Dómkirkjan

 

Orgeltónleikar

-Dómkirkjuorgelið 25 ára 170 ára orgelsaga.

Miðvikudaginn 1. September kl.20.00 heldurKári þormar dómorganisti orgeltónleika í tilefni af 25 ára afmæli Schuke orgels Dómkirkjunnar í Reykjavík. Á efnisskránni er m.a. Tokkata og fúga í d-moll eftir J.S.Bach, Tokkata eftir Jón Nordal sem samin var í tilefni af vígslu orgelsins árið 1985 og skrifuð í minningu Páls Ísólfsonar. Þá á Páll Ísólfsson síðasta verkið á efnisskránni , Introduktion og passakaglia í f-moll. Á tónleikunum verður einnig frumflutt orgelverk eftir 25 ára gamalt tónskáld, Högna Egilsson.

Kári Þormar lauk A kirkjutónlistarnámi frá Robert Schumann háskólanum í Düsseldorf í Þýskalandi með 1. einkunn. Hann hefur haldið fjölda orgeltónleika, bæði hér heima og erlendis og verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi sem organisti, píanóleikari. og kórstjóri. Á þeim vettvangi var hann var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna með Kór Áskirkju, fyrir geisladiskinn “Það er óskaland íslenskt.”

Kári tók við stöðu dómorganista 1. ágúst s.l. en gegndi síðast starfi forstöðumanns Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar í Fjarðabyggð,ásamt starfi organista Eskifjarðarkirkju.

Fyrsta Dómkirkjuorgelið var vígt 14. júní 1840, fyrir rúmum 170 árum. Orgelsmiðurinn var danskur. Ramus að nafni. Hljóðfærið var 5 radda með einu hljómborði. Leifar þess eru geymdar á lofti Dómkirkjunnar.

Þetta orgel var tekið niður 1893. Stórt kirkjuharmoníum var keypt þetta ár. Almenn óánægja var með það og því keypt pípuorgel 1904 frá I. P. Henriksen í Kaupmannahöfn. Það var 14 raddir, hafði tvö nótnaborð og fótspil. Árið 1926 var keyptur mótor til að knýja orgelbelginn, en fram að því hafði hringjarinn einnig verið „orgeltroðari.“ Árið 1934 var enn keypt nýtt orgel í Dómkirkjuna. Það gamla fór til Ísafjarðarkirkju og mun ekki annað til af því í dag en fáeinar raddir í orgeli Selfosskirkju. Nýja orgelið, sem kom frá Th. Frobenius í Danmörku, var 26 raddir, sem deilt var á þrjú hljómborð og fótspil. Þetta orgel var selt Reykholtssókn í Borgarfirði og sómir sér vel nýuppgert í hinni ágætu Reykholtskirkju.

Í stað þess var keypt nýtt orgel frá verksmiðju Karl Schuke í Berlín. Það er 33 raddir með þremur hljómborðum og fótspili. Útlit þess teiknaði Þorsteinn Gunnarsson arkitekt. Orgelið var vígt sunnudaginn 1. desember 1985. Sá aldarfjórðungur, sem það hefur verið hluti af 170 ára orgelsögu kirkjunnar, hefur verið einstaklega farsæll og gefandi.

(samantekið af sr. Þóri Stephensen)

Tónleikarnir verða eins og áður segir. miðvikudaginn 1.desember kl.20.00 Aðgangur að tónleikunum er ókeypis. Eftir tónleika er gestum boðið að skoða fyrsta Dómkirkjuorgelið, sem er staðsett á kirkjuloftinu

Ástbjörn Egilsson, 1/12 2010 kl. 10.05

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS