Dómkirkjan

 

Tónlistarstarf

Tónlistarstarf Dómkirkjunnar leiðir dómorganistinn Kári Þormar. Við Dómkirkjuna starfa tveir kórar Dómkórinn og Kammerkór Dómkirkjunnar.

Dómkórinn í Reykjavík var stofnaður árið 1978 af Marteini H. Friðrikssyni sem stjórnaði honum þar til hann lést í ársbyrjun 2010. Þá um sumarið tók núverandi dómorganisti, Kári Þormar, við kórnum. Dómkórinn annast messusöng í Dómkirkjunni. Í kórnum syngja um fjörutíu manns og hefur hann gefið út nokkra hljómdiska og haldið fjölda tónleika, bæði hér heima og erlendis. Öll helstu tónskáld Íslands, auk nokkurra útlendra, hafa samið tónverk fyrir kórinn í tilefni af Tónlistardögum Dómkirkjunnar sem haldnir hafa verið á hverju hausti frá árinu 1982. Auk þess hefur kórinn tekist á við ýmis stórvirki tónbókmenntanna og má þar nefna Þýska sálumessu Jóhannesar Brahms, Jólaóratoríu Jóhanns Sebastians Bach og Requiem Wolfgangs Amadeusar Mozart.

 Kammerkór Dómkirkjunnar var stofnaður í núverandi mynd haustið 2010 þegar Kári Þormar kom til starfa sem organisti kirkjunnar. Kórinn skipa 24 tónlistarmenntaðir söngvarar sem hafa flestir verið með frá upphafi. Kórinn æfir einu sinni í viku og tekur þátt í messu- og hátíðahaldi kirkjunnar. Helsta hlutverk kórsins er söngur við útfarir frá kirkjunni Einnig hefur kórinn sungið við hátíðleg tækifæri í tengslum við safnaðarstarfið. Kórinn hefur frá stofnun haldið sjálfstæða tónleika þar sem tekist er á við krefjandi verkefni tónbókmenntanna ásamt því að koma fram með kór Dómkirkjunnar á tónlistardögum. Meðal annars hefur kórinn flutt verkin Jesu Meine Freude eftir Bach og Hymn to St. Cecilia eftir Benjamin Britten, hvar einsöngvarar hafa komið úr röðum kórfélaga. Góður rómur hefur verið gerður að söng kórsins og hlaut hann ljómandi góða dóma fyrir tónleika sína á Tónlistardögum Dómkirkjunnar árið 2012.

 

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS