Dómkirkjan

 

Þrettándinn! Þrettándinn er síðasti dagur jóla. Skv. þjóðtrúnni fóru þá ýmsar furðuverur á kreik. Þeim, sem brosa að slíku, skal bent á að rifja upp atburðina í Hvítashúsinu í Bandaríkjunum á þrettándanum fyrir sléttu ári. Þjóðtrú er samt eitt og kristin trú annað. Þrettándinn er merkileg hátíð innan kirkjunnar. Í vesturhelmingi hins kristna Rómarríkis, þ.e. þeim kirkjum sem höfðu latínu að opinberu máli, var þrettándinn tengdur komu vitringanna er þeir veita Jesúbarninu lotningu og bera fram gjafir sínar. Í Austurkirkjunni – hvar gríska var framan af hið opinbera tungumál kirkjunnar- var minnst skírnar Jesú í ánni Jórdan. Sér þessa stað í guðspjallsröð kirkjunnar okkar en skírn Krists er einmitt guðspjall næsta sunnudags. Á grískri tungu kallast þessi dagur Epifanía, dregið af so “fainein” sem merkir að „koma í ljós, birtast” Þeofanía er annað heiti, samslungið epifaníunni að merkingu til. Þótt kirkjurnar í austri og vestri hafi mismunandi áherslur hvenær jólum er fagnað þá er enginn vafi hverju er fagnað um jól og þrettánda/guðsbirtinguna: Guð gerir sig kunnan; opinberar sig í barninu smáa. Í sálmi sr. Sigurbjörns Einarssonar er þetta orðað svo: Hjarta Guðs sló í holdi manns, hér af kom lífgjöf syndarans. Þessi er kraftur og mikilfengleiki Kristsatburðarins, að Guð gerist maður; því hann á erindi við þig. Hann gengur inn í mannleg kjör til þess að gefa þér kost á hlutdeild í himninum. Í Tímóteusarbréfinu er þessi leyndardómur meitlaður í fáeinar setningar: „Og víst er leyndardómur trúarinnar mikill: Hann birtist í manni, sannaðist í anda, opinber englum, var boðaður þjóðum, trúað í heimi, hafinn upp í dýrð.” Hann er sá Guð sem lætur sér annt um sköpun sína og er Guð með oss – Immanúel. Fyrirn það megum við þakka.

271483201_10159843015020396_1533439104928627611_n

Laufey Böðvarsdóttir, 6/1 2022 kl. 16.54

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS