Dómkirkjan

 

Prédikun séra Hjálmars við aftansöng í Dómkirkjunni á gamlársdag 2014

Við höfum haft jól í huganum og á vörunum í margar vikur. Og enn eru jól, þau tengja saman árin. Sólin er farin að hækka á lofti þegar jólum lýkur. Verkefni nýs árs verða þá tekin við, verkahringurinn eins og ársins hringur. Og eins verður það með dagamuninn, sem fylgir hverri tíð, þorramatur og vetrarhátíðir og síðan fara að sjást gulir og glaðir páskaungar með hækkandi sól.

Undirbúningstíminn hafði líka sitt sjálfstæða gildi, samkomur, tónleikar, kirkjuhátíðir. Meira er þá af venjum og mótuðum siðum en annars staðar í árinu og í lífi okkar. Margfalt meiri tengsl og samskipti eru í fjölskyldum, við vini og kunningja. Margt af þessu er vanabundið, endurtekning á mörgu sem okkur hefur orðið kært. Unga kynslóðin, börnin á fyrstu árum sínum, alast upp við sið og venju sem þau njóta – og njóta sín við þegar líða fer að jólum. Og trúin og siðurinn á sínum stað. Engin ástæða er til að líta mikilvægi þessa smáum augum. Umræða, ólund og ýfingar vegna starfsemi kirkju og kristinnar trúar setti mark sitt á umræðuna á jólaföstunni. Það var flokkað undir “mannréttindi” að meina ungu skólafólki að heimsækja kirkjur hér í borginni. Stundum á maður erfitt með að fylgja hugsanagangi annarra, skilja þá, þótt maður leggi sig fram.Sagt hefur verið að smáþjóðir geti átt við ýmsan tilvistarvanda að glíma. Þær gangi oft með inngróna minnimáttarkennd. Eins og kotbóndinn forðum sem fyrirleit aðstæður sínar og þjóðfélagsstöðu. Er þessi framganga e.t.v. birtingarmynd staðfestuleysis gagnvart eigin grundvelli.? Brotin sjálfsmynd og áleitinn ótti við að teljast úreltur og uppidagaður eins og nátttröll.Í hillingum getum við séð alþjóðlegt samfélag á Íslandi, fjölmenningarlegt. En hins verðum við að gæta þess að bindiefnið er sagan, tungan, landið, trúin. Þarna er vandasaman stíg að feta. Við bjóðum fólk velkomið til landsins, fólk sem er ólíkt okkur. Sú gestrisni er sjálfsögð. Um leið hljótum við að halda við menningu okkar og gæta að samfellu í sögunni. Ég sé ekki að árekstrar þurfi að verða í þessum efnum.Sú hugsun er úrelt og heimsk, sem flokkar alla trú með hindurvitnum. Trú er ekki sama og trúgirni. Kristin trú er trúnaður við Krist. Hún er sannfæring um það að hann hafi sagt satt. Að hann sé sá sem hann sagðist vera. Fyrir því höfum við rök sögunnar og við höfum rök eigin hjarta og reynslu. Enginn einstakur maður hefur haft viðlíka áhrif á lífið í heiminum. Trúin á hann er mikilvægur þáttur í lífi þeirra sem kynnast honum og festa trú á hann. Sú trú krefst þess ekki að við vörpum frá okkur skynsemi og viti. Þvert á móti vill hún að við verðum betur sjáandi. Kristur vill gera okkur heilla og kærleiksríkara fólk. Í þessu sambandi eru mér í huga orð rektors MR frá miðri síðustu öld þegar hann segir:

“Ef vér festum eigi trú og traust við landið, söguna og tunguna, við hlutverk vort og framtíð, við Guð vors lands og Guð vors lífs, þá erum vér í hættu stödd og kunnum að farast í skiptum við þær þjóðir sem fastar trúa.”

“Þær þjóðir sem fastar trúa,” sagði sá glöggi skólamaður. Við getum átt á hættu að týnast sem dropi í mannlífshafi heimsins. Án sérkenna erum við varla meira en dropi í hafinu.

 

Nú er ári að ljúka, skammt er síðan við vorum hér síðast á áramótum. Við verðum hér aftur á áramótum innan skamms – allt þangað til við mætum mótum tíma og eilífðar, þegar við fáum ekki meiri tíma í þessu lífi. Áfram verður endurtekning, jól og áramót verða jafn kærkomin þegar skammdegið leggst að síðla næsta árs. Gildir þá einu hvernig ástand og horfur verða umhverfis okkur. Við munum aftur hlakka til jólanna og endurtaka leikinn. Við munum aftur fara að undirbúa hátíðina, Jesús Kristur mun líka koma, mitt í vafstrinu og ytri umsvifunum. “Minn frið gef ég yður” segir hann í guðspjalli gamlárskvölds. Sá er boðskapur hans alltaf.

Ár er liðið, sumt hefur okkur tekist, annað miður. En hvernig sem árið þitt hefur verið, þar kunna að vera vonbrigði, sorgir, rangindi, hvað svo sem hefur fyrir þig komið skaltu vera þess viss að þú ert óendanlega dýrmætt eintak af manneskju í augum Guðs.

Það minnir mig á manninn sem byrjaði ræðuna sína á því að lyfta upp stórum peningaseðli. Hann krumpaði seðilinn síðan saman og trampaði á honum. Þurrkaði síðan af honum og lyfti honum upp og sagði: “Af þessu skulum við læra. Seðillinn er ennþá jafnmikils virði og áður.”

Oft gerist þetta í lífinu. Við lendum í árekstrum, okkur er hafnað, það er jafnvel traðkað á okkur, sumpart vegna þess sem við segjum eða gerum, sumpart vegna ytri orsaka, sem við fáum engu um ráðið. Okkur getur fundist við vera misheppnuð og einskis virði.

En einu gildir hvað fyrir þig kemur, þú missir aldrei gildi þitt í augum Guðs. Í hans augum ertu alltaf ómetanlega dýrmæt manneskja. Þetta vil ég biðja þig að taka með þér héðan í kvöld. Þú ert perla, þú ert elskað Guðs barn.

Ykkur öllum vil ég flytja eftirfarandi ósk og bæn, persónulega og frá kirkjunni okkar við upphaf nýs árs:

“Ég óska ykkur dálítils af ferskri gleði yfir fegurð og svolitlu meiri gleymsku á vonbrigði og dálitlu meira stolts yfir hrósi og örlitlu meiri friðar fyrir asa og umstangi – og svolitlu þéttari skjólveggjar gegn áhyggjum.” (J. Ruskin)

Í Jesú nafni. AMEN

 

Laufey Böðvarsdóttir, 1/1 2015 kl. 13.14

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS