Aðventuhugvekja
Hugvekja,flutt af Geir Tómassyni á aðventukvöldi sunnudaginn 28.nóvember 2010
Hugvekja
Þín náðin,Drottinn nóg mér er
Því nýja veröld gafstu mér,
Í þinni birtu hún brosir öll
Í bláma sé ég lífsins fjöll.
Ágætu kirkjugestir – kæru vinir!
Þetta sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann. Mér varð hugsað til þessa orðtaks þegar það óvænta skeði sem kom mér, fjörgömlum sóknarnefndarmanni Dómkirkjunnar mjög á óvart að ég var beðinn að flytja hugvekju í kirkjunni, í tilefni 1 Sunnudagsins í Aðventu. Mér varð svarafátt og sagðist skyldu hugsa málið, enda allsennis óvanur til slíkra verka. En hér stend ég nú og bið ykkur að virða viljann fyrir verkið og hafa biðlund með mér, og því sem ég segi eða kann að láta ósagt í þessari hugvekju minni.
Þess ber þá fyrst að geta að orðið – Aðventa – mun dregið af latneska orðinu – Adventus –sem þýðir tilkoma eða koma og í kristnum skilningi átt við komu Guðssonarins – Jesús Krists – til vor mannanna.
Nú er ég ekki Biblíulærður maður, en á þó að heita kristinn, enda þótt mér sjálfum finnist ég, með daglegri breytni og framkomu minni en vanta mikið á, til að bera slíkt heiti. En í ófullkomleika mínum trúi ég, og trú er ávallt byggð á röklausri lífsreynslu þeirra sem trúa. Enginn verður til trúar tiftaður er haft eftir Ágústínusi kirkjuföður. Hugarfarsbreytingu mun þurfa til.
Ég held þó að frá barnæsku hafi ég verið það sem kallað er trúaður, þökk sé móður minni og uppeldissystur hennar, sem var mér sem fóstra. Hjá báðum naut ég elsku og fræðslu – það var mér gott vegarnesti síðar, þegar gaf á bátinn í stormviðrum lífsins.
Auðvitað hlakkaði ég eins önnur börn til aðventunnar og jólanna og öllu sem þeim fylgir. Margs er að minnast frá uppvaxtarárum mínum, sérstaklega eru mér þó minnistæð jólin 1924 hjá afa og ömmu í sveitinni. Þá var ekki til siðs að gefa stórar jólagjafir eins og nú tíðkast. Ég fékk eina ullarsokka og eina ullarvettlinga frá þeim og var hæst ánægður! Aðventan var biðtími sem á undan fór – langur tími – fullur eftirvæntingar og tilhlökkunar ungum drenghnokka, sem var að hefja lífsgönguna,sem nú er orðinn æði löng, vegþreyttum pílagrími, sem þráir hvíld og léttari hjúp í návist Hans, sem sagði – komið til mín allir þér sem erfiði og þunga eru hlaðnir og ég mun veita yður hvíld.
Á langri ævi hefi ég upplifað margt og lært að flas er ekki til fagnaðar og að betra sé að fara fetið en þeysast áfram eins og þegar maður var ungur og langaði að njóta tilverunnar í anda æskunnar.
Þegar jólin nálgast verða aldnir aftur börn, sem fagna af hjarta komu frelsarans, Hann sem á stuttri hérvist sinni gaf okkur innsýn í okkar innri mann og hvernig okkur bæri að lifa og umgangast hver aðra í kærleika og þjónustu – ekki síst sjálfra okkar vegna – með rósemi og hreinleika hjartans að leiðarljósi. Öll höfum við líklega einhvern tíma þurft að ganga í gegnum erfiðleika – haft birgðar að bera, en birgði að bera – það er að vera. Þó eru slíkar birgðar léttvægar í samanburði við hina þungu birgði sem Kristur tók á sig – okkar vegna.
Heilagur Aþanasíus kirkjufaðir á að hafa orðað leitina að ljósinu þannig að í Kristi Jésús gerðist Guð maður, til þess að maðurinn gæti gerst Guð. Það virðist eins og þessi meðfædda vitund Krists um eininguna við Guð, í ljósi kærleikans, hafi gert hugsun hans að demantskyldi og orð hans að logasverði í samskiptum hans við mannanna börn.
Sænska skáldið Essías Tegner kvað svo að orði – hið sanna er eilíft, hið rétta er eilíft og hið fagra er eilíft. Það er okkar að sannreyna þetta!
Besti kennari minn á langri ævi hefur reynst tíminn, besta bókin náttúran og vinurinn besti Skaparinn, góður Guð.
Aðventan og jólahátíðin er blessunarríkur tími til að nálgast kærleikann –Guð og reyna að lifa í samræmi við vilja Hans. Reynum að læra í andstreymi og sárindum að skrifa þau í sandinn, en hamingju og gleði á stein.
Reynum að vera auðmjúk ef við viljum öðlast visku og temjum okkur rósemi og þolinmæði og öðlast þannig rétt viðhorf í daglegu lífi okkar. Reyndu að afla þér þekkingar eins og þú eigir að lifa eilíflega, og lifðu eins og þú eigir að yfirgefa þetta jarðarsvið á morgun.
Tökum undir orð fyrrverandi biskups,sr Sigurbjörns Einarssonar, er á að hafa sagt - þakka það sem var –en trega ekki, þakka það sem er – en kvíða ekki, sjálfur vildi ég gjarnan bæta við – þakka það sem verður og æðrast eigi, en reyna af bestu getu, með Guðs hjálp, að vinna úr því óvænta, í krafti trúarinnar. Meira er ekki hægt af neinum að krefjast.
Horfðu því til dagsins í dag – því það er lífið. Dagurinn í gær er nú þegar draumur og morgundagurinn aðeins hugsýn. En verjirðu deginum í dag vel verður sérhver gærdagur, draumur hamingju og sérhver morgundagur – hugsýn vonar.
Horfðu þess vegna með velþóknun til dagsins í dag. Þannig sé dögun heilsað. Segja má að mótunarferli okkar mannanna sé í 2 aðal þáttum, tilfinningaþáttur og vitsmunaþáttur. Fari þessir 2 þættir í samhljóm, skapast sannfæring. Látum hana vera ráðandi afl í lífi okkar,nema annað sannara reynist.
Nú orðið get ég með sanni tekið mér orð indverska skáldsins,Tagore í munn, er hann segir – Ég er eins og vegur um nótt, sem hlustar hljóður á skóhljóð minninganna.
Þegar komið er á gamals aldur, á maður ekkert nema andartakið og útrétta hönd til að bjóða fram til hjálpar.- Gerðu það með gleði. Þá koma mér í hug nokkrar ljóðlínur úr Óðurinn til Gleðinnar.
Gleðin heitir lífsins ljúfa
Leynifjöður,mjúk og sterk
Hún er máttarhjól sem hreyfir
Heimssins mikla sigurverk.
Á Þessari Aðventustund get ég aðeins sagt við ykkur og raunar alla – kæru vinir, verum góð hvert við annað, sýnum umburðarlyndi og þolinmæði gagnvart náunganum og þeim sem næst okkur standa, þótt stundum erfitt sé. Það ljóta skal grafið og gleymt, en það fagra og góða lofað og geymt.
Lífið er eilíf framþróun mannssálarinnar og tíminn líður, trúðu mér,taktu maður vara á þér. Heimurinn er sem hála gler, hugsaðu um hvað á eftir fer.
Reynum að rækta eigin garð og hafa sem oftast blóm í eiginlegri og óeiginlegri merkingu til að gefa öðrum. Þá ert þú að gefa eitthvað af sjálfum þér um leið, það gefur þér vellíðan og frið svo og móttakanum, þá verkar gjöfin sem sendiboði milli manna, sé hún gefin í kærleika. Þetta er leyndardómurinn við að gefa.
Kæru áheyrendur! Við höfum andann frjálsan,til að velja eða hafna því sem mætir okkur á langri vegferð lífsins. Lífið er í öllum tilbrigðum,ýmist svart hvítt og allt þar á milli. Þitt og mitt er valið og Aðventu tíminn er tími umhugsunar og tilhlökkunar sem birtist í ýmsum myndum hjá okkur kristnum þjóðum.
Ég hef upplifað Aðventuna og síðasta kvöld hennar Aðfangadagskvöld í ýmsum myndum sem íhugun og tilbeiðslu en líka sem æsl, gleðskap og óhóf í mat og drykk.
Þetta hefur komið mér undarlega fyrir sjónir en svona er lífið í margbreytileika sínum. Svo margt er sinnið sem skinnið.
Í þessari hugvekju minni til ykkar, kæru vinir , hefi ég aðeins horft yfir farinn veg í stuttu máli. Ég hefi upplifað grimmd styrjaldar, mátt vináttu og fórna. Oft hefi ég spurt sjálfan mig að kvöldi , hvað ég hafi unnið Guði til þarfa daginn þann – um það verður þú spurður um sólarlag – þá er oft fátt um svör.
Hin sanna mennska – er sambandið – ég og þú. Höfum það hugfast og jafnframt að kjarni hughyggjunnar er alltaf sá sami – að Guð sé til og með guðlegum kjarna í sérhverjum einstaklingi,sem gerir okkur að dýrmætum eilífðarverum – með tilgang.
Ég vona að þessi hugvekja mín, ef slíka skyldi kalla, hafi kallað á nokkra íhugun og sjálfskoðun ykkar kæru vinir, sem á hlýddu. Líklega er gæfan mesta í lífinu sú að rækta í sjálfum sér óeigingirni, hugrekki og kærleika, en þó mun það nú svo að inquietum est cor nostrum,donec requiesicat in te eða órólegt er hjarta vort þar til það hvílist í þér,þ.e.a.s. Guði.
Ó himneski Faðir gef oss þinn frið og hjálpa oss að skilja og vilja og framkvæma í þínum anda. Öll þurfum við að leita, knýja á og biðja, þá mun aftur morgna.
Þetta eru hugrenningar gamals manns, án óvildar til neins,en með góðvild til allra, þegar hátíð ljóssins nálgast.
Friður Guðs hins hæsta umlyki yður nú og ævinlega – gleðilega Aðventu!
Meðtakið postulega blessun!
Náðin Drottins vors Jesú Krists,kærleiki Guðs og samfélag Heilags anda sé með yður.
Ástbjörn Egilsson, 2/12 2010 kl. 13.27