Dómkirkjan

 

Vivaldi og Haydn

Dómkórinn  býður sumarið velkomið  á laugardaginn 7.maí  með flutningi á Gloriu Vivaldis.

Dómkórinn ásamt kammersveitinni Aldavinum flytja Gloriu Rv 589 eftir Antonio Vivaldi og Missa brevis Sancti Joannis de Deo eftir Joseph Haydn.Einsöngvarar eru þær Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Sigurlaug Knudsen messósópran. Stjórnandi er Kári Þormar

Miðaverð við inngang kr.2000 eða kr.1500 hjá kórfélögum. Ekki er tekið við kortum. Tónleikarnir  hefjast kl.16.00

Haydn og Vivaldi á vortónleikum Dómkórsins

Átjánda öldin var ekki eins köld og dimm í evrópskri tónlist og íslensku

þjóðlífi. Hún hlaut barokkið í arf frá þeirri sautjándu en losaði sig

fljótlega við þá stefnu. Við tóku nýir snillingar með nýja músík. Tveir

höfuðsnillingar þessarar aldar eiga verk á vortónleikum Dómkórsins sem

haldnir verða í Dómkirkjunni laugardaginn 7. maí kl. 16. Þar flytur kórinn

Gloríu Antonio Vivaldis og Missa brevis eða Litla orgelmessu eftir Joseph

Haydn.

Kórinn verður ekki einn á þessum tónleikum. Í Gloríu leikur ellefu  manna

kammersveit, Aldavinir, og tvær söngkonur syngja með kórnum, þær Hallveig

Rúnarsdóttir sópran og Sigurlaug Knudsen alt. Stjórnandi kórsins er Kári

Þormar dómorganisti.

Gloría Vivaldis

Antonio Vivaldi (1678-1741) var Feneyingur í húð og hár og vann þar sína

stærstu sigra. Á árunum 1713-1719 gegndi hann hlutastarfi við

tónlistarkennslu og kórstjórn á Ospedale della Pietá sem kallað var

munaðarleysingjahæli. Í raun var þetta nokkuð vel haldin stofnun þar sem

auðmenn og betri borgarar Feneyjar komu fyrir þeim stúlkubörnum sem þeir

eignuðust með hjákonum sínum. Stúlkurnar kölluðu kennarann sinn Rauða

prestinn vegna háralitarins og hann samdi fyrir þær í það minnsta þrjár

gloríur.

Starfstitill Vivaldis á Ospedale var fiðlumeistari – Maestro di Violino -

enda var hann fyrst og fremst þekktur sem fiðluleikari á sinni tíð. Hann

naut töluverðra vinsælda og þénaði ágætlega. Hins vegar var hann ekki síður

duglegur að eyða peningum og eftir að barokkið datt úr tísku dró verulega úr

eftirspurninni. Hann lést blásnauður í Vínarborg og var jarðsettur í

grafreit fátæklinga þar í borg.

Nú á dögum er hann eitt vinsælasta tónskáld barokktímans en sú upphefð er

tiltölulega nýtilkomin. Ofangreindar aðstæður við ævilok Vivaldis er eflaust

helsta ástæða þess að tónsmíðum hans var ekki mikill gaumur gefinn og margar

þeirra lágu í þagnargildi öldum saman. Það á við um gloríurnar tvær sem

fundust meðal fjölda annarra verka Vivaldis á þriðja áratug síðustu aldar.

Raunar voru þær upphaflega þrjár en sú þriðja er enn ekki fundin.

Sú sem Dómkórinn flytur nú ber númerið RV 589 og er eitt þeirra verka

Vivaldis sem hvað oftast eru flutt um þessar mundir. Það var þó ekki

frumflutt fyrr en árið 1939 í Siena í Toscana-héraði. Sá sem stjórnaði þeim

flutningi var tónskáldið Alfredo Casella en hann hafði breytt verkinu

töluvert. Árið 1957 var frumgerðin loks gefin út og frumflutt vestanhafs og

hefur hún notið mikilla vinsælda síðan.

Verkið er í tólf þáttum þar sem kallast á hraðir og hægir kaflar, kórkaflar,

einsöngskaflar og þættir þar sem hljómsveitin á sviðið ein. Þetta er sólríkt

verk eins og einhvers staðar stendur, létt og aðgengilegt með texta í

hefðbundnum messustíl.

Lítil orgelmessa Haydns

Joseph Haydn (1732-1809) var níu ára þegar Vivaldi dó en hann fæddist í

þorpinu Rohrau austan við Vínarborg, nærri landamærum Ungverjalands. Hann ól

allan sinn aldur í Austurríki og starfaði lengst af sem tónlistarstjóri -

kapellmeister – við hirðir aðalsmanna. Í þrjátíu ár gegndi hann því starfi

hjá einni þekktustu aðalsætt Evrópu, Esterházy-ættinni, en þar var Nikulás

fyrsti prins ættarhöfðingi, tónelskur aðalsmaður sem gerði honum kleift að

starfa óskiptur að tónsmíðum og tónleikahaldi með húsbandi ættarinnar í

bænum Eisenstadt.

Þegar Haydn kemst til þroska er barokkið á útleið og menn að setja sig í

stellingar fyrir klassíkina. Haydn er nokkuð eldri en Mozart og Beethoven en

sagt er að báðir hafi orðið fyrir áhrifum frá honum. Haydn er stundum

kallaður faðir sinfóníunnar og honum er raunar einnig þökkuð tilvist

strengjakvartettsformsins. Auk þessara forma hafði hann umtalsverð áhrif á

þróun píanótríóa og sónötunnar. Sannkallaður brautryðjandi í tónlist.

Missa brevis Sancti Joannis de Deo heitir verkið sem Dómkórinn flytur fullum

fetum en það var samið árið 1775 fyrir munkareglu í Eisenstadt sem hélt

mikið upp á Jóhannes þennan. Þetta er messa þar sem allur texti hinnar

hefðbundnu messu er fluttur á skemmri tíma en í fullbúinni messu. Kúnstin

við það er að hinir orðmörgu hlutar messunnar, Gloría og Credo, eru fluttir

þannig að hver rödd hefur sinn hluta textans. Það má því segja að fram fari

fjórum sögum í senn. Einhverjir fettu fingur út í þennan óþarfa tímasparnað

og Michael bróðir Jósefs, sem einnig var liðtækt tónskáld, tók sig til og

lengdi gloríukaflann. Sú útgáfa öðlaðist hins vegar litlar vinsældir en

stuttmessa Jósefs varð ofan á. Verkið er einnig kallað Litla orgelmessan

vegna þess að í Benedictus-kaflanum er orgelið í stóru hlutverki ásamt

sópranrödd.

Ástbjörn Egilsson, 6/5 2011 kl. 15.11

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS