Dómkirkjan

 

Dómkirkjan er eitt elsta hús Reykjavíkur, fyrsti hluti hennar vígður árið 1796, og í núverandi mynd 1847. Hefur hún því verið helgidómur Reykvíkinga í á þriðju öld, á helgum og hátíðum, gleði og sorgum. Engin stofnun borgarinnar á sér eins samfellda sögu. Í bæn og söng og orðinu helga er trú, von og kærleika borið vitni, til að styrkja samfélagið og sameiginlega sýn til hins góða, fagra og fullkomna. Auk helgihalds í hinu aldna húsi heldur Dómkirkjusöfnuðurinn uppi fjölbreyttu safnaðarstarfi fyrir fólk á öllum aldri, óháð trúfélagsaðild.

Guðsþjónustur eru alla sunnudaga og á hátíðum ársins, fyrirbænaguðsþjónustur alla þriðjudaga í hádeginu, tíðasöngur og örpílagrímagöngur, Bach tónleikar Ólafs Elíassonar öll þriðjudagskvöld. Þar við bætast athafnir eins og jarðarfarir, hjónavígslur og skírnir við hinn fagra skírnarfont sem listamaðurinn, Bertil Thorvaldsen, gaf föðurlandi sínu árið 1839. Auk þess er boðið upp á fermingarfræðslu, þróttmikið kórstarf, tónleika og fræðslu í trú og sið og andlegrar umhyggju. Í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar að Lækjargötu 14b, gamla Iðnskólahúsinu, eru skrifstofur prestanna og fræðslustarfið, opið hús á fimmtudögum, hádegisverður á þriðjudögum að lokinni bænastund. Safnaðarheimilið er líka leigt út fyrir skírnarveislur og aðrar samverur.

Prestar Dómkirkjunnar eru: sr. Sveinn Valgeirsson sóknarprestur og sr. Elínborg Sturludóttir. Kirkjuhaldari og framkvæmdastjóri er Laufey Böðvarsdóttir. Dómorganisti er Guðmundur Sigurðsson og Katla Jónsdóttir er kirkjuvörður. Formaður sóknarnefndar er Einar S.Gottskálksson.

Dómkirkjusöfnuðurinn ber ábyrgð á rekstri og viðhaldi Dómkirkjunnar og Safnaðarheimilisins sem eru friðuð hús og með merkustu og fegurstu byggingum borgarinnar. Félagsgjöld sóknarbarna, svonefnd sóknargjöld sem greidd eru sem hlutfall af tekjuskatti, hafa hvergi nærri fylgt verðlagsþróun og eins hefur gjaldendum fækkað. Því viljum við gefa fólki kost á því að gerast Vinir Dómkirkjunnar og styðja við starf hennar með reglubundnum framlögum á reikning sóknarinnar: Banki: 513-15-160250 kennitala: 500169-5839.  Margt smátt gerir eitt stórt og þitt framlag skiptir máli.

Með nýjum lögum um almannaheillastarfsemi er hægt að styðja við Dómkirkjuna og fá skattafrádrátt. Er einstaklingum heimilt að draga allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi.

Til þess að einstaklingur fái frádrátt þurfa gjafir/framlög hans á árinu að vera a.m.k. 10.000 kr. Frádráttur þessi er ekki millifæranlegur hjá hjónum/sambúðarfólki. Framlög/gjafir á framangreindu bili veita afslátt af tekjuskattsstofni.  Þessi nýju lög eru hvatning almenningi til að láta gott af sér leiða á vettvangi frjálsra félagasamtaka. Eins og þáverandi fjármálaráðherra sagði við samþykkt laganna, þá eru þau „skýr skilaboð til þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem starfa við almannaheillastarfsemi um allt land um að störf þeirra séu mikils metin og skipti okkur öll máli.“

Viltu skrá þig í Dómkirkjusöfnuðinn og Þjóðkirkjuna? Það er einfalt og þú getur gert það á netinu https://kirkjan.is/kirkjan/skraning-i-kirkjuna/

 

Viltu vera vinur Dómkirkjunnar?   Þá getur þú lagt styrk inn á reikning sóknarinnar.

 Banki: 513-15-160250. Kennitala 500169-5839

domkirkjan@domkirkjan.is.

Viltu styrka flygilsjóð Dómkirkjunnar

Banki: 358-22-1350. Kennitala 500169-5839.

Laufey Böðvarsdóttir, 29/9 2024 kl. 17.29

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS