Vetrarstarfi Opna hússins lauk í gær með vorferð suður með sjó.
Vorferð Dómkirkjunnar var farin í gær á þessum sólríka og fallega degi. Fararstjóri var Karl biskup. Margt var skoðað m.a.Kvikan í Grindavík – forvitnilegt safn þar sem við urðum ýmsu vísari um jarðorku, saltfiskverkun og Guðberg Bergsson rithöfund. Fengum góða kjötsúpu í Salthúsinu og södd og sæl héldum við í Hvalsneskirkju þar sem Karl fræddi okkur um árin hans Hallgríms Péturssonar í Hvalsnesi. Hallgrímur og Guðríður kona hans misstu nokkur börn m.a Steinunni. Í kirkjunni er legsteinn sem fannst þar í jörðu fyrir nokkrum árum, nafn Steinunnar er greypt í steininn. Altaristaflan í Hvalsneskirkju er máluð eftir altaristöflunni í Dómkirkjunni og sýnir upprisuna. Á leiðinni heim áðum við í Vitanum í Sandgerði og fengum þar kaffi og gott meðlæti. Þökkum ykkur öllum fyrir samveruna í dag será Karli fyrir skemmtilega fararstjórn og heimafólkinu fyrir góðar móttökur. Opna húsið er þar með komið í sumarfrí en ég vek athygli á að bæna- og kyrrðarstundirnar í hádeginu á þriðjudögum verða í allt sumar. Verið hjartanlega velkomin þangað sem og í sunnudagsmessurnar. Gleðilegt sumar.
Laufey Böðvarsdóttir, 22/5 2014 kl. 9.15