Dómkirkjan

 

Glóandi sindur-Dómkórinn í Reykjavík. Miðasala á tix.is

Eftir þriggja vora þögn fagnar Dómkórinn í Reykjavík nýju sumri þar sem flutt verða íslensk kórverk úr ólíkum áttum undir stjórn Kára Þormar. Tónleikarnir fara fram í Hallgrímskirkju, 1. júní næstkomandi og hefjast kl. 20:30.
Verkin eiga það sammerkt að vera samin á undanförnum áratugum, það elsta frá 1971 en yngstu verkin voru skrifuð fyrir Dómkórinn í byrjun árs 2020 í aðdraganda heimsfaraldursins sem setti öll tónleikaáform til hliðar. Nú er loks komið að því að kórinn fái að láta þessi nýju verk hljóma opinberlega í bland við aðeins eldri kórsmelli.
Nýju verkin eru þrjú talsins, eftir þau Arngerði Maríu Árnadóttur, Hafstein Þórólfsson og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Að auki heyrast verk eftir Smára Ólafsson, Pétur Þór Benediktsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Stefán Arason, Sigurð Sævarsson, Atla Heimi Sveinsson, Martein H. Friðriksson, Önnu Þorvaldsdóttur, Báru Grímsdóttur, Sigurð Flosason og Jón Ásgeirsson.
Þótt tónsmíðarnar séu allar í nýrri kantinum sækja tónskáldin innblástur frá ólíkum tímum en ljóðin eiga uppruna sinn allt frá fornum helgitextum og til eldri sálmaskálda á borð við Hallgrím Pétursson til yngri höfunda eins og Vilborgar Dagbjartsdóttur og Aðalsteins Ásberg Sigurðssonar.
Yrkisefnin eru þó sígild: Andinn og efnið, trúin, efinn, ástin, dauðinn, lotning, lof og fögnuður yfir undri lífsins.
Tónleikarnir eru um klukkustund að lengd og eru án hlés.

Laufey Böðvarsdóttir, 26/5 2022 kl. 22.24

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS