Dómkirkjan

 

Löng er leiðin, frá áfalli og sorg, yfir í einhvers konar sátt. Hún er löng en hún er fær. Guðspjall páskanna fjallar einmitt um slíkt ferðalag. Upp að gröf Jesú koma konurnar þrjár árla dags. Ekki er ósennilegt að þær hafi upplifað reiðina, þessa æpandi spurningu til Guðs, af hverju? Af hverju var vinur þeirra og meistari tekinn höndum eins og glæpamaður, kvalinn og hæddur og loks tekinn af lífi á eins grimmilegan hátt og hugsast gat? Sannarlega hafði hann ekkert til saka unnið en samt tekinn af lífi. Daginn næsta geta þær ekkert annað gert en að syrgja og bíða. Reyna að átta sig á því sem hefur gerst. Horft framan í blákaldan veruleikann sem þó virðist vera allt annað en veruleikinn. Áður en sabbatinn er liðinn, fyrir dagrenningu, leggja þær af stað að gröfinni til að búa um líkama Jesú, og veita honum þann umbúnað sem þeim var meinað að gera tveimur dögum áður. Þar verða þær vitni að þessum einstæða atburði mannkynssögunnar. Gröfin er tóm en ungur maður, engill, situr á steininum og segir við þær. Þið leitið að Jesú frá Nazaret hinum krossfesta. Hann er ekki hér, hann er upprisinn. Upp risinn. Í þessum orðum engilsins – í þessum atburði – hvílir öll von mannkyns, þarna er sú von, sem allir syrgjendur, allir þeir sem þreyttir eru og mæddir hafa. Hann er upp risinn. Ekki hvarflar þó að mér að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem við mennirnir þurfum svo oft og einatt að takast á við; þeir verða að sjálfsögðu ekki að engu við upprisuna; glíman er eftir. Upprisa Jesú Krists segir okkur hins vegar að við eigum sigurinn vísan. Kristur er einmitt sá sem býður mér fylgd sína og stuðning; hann sýnir mér með upprisunni á páskadagsmorgni að hann hefur sigrað dauðann og mér standi til boða að taka þátt í þessum sigri. Guð gefi þér uppbyggilega bænadaga og gleðilega páskahátíð. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur Dómkirkjunnar

IMG_1764

Laufey Böðvarsdóttir, 28/3 2024 kl. 21.25

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS