Mozart við kertaljós í Dómkirkjunni Camerarctica heldur sína árlegu kertaljósatónleika í kirkjum nú rétt fyrir jólin og verða tónleikarnir í Dómkirkjunni laugardagskvöldið 22.desember kl. 21.00. Camerarctica hefur leikið ljúfa tónlist eftir Mozart í tuttugu og fimm ár og þykir mörgum ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu. Tónleikarnir eru um klukkustundarlangir og hefjast þeir allir klukkan 21.00. Á dagskránni eru kammerperlur eftir Wolfgang Amadeus Mozart; Divertimento fyrir strengi, Kvartett fyrir klarinettu og strengi og Kvartett fyrir flautu og strengi og að venju lýkur tónleikunum á því að Camerarctica leikur jólasálminn góða, „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ sem er einnig eftir Mozart. Hópinn skipa að þessu sinni þau Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari, Ármann Helgason klarinettuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir og Bryndís Pálsdóttir fiðluleikarar, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og Sigurgeir Agnarsson sellóleikari. Tónleikarnir verða á eftirfarandi stöðum:Hafnarfjarðarkirkju, miðvikudagskvöldið 19.desember, Kópavogskirkju, fimmtudagskvöldið 20. desember, Garðakirkju, föstudagskvöldið 21. desember og Dómkirkjunni í Reykjavík, laugardagskvöldið 22. des. Aðgangseyrir er kr. 3000 og kr. 2000 fyrir nemendur og eldri borgara og frítt inn fyrir börn. Miðasala við innganginn og á Tix.is.
Laufey Böðvarsdóttir, 12/12 2018 kl. 12.02