https://www.ruv.is/utvarp/dagskra/ras1/2023-06-17/5296415
Gleðilega þjóðhátíð!
Hátíðarguðþjónusta 17. júní í Dómkirkjunni.
Prédikun séra Sveins Valgeirssonar á Þjóðhátíðardegi.
Gleðilega hátíð!
Þriggja ára telpa fór með ömmu sinni í sauðburð í fyrsta sinn nú í vor og var svo lánsöm að sjá á bera. Eðlinu samkvæmt fór ærin að kara lambið og því fylgdi að hún tók hluta líknarbelgsins utan af lambinu þannig að stríkkaði á himnunni svo hún sást vel.
Spurði þá telpan: „Amma, Er kindin að taka plastið utan af nýja lambinu sínu?”
Já það er von að blessað barnið spyrji hvort lífið komi innpakkað í plast.
Þarna mætast gamall heimur og nýr; barnið, sem vant er að dýrmætir hlutir komi innpakkaðir í plast, lærir að lífið kemur ekki í plastumbúðum.
Í hvernig umbúðum kemur þá lífið?
Kristin trú gerir ráð fyrir því að sá umbúnaður sem um lífið er, sé slíkur að tilvera okkar, líf og lán, eigi upptök sín í Guði og stefni reyndar til hans líka.
Að lífið komi innpakkað í kærleika Guðs og hann umvefji lífið.
Skilningurinn er sá, að lífið sé lán frá honum – og honum stöndum við svo reikningsskil varðandi það hvernig við vörðum þessu lífi og hvernig við umgengumst sköpun hans. Það eitt og sér er er reyndar uggvænlegt þegar maður virðir fyrir sér þunga stöðu umhverfismálanna. Ráðsmennska mannsins felst nefnilega meðal annars í því að rækja það hlutverk sem honum er falið og reynast trúr lífinu.
—
Ísak Harðarson, blessuð sé minnig hans, var að mínu mati eitt mesta og merkilegasta trúarskáld Íslendinga síðustu áratuga. Honum var gjarnan mikið niðri fyrir og tók trúmálunum af óvæginni alvöru; en skynjaði líka sterkt alltumlykjandi kærleika Guðs.
Hann yrkir í ljóði sínu Vordreymi
Hlýju hafstraumarnir norðan við Ísland
eru engir hafstraumar
heldur armar engla
sem umfaðma landið hlýju lífi
sem umfaðma landið hlýju
og lofandi vori sem brumar í gegnum
draumjökul-öld svefnsins …
Við, sem stödd erum hér á því svæði jarðarkringlunnar sem alla jafna ætti að vera illbúandi á, njótum þess að ylstraumurinn umlykur landið okkar; eða nei, það eru engla-armarnir sem umlykja það.
Svo er Guði fyrir að þakka.
Þetta kallast nú á við það sem segir í guðspjalli dagsins:
Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?
Hér er um það að ræða, að Skaparinn er undirstaða lífs; hann, sem gefur af örlæti sínu og kærleika; og ef við áttum okkur á því, þá getum við tekið undir með Listaskáldinu góða, eins og hann orti í sálminum, sem síðast var sunginn hér áðan og við skynjum og skiljum:
„að skynsemi vorrar eyrum undir” hljómi lofsöngurinn hreini: „Lifandi Drottinn skóp oss einn.”
—
Að vísu skal játað að það hefur stundum reynt á þolrifin að búa á stað þar sem það er ekki alltaf ljóst, þegar maður fer á fætur, hvor talan verði hærri í dag; hitastigið eða verðbólgan – og kannski að daglegir úrkomumillimetrar gætu verið þær tölur samtals.
En samt.
Samt búum við í landi sem getur- og hefur – fóstrað okkur vel. Okkur er búinn staður þar sem öllum á að geta liðið vel.
Í guðspjallinu heyrðum við Jesú tala við mannfjöldann sem safnast hafði í kringum hann. Þetta var fólk sem þyrsti eftir leiðsögn í lífinu, þyrsti eftir viti í tilveruna og vildi fá að vita hvað yrði þeim til blessunar og farsæls lífs. Eða, svo notað sé orðfæri Gamlatestamentisins: Hvernig getum við orðið farsæl í landinu sem Drottinn Guð hefur gefið okkur?
Svarið við þessari spurningu er dregið saman í Fjallræðunni en guðspjall dagsins er hluti hennar.
Boðskapur Jesú í þessum efnum er einfaldur, kannski of einfaldur til þess að við skiljum hann til hlítar. Hann er í stuttu máli þessi: Leitið fyrst ríks Guðs og réttlætis – ég undirstrika það: Réttlætis – og þá mun allt annað gefast yður að auki. Þessu er Jesús að hnykkja á, þegar hann segir: Biðjið, og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýjið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Guð er miskunnsamur, hann gefur ekki steina þegar við biðjum um brauð, en við verðum þó að stíga fyrsta skrefið.
Ekkert fæst nefnilega án fyrirhafnar. Það þekkjum við vel þegar við rifjum upp baráttu þjóðarinnar, hvort heldur fyrir sjálfstæði eða hreinlega því að komast af hér; það kostaði bæði baráttu og einurð.
Þessi er líkast til sá boðskapur sem hefur fylgt þjóðinni í þetta hálfa tólfta hundrað ára sem hún hefur búið í þessu landi.
Ekkert fæst án fyrirhafnar. Sambúð manns og lands hefur alla tíð verið því marki brennd, að hér hefur mannskepnan þurft að neyta hvers tækifæris til framfærslu, til þess hreinlega að lifa af. Og það þekkjum við vel að þjóðin hefur á stundum gengið í gegnum svo miklar hörmungar, að maður furðar sig á því hvernig hún fór að því að skrimta harðindatímana. Og þá er von að spurt sé, hvað það hafi verið sem hélt í henni lífinu. Varla hefur það verið helber þrjóskan sem fleytti henni í gegnum brim og voðasker, heldur hefur hún alla tíð stuðst við þá trú, að Guð léti sér annt um hana, þrátt fyrir allt. Trúin hélt þeim gangandi, jafnvel þó að allt virtist komið á vonarvöl. Sr. Hallgrímur Pétursson orðar þetta vel þar sem hann segir: Guð er minn guð þótt geisi nauð, og gangi þanninn yfir.”
Guð er allstaðar að verki í kringum okkur, hvort sem við tökum eftir því eða ekki.
Og hann vill okkur vel.
Eg endurtek það sem hann segir í guðspjalli dagsins: “Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?”
Að okkur snýr hins vegar að meðtaka þessar gjafir í þakklæti og að fara vel með þær gjafir sem hann hefur gefið okkur; landið og gæði þess, lífið og allt það hið góða sem í okkur býr; og leyfa elsku hans til okkar að hafa áhrif á það hvernig við nálgumst aðra.
einn siður – sameinuð
Þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kom undan feldinum benti hann á að ef við slítum í sundur lögin þá slítum við og friðinn.
Það var ágætlega sagt hjá honum.
Hann talar um samfélagssátt því án hennar er tómt mála að tala um sæmilega funkerandi samfélag.
Hér er fjallað um ytra byrði samfélagsins, regluverkið:
Í því felst að við deilum kjörum hvert með öðru og berum byrðarnar saman. Sömu reglur fyrir alla; sömu lög; sameiginlegur gjaldmiðill fyrir alla, jafnrétti, bæði kynjanna allra og hvað varðar aðgengi að gæðum þessa lands, Virðingin fyrir lífi og rétturinn til frelsis. Að þessu uppfylltu – og líkast til fleiri atriðum – erum við varðveita friðinn og samfélagssáttmálann, hina sameiginlegu sýn og að tímanleg farsæld allra megi byggjast á gagnsæi og sanngirni.
—
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.
Þetta er niðurlag guðspjallisins og birtir í raun alla þá siðfræði sem við þurfum á að halda. Guðspjall sem dregur saman kjarnann í mannlegum samskiptum og hvetur okkur til að setja okkur í spor annarra – og bregðast við. Gjarnan felur það í sér að við verðum að fórna einhverju af okkar eigin góðu stöðu.
Rétt eins og það er enginn vandi á láta sér annt um þá sem maður elskar hvort eð er, þá er heldur enginn vandi að hjálpa öðrum ef það kostar mann ekkert.
Það er engin ögrun eða sjálfsögun í því. Göfugmennskan – veglyndið – felst í því að gefa eftir af sínum eigin þægindum, eigin hagsmunum, til þess að þeir sem höllum fæti standa og berjast jafnvel fyrir tilveru sinni, geti átt möguleika á mannsæmandi lífi; Jafnvel bara lífi yfirleitt.
Það er lítið mannsbragð að því, að hjálpa aðeins ef það hentar manni.
Í því felst líka að þurfa að hlusta á þá sem maður er ekkert endilega sammála. Má hér rifja upp það sem gjarnan er sagt við brúðhjón á þeirra heiðursdegi að þótt þau verði eitt þá þurfa þau ekki að verða eins. Sama er með þess þjóð, sem býr í þessu Guðs gefna – en ekki Guðs volaða – landi, að styrkur okkar er og verður að geta skipst á skoðunum, rætt málin, líka þau sem okkur finnast óþægileg; og þolað að aðrir hafi ekkert endilega sömu skoðun og við.
Minnug þess að skoðanir og staðreyndir eru ekki endilega sami hlutur.
—
Hvaða umbúnað viljum við hafa um lífið? Samfélagið okkar? Hvernig vilt þú að kærleikur Guðs til þín endurvarpist í samskiptum þínum við aðra menn?
Er umbúnaðurinn líknarbelgur lífsins sem myndaður er af kærleika;
eða plastik gervimennsku og sjálfelsku?
Gaumgæfum það.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Laufey Böðvarsdóttir, 17/6 2023 kl. 19.20