Dómkirkjan

 

IMG_1250
Aðventan setur mark sitt á borgina og laðar hugi og hjörtu unga sem gamalla að ljósinu sem á móti kemur. Í Dómkirkjunni er boðið upp á guðsþjónustur, bænastundir og margvíslega viðburði, tónleika og samverur þar sem sálin fær næringu af boðskapnum um ljósið sem skín í myrkrinu og blessar líf og heim.
Föstudagurinn 16. desember kl. 20 eru Jólatónleikar Tónlistarskólans í Reykjavík, þar sem efnisskráin er afar fjölbreytt og verður boðið upp á úrval af því besta úr vetrarstarfinu.
Síðasta sunnudag fyrir jól, 18. desember, er boðið til fjölskyldumessu kl. 11, undir yfirskriftinni „Þökkum fyrir ljósið og lífið.“ Stundin er sérstaklega helguð ljósmæðrunum og þjónustu þeirra í þágu lífsins. Ljósmæður munu lesa texta og sungnir verða aðventu og jólasálmar. Karlakór KFUM syngur undir stjórn Laufeyjar Geirlaugsdóttur, sem einnig syngur einsöng. Ljúf og notaleg samverustund í anddyri jólanna.
Norsk messa er kl. 14 þar sem sr. Þorvaldur Víðisson prédikar og sr. Hjálmar Jónsson þjónar.
Kl. 20 er æðruleysismessa, þessi klukkutími verður fylltur ró, góðri nærveru, bæn og íhugun. Sr. Anna Sigríður mun leiða stundina, sr. Karl Matthíasson mun tala til okkar, félagi mun deila reynslu sinni, Díana fer fyrir bæn, Ástvaldur verður á píanóinu og Berglind Magnúsdóttir kemur og syngur fyrir okkur og með okkur, ljúf og góð stund.
Jólatónleikar Dómkórsins verða 21. desember kl 22:00. Stjórnandi er Kári Þormar, dómorganisti. Í huga margra eru jólatónleikar Dómkórsins í dimmasta skammdeginu ómissandi sem hluti aðventu og jólaundirbúningsins.
Sama er að segja um hina árlegu kertaljósatónleika „Mozart við kertaljós“ sem Camerarctica heldur 22. desember kl. 21:00. Það er ljúft að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu og njóta ljúfrar tónlistar Mozarts.
Á Þorláksmessu, 23. desember kl 20:30 verða tónleikar þar sem fram koma: Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran, Guja Sandholt, mezzo-sópran og Matthildur Anna Gísladóttir, píanó. Hátíðleg sönglög og dúettar úr íslenskum þjóðlagaarfi, óperum og óratoríum í bland við sígild amerísk jólalög.
Helgihald um jólin er með hefðbundnum hætti. Aftansöngurinn í Dómkirkjunni kl. 18 á aðfangadagskvöld lýkur upp hliðum hátíðarinnar fyir landsmönnum. Þá verður heilagt þegar klukknahljómurinn úr turni Dómkirkjunnar berst yfir landið á öldum ljósvakans. Að þessu sinni prédikar sr. Hjálmar Jónsson. Á jólanótt klukkan hálf tólf er miðnæturguðsþjónusta. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Karl Sigurbjörnsson, biskup, prédikar.
Á jóladag er hátíðarmessa kl. 11 þar sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar. Á annan jóladag eru messa kl. 11 þar sem Karl Sigurbjörnsson, biskup prédikar. Á Gamlárskvöld er aftansöngur kl. 18 og messa á nýjársdag kl. 11.
Dómkirkjan óskar öllum blessaðrar aðventu og gleðilegrar jólahátíðar.

Laufey Böðvarsdóttir, 16/12 2016 kl. 0.34

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS