígt 1. desember 1985, smíðað af Karl Schuke í Berlín. Það hefur þrjú hljómborð og 31 sjálfstæða rödd. Fyrsta orgelið í Dómkirkjunni kom árið 1840. Það var fyrsta orgelið sem kom í íslenska kirkju. Dómorganistarnir, svo sem þeir, Pétur Guðjohnsen, Sigfús Einarsson, Páll Ísólfsson og Marteinn H. Friðriksson hafa markað djúp spor í tónlistarsögu landsins.
Kirkjuloftið
á sér merka sögu. Landsbóka-, Þjóðminja- og Þjóðskjalasafnið hófu öll starfsemi sína á kirkjulofti Dómkirkjunnar. Síðar voru þar bækistöðvar Hins íslenska bókmenntafélags. Eftir að það flutti í annað húsnæði var lofið innréttað fyrir safnaðarstarf um 1960. Þar gefur að líta líkan gömlu kirkjunnar og stóra gaslampa sem nú hafa verið raflýstir en áður lýstu upp kirkjuna.
Við kirkjuna eru þrír minnisvarðar, norðan við kirkjudyr er minnisvarði Hallgríms Péturssonar, við suðurhlið minnisvarði Jóns biskups Vídalín, og austan við skrúðhús er minnisvarði séra Bjarna Jónssonar, dómkirkjuprests.