Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði í Dómkirkjunni sl. sunnudag.
Það sem manni er trúað fyrir. Dómkirkjan 5. febrúar 2023.
Lexía: 5.Mós. 8.7,10-11, 17-18; Pistill: 1Kor 3.10-15; Guðspjall: Matt 25.14-30.
Textar dagsins fjalla um það sem maður þiggur og er trúað fyrir. Lexían brýnir fyrir okkur að gleyma ekki að þakka það. Textinn nefnir landið og gæði þess og eins afl og auð, allt eru það gjafir Guðs sem þakka ber. Og af því að ég lifi í dag tímamót þá leitar á mig að í fornum textum merkir orðið tími gjöf, lán, hamingja. Því má ekki gleyma. Pistillinn er áminning postulans um þann trausta grundvöll sem lagður er. Hann líkir sér við vitran byggingameistara. Orðið „byggingameistari“ er á frummálinu architekton, arkitekt! Ég átti mér ungur þann draum að leggja stund á þá göfugu list sem beitt er til að móta það rými þar sem manneskjan lifir og hrærist og mannlegt samfélag þrífst, hús, híbýli, skipulag. Samt leiddist ég inn á aðrar brautir og hér stend ég nú og horfi yfir hálfrar aldar þjónustuferil sem prestur. Bræður mínir næstir mér í aldri, Einar og Björn, Guð blessi minningu þeirra, þeir messuðu iðulega yfir krökkunum á Freyjugötunni! Aldrei ég, dauðfeiminn alltaf og uppburðarlaus skræfa. Hvað varð svo til þess að ég dróst á þessa braut? Ja, eins og gamli presturinn sagði: „Guð veit það ekki og ég veit það varla sjálfur.“ Nei, annars, Guð veit. Það er nú svo að köllun Guðs og handleiðslu sér maður yfirleitt fyrst eftir á, að leiðarlokum. En þegar allt kemur til alls, snúast ekki arkitektúr og guðfræði mikið til um það sama, um farsæld mannlegs samfélags? Þar sem hið ytra og innra eru í samhljómi, efni og andi, líkami og sál. Og allt undir því komið að undirstaðan sé traust og heil.
Virtur verkfræðingur kom fram á dögunum og sagði að byggingaiðnaðurinn í landinu væri undirlagður „fúski.“ Fúski. Það merkir að höndum sé kastað til hlutanna, hroðvirkni, óvönduð vinnubrögð. Það er harður dómur. Kallað er eftir lögum og reglugerðum, námskeiðum og nýjum verkferlum, eins og það heitir. Jú, jú, en, það er ekki málið. Af því að þetta ber vott um siðferði og menningu þar sem aðgæslu og aga og umhyggju fyrir fólki og lífsrými þess og líðan er vikið til hliðar fyrir kröfunni um framkvæmdahraða og gróða. Og enginn ábyrgur.
Íslenska þjóðin lyfti grettistaki í uppbyggingu nútímasamfélags og tók framfarastökk sem undrum sætir. Það er oft rifjað upp og má ekki gleymast. En ég er ekki einn um það að finnast margt bera vott um að hinir andlegu innviðir séu vanræktir og eins hinn andlegi grundvöllur. Æ fleiri lýsa áhyggjum sínum af andlegri líðan fólks, kvíðinn og friðleysið, rótleysið og tilgangsleysið sé hlutskipti margra, ekki síst hinna ungu. Þess má vænta þegar vörður og viðmið hollra hefða hrynja og falla hver af annarri og hinu heilaga er úthýst, höndum kastað til þess sem mikilvægast er alls, uppeldi í trú og sið. Eða hvað? Eins og segir í Davíðssálminum: „Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?“ Orðið „réttlátu“ merkir það fólk sem virðir Guð og vilja hans í trú, von og kærleika. Kærleika, já. „Sá sem elskar spyr ekki um tilgang lífsins,“ sagði Dostojevski forðum. Og á við elsku sem er umhyggja um aðra, kærleika sem er hjartans mál.
Oft kemur mér í hug ljóð Þorsteins frá Hamri:
Einn stálbjartan morgun
gengur Guð um strætin
og heyrir einungis tölvunnar tif
í turnum hljóðum.
Vistleg er borgin;
vélmenni hafa sópað
leifum fólksins
í luktar þrær.
Samt er Guð ekki glaður.
Hann gengur um staðinn
líkt og hann óski
að geta þó sagt um síðir:
Enn er hjarta hér og slær.
Hjarta. Það er á tungutaki trúarinnar samheiti við sál og anda og er líka tákn kærleikans, eins og við vitum. Frá öndverðu hefur bænin í Jesú nafni, staðföst iðkun bænar og trúar verið talin helsta heilsuvernd hjartans sem varðveitir samhengi vitundar í rótleysi tilfinninganna og áreitanna með því að staðsetja sig á grundvellinum trausta, sem er Jesús Kristur, krossfestur og upprisinn.
Við þekkjum orðið talenta um hæfileika og gáfur, kunnáttu eða færni. Það á rætur að rekja til dæmisögunnar sem er guðspjall dagsins. Hún er áminning um að þetta er allt að láni, verðmæti sem okkur er trúað fyrir til að ávaxta öðrum til góðs, náunganum, samfélaginu, heiminum til góðs.
Jesús segir frá húsbónda sem fór til útlanda og fól þjónum sínum að gæta hagsmuna sinna á meðan og lét þá fá talentur til ávöxtunar. Veistu, að talenta er eiginlega þyngdareining? Rómversk talenta samsvarar einum 30 kílóum af silfri. Það eru rosalega margar jólaskeiðar! Sagan er í ýkjustíl, Jesús yddar orð sín til að fá viðbrögð. Og margt í þessari sögu er óneitanlega ógeðfellt: ófyrirleitinn vinnuveitandi, ó, já!, bankar, ja svei! og okurvextir, úff! og loks útskúfun, alger slaufun! Ja hér. Við þekkjum þetta auðvitað, en við skulum ekki dvelja við það, heldur það sem er kjarni þess sem Jesús er að segja með dæmisögunni.
Hann minnir á að Drottinn hefur falið breyskum mönnum að gæta hagsmuna sinna. Tökum eftir því, breyskum mönnum, ekki vammlausum englum! Af því að orð hans varð varnarlaust hold í þessum brotna heimi. Spænska 16. aldar nunnan, heilög Teresa frá Avila sagði: „Kristur hefur nú engan líkama á jörðu nema þinn, engar hendur nema þínar, enga fætur nema þína. Augu þín eru augu sem sjá með samlíðan Krists. Fætur þínir eru fæturnir sem bera hann um til að hjálpa, hendur þínar eru hendurnar sem hann blessar með nú.“ Þetta er áhrifarík áminning. En, segir samt ekki alla sögu. Því eins og skáldið Þorsteinn frá Hamri minnir á þá er Guð á ferð, ekki glaður, ekki fremur en húsbóndinn í dæmisögunni yfir ónýta þjóninum. Guð er hér á ferð og mælir sér móts við okkur á sérstökum fráteknum stöðum og stundum með áþreifanlegum hætti. Dostojevski sagði líka: „Kærleikur er aldrei óhlutbundinn. Óhlutbundinn kærleikur er ekkert nema eigingirni.“ Guð mælir sér móts við manninn á ákveðnum stað og stundum. Það eru: Orð hans sem mælt er af vörum breyskra, dauðlegra manna, það er bænin í Jesú nafni, vatn skírnarinnar, brauð og vín altarisins, og síðast en ekki síst náungi þinn. Þarna eru að minnsta kosti 5 talentur sem við höfum fengið í hendur! Þetta forna, fagra hús ber því vitni, iðkun þess og athöfn er heimboð þangað sem sálin, hjartað á heima og heyrir hjarta Guðs slá.
Mér er hugstæð saga af séra Jóhanni Þorkelssyni, dómkirkjupresti í byrjun síðustu aldar. Það er sá sem Laxness talar um í Brekkukotsannál. Á sunnudagsmorgni á hásumri mætti enginn til messu. Meðhjálparinn sagði að best væri að fella bara niður messuna, hér væri enginn mættur. „Nei,“ sagði séra Jóhann, „Guð er mættur, sá sem ég þurfti einmitt að hitta.“
Húsbóndinn í dæmisögunni fékk þjónum sínum mismargar talentur en þegar að reikningsskilunum kom þá hlaut sá sem fékk tvær talentur sama góða vitnisburðinn og hinn sem hlaut fimm: Gott, þú góði og trúi þjónn! Þetta snýst um það hverju maður skilar af sér. Sá sem engu skilaði lét fordóma ráða: „Ég veit þú ert harður…“ og svo framvegis, já hann lét fordómana ráða og óttann og gróf talentuna í jörð. Þetta þekki ég allt of vel! Þegar ég máta mig þá sé ég þar til dæmis feimnina og óttann við yfirgang þeirrar ágengu og umburðarlausu lífssýnar sem smánar Guð og kristni hans. Oft finnst mér sem við kirkjunnar þjónar séum of uppteknir af því, af ótta við allskyns áhrifavalda þessa heims, af feimni við að benda á veg lífsins, af hræðslu við að styggja aðra eða vera álitin hlægileg og gamaldags. Reköld ístöðuleysis í ölduróti tímanna í stað þess að standa á grundvellinum trausta, og gröfum talentuna í blómabeð sjálflægni og yfirborðsmennsku.
Þegar ég stóð hér í Dómkirkjunni fyrir 50 árum á vígsludegi var söfnuðurinn sem ég vígðist til á flótta undan skelfilegum náttúruhamförum. Heljarhrammur jarðeldanna hafði lagst yfir blómlega byggð, mulið undir sig traustustu mannvirki, öskuregn færði allt í kaf. En kirkjan, gamla Landakirkja stóð uppljómuð á baksviði eldgangsins og öskusortans. Hollvinir hennar höfðu kveikt öll ljós í kirkjunni áður en þeir yfirgáfu eyjuna og héldu til móts við óvissuna. Ljósin skyldu lýsa þeim sem urðu að flýja og lýsa þeim sem voru eftir við hættuleg björgunarstörf. Að baki kirkjunni stóð kirkjugarðshliðið upp úr öskunni með áletruninni, orð Jesú: Ég lifi og þér munuð lifa. Þetta er mér æ síðan mynd kirkjunnar og hlutverks hennar í samfélaginu í nútíð og framtíð: Ljós í myrkri og orð vonarinnar. Ef kristnin er að hverfa undir öskumekki óttans, ef grunnstoðirnar sligast undir fargi sinnuleysis og vantrúar – Já, hvað þá? Feðgarnir sem kveiktu ljósin í Landakirkju þessa skelfingarnótt létu umhyggjuna um helgidóminn og samferðarfólk sitt á flóttanum stýra verkum sínum og minntu á hvar grunnurinn er og gæfuleiðin. Það skulum við líka gera.
Okkur hefur verið mikið gefið, hlutverk að inna og verðmæti að ávaxta. Stöndum óttalaus á grundvellinum sem er Kristur. Hann lifir og við munum lifa. Hann er hér, sá sem ég, sá sem við þurfum einmitt að hitta. Ljósið hans lýsir enn á landinu okkar, andi hans er að verki og ávexti hans má enn víða sjá í kirkju og samfélagi. Enn er hjarta hér og slær.
Á tímamótum horfi ég um öxl þakklátur fyrir það og fyrir þá blessun sem ég hef fyrr og síðar notið í samfylgd með góðu fólki sem örlæti og trúmennsku leggur fram talentur sínar í þágu hins góða. Þess hef ég notið svo ríkulega nú síðustu árin hér í Dómkirkjunni. Guð blessi það allt og gefi að við fáum öll um síðir að heyra af vörum húsbóndans eilífa, Drottins sem veikum vægir, sekan sýknar og breyskan reisir upp: Gakk inn í fögnuð herra þíns.
Laufey Böðvarsdóttir, 7/2 2023 kl. 18.10