Kjartan Sigurjónsson á Tónlistardögum Dómkirkjunnar.
Kjartan Sigurjónsson heldur orgeltónleika í Dómkirkjunni þriðjudagskvöldið 22.júlí.
Á efnisskránni eru Gotnesku svítan eftir Böellmann og Fantasía og fúga eftir Bach. Auk þess leikur hann verk eftir Clérambault og Sweelinck.
Kjartan Sigurjónsson stundaði orgelnám hjá dr. Páli Ísólfssyni við Tónlistar-skólann í Reykjavík á árunum 1958-66. Jafnframt var hann í píanónámi hjá frú Annie Leifs. Á árinu 1984 var hann við orgelnám hjá próf. Gerhard Dickel í Hamborg og hefur auk þess sótt námskeið hjá Dame Gillian Weir og fleiri organistum.
Kjartan var organisti við eftirtaldar kirkjur: Kristskirkju í Landakoti 1958-66, kirkju Óháða safnaðarins í Reykjavík 1963-1966, kirkjur í Reykholtsprestakalli í Borgarfirði 1967-75, Ísafjarðarkirkju 1976-85, Kópavogskirkju 1985-87, Seljakirkju í Reykjavík 1987-97 og Digraneskirkju í Kópavogi frá 1997. Hann lét af störfum vorið 2010 fyrir aldurs sakir.
Hann var formaður Félags íslenskra organista frá árinu 1990 til 2004, og var kjörinn heiðursfélagi félagsins þegar hann hætti formennsku. Kjartan átti sæti í norræna kirkjutónlistarráðinu. Hann var forseti þess 1990-1992 og gegndi því starfi í annað sinn frá 2008.
Kjartan hefur haldið fjölda orgeltónleika bæði hér heima og erlendis. Hann gaf út hljómdiskinn „Orgelverk aldinna meistara“ 2001 og annan disk með orgeltónlist í tilefni af sjötugsafmæli sínu árið 2008.
Tónleikarnir hefjast kl.20.00
Ástbjörn Egilsson, 21/11 2011 kl. 14.19