Dómkirkjan

 

Himinninn Dómkirkjan, uppstigningardag, 13. maí 2021 Lúkas 24. 44-53 Þitt helga ljós í hjarta mér þinn himinn fyrir stafni. Amen. Gleðilega hátíð! Ég þakka fyrir boðið að vera með ykkur hér í dag og eiga með ykkur þessa helgu stund eins og svo margar fyrr og síðar, kæra starfsfólk og söfnuður og vinir Dómkirkjunnar. Þakka ykkur öllum sem prýðið þessa hátíð með nærveru ykkar, og ykkur, Kammerkór Dómkirkjunnar og Kári Þormar ykkar hlut. Og hér mætast kynslóðirnar inni, þú, ungi framhaldsskólanemi, Pétur Nói Stefánsson, og þið öldungarnir, Gunnar Kvaran og Haukur Guðlaugsson! Ungi maðurinn horfir fram á farsælan feril á listabrautinni, sem Guð gefi, og þið tveir getið horft svo glaðir um öxl yfir genginn gæfuvel í þjónustu listarinnar. Ég er mikið þakklátur fyrir tækifærið að fá að mæla fyrir munn hinna mörgu þegar ég árna þér heilla, Haukur minn, í tilefni af nýliðnu níræðisafmæli þínu. Þú hefur gefið svo mikið af þér og markað svo djúp og blessuð heillaspor í líf kirkju og menningar, þar sem allt hefur verið borið uppi af einlægri trúmennsku, auðmýkt, gleði og trú. Guð launi það og blessi þig og þína. Uppstigningardagur er hátíðin sem beinir sjónum okkar til himins. Guðspjall dagsins lýsir því sem segir í trúarjátningunni að Jesús „steig upp til himna.“ Í kirkjunni okkar hefur dagurinn verið sérstaklega helgaður öldruðum. Ef til vill er það vegna orða Kaj Munk, danska skáldprestsins sem sagði börnin og gamalmennin geti sagt okkur mest um himininn. „Börnin af því að þau eru ný komin þaðan, gamalmennin af því að þau eru rétt ókomin þangað.“ Nú er ég og við flest hér inni komin í hóp þeirra síðarnefndu. Ég sá viðtal við Billy Graham sem var kominn á tíræðisaldur og sagði meðal annars: „Ævina alla var mér kennt hvernig ég ætti sem kristinn maður að búa mig undir dauðann. En enginn kenndi mér hvernig ég ætti að lifa elliárin. Ellin hefur sínar áskoranir í för með sér – og er ekki heiglum hent. “ Ekki heiglum hent. Það má nú segja. Það er reyndar ekki heiglum hent að vera manneskja svona yfirleitt og alla vega. En hvað sem því líður – hvað getum við nú sagt um himininn? Já, hvað höfum við að segja um himininn? Við sem stöndum meir og minna orðlaus andspænis því sem segja má og segja ætti um jörðina, um mannlífið. Já og okkur sjálf, og vandann að vera maður? Ég var á fermingaraldri þegar Gagarín fór út í geiminn og sá að sögn engan Guð úti þar, engan Guð í þeim dimma himni sem umlukti geimfarið hans, þetta stórfenglega tákn um sigur mannsins, vísinda og dáða sem leggja myndi heiminn að fótum sér. Síðan hafa margir skroppið út í þann víða geim, menn hafa sprangað um á Tunglinu og eru jafnvel farnir að keyra fjarstýrðum jeppa á Mars. Og ótal geimför svífa um óravíðáttu geimanna að rannsaka, auka við þekkingu mannsins á þessum óendanlega geimi þar sem jörðin er eins og örsmátt rykkorn. Það sem okkar tæki og tól ná að skyggnast eftir er þvílíkt brotabrota brotabrot af því ógnarvíðerni. En dýrmæt þekking fæst af því að rannsaka áhrif sem stjörnur og sólir og svarthol sem eru í milljarða ljósára fjarlægð hafa á það sem er innan sjónvíddar hinna hárnákvæmu mælitækja mannsins. Er það ekki einmitt þetta sem Páll postuli er að tala um þegar hann segir: „Ósýnilega veru Guðs, eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins. Því eru mennirnir án afsökunar. Þeir þekktu Guð en hafa samt ekki tignað hann sem Guð né þakkað honum heldur fylltu þeir hugann af hégiljum og skynlaust hjarta þeirra hjúpaðist myrkri. Þeir þóttust vera vitrir en urðu heimskingjar.“ (Róm.1.20n) Já, en hvar er Guð í þessum óravíða geimi? Og hvar er Guð í þessum flókna og margbrotna heimi okkur nær? Þessum mölbrotna heimi okkur nær! Þeirri spurningu er reyndar oft beint að okkur kristnu fólki: Hvar er Guð í heimi þar sem ósýnileg, leyndardómsfull andstyggðar veira geysar og veldur ólýsanlegum hörmungum? Hvar er Guð í heimi þar sem hrokinn og hatrið, illska og ofbeldi vaða uppi í rústum hruninna drauma og brostinna vona, þar sem einsemd, ótti og tortryggni móta líf svo margra, kvíðinn og vonleysið fer eins og sinueldar um heiminn? Hvar er Guð í heimi þar sem allar tilraunir mannsins að skapa himnaríki á jörðu eru dæmdar til að mistakast og enda í ósköpum? Það er ekkert undarlegt að fólk skuli segja andspænis þessu og ýmsum þeim áföllum sem á dynja: Það er enginn Guð! Vafalaust eru miklu fleiri en við ímyndum okkur sem líður þannig, eins og Guð sé þeim horfinn, týndur, enginn himinn fyrir stafni. Engin von. Uppstigningardagur er hátíð himinsins, og hátíð VONAR. Guðspjall uppstigningardags og orð trúarjátningarinnar um að Jesús steig upp til himna, eru vanmegna tilraunir til að tjá það sem engin orð fá lýst. Og hvar eru áhrifin, hvar eru vísbendingarnar, táknin sem vitna um Guð, „eilífan mátt og guðdómstign“? Er það ekki fegurðin sem hvarvetna blasir við augum? Er það ekki listin, þar sem hið fagra hvíslar ástarorðum að því sanna og góða í auðmýkt frammi fyrir augliti hins heilaga? Jú, og framar öllu er það kærleikurinn, umhyggjan í lífi okkar á daganna för. Við erum börn, öll erum við börn gagnvart því stóra og djúpa tilverunnar. Og við erum börn menningar og sögu sem hefur leitast við að rýma himninum út úr heimsmynd og lífssýn. Það er svo satt sem skáldið frá Fagraskógi segir: Án himins erum við húsvillt börn og heimurinn allur minni. Tengdadóttir okkar hjóna sagði okkur einu sinni frá því að hún heyrði álengdar þar sem Óskar Sigurbjörn, sonur hennar, þá fimm ára, var að leika sér við jafnaldra sinn fyrir utan húsið. Eldri bróðir vinarins stóð þar hjá og hrópaði upp yfir sig þegar Óskar hljóp út á götuna: „Þú mátt þetta ekki!“ „Hvers vegna ekki?“ Spyr Óskar. „Af því að þú gætir orðið fyrir bíl og dáið!“ „Nei, Guð passar mig!“ sagði Óskar ákveðinn. „Já, en“ sagði strákurinn, „Guð getur ekki passað alla bílana!“ „Afhverju ekki?“ Spurði Óskar. „Af því að Guð er á himnum.“ „Nei,“ sagði Óskar, „hann er í hjartanu mínu.“ „Já,“ sagði þá strákurinn hugsi, „þú meinar heilagur andi!“ Þarna átti sér sem sagt stað guðfræðilegt samtal tveggja barna um Guð, um himininn, um heilagan anda, sem er nærvera Guðs í hjörtum okkar. Þarna voru börn að ræða þennan óskiljanlega en undursamlega veruleika sem er Guð, yfir og allt um kring og innst í hjarta manns. Í þeim efnum ættum við að hlusta á börnin. Og barnið í okkur sjálfum. Kunningi minn vestur í Bandaríkjunum sagði mér frá því að einu sinni voru þau hjónin stödd í fjarlægum landshluta sem þau höfðu aldrei heimsótt fyrr. Allir voru að segja þeim að þau yrðu að gera sér ferð til að sjá fjall nokkurt þar sem væri óviðjafnanlegt útsýni, FairView Mountain. Af því mættu þau alls ekki missa. Og þau ákváðu að nota síðasta daginn til að skoða það. Þau fengu sér bílaleigubíl með GPS staðsetningartæki og óku af stað eldsnemma enda leiðin löng. Þegar á leið fóru að birtast auglýsingaskilti við vegabrúnirnar sem tilgreindu hve langt væri á áfangastað. Þetta var þokugrár dagur og gekk á með skúrahryðjum en þau óku áfram í von um að senn myndi stytta upp. Svo fóru þau að sjá skilti sem auglýstu Fair View Mountain hamborgarstað og Fair View Mountain kaffihús og minjagripabúðir, sportvöruverslanir og meira að segja snyrtistofur, nefndu það bara, en aldrei sáu þau fjallið sjálft. Vissulega var skyggnið ekki sem best, en samt. Kunningi minn var orðinn leiður á þessu og vildi snúa við. En þá sagði konan hans allt í einu: Heyrðu, við erum á fjallinu! Við erum á FairView Mountain. Við erum búin að vera að leita að því allan þennan tíma, en þetta er það! Þetta er fjallið. Við þurfum bara að leggja bílnum. Það gerðu þau og gengu nokkur skref út fyrir bílastæðið og stóðu þá á dásamlegasta útsýnisstað sem þau höfðu nokkurn tíma séð. Það var stytt upp, það greiddist úr skýja hulunni og útsýnið blasti við. Það munaði engu að við hefðum misst af þessu, sagði kunningi minn að lokum. Hann var í þessu að tala um himininn, himinn Guðs. Veginn þangað sem er trúin, vísbendingarnar um nærveru Guðs og útsýnið sem við fáum fyrst notið þegar við nemum staðar, stígum út úr bílnum, hverskyns takmörkunum okkar vélrænu heimsmyndar og syndar, og leyfum okkur að undrast og njóta. Hann er að segja þetta sem Sölvi Helgason, Solon Islandus skrifaði á eina af myndum sínum: „Hann er ekki í himninum, hann er himinninn.“ Já, í Biblíunni eru orðin Himinn og eilíft líf einatt samheiti við Guð, sá veruleiki þar sem vilji Guðs er og ríkir. Uppstigning Jesú táknar að Kristur er alls staðar nálægur í heilögum anda sínum, eins og lífsloftið sjálft. Og mun um síðir birtast öllum jafnt eins og dagrenning yfir dimma jörð. Við vorum öll skírð sem börn og þar með veitt hlutdeild í himninum sem elskuð börn Guðs, hvað sem árum og aldri líður, og það verður aldrei frá okkur tekið. Við þiggjum lífið að láni og lífslán og gæfu alla. Við eigum heimili og athvarf trúarinnar. Við eigum þegar eilífa lífið, föðurland þitt er á himni. Þótt þyngist fyrir fæti, þokan byrgi sýn um stund og hryðjurnar dynji yfir þá er Guðs helga ljós í hjarta þér og himinn fyrir stafni. Helgar og hátíðir og helgidómar kirkjunnar, bænin í Jesú nafni, listin í myndum, táknum, ljóði, söng og hljómum eru eins og GPS tæki sem staðsetja okkur í lífinu og minna okkur á himininn. Í guðsþjónustunni fáum við að nema staðar og horfa til himins, hlusta eftir og anda að okkur andblæ hins fagra, sanna og góða, skyggnast um eftir fótsporum Krists í lífi okkar, vera minnt á hlutverk okkar hér í heimi, og þakka að við erum öll, hver sem við erum, þá erum við öll börn Guðs undir opnum, tærum himni hans. Ung sem gömul þurfum við á því að halda til þess að við getum betur staðist og tekist á við önn og átök daganna, kröfur tímans og byrðar lífsins sem vottar Krists og verkfæri í veröldinni, og mætt um síðir augliti hans þegar hann við leiðarlok leiðir okkur inn í himininn sinn. Karl Sigurbjörnsson.

Laufey Böðvarsdóttir, 13/5 2021 kl. 16.32

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS