Dómkirkjan

 

Frá biskupi Íslands Agnesi M. Sigurðardóttur.

Hugur minn og okkar allra er hjá Grindvíkingum sem horfa nú upp á meiri ógn en fyrri jarðskjálftar og eldgos hafa valdið. Þegar slík vá steðjar að er gott að vita að búið er að rýma bæinn og lífi stafar ekki hætta af eldgosinu. Skelfilegt er að horfa upp á hraunstrauminn nálgast byggðina óðfluga og tjónið er þegar orðið mikið.
Ég bið Guð að blessa Grindvíkinga sem og aðstandendur þeirra sem látist hafa í Grindavík og á Grindavíkurvegi á þessu nýbyrjaða ári.
Guð blessi minningu þeirra og gefi þeim styrk sem eiga um sárt að binda.
Ég bið Guð líka að blessa Grindvíkinga og allt sem þeim er kært á þessum örlagadegi í sögu bæjarins. Á stundum sem þessari þegar mannlegur máttur getur ekki stjórnað för er fátt um svör. Hvar eigum við athvarf og hvar fáum við styrk í slíkum raunum? Hvar er haldreipi að finna og hvar er frið í sál að finna?
Í 16. Davíðssálmi stendur: „Varðveit mig, Guð, því hjá þér leita ég hælis.“ Bæn stígur til Guðs almáttugs um vernd og styrk.
Þegar Móse sem leiddi lýðinn frá Egyptalandi forðum var orðinn aldurhniginn og gat ekki lengur verið leiðtogi fólksins blés hann þjóð sinni kjark í brjóst. Hann fól félaga sínum Jósúa að leiða fólkið síðast spölinn inn í landið fyrirheitna. Hann sagði við hann: „Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér. Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast.“ Þess sama bið ég Grindvíkingum til handa.
Drottinn Guð. Þú sem hést því að vera með okkur alla daga allt til enda veraldar.
Við biðjum þig að líta í náð þinni til Grindavíkur. Við biðjum fyrir vísindamönnum og viðbraðsaðilum.
Við biðjum fyrir hverjum og einum íbúa Grindavíkur og öllum þeim sem þeim eru kærir.
Við biðjum þig gefa þeim sem ákvarðanir taka vit og styrk til að taka réttar ákvarðanir.
Við biðjum þig afstýra slysum. Við biðjum þig gefa styrk og frið í hjarta. Já, Drottinn Guð.
Við mennirnir erum smáir og vanmáttugir frammi fyrir ógnum náttúrunnar. Lát okkur gera það sem við erum megnug til að bjarga því sem bjargað verður og sætta okkur við það sem við getum ekki ráðið við. Við treystum náð þinni og miskunn. Við treystum því að þú leiðir hlutaðeigandi í gegnum þessar hörmungar.
Drottinn blessi þig og varðveiti þig.
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
Í Jesú nafni. Amen.

 

Laufey Böðvarsdóttir, 14/1 2024 kl. 16.55

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS