Dómkirkjan

 

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. „Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina” er frasi sem margri vannvitsbrekkunni er kenndur; stundum í hálfgerðu háði en engu að síður er sannleikskorn í þessu. Hvernig búum við okkur undir það sem framundan er? Vissulega má sjá vísbendingar um framvindu atburða en svo er það alltaf þessi óvissi faktor sem enginn sér fyrir. Hið óvænta. Ég held að eins leiðin til að vera undirbúinn fyrir hinn stundum óútreiknanlega morgundag hljóti að felast í því að vera í góðu formi í dag. Það merkir ekkert endilega að vera með allt á hreinu; líkast til er það aldrei svo. En að sú reynsla sem við höfum aflað okkur og tileinkað nýtist til góðs og það allt leiði til þess að að maður geti tekið bestu mögulegu ákvörðun þegar á reynir. Að maður hafi vit og kjark til að breyta því sem maður getur breytt. Allt umfram það er í hendi Guðs. Hver er olían á lampanum mínum? Hvað er það sem drífur mig framúr á morgnana og hvað gefur mér orku til þess að halda á? Fyrir hinn trúaða er það fullvissan um kærleiksríkan Guð sem láti sér annt um okkur. Þar er orkan sem hjálpar okkar að starfa að því sem við brennum fyrir að gera.

Laufey Böðvarsdóttir, 16/11 2020 kl. 12.57

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS