Jólatónleikar Dómkórsins í kvöld 21. desember kl. 22.00
Aðventan setur mark sitt á götur og torg, ljós og hljómar aðventu og jóla hrífa unga sem aldna. Í Dómkirkjunni er boðið upp á guðsþjónustur, bænastundir og margvíslega viðburði, tónleika og samverur þar sem sálin fær næringu af boðskapnum um ljósið sem skín í myrkrinu og blessar líf og heim.
Jólatónleikar Dómkórsins verða mánudagskvöldið kl. 22:00. Stjórnandi er Kári Þormar, dómorganisti. Í huga margra eru jólatónleikar Dómkórsins í dimmasta skammdeginu ómissandi sem hluti aðventu og jólaundirbúningsins.
Sama er að segja um hina árlegu kertaljósatónleika „Mozart við kertaljós“ sem Camerarctica heldur. Þeir verða þriðjudagskvöldið, 22. desember kl. 21:00. Þykir mörgum ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu og njóta ljúfrar tónlistar Mozarts.
Helgihald um jólin er með hefðbundnum hætti. Aftansöngurinn í Dómkirkjunni kl. 18 á aðfangadagskvöld lýkur upp hliðum hátíðarinnar fyir landsmönnum. Þá verður heilagt þegar klukknahljómurinn úr turni Dómkirkjunnar berst yfir landið á öldum ljósvakans. Að þessu sinni prédikar sr. Hjálmar Jonsson og sr. Sveinn Valgeirsson þjónar.
Á jólanótt klukkan hálf tólf er miðnæturguðsþjónusta. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Karl Sigurbjörnsson, biskup, prédikar.
Á jóladag er hátíðarmessa kl. 11. frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands prédikar og séra Sveinn Valgeirsson þjónar.
Á annan jóladag er messa kl. 11. Karl Sigurbjörnsson, biskup prédikar
Sunnudaginn 27. desember kl. 11 séra Hjálmar Jónsson prédikar.
Gamlárskvöld er aftansöngur kl. 18 og messa á nýjársdag kl. 11, þar sem biskup Íslands prédikar. Séra Hjálmar og sr. Sveinn þjóna. Dómkórinn og organisti er Kári Þormar.
Sunnudaginn 3. janúar messar Karl biskup kl. 11.
Auk þessara athafna þá er dönsk jólamessa á aðfangadag kl. 15 séra María Ágústsdóttir prédikar og Bergþór Pálsson syngur.
Dómkirkjan óskar öllum blessaðrar aðventu og gleðilegrar jólahátíðar.
Laufey Böðvarsdóttir, 21/12 2015 kl. 9.24