Upphaf Reykjavíkurkirkju
Hér verða raktar þær heimildir og þau atriði önnur, sem eitthvað má ráða af, hvenær fyrsta kirkjan í Reykjavík hafi verið byggð og hvar hún hafi staðið.
Af því, sem fram kemur í niðurlagi kaflans hér á undan, verður að draga þá ályktun, að kirkja í Reykjavík hljóti að vera sem næst jafngömul almennri kristinni trú á Íslandi. Meira verður vart um það sagt að sinni. Frekari fornleifarannsóknir í Reykjavík gætu hins vegar átt eftir að varpa skærara ljósi á þessi efni, okkur til þekkingarauka.
Þegar hugað er að staðarvali, er eðlilegt að leita kirkjugarðs. Forn íslensk kirkjulög og aðrar heimildir benda eindregið til þess, að kirkja hafi nánast ætíð staðið í miðjum kirkjugarði, sem var glöggt afmarkaður, ýmist sem hinn vígði grafreitur eða það svæði, þar sem kirkjufriðurinn skyldi ríkja. Samkvæmt kirkjunnar lögum átti að jarða alla kristna menn í kirkjugarði, nema þeir hefðu fyrirgert rétti sínum til legs í hinum vígða reit.(19)
Ekki er ljóst, hvar látnir voru greftraðir, eftir að kristin trú var lögtekin og áður en kirkjur voru byggðar og við þær vígðir grafreitir. Sögn Landnámu af Unni djúpúðgu í Hvammi í Dölum gæti bent til þess, að sums staðar hafi verið greftrað í flæðarmáli.(20) Hugsanlegt er einnig, að fornri venju hafi verið haldið enn um sinn, eða þar til kirkjur risu. Allt mun þó óljóst um þessa hluti.
Í heimalandi Reykjavíkur hafa ekki fundist nein forn kuml. Þar hafa ekki heldur fundist merki um kristinn grafreit eldri en kirkjugarðinn við Aðalstræti, hinn forna Víkurgarð. Á elsta uppdrætti, sem menn þekkja í dag, af Seltjarnarnesi og eyjunum á Sundunum, uppdrætti sem gerður var árið 1715 af dönskum manni, Hoffgaard að nafni, er Víkurkirkja sýnd í kirkjugarði á þessum slóðum gegnt Víkurbænum, eins og ríkjandi hefð var í landinu.(21) Af máldögum eftir siðbreytingu er auðséð, að frá því á 17. öld er hún á þessum stað. Eldri heimildir benda og ekki til neins annars. Það verður því að teljast afar líklegt, að þar sem nú er nefndur Víkurgarður, hafi höfðingjar í Reykjavík, afkomendur Ingólfs Arnarsonar, reist kirkju sína og þar hafi kirkjur Reykvíkinga staðið allt til ársins 1796, er gamla múrkirkjan var vígð. En einmitt sá staður hefði, samkvæmt framan sögðu, einnig getað verið helgaður af eldri átrúnaði.
Svo aftur sé vikið að því, að ekki hafa fundist nein forn kuml í Reykjavík, þá hefur það orðið til þess, að sú hugmynd hefur fæðst, að frumbyggjar Reykjavíkur kynnu að hafa verið færðir úr kumlum sínum í kirkjugarðinn í Vík, líkt og gert var við Egil Skallagrímsson, ef marka má sögu hans.(22) Um þetta verður þó aldrei neitt fullyrt. Kuml hafa getað blásið upp, áður en menn fóru að veita slíku verulega athygli. En hafi kristnir menn fyrst verið grafnir samkvæmt fornri venju og síðar færðir í hinn vígða reit, er ekki heldur útilokað, að fleiri hafi fylgt með.