Dómkirkjan

 

Jónskirkja postula í Vík

Alveg fram á fyrri hluta 18. aldar er algengast, að heimildir kenni kirkjuna í Reykjavík við höfuðdýrling hennar í rómversk-kaþólskum sið, Jóhannes postula og guðspjallamann, sem Íslendingar nefndu lengi Jón. Í meirihluta heimilda er og notuð nafnstyttingin Vík. Því hefur kafla þessum, sem rekja á í stórum dráttum sögu kirkjunnar í Reykjavík fram að þeim tíma, er hún var gerð að dómkirkju, verið valið heitið Jónskirkja postula í Vík.
Heimildir

Heimildir um kirkjur fyrri tíðar er einkum að fá í máldögum, skrám, sem biskupar gerðu um ástand og eignir kirknanna, er þeir komu á kirkjustaðina til að sinna eftirlitsskyldu sinni. Hvað Víkurkirkju varðar, þá er elstu heimild um hana að finna í Skrá Páls biskups Jónssonar um kirkjur þær í Skálholtsbiskupsdæmi, er presta þarf til að fá, en hún er talin rituð um aldamótin 1200.(23) Hvað máldaga varðar, þá er fyrir siðbreytingu um þrjá að ræða, sem varðveist hafa. Elstur þeirra er Oddgeirsmáldagi frá árinu 1379.(24) Næstur er Vilchinsmáldagi árið 1397(25) og loks máldagi, sem Stefán Jónsson, næstsíðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, setti Víkurkirkju á vígsludegi hennar 3. febrúar 1505.(26)

Eftir siðbreytingu er einn máldagi til. Hann telst til hinna s.n. Gíslamáldaga, sem kenndir eru við Gísla biskup Jónsson (1558-1587). Talið er, að máldagar hans séu ritaðir á bók ekki seinna en um eða eftir 1570.(27) Næsta slík heimild um kirkju í Reykjavík er í Bréfabókum Gísla biskups Oddssonar (1632-1638)(28) en síðan taka við vísitasíubækur.

Brynjólfur Sveinsson (1639-1674) vísiteraði Reykjavík fimm sinnum.(29) Næstu þrír Skálholtsbiskupar, þeir Þórður Þorláksson (1674-1697)(30), Jón Vídalín (1698-1720)(31) og Jón Árnason (1722-1743),(32) vísiteruðu tvisvar hver. Ólafur Gíslason (1747-1753)(33) einu sinni, Finnur Jónsson (1754-1785) tvisvar, en sonur hans Hannes Finnsson, sem var fyrst aðstoðarbiskup föður síns 1777-1785, en tók svo að fullu við biskupsdómi og þjónaði til 1796, framkvæmdi síðustu vísitasíugjörðirnar í Reykjavík 1780 og 1791.(34)

Auk þessa eru svo vísitasíubækur prófastanna ágætar heimildir, sr. Guðlaugs Þorgeirssonar í Görðum 1753-1779(35) og sr. Markúsar Magnússonar í Görðum 1782-1796.(36) Þá má einnig nefna kirkjustóla Reykjavíkur (reikningabækur kirkjunnar) 1778-1809 og 1809-1843.(37) Eldri vísitasíubækur prófasta Kjalarnesprófastsdæmis eru ekki til, ekki heldur eldri kirkjustólar úr Reykjavík.

Af framanrituðu er ljóst, að heimildir fyrir sögu Reykjavíkurkirkju eru nokkuð samfelldar allt frá því um aldamótin 1500. Tveir máldagar eru til frá 14. öld. Samanburður þeirra við máldagann frá 1505 sýnir ekki miklar breytingar. Kirkjan hefur trúlega verið svipuð bæði að formi og búnaði frá upphafi og fram yfir siðbreytingu. Hún hefur hvorki verið stór né vel búin. Svo virðist sem hagur hennar taki fyrst að vænkast, er kaupmenn í Hólminum fara að koma við sögu hennar. Hér verður reynt að skyggna heimildirnar, virða fyrir sér þær myndir, sem þar eru dregnar upp, og söguna, sem í heimildunum er fólgin.

Oddgeirsmáldagi

Stofn heimildanna er elsti máldaginn, kenndur við Norðmanninn Oddgeir Þorsteinsson, sem var biskup í Skálholti árin 1365-1381. Rétt mun að birta hann hér orðréttan, en með nútímastafsetningu:

Jónskirkja í Vík á land allt að Seli, landsælding og selalátur í Örfirisey, sælding í Akurey, rekann allan á Kirkjusandi, fjórðung reka móts við Nes, Engey og Laugarnes utan Seltjörn og Laugarlæk. Víkurholt með skóg og selstöðu.

12 kýr og tvenn messuklæði, hökul lausan, kantarakápu, slopp, altarisklæði 5 með dúkum 3, Maríuskriftir 2, krossar 2, Blasíuslíkneski, klukkur 2, bjöllur 2, kertastiku eina, glóðarker, sakrarium-mundlaug, kirkjukola, stóla 2, lektara, 18 tíðabækur.

Þar skal vera heimilisprestur, ef bóndi vill.

Skýring máldagans

Á jörðinni Seli, sem Selsvör var við kennd, risu með tímanum fleiri bæir og dregur Seljavegur í Reykjavík nútímans nafn af þeim. En síðasti bærinn að Stóra-Seli stendur enn á lóðinni Holtsgötu 41 B, og á þeim slóðum munu bæjarhús í Seli hafa staðið alla tíð.

Þá átti kirkjan sælding í Akurey og Örfirisey og selalátur einnig í þeirri síðarnefndu. Þetta sýnir, að kornyrkja hefur þá verið stunduð í báðum eyjunum og selveiði við Örfirisey. Orðin sældingur og landsældingur tákna land, sem tekur eitt sáld, þ.e. um 100 kg útsæðiskorns.(38)

Að Víkurkirkja skuli eiga allan reka á Kirkjusandi, virðist benda til þess, að nafn hans sé við hana kennt en ekki Laugarneskirkju og nafnið þá trúlega eldra en síðarnefnda kirkjan. Skipting annars reka í fjóra hluti gæti svo bent til þess, að í fyrstu hafi Víkurkirkja átt hann ein, en með skiptingu höfuðbólsins hafi reki einnig skipst.

Örnefnið Víkurholt verður ekki staðsett með vissu. Þar hafa bæði Skólavörðuholt(39) og Öskjuhlíð verið talin koma til greina. Öskjuhlíðin mun vera líklegri. Þar vestan og sunnan undir hlíðinni, ofan við svo nefnda Seljamýri, höfðu Hlíðarhúsamenn í seli fram á 19. öld og töldu sig vera þar í landi Reykjavíkurkirkju.(40)

Kúgildin 12 og jörðin að Seli, ásamt ítökum þeim, sem upp eru talin, voru fengin ábúanda Reykjavíkur til varðveislu og afnota. Hann átti að skila þeim fullgildum í hendur næsta ábúanda, en afgjaldið var að halda kirkjunni við og sjá um allan rekstur hennar, þar með talið að greiða prestinum laun. Til þeirra hluta fékk hann að auki helming tíundar (kirkjutíund og preststíund) af þeim bæjum, sem sókn áttu til kirkjunnar.(41)

Af messuklæðum hefur kirkjan átt tvær samstæður. Er þar trúlega átt við þá 6 hluti, sem venjulega voru taldir til messuskrúðans, en það voru höfuðlín, messuserkur, messufatalindi, handlín, stóla og hökull. Þess utan hafa svo verið til stakur hökull og sloppur, sem virðist vera óttusöngvasloppur, flík sem klerkar báru við tíðasöng, og er talinn undanfari rykkilínsins. Kantarakápa var skrúði lágklerka, sem aðstoðuðu við messuna svo sem með forsöng. Hún er nú embættiskápa biskupa.(42) Altarisklæði hefur kirkjan átt fimm með tilheyrandi þremur dúkum. Ekki mun rétt að telja, að þar séu litir kirkjuársins samkvæmt þeirri reglu, sem nú er fylgt. Slíkar samhæfðar reglur komu miklu seinna til sögu.(43)

Athygli vekur, að kirkjan virðist ekki eiga neitt Jóhannesarlíkneski eða aðra mynd höfuðdýrlings síns. Hins vegar á hún tvær Maríuskriptir, þ.e. Maríumyndir (skript getur verið bæði máluð mynd og málað líkneski) og Blasíuslíkneski. Heilagur Blasíus, sem var biskup í Sebastíu í Armeníu (nú Sivas í Tyrklandi), leið píslarvættisdauða árið 316 að talið er. Hann var sérstakur árnaðarmaður þeirra, sem liðu fyrir sjúkdóma í hálsi. Sagnir eru um, að hann hafi bjargað dreng, sem var með fiskbein fast í hálsi. Hann á og að hafa beðið þess á dauðastund sinni, að mega verða hjálparmaður allra, sem liðu fyrir veikindi í hálsi. Heilagur Blasíus var vinsæll dýrlingur á Norðurlöndum.(44) Líkneski hans í Reykjavíkurkirkju gæti verið vitnisburður um algenga hálsbólgu og kvef svo sem við þekkjum enn hér á norðurslóð, en einnig hitt, hve fiskmeti var mikið notað hér.

Auk tveggja kirkjuklukkna hafa verið til tvær bjöllur, sem trúlega hafa verið nota&hringja við helgun kvöldmáltíðarefnanna í messunni.(45)

Krossar tveir eru taldir, en notkunar þeirra er ekki getið. Þeir eru enn taldir í Vilchinsmáldaga 1397, en svo eru slíkir hlutir ekki nefndir fyrr en í vísitasíu 1703 og síðan áfram alla 18. öldina. Þá er talað um crusifix yfir altari og annað yfir kórdyrum. Vitað er, að hvort tveggja var algengt á miðöldum.(46) Því er ekki ósennilegt, að þessir krossar hafi verið róðukrossar (þ.e. með mynd líkama Krists) og nýttir samkvæmt nefndri hefð.

Kertastika ein er nefnd. Á altarinu áttu að vera tvær stikur, hvor með sínu kertaljósi, en oft voru þær með fleiri kertum. Þarna hefur því að líkindum verið stika fyrir a.m.k. tvö kerti, sem venjulega voru steypt úr vaxi. Jafnframt er talin fram kirkjukola. Hún var lýsislampi, sem bæði gat staðið sjálfstætt eða verið hengdur upp. Hann var notaður fyrir ljósið, sem brann dag og nótt á altarinu, þar sem “hostían”, hið helgaða kvöldmáltíðarbrauð, var geymt. Slíkar kirkjukolur gátu verið mismunandi að gerð og efni. Í lýsisskálinni var laus kveikur og yfir henni hefur verið einhvers konar hús.(47)

Þá eru skráð glóðarker og sakrarium-mundlaug. Glóðarkerið er reykelsisker úr málmi, en reykelsi var mikið notað við messuna. Aðeins eitt slíkt ker hefur varðveist úr íslenskri kirkju. Mundlaugin er hins vegar fat, sem prestur notaði til handþvotta fyrir altarisgönguna.(48)

Næst eru taldir stólar tveir. Í kirkjum fyrri alda voru sæti með öðrum hætti en nú er. Veggfastur bekkur var meðfram útveggjum öllum. Þess utan voru lausir stólar, sem voru sæti klerka, en þeir sátu, meðan fluttir voru vissir hlutar messunnar. Undir setum stólanna voru gjarnan hirslur fyrir skrúða og bækur kirkjunnar.(49) Talið er, að almennt hafi ekki verið ætlast til þess að menn sætu í kirkjum fyrr á tíð. Í Skipan (Árna biskups Þorlákssonar) um guðsifjar er talað um, að karlmenn standi sunnan til í kirkjunni en konur norðan.(50) Í Skipan Árna erkibiskups Einarssonar er svo aftur gert ráð fyrir því, að menn geti hlýtt hluta úr messunni sitjandi.(51) Verður að gera ráð fyrir, að það hafi einkum verið aldrað fólk og lasburða sem og barnshafandi konur, er þá hafi verið látið njóta bekkjanna, sem voru meðfram veggjunum. Stólarnir, sem áður er getið, munu hafa verið ætlaðir klerkum. En svo er talið, að hefðarfólk hafi einnig átt sér slík sæti í kirkjum, þó sennilega framan kórdyra.(52)

Lektari var lespúlt, sem notað var í kór, og þaðan mun tíðagerðin hafa verið flutt. Næstlægsta vígslustig klerkanna var lektor (lesandi), enda var það hlutverk slíks manns í kirkjulegri þjónustu að lesa tíðir.(53)

Loks átti Víkurkirkja 18 tíðabækur og hefur því verið vel birg, hvað þær snerti. Messubækur hefur presturinn lagt til, enda var prestum óheimilt að nota aðrar bækur en þær, sem viðkomandi biskup hafði yfirfarið og samþykkt. Var prestum skylt að hafa bækur sínar meðferðis á prestastefnur til eftirlits og samanburðar.(54)

Lokaákvæði Oddgeirsmáldaga fyrir Víkurkirkju hefur vakið athygli fræðimanna, enda óvenjulegt: Þar skal vera heimilisprestur, ef bóndi vill. Menn hafa ekki getað skýrt þetta svo óyggjandi sé. Sams konar ákvæði er í Oddgeirsmáldaga gagnvart kirkjunni í Engey. Benda má á, að báðar þessar kirkjur lágu hið næsta Viðeyjarklaustri. Þar var Ágústínusarregla, en upphaflega voru klaustur hennar samfélög presta, sem þjónuðu einni og sömu höfuðkirkju og annexíum hennar.(55) Það er því ekki ósennilegt, að kanokar Viðeyjarklausturs hafi þjónað einhverjum af kirkjunum í nágrenni Viðeyjar. Nóg var af þeim. Auk þeirra, sem hér hafa nú verið nefndar, má telja til Nes við Seltjörn, Laugarnes, Breiðholt, Hólm, Gufunes, Þerney, Mosfell, Syðri-Reyki, Varmá, Esjuberg, Hof, Brautarholt, Saurbæ og fleiri reyndar. Frá því Viðeyjarklaustur var stofnað árið 1225 og til siðbreytingar um 1540, þekkjum við ekki, á þessu svæði, nema 13 presta með nafni og af þeim tengjast 6 eða 7 Viðeyjarklaustri.(56) Það hlýtur að styðja kenningu um prestsþjónustu úr Viðey fyrir nágrannakirkjur. Þannig gæti umrædd setning þýtt, að bóndinn í Vík hafi ráðið því, hvort hann hélt heimilisprest eða keypti þjónustuna úr Viðeyjarklaustri.

Kirkjuhúsið

Engin raunveruleg úttekt er til á kirkjuhúsinu í Vík á kaþólskum tíma. Hins vegar er áhugavert að vita eitthvað um það umhverfi, sem Víkursóknarmenn nutu, er þeir sóttu helgar tíðir í kirkju sinni fyrir siðbreytingu. Þótt engar beinar frásagnir séu til um það, má margt ráða af heimildum. Þegar nær kemur í tíma og 17. öldin er nánast hálfnuð, þá er vitneskja okkar svo nákvæm, að kirkjumyndin getur orðið býsna nærri raunveruleikanum. Hér verður reynt að bregða upp fáeinum svipmyndum.

16. öldin

Máldagar þeirra Oddgeirs og Vilchins segja ekkert um stærð, gerð eða ástand kirkjuhússins í Vík. Í vígslumáldaga Stefáns biskups Jónssonar á Blasíusmessu, 3. febrúar 1505, er hið ný- eða endurbyggða Guðshús hins vegar metið á 10 hundruð á landsvísu. Er það í samræmi við þá fasteign, sem biskupar voru lengi búnir að hafa sem baktryggingu fyrir viðhaldi kirkjunnar, en það var jörðin Sel, sem virt var til 10 hundraða.

Gerð hefur verið skrá yfir mat á verðmæti 51 kirkju á svipuðum tíma og hér um ræðir. Er það “eins og kostað hefði að koma þeim upp, ef þær voru byggðar “eftir því sem vani er til ærligra kirkna”, sem eru “svo upp gjörðar, sem þeim sómir straffanarlaust”". Á skrá þessari eru aðeins fimm kirkjur, sem eru lægra metnar en Víkurkirkja, þ.e. á 7-8-1/2 hundrað. Þrjár eru henni jafnar að mati, fjórar virtar til 12 hundraða, tíu á 13-18 hundruð, fjórtán á 20-25 hundruð, ellefu á 30-40 hundruð, tvær á 50, en ein á 60 hundruð, og var hún á Melstað í Miðfirði.(57)

Af þessu verður að draga þá ályktun, að kirkjan í Reykjavík hafi talist til hinna minni kirkna hér á landi um þetta leyti. Búnaður sá, sem eldri máldagar lýsa, bendir og ekki til annars.

Það er fyrst af bréfabók Gísla Oddssonar frá því um 1634, sem eitthvað verður ráðið fyrir víst um stærð og gerð Víkurkirkju. Þar er talað um, auk stafnbita, fimm bita í lofti og þann sjötta í kórnum, styttri. Ennfremur er þá sagt, að langþil kringum kirkjuna séu moldarhrörnuð.

Þetta segir okkur tvennt. Í fyrsta lagi, að þá hafi verið torfkirkja í Vík. Í öðru lagi, að hún hafi verið 7 stafgólf og tvö þeirra, kórinn, hafi verið í minna (mjórra) formi. Fræðimenn kalla þau kirkjuhús rómanskrar gerðar, þar sem kór er undir minna formi en framkirkjan. Elstu kirkjur hins norræna menningarsvæðis, sem flestar eru frá 12. öld, eru með þessu lagi. Torfkirkjur íslenskar, þær er enn standa sem sóknarkirkjur, eru undir einu þaki, jafnháu, og grunnflötur allur jafnbreiður. Slíkt lag er gotneskt og þar með yngra en það, sem á Víkurkirkju hefur verið. Byggingarlag Víkurkirkju, árið 1634, er því eldfornt. Þess ber og að geta, að samkvæmt landsvenju breyttist stærð kirkna lítið. Þær höfðu fasta stærð, sem yfirleitt varð að halda, nema aðstæður breyttust mikið.(58) Þannig hefur þessu trúlega verið farið í Reykjavík. Það styður sú staðreynd, að þar var baktrygging kirkjunnar bundin í sömu fasteigninni, jörðinni Seli. Það var og ekki fyrr en um 1720, sem kirkjan var stækkuð í 9 stafgólf.(59)

Enda þótt þetta sé vitað, þá er ekki auðvelt að gera sér góða grein fyrir stærð kirkjunnar. Með stafgólfafjölda er átt við bilin milli stafa, þ.e. stoðanna, sem báru uppi bita og sperrur kirkjuhússins. Stafgólf er ekki fastákveðin lengdareining. Þau munu hafa verið eitthvað mismunandi, e.t.v. eftir styrkleika viðanna. Í bók Harðar Ágústssonar, Skálholt, kirkjur, eru teikningar eftir uppmælingum nokkurra smærri kirkna. Sú eina, þar sem mál stafgólfa er nákvæmlega upp gefið, er sóknarkirkjan í Skálholti 1851-1956. Þar eru þau 1,33-1,69 m. Sóknarkirkjan var timburkirkja, en í bænhúsinu að Gröf á Höfðaströnd, sem er úr torfi, og mun vera, að stofni til, elsta Guðshús á Íslandi í dag, eru stafgólfin um 1,50 m. Það virðist nærri meðallagi. Í kórnum þar er þó stafgólfið um 1,73 m, og breidd hússins er um 3,23 m.(60)

Vilji menn reyna að gera sér einhverja hugmynd um stærð Víkurkirkju árið 1505 með þessar tölur í huga, mætti gera ráð fyrir fimm stafgólfum, sem hvert væri um 1,5 m. Lengd kirkjuskipsins hefði þá verið 7,50 m að innanmáli, og ekki óeðlilegt að ætla breiddina helming þess máls eða 3,75 m. Kórinn hefur þá verið í tveimur stafgólfum og eitthvað mjórri, hugsanlega 3,00 m. Samkvæmt þessu hefði kirkjan verið rúmir 37 fermetrar innan dyra. Hafa ber í huga, að þetta styðst allt við yngri heimildir, en einnig hitt, að kirkjan var lítil, og ekki er sennilegt, að hún hafi tekið miklum breytingum í aldanna rás.

Séu þessi mál nærri sanni, hefur kirkjan verið byggð upp af þremur ferningum, tveimur jafnstórum, en þeim þriðja minni. Það er heldur ólíklegt, að slíkt sé tilviljun. Sé svo ekki, þá mun ákveðin hugmyndafræði þar að baki. Í fornum táknfræðum er ferningurinn oft talinn táknmynd sköpunarinnar og jafnframt dulrænt samband fjögurra höfuðskepna hennar, jarðar, vatns, lofts og elds. En fyrst og fremst er hann talinn tákna yfirskilvitlega þekkingu, upprunann sem öllu veldur. Ferningurinn er og gjarnan hugsaður innan eða utan hrings og á þannig að minna á tengingu himins og jarðar. Þrjár hliðar hans sýna hinn þríeina Guð, og þegar sú fjórða bætist við, þá er fullkomleikinn í augsýn.(61) Þannig er ferningur í kirkjubyggingu talandi tákn um guðdóminn og sköpun hans, og í Jónskirkju postula í Vík hefur hann verið í senn þrefaldur og þríeinn.

Dýrlingum, sem eiga sér ölturu í kaþólskum kirkjum, hefur verið skipt í tvo hópa. Allir nefnast þeir verndardýrlingar, en þeir, sem kirkjurnar draga nöfn sín af, eru gjarnan kallaðir nafndýrlingar.(62) Sem fyrr segir, var Jón postuli nafndýrlingur Víkurkirkju. Máldagar nefna ekki aðra verndardýrlinga þar. Hins vegar átti kirkjan Maríuskriftir tvær. Við vísitasíu Brynjólfs biskups Sveinssonar 1642 kom í ljós, að a.m.k. önnur þeirra hefði getað verið líkneski, sem virðist þá fyrst vera að koma fram úr skúmaskoti eftir umrót siðbreytingartímans. Sú var einnig raunin með Jóhannesarlíkneski í vísitasíu Þórðar biskups Þorlákssonar árið 1678. Kirkjan átti ennfremur Blasíuslíkneski. Sú staðreynd, að ný kirkja í Reykjavík var vígð á Blasíusmessu 1505, lítur út fyrir að vera ákveðin undirstrikun þess, að heilagur Blasíus hafi verið þar í hávegum hafður. Nú var það venja, að vígsludagurinn væri árlega haldinn heilagur sem kirkjudagur.(63) En Stefán biskup tekur það fram í vígslumáldaganum, að kirkjudagur skuli ævinlega haldinn að vori, á messudegi Jóhannesar (Jóns) postula, 6. maí, enda var hann nafndýrlingur kirkjunnar.

Af þessu verða þær ályktanir dregnar, að verndardýrlingar Víkurkirkju á kaþólskri tíð hafi verið þrír, þau María guðsmóðir og heilagur Blasíus, auk nafndýrlingsins, Jóns postula.

Til viðbótar framangreindum gripum koma fram, í heimildum frá því eftir siðbreytingu, munir sem auðsjáanlega eru frá því um eða fyrir 1500. Eru það vatnskarl, fjórar koparpípur og koparhjálmur, brotinn.

Að þessu fengnu er hægt að gefa nokkuð raunrétta mynd af kirkjunni í Reykjavík á kaþólskum tíma.

Víkurkirkja hefur verið ein af minni kirkjum íslenskum. Hún hefur trúlega verið torfkirkja, a.m.k. síðari hluta tímabilsins. Þó mun vesturgafl að venju hafa verið úr timbri og sennilega austurgafl einnig, ofan bita. Kirkjan hefur svo að líkindum verið timburklædd að innan, alltént að stórum hluta, og hefðbundið skilrúm hefur verið milli kórs og kirkjuskips. Á vesturgafli innan- eða utanverðum eða í klukknaporti yfir sáluhliði hafa verið tvær kirkjuklukkur. Innan dyra hefur sennilega verið hellulagt gólf, en þó trúlega timburgólf í kórnum. Ílát fyrir vígt vatn hefur verið rétt innan við kirkjudyr. Heimildir nefna það aldrei, en það hefði getað verið frumstætt, jafnvel veggfastur steinn með skál klappaðri í. Bekkir hafa verið meðfram veggjum, en stólar tveir í kór fyrir prest og djákna. Undir setum þeirra hafa messusklæði trúlega verið geymd, einnig bækur. Háaltarið hefur verið fyrir miðjum kórgafli. Yfir eða á því hefur að líkindum verið róðukross, en líkneski voru þar ekki nema í undantekningartilvikum og þá helst mynd himnadrottningarinnar, Maríu. Annars var hennar altari norðan kórdyra.(64) Altari nafndýrlings mun hafa verið sunnan kórdyra. Þar hefur líkneski Jóns postula væntanlega staðið og Blasíusaraltari hefur þá trúlega verið þar suður af. Úr mæniási hefur hangið ljósahjálmur úr kopar. Á háaltarinu hafa verið kertapípur úr kopar, en auk þess hefur brunnið ljós í kirkjukolunni. Lektari hefur staðið á kórgólfi, og einhvers staðar þarna inni hafa verið glóðarker, vatnskarl, sacrarium-mundlaug og bjöllur, hlutir, sem allir voru notaðir við altarissakramentið. Kaleiks og patínu er ekki getið fyrr en eftir siðbreytingu. Því er líklegt, að þá hluti hafi prestur jafnan haft með sér. Gæti það stutt þegar fram komna hugmynd um prestsþjónustu í Reykjavík frá Viðeyjarklaustri. Elsti kaleikur kirkjunnar, sem ekki er í máldögum fyrr en um 1570, er þó frá kaþólskum tíma. Hann og patína honum tilheyrandi, elstu gripir, sem til eru í dag úr Víkurkirkju svo vitað sé, eru nú varðveittir á Þjóðminjasafninu í Reykjavík. Á kaleiknum er áletrun, sem þótti gefa tilefni til nánari rannsóknar á svo merkum gripum. Stutt frásögn um árangur hennar fer hér á eftir.

Kaleikur Bartholds Ghesteman

Í Skýrslu um viðbót við Forngripasafnið, nú Þjóðminjasafn, árið 1908 er þetta um kaleikinn, sem kom þangað 12. september það ár og hefur aðfanganúmerið 5599: Kaleikurinn og patína tilheyrandi, úr silfri, gyllt, gotneskrar gerðar. Umhverfis á stétt kaleiksins stendur með gotnesku meginmálsletri: dessen . kelk . heft . maket . laten . her . bartold . ghestema . un . ghift . en . to . siner . comede (lágþýska, þýðir: “Þennan kaleik hefur gjöra látið herra Bartold Ghesteman og gefið hann sér til sáluhjálpar”). Umhverfis meðalkaflann stendur fyrir ofan hnúðinn: ihesus . help, en fyrir neðan: maria . help. Á stéttina er fest lítið krossmark.(65)

Í þýðingu áletrunarinnar er villa. Orðið Comede eða Commende var notað um prestsembætti, sem menn höfðu á hendi, en voru ekki skyldugir til að þjóna sjálfir. Slíkt var algengt hér á landi og má t.d. nefna Arngrím lærða, er fékk konungsveitingu fyrir Melstað, en sat sjálfur lengi sem skólameistari og dómkirkjuprestur á Hólum og lét aðra þá þjóna Melstað.(66) Nafn gefandans er þýskt. Þjóðverjar versluðu í Hólminum við Reykjavík, bæði Hamborgarar og Brimabúar.(67) Því verður að telja hugsanlegt, að einhver kaupmanna í Hólmi hafi annaðhvort gefið umræddan kaleik eða útvegað hann til Víkurkirkju. Það þótti því ómaksins vert að reyna eftirgrennslan á Ríkisskjalasafni Hamborgar, Senat der Freien und Hansestadt Hamburg Staatsarchiv. Þýska sendiráðið í Reykjavík var beðið um að hafa milligöngu, og í ljós kom, að Barthold Ghesteman var aðstoðarprestur við St. Jacobi kirkjuna í Hamborg og var hans getið í tengslum við erfðamál á árunum 1460-1467.(68) Þar sem skjalaverðir safnsins treystu sér ekki í mikla leit, var Friederike Christiane Koch, sem skrifað hefur um samskipti Íslendinga og Hamborgara á fyrstu áratugum 16. aldar, beðin um aðstoð.(69) Eftir mikla leit fann hún heimild um, að Ghesteman hefði, samkvæmt stofnskrá útgefinni af dómkapítulanum í Hamborg, stofnað áðurnefnt embætti 26. október árið 1454 við altari Cosmasar og Damianusar í St. Jacobi kirkjunni í Hamborg. Stofnskrá gjafar Ghestemans er til. Hún ber það með sér, að gjörningurinn var tvíþættur. Embættið var til heiðurs Guði og heilögum Nikulási biskupi, gefið fyrir sálu Ghestemans og foreldra hans. En þarna er jafnframt nokkur lífeyrir fyrir gefandann, því 14 marka renta af gjöfinni rennur til hans. Verður að líta á hana sem þóknun fyrir prestsþjónustu við þetta altari. Renta þessi átti síðan, að Ghesteman látnum, að ganga til systur hans, Metke, og afkomenda hennar. Þannig áttu ættingjar hans að njóta embættisins, en að þeim frá gengnum, menn sem fæddir voru í ríkinu Hadeln, valdir af stjórnendum St. Jacobi kirkjunnar. Hadeln var lýðveldi, sem bændur í héraðinu við ósa árinnar Elbe stofnuðu upphaflega, en er nú hluti af landsvæði Cuxhaven.

Erfðaskrá Ghestemans er einnig til og ber það með sér, að hann hefur látist árið 1476 eða fyrr. Samkvæmt henni lagði Ghesteman enn vaxtatekjur til embættisins, og námu þær 41 lýbisku marki árlega.

Engir stimplar eru finnanlegir á kaleiknum, þannig að ekkert verður sagt með vissu um höfund eða smíðastað. Líklegt er þó, að kaleikurinn hafi verið smíðaður í Hamborg, og þar voru gullsmiðir ekki farnir að nota stimpla á þessum tíma. Við samanburð á kaleikum þaðan frá þessum tíma kemur í ljós, að kaleikur einn frá árinu 1443, sem var í kirkju heilagrar Katrínar, en eyðilagðist í loftárás 1943, hefur verið afar líkur Ghesteman-kaleiknum. Annar kaleikur, sem var áður í St. Jacobi kirkjunni, en er nú í Þrenningarkirkjunni í Hamburg-Allermöhe, er einnig afar líkur Ghesteman-kaleiknum og hefur m.a.s. sömu gerð áletrunar á stéttinni. Hann er talinn frá því um 1500. Þar sem engir stimplar eru á þessum kaleikum, þýðir lítið að reyna að finna höfund(a) þeirra. Það verður aldrei annað en ágiskanir. En leyfi menn sér að iðka þær, berast böndin þó óneitanlega að smið að nafni Marcus Spackmoller.

Eftir siðbreytinguna, sem gekk í gildi í Hamborg í maí 1529, var mikið af altarisgripum þar úr eðalmálmum brætt upp, en síðar var einnig eitthvað selt, og eru til heimildir um það frá árunum 1548, 1560 og 1565. Var sumt af þeim fjármunum, sem þannig komu inn, notað til þess að hjálpa munkum og nunnum, sem urðu eftir í þremur klaustrum þar í borginni.(70)

Áðurnefndir dýrlingar, þeir Cosmas og Damianus, eru taldir hafa verið uppi í Kilikíu (í Tyrklandi) og liðið píslarvætti árið 303. Eru þeir sérstakir verndardýrlingar lækna.(71)

Engar heimildir eru til um Víkurkirkju og eignir hennar frá vísitasíu Stefáns biskups 1505 og þar til Gíslamáldagar voru gerðir um 1570, en þar er fyrst talað um silfurkaleik í eigu kirkjunnar. Líklegast er, að kaleikurinn hafi verið seldur frá St. Jacobi kirkjunni í umróti siðbreytingartímans. Siðbreytingunni var komið á í Skálholtsstifti 1540. Hafi Reykjavík verið þjónað frá Viðeyjarklaustri fram að þeim tímamótum, þá hefur Víkurkirkju sárlega vantað kaleik, eftir að klaustrið hafði verið rúið flestum dýrgripum sínum. Því er líklegast að álykta á þann veg, að einhver kaupmaður í Hólmi hafi keypt hann í Hamborg og komið með hann, annaðhvort til að gefa hann í eigin nafni eða fyrir annan gefanda.

Kaleiknum er ekki lýst 1570, en í úttekt Gísla biskups Oddssonar á eignum Víkurkirkju, gerðri 1634, er skráð “kaleikur með patínu, gyllt”. Þar er kaleikur Ghestemans örugglega kominn, en trúlega þegar um 1570 og þó frekar einhverjum árum fyrr.

Hið rómversk-kaþólska samfélag í Vík

Í kaþólskum sið og messugjörð hans er megináherslan á altarisgöngunni, messufórninni og þeim helgisiðum, sem henni fylgja. Prédikunin er í öðru sæti. Þess vegna kom og prédikunarstóll ekki í Víkurkirkju fyrr en eftir siðbreytingu. Í meginatriðum voru helgisiðir rómversk-kaþólsku messunnar þeir sömu á miðöldum og þeir eru í dag. Það hefur þó sett annan blæ á athöfnina, að flestir stóðu. Bekkir voru, sem fyrr segir, eingöngu með veggjum og ætlaðir öldruðum og óstyrkum.

Í Kristinna laga þætti hinnar fornu lögbókar, Grágásar, eru ýmis fyrirmæli um kirkjulíf þjóðarinnar til forna, fyrirmæli sem gefa nútímamanni nokkra sýn inn í hugmyndaheim fyrri tíðar. Hér verður aðeins litið á fáein dæmi, sem trúlega eru mörgum lútherskum mönnum framandi. Má líta á þau sem hvatningu til fólks að kynna sér þetta enn betur.

Þar er fyrst fram tekið, að hvert barn skuli færa til kirkju til skírnar svo fljótt sem unnt er eftir fæðingu. Fjölþætt fyrirmæli eru um, hvernig að því skuli staðið. Eins er um sjúkdómstilfelli og annað, er kallað getur á skemmri skírn. T.d. er vakin á því athygli, að faðir á, í slíku tilfelli, ekki að skíra barn sitt, nema aðrir séu ekki til þess nálægir. Þá skapast þar guðsifjar, andlegur skyldleiki í Guði, sem veldur því, að faðirinn verður að skilja sæng við konu sína, og getur hjónabandið ekki staðið lengur nema biskup leyfi.

Nákvæm fyrirmæli eru einnig um greftrun látinna, svo og um kirkjur, biskupa og presta. Biskupar einir máttu ferma, og var það kallað að biskupa börnin. Á sama hátt eru þarna ítarleg boð um helgidaga, hátíðir og föstuhald, einnig tíundina. Það er tekið fram, að enginn maður skal bera vopn í kirkju, og eigi skal setja vopn upp við kirkjuveggi.(72)

Hvað kirkjugönguna sjálfa varðar, þá er, í Statútu (tilskipun) Gyrðs biskups, hver bóndi skyldaður að sækja tíðir til kirkju sinnar þriðja hvern sunnudag, ef hann er heima. Annars komi einhver skynsamur maður af þeim bæ í hans stað, nema forföll komi til.(73)

Í Skipan Árna erkibiskups Einarssonar í Niðarósi, sem út var gefin fyrir miðja 14. öld, eru síðan nákvæm fyrirmæli um, hvernig menn skyldu haga sér, er þeir fóru í kirkju. Rétt mun að líta á fáein atriði þeirra í sama tilgangi og fyrr.

Biskup biður menn að varðveita sjálfa sig trúlega með allri auðmýkt og siðferð, einkanlega, að þeir komi oft til sóknarkirkju sinnar. Hann segir kirkjugönguna eiga að vera mönnum pílagrímsferð. Þeir eiga því, er þeir búast til kirkju, að afleggja hatur, illsku, öfund og alla undirhyggju. Vel mega menn tala um sín málaskipti, en án æsinga og illsku. Enga skuldheimtu mega menn vera með, hvorki í kirkju né kirkjugarði eða iðka þar málsóknir aðrar. Er þeir koma til kirkju, skulu þeir fyrst falla á kné fyrir kirkjudyrum og mynnast við (þ.e. kyssa) dyr eða kirkjuhurð. Sé veður gott, er rétt að ganga síðan kringum kirkjuna. Sé prestur þá ekki til kirkju kominn eða ekki til messu búinn, þá er gott að nota tímann til að ganga að gröfum foreldra, systkina eða frænda, segja þar Pater noster (Faðir vor) og ganga svo inn í kirkjuna eða gera þetta eftir messuna, áður en gengið er úr garðinum.

Þegar gengið er inn í kirkju, eiga menn að kasta á sig vígðu vatni, en falla síðan á kné fyrir hinum helga krossi biðjandi Guð um náð vegna pínu hans og dauða. Skulu menn þá segja sitt Pater noster og heilsa heilagri jómfrú Maríu með Maríuversi, sem byrjar á orðunum Ave María, eða berja sér á brjóst segjandi, kunni þeir ekki meir: Guð allsvaldandi veri mér náðugur og miskunnsamur, syndugum manni. – Þó er hver maður skyldugur að kunna Credo (trúarjátningu), Pater noster og Maríuvers og signa sig með hinu helga krossmarki og þessum orðum: Ég signi mig í nafni föður og sonar og hins helga anda.

Ennfremur segir í Skipan Árna erkibiskups: Nú byrjar prestur heilaga messu. Falli þá allir á kné. Síðan mega þeir standa allt til þess, er byrjar Gloria in excelsis Deo (Dýrð sé Guði í upphæðum). Falli þá allir á kné og minnist þess, að þennan söng byrjuðu englar á þá sömu nátt og tíma, er Guðs son fæddur var af jómfrú Maríu hreinum líkama að leysa oss úr andskotans valdi. Allir skuluð þér á kné falla og berja á brjóst yðar, er þér heyrið í messunni þessi orð lesin eða sungin: Jesús Kristur, María . . . Einkanlega bjóðum vér, að menn gangi með spekt, hófsemi og guðrækilega að taka Guðs líkam á páskadag (sem var helsti altarisgöngudagurinn fyrrum) og þrengi enginn fram fyrir annan sem margir aumligir menn og að öllu vitlausir dirfast að sækja þá til heilags altaris því líkast að þeir fari með herskildi að sínum skapara og lausnara . . . Þá pax (friðarkveðja) er gefið af Guðs altari, þá skal hver annan kyssa, karlmenn sín í millum, en kvenmenn sín í millum. Skal sá koss vera með fullum kærleika, svo af hjarta sem líkam. En hver sem messukoss gefur, þann sem af Guðs altari og líkam byrjar, með svikum og illvilja, hann er Drottinssvikari . . . Því næst skulu menn taka með knéfalli Guðs blessan undir síns prests hendi og fara svo með frið hver heim til síns heimilis.(74)

Ekki verður fullyrt, að nefndri skipan erkibiskups hafi verið fylgt að mestu eða öllu hér á landi. Það er þó ekki ósennilegt. Um það vitna t.d. tveir legsteinar frá 15. öld. Annar þeirra er frá Kalmanstungu í Borgarfirði.(75) Hinn er frá Útskálum.(76) Áletruninni á þeim báðum lýkur með sömu orðunum, sem kunnugleg eru úr Skipan Árna erkibiskups: Bið þú eina paternoster fyrir hans sál / hennar sál.
17. og 18. öldin

Siðbreytingin, sem gekk í garð í Skálholtsstifti árið 1540, var langan tíma að festa rætur í hugum safnaðarfólksins, enn lengur þó að setja mót sitt á sóknarkirkjurnar og búnað þeirra. Það er athyglisvert að fylgjast með þessari þróun í Vík, horfa á máldagana og sjá dýrlingamyndirnar og aðra “pápiska” hluti hverfa, en nýja koma í staðinn. Í Vík var dýrlingalíkneskja Maríu og Jóhannesar síðast getið í vísitasíu 1678, en altaristafla nýleg með vængjum var skráð 1724. Krossmark, sem trúlega var frá gamalli tíð, var enn yfir altari 1703, og krossmörk ýmis eru nefnd eitt eða fleiri í flestum skrám. Lektari er aldrei nefndur eftir siðbreytingu, en prédikunarstóll kemur ekki fram fyrr en 1634 og er þá sagður laus. Nýr stóll kom 1703. Glóðarkerið og vatnskarlinn voru síðast skráð 1670. Kórbjallan var síðast nefnd í prófastsvísitasíu 1778. Þar er þetta ritað: “altaris klukkan, sem áður var brotin, er nú sundur dottin.”(77) Við síðustu prófastsvísitasíu hinnar gömlu Víkurkirkju 1794, en þá var hún orðin dómkirkja, kemur óvænt fram trélíkneski, óskilgreint, og þrjú krossmörk, sem ekki er heldur lýst nánar,

Kirkjubekkir voru nýlunda, óháð sið. Þeirra er fyrst getið 1642. Þá eru skráð átta kvensæti og eitt karlmannamegin. Að líkindum er þar átt við bekki, sem þá voru yfirleitt nefndir “stólar”. Þeir voru orðnir fjórir karlamegin 1678 og smáfjölgaði eftir það.

Glerglugga er fyrst getið 1634. Voru það útlendir menn, Kastan Íffarsson og Henrik Steenkull, sem gáfu tvo glugga. Er líklegt, að annar þeirra hafi verið í kór, hinn yfir prédikunarstóli.

Víkurkirkja hélt sínu rómanska lagi og 7 stafgólfum fram á þriðja áratug 18. aldar. Árið 1687 var komið við hana klukknaport, smíðað úr gjafaviði og hefur trúlega verið í sáluhliði. Á þeim tíma voru erlendir menn, kaupmenn og sæfarar farnir að hlynna að kirkjunni. Auk áður nefndra glerglugga má nefna skírnarfat úr tini, sem David Danell skipherra gaf 1653. Danell er talinn hafa verið Hollendingur. Hann fór í þrjá könnunarleiðangra fyrir Dani í leit að Eystri-byggð á Grænlandi og kom hér við í tveimur þeirra, 1652 og 1653. Ekki er ótrúlegt, að fatið hafi verið áheit á Víkurkirkju eða gefið henni honum til heilla, því Danell var lengi að flækjast á hættulegum slóðum í ísnum við Grænland.(78) Yfirleitt virðast hinir erlendu menn, sem tengdust verslunarstaðnum í Hólminum, hafa reynst kirkjunni vel. Frá þeim komu ýmsar viðargjafir og reyndar fleira.

Brandur Bjarnhéðinsson lögréttumaður og lögsagnari (staðgengill sýslumanns) bjó í Vík árin 1708-1730.(79) Hann endurbyggði og stækkaði kirkjuna. Naut hann til þess m.a. 60 greniborða, sem kapteinn Hoffgaard gaf, sá sem fyrr er getið og teiknaði fyrsta kortið af Seltjarnarnesi og eyjunum þar í grennd árið 1715. Brandur gaf kirkjunni einnig fyrstu altaristöfluna. Hún mun hafa komið á árunum 1708-1715 og sýndi atburðinn, er Jesús breytti vatni í vín í brúðkaupinu í Kana, sem sagt er frá í 2. kapítula Jóhannesarguðspjalls. Var taflan með vængjum og mun hafa verið flutt yfir í múrkirkjuna við Austurvöll, þar sem hún var notuð til ársins 1818, þegar ný tafla var keypt.(80) Er Jón biskup Árnason kom til að vísitera 1724, segir hann um kirkjuna, að hún sé “öll að veggjum og viðum kostulega standandi hús”. Var hún þá 9 stafgólf með gotneskri grunnmynd og öll undir einu þaki. Kór úr timbri, 3 stafgólf, var byggður við hana 1761. Var kirkjan þá komin í eignarhald og umsjón Innréttinganna, sem hlutu að halda kirkjunni við. Kemur fram í prófastsvísitasíu 1762, að “fyrir foranstaltning veleðla herra landfógetans Skúla Magnússonar hafði verið byggður einn nýr kór, allur af timbri.” Við vísitasíu 1769 fann Finnur biskup Jónsson mjög að ástandi kirkjunnar. Var því undinn að því bráður bugur að endurbyggja hana þegar um haustið sama ár. Var það gert úr timbri og stóð þá, í fyrsta skipti a.m.k. í margar aldir, timburkirkja í Reykjavík. Kirkjuskipið hafði þá verið stytt um eitt stafgólf, var 8 í stað 9 áður. Var kirkjan í heild því 11 stafgólf og nú öll með sama formi og undir sama þaki.

Það hefur e.t.v. átt sinn þátt í kirkjubyggingunni, að nýr sóknarprestur fékk Seltjarnarnesþing þetta ár, óvenjuhæfur maður, lærður í Kaupmannahöfn og í alla staði vel frambærilegur. Var það sr. Árni Þórarinsson, sem síðar fékk Odda og varð að lokum biskup á Hólum. Honum hefur sjálfsagt ógnað að þurfa að syngja messur í fallandi og hripleku húsi. Ekki var hann þó ánægður með kirkjubygginguna. Að endaðri vísitasíu í Reykjavík 1770 gerði prófastur, sr. Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum, sérstaka bókun, því þá framlagði æruverðugur sóknarpresturinn, sr. Árni, skjal með sínu undirskrifuðu nafni og signeti, þar sem hann skuldbatt sjálfan sig til að gefa Reykjavíkurkirkju 10 ríkisdali í krónumynt, sem hann lofaði að hafa til reiðu, hvenær sem kirkjuhaldaranum þóknaðist. Þó var þessi hans sjálfviljug gjöf við þann skilmála bundin, að fyrir þessa peninga, svo vítt sem þeir til hrökkva, “byggist fyrir framan kirkjuna einn lítill stöpull eður spíra til að gjöra kirkjuna því anselegri og fráskilda í útvortis áliti öðrum packhúsum”.(81) Þessi gjörð sr. Árna hlýtur að vekja athygli. Ungur maður á fyrsta ári síns prestsskapar leggur fram háa fjárupphæð á þess tíma mælikvarða til þess að gera kirkjuna virðulegri ásýndum, koma henni svolítið nær þeim brag, sem hugsjónamaður með víðan sjóndeildarhring vill gjarnan sjá á Reykjavík. Og gjöfin gerði sitt gagn, því við prófastsvístasíu 1776 var komið “klukknaport með spíru upp á, sem bæði er til rúms og prýðis kirkjunni”.(82) Árið 1774 var komið loft í kirkjuna, yfir fjórum fremstu stafgólfum hennar.(83)
Gjafir Brands lögsagnara í Vík

Þess hefur þegar verið getið, að Brandur Bjarnhéðinsson lögréttumaður og lögsagnari hafi búið í Vík frá því um 1708 til 1730. Kona hans hét Ólöf Einarsdóttir. Brandur endurbyggði og stækkaði kirkjuna og lagði henni ýmsa góða hluti. Gjafir hans eru sumar til enn og mjög merkar. Því er vert að minnast þeirra hér sérstaklega.

Hér var fyrr nefnd altaristafla með mynd af brúðkaupinu í Kana. Ekki er vitað, hvað varð um þessa töflu. Hún er ekki á Þjóðminjasafni og leit prófasta í kirkjum landsins hefur engan árangur borið. Að líkindum hefur taflan verið orðin illa farin bæði vegna aldurs og ekki síður vegna rakans í kirkjunni. Á hitt má og líta, að samkvæmt samningi átti Ole P. Möller kaupmaður, sem sá um að gera við Dómkirkjuna 1818, allt gamla timbrið úr kirkjunni. (Sjá kaflann Múrkirkjan endurbyggð / Endurbyggingin). E.t.v. hefur taflan fylgt þar með og þá hugsanlega verið látin úr landi, hafi hún ekki verið talin ónýt. Annað, sem nú mun glatað, er prédikunarstóll, bakstursjárn og bakstursöskjur, grallari, altarisklæði og altarisdúkar.

En þrír veglegir gripir eru enn til. Er það skírnarfat úr messing, sem kom í kirkjuna einhvern tíma á árunum 1715-1724 og kertastjakar tveir miklir og fallegir úr messing. Fatið var notað uns skírnarfontur Thorvaldsens kom í Dómkirkjuna, en er nú í fonti Akraneskirkju, (sjá kaflann Skírnarfontur Thorvaldsens).

Í vísitasíu Jóns Vídalín 1703 er kertastjakaeign Víkurkirkju, sem hér segir: “2 altarispípur af tini gamlar, önnur brákuð á stéttinni. 2 aðrar af messing. Önnur stærri, önnur minni, báðar óbrúkanlegar.”(84) Í næstu vísitasíu meistara Vídalíns, 23. september 1715, segir: ” . . . þetta skrifast úr, gamlar koparpípur, item gamlar tinpípur . . . . Þetta hefur viðbættst, vænar messingpípur”.(85) Þær vænu messingpípur má svo rekja í öllum vísitasíum og öðrum úttektum kirkjunnar fram á þennan dag. Þær heita stundum “Alter-Malm-Lysestager”. Árið 1838 er pípunum breytt til að hægt sé að setja í þær sverari kerti. Þá eru keyptir tvisvar sinnum tveir málmhringir og tveir boltar. Hringirnir voru kveiktir saman tveir og tveir og síðan við pípurnar. Þannig urðu til góðar skálar efst á pípunum. Boltarnir voru svo festir í skálabotnana og látnir ganga upp í enda kertanna þeim til öruggrar festingar.(86) Alls þessa sér glögg merki enn í dag. Síðar voru útbúnir háir hólkar ofan á stjakana og þannig stóðu þeir lengi sinn hvorum megin altaristöflunnar, fyrst með vaxkertum í en síðar rafljósum. Þeir voru teknir úr notkun 1959, er núverandi altarisbúnaður var gefinn, (sjá kaflann Umbótatímabilið 1948-1976 Kirkjuhúsið hið ytra og kirkjuskipið). Síðustu árin hefur annar þeirra þó verið notaður fyrir páskakertið.

Á stjökunum báðum er stimpill, tveir stafir þrykktir í stéttina ofanverða. Stafirnir eru orðnir máðir, en virðast vera F B. Fyrri stafurinn er orðinn það máður, að ekki er öruggt með hann.

Stjakarnir eru elstu gripirnir, sem Dómkirkjan á í dag. Ghesteman-kaleikurinn og patína hans eru eldri, en tilheyra kirkjunni ekki lengur.

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS